EPA

Örvun bólusetninga: Óvissuferð sem eykur ójöfnuð

Ef þróun væri leikur er kórónuveiran sem veldur COVID-19 sérlega góð í honum. Við eigum hins vegar tromp uppi í erminni til að ná yfirhöndinni. Og það er ekki örvunarskammtur. Engu að síður eru á annan tug Evrópuríkja að undirbúa slíkt útspil, þvert á ráðleggingar helstu sérfræðinga. „Ef við viljum hámarka verndina sem fæst út úr hverjum bóluefnaskammti þá er áhrifaríkast að bólusetja sem flesta með tveimur skömmtum áður en farið er að örva með þeim þriðja,“ segir Arnar Pálsson erfðafræðingur.

Það er fyrst og fremst eitt sem getur stöðvað far­aldur COVID-19 í heim­inum og það eru ekki örv­un­ar­skammt­ar. Það er þó ekki þar með sagt að þeir gagn­ist ekki ákveðnum og afmörk­uðum hóp­um. En til að hægt verði að kveða far­ald­ur­inn í kút­inn þarf helst að bólu­setja alla – alls stað­ar. Það ætti að vera for­gangs­mál okkar allra.

Þessi var­úð­ar­orð Alþjóða heil­brigð­is­mála­stofn­un­ar­innar (WHO) hafa ómað mán­uðum sam­an, byggð jafnt á rétt­læt­is- og vís­indarök­um. Á þau hefur lítið verið hlustað miðað við þá stöðu sem nú er uppi.

Þjóð­ríki gripu í upp­hafi far­ald­urs COVID-19 til heima­varna þar sem borg­arar hvers og eins þeirra voru settir í for­gang. Þegar bólu­efnin voru í sjón­máli upp­hófst svo kapp­hlaup sem skipta má í þrennt: Í fyrsta lagi um for­gangs­röðun innan hvers lands. Átti að byrja á heil­brigð­is­starfs­fólki eða öldruð­um? Hvenær kæmi röðin að kenn­ur­um?

Í öðru lagi var það innan hvers heims­hluta. Þá umræðu þekkjum við Íslend­ingar einnig mæta vel. Átti að halla sér að Evr­ópu­sam­band­inu í samn­ings­gerð eða átti að fara „bresku leið­ina“?

Auglýsing

Umræðan um kapp­hlaupið milli heims­hluta var hins vegar að sama skapi lít­il. „Við vorum of upp­tekin við að ríf­ast um hvernig við ættum að tryggja okkur sjálfum bólu­efn­i,“ segir Henry Alex­ander Henrys­son heim­spek­ing­ur. „En það lá alltaf ljóst fyrir hvert stóra vanda­málið yrði: Að dreifa efn­unum jafnt um allan heim svo að hægt yrði að stöðva far­ald­ur­inn.“

Hann líkir við­brögð­unum við hnatt­ræna hlýnun og fjölgun flótta­fólks. „Ætlum við að taka á þeim málum á for­sendum ein­stakra þjóða? Nei, við getum það ekki. En við endum samt alltaf ein­hvern veg­inn þar.“

Og rúm­lega einu og hálfu ári eftir að far­ald­ur­inn byrj­aði og meira en átta mán­uðum eftir að bólu­setn­ingar hófust er heima­varn­ar­stefna enn víð­ast í fyr­ir­rúmi, nú síð­ast með þeirri ákvörðun sífellt fleiri ríkja að bjóða full­bólu­settu fólki örv­un­ar­skammta af bólu­efni sem enn er utan seil­ingar fyrir stærstan hluta mann­kyns.

