Það er líklega flestum kunnugt að Margrét Þórhildur Danadrottning varð 75 ára sl. fimmtudag. Tugþúsundir hylltu þjóðhöfðingjann í tilefni dagsins en fjölskylda drottningar sem var með henni á svölum Amalíuborgar er stærri en dæmi eru um í sögu Danmerkur, ef frá er talinn Kristján IV, sem átti 25 börn. Hann er jafnframt sá konungur Dana sem lengst hefur ríkt, rétt tæp 60 ár.
Hátíðahöldin í tilefni afmælis Margrétar Þórhildar stóðu, með hléum, í rúma viku. Löng hefð er fyrir því hér í Danmörku að fagna afmælum þjóðhöfðingjans og margir útlendingar sagðir undrandi á því að götur og torg höfuðborgarinnar skuli fyllast af fólki, og fánum, á stórafmælum. Kannski ræður hefðin talsverðu um þetta en líklega ekki síður hitt að Margrét Þórhildur er mjög vinsæl meðal þegna sinna. Vinsældirnar virðast ekki fara dvínandi með árunum en 43 ár og þrír mánuðir eru síðan hún varð drottning. Margrét á tvær yngri systur, Benedikte og Anne- Marie.
Margrét Þórhildur og Henrik drottningarmaður eiga tvo syni, Friðrik krónprins og Jóakim. Friðrik og krónprinsessan Mary eiga fjögur börn, elstur er Christian (Kristján), þá Isabelle og svo tvíburarnir Vincent og Josephine. Jóakim á einnig fjögur börn, dreng og stúlku með eiginkonunni Marie prinsessu og tvo syni með fyrrverandi eiginkonu, Alexöndru greifynju. Barnabörn drottningar eru því átta talsins. Það var þess vegna fremur þröngt á svölunum á Amalíuborg (Schacks Palæ) þegar fjölskyldan, að undanskildum Henrik drottningarmanni sem lá í inflúensu, stóð og veifaði til mannfjöldans.
Krúnuerfingjahópurinn er fjölmennur
Danska krúnuerfingjaröðin fer eftir tilteknum reglum. Fremstur í þeim flokki er Friðrik, eldri sonur Margrétar Þórhildar, þá koma börn hans fjögur í aldursröð, númer sex er Jóakim prins og svo börn hans fjögur. Þar fyrir aftan kemur Benedikte, yngri systir Margrétar drottningar, og aftast í þessari röð er Elisabeth, faðir hennar var Knud, föðurbróðir Margrétar. Anne-Marie systir drottningar (yngst þeirra systra) afsalaði sér tilkalli til krúnunnar þegar hún giftist Konstantin Grikklandskonungi árið 1964. Krúnuerfingjarnir eru því samtals tólf.
Hirðin kostar sitt
Allir sem eiga tilkall til krúnunnar (og reyndar fleiri ættingjar drottningar) eiga lögum samkvæmt rétt á launum, apanage. Þær greiðslur nema árlega rúmum eitt hundrað milljónum danskra króna , tæpum tveimur milljörðum íslenskum. Þar með er þó ekki öll sagan sögð, ekki einu sinni hálf. Tvö dagblöð hér í Danmörku tóku saman það sem þau kalla "ekki allan heildarkostnað" vegna hirðarinnar. Samkvæmt útreikningum þeirra nema þau útgjöld rúmlega hálfum milljarði danskra króna árlega (um tíu milljörðum íslenskum) sem er drjúgur skildingur. Blöðin segja að þarna sé þó ekki allt talið, það vanti til dæmis upplýsingar um kostnað vegna löggæslu, sem sé umtalsverður. Ekki sé heldur talinn með allur sá kostnaður sem lendir á hernum vegna gæslu og eftirlits við ýmsar opinberar athafnir. Sömuleiðis séu viðgerðir og viðhald á húseignum konungsfjölskyldunnar ekki nema að litlu leyti inni í þessum útreikningum. Og fleira er tínt til.
