Skýrsla sem norska ráðgjafarfyrirtækið Asplan Viak vann fyrir þarlend stjórnvöld árið 2009, í samvinnu við endurskoðunarfyrirtækið PwC, dregur upp heldur dökka mynd af reynslu Norðmanna af flutningi opinberra stofnanna á milli landsvæða. Skýrslan var unnin að beiðni stjórnvalda til að meta áhrif af flutningi sjö opinberra stofnanna frá Ósló, en þeirra á meðal voru stofnanir á sviði samkeppnismála, fjölmiðla, póst- og fjarskipta og samgöngumála.
Eins og kunnugt er ákvað Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í sumar að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu úr Hafnarfirði norður til Akureyrar. Sérstakur undirbúningshópur er nú að störfum, en stefnt er að því að flutningunum ljúki eigi síðar en 1. janúar 2017.
Í sjónvarpsfréttum RÚV um helgina var sagt frá tillögum Norðvesturnefndarinnar svokölluðu, en samkvæmt frétt RÚV eru flutningar RARIK á Sauðárkrók, efling Vinnumálstofnunar á Skagaströnd, sem og menntastofnanna á svæðinu og flutningur skiparekstur Landhelgisgæslunnar í Skagafjörð á meðal hugmynda nefndarinnar. Kostnaður við aðgerðirnar er talinn nema hundruðum milljóna króna.
Norðvesturnefndin var skipuð fyrir tilstuðlan ríkisstjórnarinnar í vor, til að vinna tillögur um hvernig efla megi byggðaþróun, fjárfestingar og fjölga atvinnutækifærum á svæðinu. Samkvæmt áðurnefndri frétt RÚV voru tillögur nefndarinnar kynntar á ríkisstjórnarfundi á föstudag.
Ákvörðun ráðherra vakti hörð viðbrögð
Ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu norður yfir heiðar vakti upp hörð viðbrögð, og ekki síst meðal starfsmanna stofnunarinnar. Til þessa hefur aðeins einn starfsmaður þegið boð stjórnvalda um að flytjast með stofnuninni norður, en það er Eyþór Björnsson, fiskistofustjórinn sjálfur. Þá hefur Þórður Ásgeirsson, forveri Eyþórs í starfi, kallað fyrirhugaðan flutning höfuðstöðva Fiskistofu til Akureyrar „óskiljanlegt glapræði“ í fjölmiðlum. Með ákvörðun sinni sé ráðherra að kasta á glæ margra ára víðtækri reynslu starfsmanna stofnunarinnar.
Spjótin hafa staðið á Sigurði Inga Jóhannssyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frá því að hann tilkynnti um ákvörðun sína. Í viðleitni sinni til að réttlæta hana, hefur ráðherra vísað til reynslu nágrannaþjóða af flutningi opinberra stofnanna á milli landsvæða. Í viðtali hjá fréttastofu RÚV lét hann til að mynda eftirfarandi ummæli falla: „Ef við horfum bara til reynslu til þeirra landa sem við gjarnan horfum til, til að mynda Norðmanna sem að hafa staðið í slíkum flutningum á störfum frá höfuðborgarsvæðinu út um land þá hefur reynslan verið sú að starfsemin blómstrar eftir á en það tekur auðvitað alltaf ákveðinn tíma.“
Starfsmenn Fiskistofu hafa í tvígang formlega óskað eftir því að ráðherra leggi fram gögn sem staðfesti ofangreinda fullyrðingu, síðast með bréfi sem sent var í dag, þar sem ósk þeirra var ítrekuð. Þá hafa starfsmennirnir sömuleiðis óskað eftir sundurliðuðum upplýsingum um kostnaðinn sem hlýst af flutningi Fiskistofu til Akureyrar, meðal annars með tilliti til húsaleigu, breytingum á húsnæði nýrra höfuðstöðva, flutninga á búnaði, vegna nýrra ráðninga og þjálfunar starfsfólks, greiðslu launa í uppsagnarfresti og annarra þátta er snerta ákvörðun ráðherra að flytja höfuðstöðvar stofnunarinnar til Akureyrar.
Slæm reynsla Norðmanna
Í áðurnefndri skýrslu sem unnin var fyrir norsk stjórnvöld, þar sem áhrif af flutningi sjö opinberra stofnanna á milli landsvæða voru metin, kemur fram að þorri starfsmanna þeirra sagði upp störfum og illa hafi gengið að ráða hæft starfsfólk í þeirra stað, að hagræn áhrif á svæðin sem þær fluttu til hafi verið lítil sem engin, og engin sparnaður hafi verið fólgin í flutningi þeirra.
Samkvæmt skýrslunni hættu að jafnaði 75 til 90 prósent starfsmanna þeirra stofnanna sem fluttar voru búferlum. Þar hafi uppsveifla í norska hagkerfinu haft mikið að segja, bæði hvað varðar uppsagnir, og eins hversu illa viðkomandi stofnunum gekk að ráða nýja starfsmenn í stað þeirra sem hættu. Þá hafi stofnanir orðið fyrir mikilli blóðtöku þegar reynslumiklir starfsmenn sögðu upp störfum, sem hafi haft lamandi áhrif á starfsemi stofnanna sem hafi ekki náð upp fullum afköstum fyrr en eftir langan tíma.
Þá er niðurstaða skýrsluhöfunda að flutningur stofnanna hafi lítil hagræn áhrif haft á svæðin sem þær voru fluttar til. Sömuleiðis hafi engin sparnaður verið fólgin í því að flytja opinberar stofnanir á milli landsvæða.
Í skýrslunni kemur fram að flutningur þeirra sex stofnanna sem til skoðunar voru í rannsókninni, hafi kostað norska ríkið 729 milljónir norskra króna árið 2008, röska 12,3 milljarða íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag, eða ríflega 1,7 milljarð íslenskra króna á stofnun. Þá hafi kostnaður við flutning hvers stöðugildis numið 650 þúsundum til 1,4 milljóna norskra króna, eða tæpa 10,1 milljón til rúmlega 23,6 milljóna íslenskra króna.
Þá leggja skýrsluhöfundar áherslu á mikilvægi þess að á viðkomandi svæði, sem flytja á viðkomandi stofnun til, sé til staðar samkeppnishæft vinnuafl til að standa undir starfsemi hennar. Því sé mikilvægt að ráðast ekki í flutning stofnunnar fyrr en að undangenginni greiningu á því hvort fullnægjandi mannauður sé til staðar á því svæði sem til stendur að flytja stofnun til.
Samkvæmt skýrslunni er flutningur stofnanna á milli landsvæða mörgum vankvæðum bundinn. Að byggja upp stofnun á nýjum stað sé mjög krefjandi og kostnaðarsamt, meðal annars vegna flutninga og svo taki það viðkomandi stofnun langan tíma að ná upp fullum afköstum á nýjum stað. Fluttar stofnanir færi vissulega svæðum, sem þær eru fluttar til, nýja verðmæta og hæfa vinnustaði, en önnur jákvæð áhrif á svæðin séu verulega takmörkuð.