Setja á á stofn móttökumiðstöð fyrir þá sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi svo hægt sé að greina þá sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu og sérþarfir þeirra. Þannig geti umsækjendur um alþjóðlega vernd, hælisleitendur, fengið fagþjónustu á einum stað. Þá eiga öll samskipti útlendinga við íslensk stjórnvöld að fara í gegnum Útlendingastofnun. Þetta er á meðal þess sem lagt er til í drögum að frumvarpi um breytingar á útlendingalögum.
Þverpólitísk nefnd um útlendingamál skilaði í dag frumvarpi sem felur í sér heildarendurskoðun á lögum um útlendinga. Áætlað er að frumvarpið verði lagt fram á þingi nú í haust. Frumvarpið byggist að verulegu leyti á öðru frumvarpi sem lagt var fram á síðasta kjörtímabili af nefnd sem þá starfaði og skilaði af sér skýrslu um málefni útlendinga, sem varð að frumvarpi sem ekki náði fram að ganga.
Óttarr Proppé, Birgitta Jónsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir og Össur Skarphéðinsson sátu í nefndinni sem hefur starfað í eitt og hálft ár. Með þeim störfuðu tveir sérfræðingar í innanríkisráðuneytinu, Íris Björg Kristjánsdóttir og Erna Kristín Blöndal, auk þess sem Sigurbjörg Rut Hoffritz, lögfræðingur hjá Útlendingastofnun, hefur starfað með nefndinni. Þá hafa sérfræðingar í velferðarráðuneytinu, hjá Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun komið að endurskoðuninni.
Takmarka refsingar fyrir vegabréfsleysi
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að hælisleitanda sem komi til Íslands ólöglega verði ekki refsað, „færi hann rök fyrir því eða líkur séu á að hann komi í óslitinni för frá svæði þar sem hann hafði ástæðu til að óttast ofsóknir [...] eða var án ríkisfangs og án möguleika að öðlast slíkt“. Skilyrði fyrir því er að viðkomandi gefi sig fram við stjórnvöld eða færi gildar ástæður fyrir því að hafa ekki gert það.
Núna er það svo að hælisleitendur eru iðulega dæmdir í 30 daga fangelsi fyrir að framvísa fölsuðum eða stolnum skilríkjum við komuna til landsins. Þetta hefur verið gagnrýnt, enda hafa hælisleitendur oft ekki kost á eigin skilríkjum. Ákvæðið í frumvarpinu er í samræmi við ákvæði í flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna.
Þá er í frumvarpinu lagt til að réttaráhrifum vegna ákvarðana Útlendingastofna verði sjálfkrafa frestað í öllum málum um alþjóðlega vernd þar sem niðurstaða er kærð til kærunefndar útlendingamála. Þannig eigi allir að fá úrlausn sinna mála fyrir æðra stjórnsýslustigi áður en til þess kemur að fólki sé vísað úr landi.
Dvalarleyfisflokkum breytt og skilyrði einfölduð
Frumvarpið tekur einnig til dvalarleyfa og samkvæmt því eru lagðar til ýmsar breytingar á réttindum og réttindasöfnun sem tengist dvalarleyfum. Flokkum dvalarleyfa verður einnig breytt og skilyrðin einfölduð, til dæmis er lögð áhersla á að koma til móts við aðstæður atvinnulífs, vinnumarkaðar og háskóla- og vísindasamfélagsins.
Dvalarleyfisflokkarnir verða: dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku, dvalarleyfi vegna menntunar, rannsókna og menningarskipta og dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar. Fjórði flokkurinn er svo dvalarleyfi vegna alþjóðlegrar verndar, mannúðarsjónarmiða og mansals. Fimmti flokkurinn er svo önnur dvalarleyfi, en undir það geta fallið dvalarleyfi á grundvelli lögmæts og sérstaks tilgangs, til dæmis ef viðkomandi hefur myndað sérstök tengsl hér á landi.
Í núverandi kerfi er það svo að sum dvalarleyfi mynda með tímanum rétt til varanlegrar búsetu hér á landi og önnur ekki. Samkvæmt frumvarpinu mun kerfið breytast á þann hátt að réttindasöfnun fylgir einstaklingnum en ekki tegund dvalarleyfis, þannig að þótt skipt sé um tegund dvalarleyfis breytist ekki réttindasöfnun.
Ýmsar formbreytingar og breytingar til að Ísland uppfylli alþjóðaskuldbindingar
Þá mun ríkisfangslaust fólk eiga sjálfstæðan rétt til alþjóðlegrar verndar, samkvæmt nýju ákvæði um ríkisfangsleysi. Þetta er liður í því að innleiða samning um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá árinu 1954 og samning um að draga úr ríkisfangsleysi, frá árinu 1961. Ýmsar fleiri breytingar á lögum eiga einnig að stuðla að því að stjórnvöld uppfylli skuldbindingar sínar á alþjóðavettvangi, meðal annars áhersla á réttindi barna og umbætur í þeim málaflokki.
Þá er uppsetningu og kaflaskiptingu laganna einnig breytt, en nefndin vonast til þess að það geri útlendingalögin aðgengilegri. Þá eiga lögin að stuðla að því að það verði samræming milli laga um útlendinga og laga um atvinnuréttindi útlendinga.