Ungt fólk bíður í röð eftir bólusetningu í Brasilíu.
EPA

„Það er skilj­an­legt og full­kom­lega verj­an­legt að sótt­varna­lækn­ir, sem er með sitt skil­greinda og afmark­aða starfs­svið sem er að vernda heilsu Íslend­inga, leggi fram áætlun um hvernig best sé að gera einmitt það,“ segir Arnar Páls­son erfða­fræð­ing­ur. „En kannski, og von­andi, viljum við sem sam­fé­lag ekki aðeins hugsa um okkur sjálf. Það má spyrja: Hvaða gildi skipta máli? Er fyrst og fremst mik­il­vægt að verja Íslend­inga og hags­muni okk­ar, eða bjarga manns­lífum á heims­vísu? Og ef að þú stefnir að því að bjarga manns­lífum er þetta nokkuð aug­ljóst. Þá viljum við bólu­setja sem flesta í heim­inum sem hrað­ast. Yrði sú stefna ofan á væri eðli­legt að bíða með örv­un­ar­skammta. Mark­miðin þurfa hins vegar að vera skýr og um þau þarf að ríkja sátt í sam­fé­lag­in­u.“

Um 5,4 millj­arðar skammtar af bólu­efni gegn COVID-19 hafa verið gefnir á heims­vísu og 40 pró­sent jarð­ar­búa hafa fengið að minnsta kosti einn skammt. Þetta hefur tek­ist að gera á aðeins nokkrum mán­uð­um. En þegar töl­fræðin er brotin niður eftir heims­hlutum blasir við óhugn­an­leg stað­reynd: 75 pró­sent allra þess­ara skammta hafa verið gefnir íbúum tíu rík­ustu þjóða heims. Þær og efna­meiri þjóðir eru margar hverjar komnir vel yfir 50 pró­sent bólu­setn­ing­ar­hlut­fall. Aðeins 1,8 pró­sent íbúa fátæk­ustu ríkj­anna hafa á sama tíma fengið einn skammt eða tvo.

Afríka er föl á þessu korti sem sýnir fjölda bóluefnaskammta á hverja 100 íbúa í löndum heimsins.
Our World in Data

Þessi mis­skipt­ing bólu­efn­anna sem kapp­hlaup vest­ur­veld­anna skil­aði mun ekki aðeins hafa (og hefur þegar haft) hræði­legar afleið­ingar í þeim löndum sem skilin voru útund­an. Hún mun einnig koma aftan að Vest­ur­landa­bú­um. Harmsagan frá Ind­landi, þar sem delta-af­brigðið varð til í óbólu­settu sam­fé­lagi, strá­felldi þar fólk og dreifð­ist svo á leift­ur­hraða um ver­öld víða, gæti átt eftir að end­ur­taka sig – að minnsta kosti í ein­hverri mynd.

Arnar Pálsson erfðafræðingur. Mynd: HÍ/Kristinn Ingvarsson

„Af­brigðin komu, sáu og sigruð­u,“ segir Arn­ar. „Meðan far­ald­ur­inn geisar er alltaf mögu­leiki á að það komi fram ný afbrigði með meiri sýki­mátt. Sú hætta verður við­var­andi því okkur virð­ist fyr­ir­munað að lemja veiruna nið­ur. Það eru svæð­is­bundnir far­aldrar að eiga sér stað þar sem tugir þús­unda – jafn­vel millj­ónir manna – eru að smit­ast.“ Og við slíkar aðstæður skap­ast „milljón tæki­færi“ fyrir veiruna til að stökk­breyt­ast.

Deilt með tveimur en nið­ur­staðan samt röng

„Nú er tím­inn til að sýna sam­stöðu með þeim ríkjum sem hafa enn ekki getað bólu­sett fram­línu­fólk og sína við­kvæm­ustu hópa,“ segir í nýút­gefnu og örvænt­ing­ar­fullu ákalli Ellen John­son Sir­leaf, fyrr­ver­andi for­seta Líberíu og Helen Clark, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráð­herra Nýja-­Sjá­lands, sem fóru fyrir sam­hæf­ing­arteymi WHO um við­brögð við far­aldr­in­um. Mark­miðin með COVAX, sam­starfs­vett­vangi ríkja sem átti að tryggja jafnt aðgengi að verk­færum til að fást við far­ald­ur­inn, voru upp­færð í maí þegar bólu­setn­ingar voru vel á veg komnar í hinum vest­ræna heimi: Að efn­að­ari ríki settu að minnsta kosti einn millj­arð bólu­efna­skammta til 92 fátæk­ari ríkja í gegnum COVAX fyrir 1. sept­em­ber. Deilt hafði þá verið með tveimur í eldra og bjart­sýnna mark­mið.