Hvað á allt þetta kóngafólk að gera?
Barnabörn Margrétar drottningar eru átta talsins, skemmtilegir og frísklegir krakkar sem iðulega sjást í sjónvarpi og blöðum við ýmis konar athafnir sem tengjast hirðinni. Elstur í þessum hópi er Nicolai sonur Jóakims, hann er reyndar enginn krakki, verður 16 ára eftir nokkra mánuði. Blaðamaður dagblaðsins Politiken velti því fyrir sér í langri grein í blaðinu hvað allt þetta unga og efnilega fólk eigi að taka sér fyrir hendur þegar skólagöngu lýkur og fullorðinsárin taka við. Svona stór hópur geti ekki allur verið einskonar varalið þjóðhöfðingjans, þótt það heiti svo í orði kveðnu.
Verður að skipta máli
Í áðurnefndri grein segir blaðamaðurinn að þótt unga kóngafólkið fari kannski ekki í áhugasviðspróf til að ákveða hvað það eigi að taka sér fyrir hendur sé mikilvægt að það finni sér starfsvettvang. Það sé hreinlega ekki þörf fyrir allan þennan fjölda til að vera viðstaddur alls kyns athafnir, hverju nafni sem þær nefnast. Og, það sé ekki einungis brýnt fyrir ungmennin sjálf að finna sér starfsvettvang, það sé líka mikilvægt ef konungsfjölskyldan eigi áfram að skipa þann sess í hugum og hjörtum Dana sem hún geri í dag. Blaðamaðurinn fullyrðir að mörgum þyki nóg um, en sætti sig þó við, allan þann kostnað og umstang sem fylgi hirðinni. Það muni breytast ef konungsfjölskyldan stækki bara og stækki og verði á framfæri þjóðarinnar án sýnilegs tilgangs. Ef fjölskyldunni á Amalíuborg mistakist eða hætti að ganga í takt við þjóðina eigi hún ekki framtíðina fyrir sér.
Stærsti leikhópur landsins
Sagnfræðingur við Kaupmannahafnarháskóla segir í viðtali við danskt dagblað að danska konungsfjölskyldan sé stærsti leikhópur landsins. Þessi leikhópur sýni þó hvorki Hamlet né Makbeð heldur einskonar tilbúinn raunveruleika. Almenningur fylgist með konungsfjölskyldunni í sjónvarpi og útvarpi, dagblöðin flytji reglulega af henni fréttir og hér séu vikublöð sem fjalli ekki um neitt annað en kóngafólkið og kjólana, eins og hann kemst að orði. "Gallinn við þennan leikhóp"segir sagnfræðingurinn "er að þetta er alltaf sama sýningin, bara nýir búningar".
Danir vilja viðhalda hefðinni
Hvað sem öllu tali um leiksýningar og gagnsleysi líður er það staðreynd að mikill meirihluti Dana er mjög hlynntur konungsfjölskyldunni. Kannanir sýna að sú afstaða hefur lítið breyst í marga áratugi. Margir velta fyrir sér hvort þetta kunni að breytast þegar að því kemur að Margrétar Þórhildar nýtur ekki lengur við. Þótt krónprinsinn þyki hafa margt til síns ágætis er það margra álit að hann jafnist á engan hátt við móðurina. Aðrir segja það ókomið í ljós hvernig hann muni spjara sig, þótt hann sé öðruvísi en móðir hans og fari aðrar leiðir í mörgu sé það ekki endilega slæmt eða neikvætt. Hann hefur ekki sama áhugann á menningu og listum og hún en hinsvegar mikinn áhuga á íþróttum og útiveru. Það muni líka reyna mikið á krónprinsessuna Mary sem fær, þegar þar að kemur, titilinn drottning. Hún þarf því ekki að ergja sig yfir því að fá ekki konunglegan titil, öfugt við Henrik drottningarmann sem er enn, annað slagið að minnsta kosti, í hálfgerðri fýlu yfir að bera ekki konungstitil.