Mjög sjaldgæft er að einstaklingar leitist eftir því að hefja afplánun fangelsisdóma áður en þeir eru boðaðir til afplánunar. Þegar slíkar óskir berast er allt reynt til að koma til móts við þær, segir Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar.
DV greindi frá því fyrr í dag að Ólafur Ólafsson, einn sakborninganna í Al Thani-málinu svokallaða, hafi þegar óskað eftir því að hefja afplánun. Hana hafa Ólafur hafið, líkt og aðrir fangar, í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og hann hafi síðan verið færður í opna fangelsið að Kvíabryggju. Ólafur hlaut fjögurra og hálfs árs dóm í Hæstarétti fyrr í þessum mánuði.
Samkvæmt heimildum Kjarnans hafa aðrir dómþolar í Al Thani-málinu ekki óskað eftir því að hefja afplánun og bíða því boðunar til að hefja fangelsisvist sína. Mennirnir fjórir sem hlutu dóma í því máli, sem að mati Hæstaréttar var alvarlegasta efnahagsbrotamál sem dæmt hefur verið í á Íslandi, hlutu fjögurra til fimm og hálfs árs fangelsisdóma.
Vilja bregðast skjótt við
Páll Winkel segist ekki geta tjáð sig um mál einstakra fanga. Stofnunin sem hann stýri vinni einfaldlega innan þess ramma sem henni er markaður í lögum. „Ef einstaklingur óskar eftir því að komast inn í afplánun, þrátt fyrir langan boðunarlista, þá er leitast við að verða við því eins skjótt og hægt er. Það á jafnt við um einstaklinga sem eru að koma í fyrsta sinn til afplánunar og menn sem eru að koma inn í tuttugasta sinn.“
Páll segir að það sé hins vegar ákaflega sjaldgæft að einstaklingar óski eftir því að hefja afplánun áður en þeir eru boðaðir til hennar.
Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun er samsetning fanga á Litla Hrauni svipuð og hún er í opnu fangelsum landsins.
Fjöldi rýma í opnum fangelsum á Íslandi hefur aukist mjög á undanförnum árum. Kvíabryggja var stækkuð árið 2008 og rýmum þar þá fjölgað úr 14 í 22. Þegar Sogni var breytt í opið fangelsi bættust 20 rými við, og stundum eru fleiri fangar vistaðir á þessum tveimur stöðum en opinber rýmisgeta þeirra segir til um, enda boðunarlistar mjög langir.
Kjarninn greindi til að mynda frá því í október í fyrra að 475 manns biðu eftir því að hefja afplánun í íslenskum fangelsum. Sá sem hafði beðið lengst hafði beðið í fimm ár.
Svipuð samsetning og á Litla Hrauni
Allskonar fangar afplána í opnum fangelsum,ekki bara menn sem hafa verið dæmdir fyrir efnahagsbrot. Þar sitja líka einstaklingar sem hafa hlotið þunga dóma en hafa unnið sig upp í réttindum á meðan að á afplánun stendur. Því eru vistaðir einstaklingar á Kvíabryggju sem hafa hlotið dóma fyrir manndráp, kynferðisbrot gagnvart börnum, stórfellt fíkniefnasmygl, síbrot osfr. Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun er samsetning fanga í þessum tveimur opnu fangelsum mjög svipuð og á Litla Hrauni.
Mikil breyting verður í fangelsismálum þjóðarinnar undir lok þessa árs þegar nýtt fangelsi á Hólmsheiði verður opnað. Við það mun fangelsisrýmum fjölga um 30 og hægt verður að vinna á löngum biðlistum. Samhliða stendur til að loka bæði Hegningarhúsinu, sem var tekið í notkun fyrir um 140 árum síðan og er á undaþágu frá heilbrigðisyfirvöldum vegna þess að það uppfyllir ekki lágmarksskilyrði, og Fangelsinu í Kópavogi.