Skemmst er frá því að segja að þetta gekk ekki eft­ir. Aðeins 99 millj­ónum gjafa­skammta hafði verið dreift í gegnum COVAX í lok ágúst til efna­minnstu ríkj­anna, ríkja þar sem heibrigð­is­kerfi myndu engan veg­inn ráða við útbreiddan far­ald­ur.

Auglýsing

Í byrjun árs ákváðu íslensk stjórn­völd að gefa alla umfram­skammta af bólu­efni sem þau höfðu þá tryggt kaup á til lág­tekju­þjóða. Í lok júlí töldu þau sig svo sjá fram á að gefa allt það bólu­efni sem ekki þyrfti að nýta hér til þró­un­ar­ríkja. „Sem stendur er útlit fyrir að hægt verði að gefa skammta á þessu ári sem nægja til að full­bólu­setja um 200 þús­und manns,“ sagði utan­rík­is­ráðu­neytið.

Ísland lét fyrr í sumar stöðva send­ingar bólu­efna hingað til lands frá Astr­aZeneca og Jans­sen til að end­ur­greiða láns­skammta frá Sví­þjóð og Nor­egi. Sam­an­lagt höfðu 40 þús­und skammtar verið fengnir að láni.

125.726 skammtar

Í fram­hald­inu var óskað eftir að umfram­skammtar yrðu gefnir inn COVAX en Sví­þjóð ann­ast þar milli­göngu fyrir Íslands hönd, segir í svari heil­brigð­is­ráðu­neyt­is­ins við fyr­ir­spurn Kjarn­ans um efnd­irn­ar. Í svari utan­rík­is­ráðu­neyt­is­ins kemur fram að 125.726 umfram­skammtar af Astr­aZeneca hafi verið gefnir inn í COVAX og þegar vett­vang­ur­inn fari að taka við Jans­sen verði 153.500 skammtar af því gefn­ir. „Ekki liggur fyrir hverjir við­tak­endur bólu­efn­anna verða en þau fara þangað sem þörfin er mest.“

Sam­starfið gengur einnig út á að fjár­magna kaup á bólu­efni. Fyrir ári til­kynntu stjórn­völd að þau ætl­uðu að standa straum af fjár­mögnun 100 þús­und bólu­efna­skammta sem myndu duga til að bólu­setja 50 þús­und manns. Fram­lagið nemur nú rúmum millj­arði króna.

Heil­brigð­is­ráðu­neytið segir að frek­ari „geta Íslands“ til að gefa bólu­efni inn í sam­starfið verði metin á þeim grunni að hér séu hafnar örv­un­ar­bólu­setn­ingar og bólu­setn­ingar barna.

Fólk bíður í röð eftir að fá bóluefni á Indlandi.
EPA

„Ef stefnan er sú að vernda fólk og bjarga manns­lífum á heims­vísu ætti mark­miðið að vera að dreifa bólu­efna­skömmtum sem víðast,“ segir Arn­ar. „Hver ein­asti skammtur sem við sendum skiptir máli. Hver dag­ur, hver vika, hver mán­uður skiptir þar máli.“

Frá því að mark­mið COVAX voru upp­færð í maí hefur ýmis­legt gerst sem skýrt gæti tregðu ríkja til að gefa bólu­efni. Tvennt, sem þó teng­ist ræki­lega, má nefna: Delta-af­brigðið og smit full­bólu­settra. Og þess vegna var tekið til við að örva bólu­setn­ing­ar, þvert á áskor­anir WHO.

