Sinn Féin, flokkur lýðveldissinna á Norður-Írlandi vann sögulegan sigur í þingkosningum 5. maí og allt bendir til þess að Michelle O'Neill, formaður Sinn Féin, verði fyrsti lýðveldissinnaði fyrsti ráðherra Norður-Írlands.
„Í dag er nýtt upphaf sem ég trúi að muni leiða til tækifæris til að endurhugsa sambönd í þessu samfélagi á grundvelli sanngirni, á grundvelli jöfnuðar og á grundvelli félagslegs réttlætis,“ sagði O'Neill þegar úrslit kosninganna lágu fyrir.
O'Neill boðar þannig nýja tíma en sambandssinnar hafa verið við stjórnvölinn á Norður-Írlandi í heila öld, allt frá árinu 1922 þegar Írland fékk fullt sjálfstæði en nyrstu sýslunar voru eftir í Stóra-Bretlandi og mynduðu Norður-Írland.
Sinn Féin stærsti flokkurinn í fyrsta sinn í 100 ára sögu Norður-Írlands
Sinn Féin hlaut 27 af 90 þingsætum á þinginu í Stormont. Lýðræðislegi sambandsflokkurinn (DUP) tapaði þremur sætum frá síðustu kosningum og hlaut 25 þingsæti. Lýðræðislegi sambandsflokkurinn hefur verið stærsti flokkurinn á norður-írska þinginu frá upphafi.
Alliance-flokkurinn (APNI), sem leggur áherslu á samvinnu kaþólskra og mótmælenda og skilgreinir sig hvorki sem sambands- né lýðveldissinna, hlaut 17 sæti, rúmlega tvöfalt fleiri en í síðustu kosningum, og Ulster-sambandsflokkurinn níu sæti, einu færra en í síðustu kosningum. Verkamannaflokkur sósíaldemókrata (SDLP), flokkur lýðveldissinna, tapaði fjórum sætum og hlaut átta sæti. Fjögur þingsæti skiptast á milli annarra flokka.
Ekki var langt liðið á talningu atkvæða þegar ljóst var í hvað stefndi: Sinn Féin var að verða stærsti flokkurinn á þinginu í Stormont, í fyrsta sinn í hundrað ára sögu Norður-Írlands. Rory Caroll, fréttaritari The Guardian á Írlandi, fylgdist með viðbrögðum stuðningsmanna Sinn Féin í þá tvo sólarhringa sem talning atkvæða stóð yfir og segir hann áhugavert hversu lágstemmdur fögnuðurinn var en það hafi verið skilaboðin frá flokknum þar sem Sinn Féin er jú agaður flokkur. „Ekki vera í sigurvímu, ekki fagna of snemma og í guðanna bænum, ekki hrópa nein IRA-slagorð,“ segir Caroll að skilaboðin frá Sinn Féin hafi verið.
Sambandið við Bretland og trúarbrögð
Stjórnmál á Norður-Írlandi hafa alla tíð einkennst af tvennu: Trúarbrögðum og afstöðu til sambandsins við Bretland þar sem sambandssinnar eru almennt mótmælendatrúar en lýðveldissinnar kaþólikkar.
Sinn Féin, eða „Við sjálf“, er vinstri-þjóðernisflokkur sem berst fyrir sameiningu Írlands og Norður-Írlands og er starfræktur bæði á Írlandi og í Norður-Írlandi. Flokkurinn var stjórnmálaarmur írska lýðveldishersinis (IRA) sem barðist harkalega fyrir því að binda enda á bresk yfirráð á Norður-Írlandi.
Átökin stóðu sem hæst á síðari hluta tuttugustu aldar og ganga undir nafninu „Vandræðin“ (The Troubles). Meira en 3.600 manns létust og þúsundir særðust. Átökin voru milli þeirra sem vildu að Norður-Írland tilheyrði áfram Stóra-Bretlandi og þeirra sem vildu sameinað Írland. Kaþólikkar voru flestir þjóðernissinnar en mótmælendur drottningarhollir, það er sambandssinnar.
Í fyrsta skipti í hundrað ár er Sinn Féin stærsti stjórnmálaflokkurinn á Norður-Írlandi. Ljóst er að erfitt verkefni er fyrir höndum þar sem stjórnmálakerfið krefst samvinnu milli sambandssinnaðra og lýðveldissinnaðra flokka.
Krafa um samstarf sambandssinna og lýðveldissinna
Sérstök lög gilda á Norður-Írlandi sem eiga að tryggja dreifingu valds. Þannig skiptast störf fyrsta ráðherra og staðgengils fyrsta ráðherra á milli stærsta sambandssinnaða flokksins og stærsta lýðveldissinnaða flokksins. Þessu fyrirkomulagi var komið á með friðarsamkomulaginu árið 1998 (The Good Friday Agreement) í þeim tilgangi að binda enda á „Vandræðin“.
Lýðræðislegi sambandsflokkurinn hefur þegar gefið í skyn að hann geti ekki hugsað sér að starfa undir fyrsta ráðherra Sinn Féin. Það flækir málin en mynda þarf ríkisstjórn innan 24 vikna frá kosningum. Takist það ekki verður gengið til kosninga á ný.
Brexit flækir málin
Í kjölfar Brexit hefur Sinn Féin aukið kröfur sínar um sjálfstæði Norður-Írlands . Sinn Féin hefur vísað til þess að sameinað Írland gæti verið innan Evrópusambandsins þar sem 56 prósent íbúa Norður-Írlands kusu gegn Brexit.
En staðan eftir Brexit er flóknari. Við útgöngu Breta úr Evrópusambandi náðist samkomulag um svokallaða Norður-Írlandsbókun (the Nortern Ireland protocol) sem á að tryggja að landamærin milli Írlands og Norður-Írlands haldist opin. Hart hefur verið deilt um bókunina milli Breta og ESB og þær kostnaðarsömu viðskiptadeilur sem bókunin getur valdið. Þá segja sambandssinnar á Norður-Írlandi bókunina í raun búa til landamæri og grafi þannig undan stöðu landsins gagnvart Bretlandi og hefur Lýðræðislegi sambandsflokkurinn krafist þess að Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands breyti bókuninni, helst afnemi hana, annars muni flokkurinn ekki getað starfað með Sinn Féin í ríkisstjórn Norður-Írlands.
Helsta baráttumál Sinn Féin snýr hins vegar að því að kanna vilja Norður-Íra til sameiningu við Írland. En flækjustigin eru mörg, fyrst þarf að mynda starfhæfa ríkisstjórn og auk þess hefur stuðningur við sameinað Írland ekki mælst mikill upp á síðkastið. Búist var við að stuðningur við sameinað Írlandi myndi aukast eftir útgöngu Breta úr ESB en svo varð ekki raunin. Samkvæmt nýjustu könnunum er um 30 prósent Norður-Íra fylgjandi sameiningu við Írland.
Ástlaust hjónaband?
Corell, fréttaritari The Guardian á Írlandi, líkir fyrirkomulaginu á norðurírska þinginu við ástlaust hjónaband. „Sambandssinnar og lýðveldissinnar verða að deila völdum, þeir eiga ekki annarra kosta völ, þeir eru fastir í ástlausu hjónabandi,“ segir Corell. Þetta fyrirkomulag hafi hins vegar borgar sig það sem friður hefur ríkt á Norður-Írlandi frá því að friðarsamkomulagið var undirritað.
Staðan er því nokkuð snúin. Á sama tíma og Sinn Féin fagnar sögulegum kosningasigri verður erfitt að ná þeirra helsta baráttu máli í gegn: Að sameina Írland.