Ísra­elar riðu á vaðið og buðu fólki þegar í lok júlí þriðja skammt­inn af bólu­efni Pfiz­er. Fyrst voru aldr­aðir hvattir til að þiggja hann. Svo sífellt yngra fólk. Nú er svo komið að öllum tólf ára og eldri býðst að fá örv­un­ar­skammt.

Allir eldri en 60 ára geta fengið örvun

Sama dag var ákveðið að hefja örv­un­ar­bólu­setn­ingar hér á landi. Fyrsti hóp­ur­inn voru Jans­sen-þeg­arn­ir, fólkið sem hafði fagnað því að þurfa aðeins að fá eina sprautu í stað tveggja en sótt­varna­læknir mælti svo með að léti sprauta sig í annað sinn. Rökin voru fyrst og fremst þau að miðað við töl­fræð­ina í fyrstu vikum fjórðu bylgj­unn­ar, sem hófst hér á landi í júlí, var smit meðal bólu­settra útbreidd­ast hjá þeim hópi sem að sama skapi var yfir­leitt yngra fólk.

Í dag býðst öllum sem fengu Jans­sen að fá örvun sem og fólki sex­tíu ára og eldra, óháð því hvaða bólu­efni það fékk. Um 39 þús­und ein­stak­lingar hafa fengið örv­un­ar­skammt.

Góð virkni bólu­efn­anna gegn delta

„Öll þau bólu­efni sem nú eru á mark­aði voru hönnuð með upp­haf­saf­brigði veirunnar í huga og er það í raun ótrú­legt að þau skuli einnig virka gegn veru­lega umbreyttu delta-­formi henn­ar,“ skrifar Björn Rúnar Lúð­víks­son, pró­fessor við lækna­deild Háskóla Íslands og yfir­læknir ónæm­is­fræði­deildar Land­spít­ala, í nýjasta hefti Lækna­blaðs­ins.

Björn Rúnar Lúðvíksson. Mynd: Þorkell Þorkelsson/Landspítali

Nýlegar nið­ur­stöður sýni að öll bólu­efnin minnki líkur á smitun vegna delta­af­brigð­is­ins um 50-70 pró­sent, líkur á COVID-19 sjúk­dómi um 64-88 pró­sent og öll minnki þau líkur á dauða um 84 pró­sent. Í grein í Brit­ish Med­ical Journal (BMJ) kemur m.a. fram að Jans­sen bólu­efnið virki betur gegn delta-af­brigð­inu en beta – afbrigði sem áður var kennt við Suð­ur­-Afr­íku.

Björn skrifar að árangur bólu­setn­inga hér á landi sé ótví­ræð­ur. Algengi smita meðal óbólu­settra sé 2,6-3 sinnum hærra en meðal bólu­settra og inn­lagnir á Land­spít­ala hafi verið yfir 50 pró­sent færri meðal bólu­settra og 63 pró­sent fátíð­ari á gjör­gæslu­deild. „Þetta er ótrú­lega góður árang­ur,“ skrifar hann og bætir við að flestir þeir sem lagst hafi inn séu yfir fimm­tugu og oft með aðra und­ir­liggj­andi áhættu­þætti.

Hann segir fyr­ir­liggj­andi gögn um örvun bólu­setn­inga meðal ónæm­is­bældra, sem eru um 3 pró­sent íslensku þjóð­ar­inn­ar, vera nokkuð afger­andi en ekki rann­sökuð til fulls. Hins vegar séu tak­mark­aðar nið­ur­stöður fyr­ir­liggj­andi um árangur örv­un­ar­skammts hjá ann­ars heil­brigðu fólki með til­liti til auk­innar verndar gegn delta-af­brigð­inu.

„Meg­in­á­herslan ætti því að mið­ast við að ná til sem flestra til bólu­setn­ing­ar, með sér­staka áherslu á örv­un­ar­skammt hjá ónæm­is­bæld­um,“ skrifar hann.

Hjúkrunarfræðingur í Jerúsalem í Ísrael undirbýr bóluefnaskammta.
EPA

„Við vitum að þeir sem fengu Jans­sen, eldra fólk og ónæm­is­bældir ein­stak­lingar mynd­uðu ekki nægi­lega mikið af mótefn­um,“ segir Þórólfur Guðna­son sótt­varna­læknir spurður hvort að óyggj­andi gögn um ávinn­ing af örvun bólu­setn­inga liggi fyr­ir. Hann segir því umdeil­an­legt hvort kalla eigi þær bólu­setn­ingar sem hér er verið að gefa þessum hópum „örv­un­ar-“ eða „við­bót­ar­bólu­setn­ing­ar“.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Mynd: Almannavarnir

Eig­in­leg örv­un­ar­bólu­setn­ing sé gefin 3-6 mán­uðum eftir fulla bólu­setn­ingu og Þórólfur segir erlendar rann­sóknir sýna að slíkt örvi mótefna­myndun sem aftur sé talin gefa betri vernd. „Hins vegar hefur ekki liðið nægi­lega langur tími til að svara því hvort mótefna­svör­unin end­ur­pegl­ast í raun­veru­legri vernd.“

Engar ákvarð­anir hafa verið teknar um frek­ari örv­un­ar­bólu­setn­ingar hér á landi og Þórólfur segir leið­bein­ingar Sótt­varna­stofn­unar Evr­ópu, þar sem ekki er mælt með almennri örvun bólu­setn­inga að svo stöddu, vera í takti við sína sýn á fram­hald­ið.

Velja ísra­elsku-­leið­ina fram yfir þá íslensku

Þótt óvissa umlyki þann ávinn­ing sem fæst með örvun bólu­setn­inga hafa nokkur ríki haldið í þá óvissu­ferð og sífellt fleiri bæt­ast í hóp­inn. Útlit er fyrir að margir ætli að ganga miklu lengra en Íslend­ing­ar, fara ísra­elsku leið­ina og hefja örv­un­ar­bólu­setn­ingu allra. Þetta mun hafa áhrif á fram­boð bólu­efna enda fjöl­mennar þjóðir á borð við Þýska­land, Bret­land og Banda­ríkin í start­hol­unum að byrja örv­un­ar­her­ferð­ir.

„Það er ekki hægt að dreifa bólu­efnum sem þú hefur ekki,“ sagði Peter Sin­ger, aðstoð­ar­fram­kvæmda­stjóri WHO, nýverið um árang­ur­inn af COVAX. Fyr­ir­komu­lagið hafi allt sem þurfi til að dreifa bólu­efn­um. Vand­inn felist í öðru. Það sé ein­fald­lega of litlu magni til að dreifa.

FJöldabólusetning í Íran.
EPA

Efn­að­ari ríki hafa hamstrað efn­in, samið um marg­falt magn en þarf til að bólu­setja sína borg­ara og þótt fram­leiðslu­getan hafi einnig marg­fald­ast og eigi enn eftir að aukast ríkir nú hættu­legt milli­bils­á­stand. Ástand sem skapar jarð­veg fyrir far­ald­ur­inn til að blossa upp af ógn­ar­krafti í óbólu­settum sam­fé­lögum fátæk­ustu ríkja heims. Það er þess vegna sem WHO hefur biðlað til ríkja að bíða með örv­un­ar­bólu­setn­ing­ar. Þó það væri ekki nema í nokkrar vik­ur.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Mynd: Bára Huld Beck

„Það er hlut­verk sótt­varna­læknis að meta hvort þörf sé á að gefa örv­un­ar­skammta til þess að tryggja að ein­stak­lingar hafi nægi­lega vörn,“ segir Svan­dís Svav­ars­dóttir heil­brigð­is­ráð­herra spurð um stefnu stjórn­valda í þessum efnum og hvort hún telji það rétt­læt­an­legt að hefja örvun bólu­setn­inga hér á landi við þessar aðstæð­ur. „Það hefur verið mín stefna hingað til að fylgja hans fag­legu ráð­legg­ingum og það verður stefnan áfram.“

Sam­hliða sé mik­il­vægt að lönd legg­ist á eitt til að tryggja aðgengi allra jarð­ar­búa að bólu­efni. „Það erum við að gera hér á landi og munum gera áfram, bæði í gegnum COVAX-verk­efnið og með því að gefa umfram­skammta af bólu­efni sem við nýtum ekki hér.“

En hvenær verða til skammtar „um­fram“ það sem við ætlum að nýta? 72 pró­sent lands­manna hafa nú verið full­bólu­sett. Auk örv­unar er bólu­setn­ing barna hafin og sam­an­lagt hafa 84 pró­sent 12 ára og eldri verið full­bólu­sett. Um 530 þús­und skammtar hafa verið not­aðir á Íslandi en að minnsta kosti 134 þús­und til við­bótar eru til í land­inu eða á leið hingað á næstu dög­um.

Heilbrigðisstarfsmaður að störfum á Indlandi þar sem farið er að ganga hús úr húsi með bóluefni og bjóða fólki bólusetningu.
EPA

„Ég held að það séu allir sam­mála um að skipt­ing bólu­efna um heim­inn sé órétt­lát,“ segir Henry Alex­and­er, „og að við þurfum að gera það sem rétt­látt er. En þegar á hólm­inn er komið verður útkoman alltaf allt önn­ur. Það er ekk­ert öðru­vísi í þess­ari krísu en þeim fyrri.“

Henry Alexander Henrysson, heimspekingur.

Þeir sem þiggja örv­un­ar- eða við­bót­ar­skammta hér á landi eru að fara að ráðum yfir­valda og Henry Alex­ander segir rangt að for­dæma það fólk og koma inn hjá því sam­visku­biti. Slíkt beri að var­ast í lengstu lög. „Því þetta er hnatt­rænt vanda­mál sem þarf að taka á af þessum stærstu alþjóð­legu stofn­un­um.“

En vand­inn sé sá að það hafi ekki verið hlustað á WHO allt árið. Í stað þess að ganga í takt frá upp­hafi, þegar stóra tæki­færið á því gafst, hafi hvert ríki farið í „heima­varn­ir“ sem gangi ekki upp. Því það að leyfa far­aldr­inum að „malla“ á ein­hverjum stöðum mun hafa áhrif á alla síð­ar.

„Mesti áhættu­þátt­ur­inn, sá lang­sterkasti, sem hefur áhrif þegar kemur að COVID-19, er ald­ur,“ bendir Arn­ar. „Það er því ekki órök­rétt að horfa á þetta þannig að það borgi sig, til að bjarga sem flestum manns­líf­um, að ein­beita sér að bólu­setn­ingum aldr­aðra alls staðar í heim­in­um. En það er samt skilj­an­lega erfitt fyrir stjórn­völd í ein­stökum ríkjum að segja: Við ætlum að kaupa fullt af bólu­efni en viljum frekar bólu­setja full­orðið fólk í útlöndum heldur en okkar yngsta fólk.“

Þá komi að mark­mið­un­um, hinum sam­eig­in­legu mark­miðum til að vinna á veirunni með vís­indin að vopni.

Karlmaður af Mahmeri-þjóðinni mætti í fjörlegum búningi til bólusetningar í Kuala Lumpur, höfuðborg Malasíu.
EPA

Katrín Jak­obs­dóttir for­sæt­is­ráð­herra sagði nýverið, spurð um rétt­mæti örv­un­ar­bólu­setn­inga, að það væri frum­skylda íslenskra stjórn­valda að vernda líf og heilsu sinna borg­ara. Þetta finnst Henry Alex­ander óheppi­legt orða­lag, frum­skylda sé „býsna stórt orð“. Hann minnir á að orð­ræða sem þessi hafi áhrif úti í heimi. „Vest­ur­lönd segja: Við ætlum að passa okkur fyrst og fremst en svo fáið þið rest.“

Umræða um ein­stök bólu­efni rati einnig til fátæk­ari ríkja. Það sé t.d. raunin varð­andi Astr­aZeneca, bólu­efnið sem nokkur vest­ræn ríki höfn­uðu. Þetta er svo efnið sem sent hefur verið í stórum stíl til Afr­íku, m.a. vegna þess að það er auð­veld­ara að með­höndla, t.d. geyma, en flest önn­ur. „En þau fengu þær fréttir að Evr­ópu­lönd vildu ekki þetta bólu­efni. Þeirra upp­lifun er að þau séu að fá það sem mæti afgangi, að það sé ekk­ert átak í gangi í því að koma bólu­efnum til þeirra. Það voru skila­boðin og þau eru hættu­leg.“

Fór í bólu­setn­ingu í Afr­íku öðrum til hvatn­ingar

Henry Alex­ander þekkir þetta frá fyrstu hendi. Hann var í Síerra Leóne í Afr­íku fyrstu sex mán­uði árs­ins. „Ég ætl­aði alls ekki að fá bólu­setn­ingu þar, ég ætl­aði að bíða þar til ég kæmi heim. En ég lenti í þeirri furðu­legu stöðu að fara í bólu­setn­ingu því ég vildi sýna öðrum að ég væri ekki hræddur við þetta bólu­efni [Astr­aZeneca] og hvetja þannig aðra til að gera slíkt hið sama.“

Vanda­málið sé ekki lengur aðeins það að koma bólu­efnum til ann­arra heims­hluta heldur að vinna til baka það traust sem grafið hefur verið undan með orð­ræð­unni. „Þetta hefði þurft að ger­ast með ein­hverjum brag og sóma. Og ef við pössum okkur ekki þá gæti þetta endað með því að fólk þiggi ekki bólu­efn­i.“ Það gæti svo aftur í versta falli endað með for­dæma­lausum aðgerð­um, jafn­vel afkvíun heims­hluta, sem hefðu enn skelfi­legri afleið­ingar í för með sér.

Öldruð manneskja fær bólusetningu í Kenía.
EPA

Vörn bólu­efna er flókið fyr­ir­bæri. Það er fleira en mótefna­svarið sjálft sem þar skiptir máli. Það er ekki klippt og skorið að gera rann­sóknir á virkn­inni þegar raun­veru­leik­inn tekur við því í honum er hegðun fólks stór breyta. Hegð­un, sem ýmsar sam­fé­lags­legar tak­mark­anir sem settar voru á í far­aldr­inum höfðu mikil áhrif á. Einnig skiptir tíðni smita máli, hvaða ald­urs­hópar eru smit­aðir og vit­an­lega afbrigð­in.

Þegar yfir­völd í Ísr­ael ákváðu að gefa örv­un­ar­skammta var hegðun Ísra­ela breytt frá því nokkrum vikum fyrr. Slíkir þættir gætu að mati margra vís­inda­manna, líkt og rakið er í nýlegri umfjöllun New York Times, haft áhrif á nið­ur­stöður rann­sóknar um dvín­andi virkni bólu­efnis Pfizer og þótti rétt­læta örv­un.

Þessar rann­sókn­ar­nið­ur­stöður röt­uðu í fyr­ir­sagnir frétta um allan heim og höfðu áhrif á þá ákvörðun rík­is­stjórnar Joes Biden Banda­ríkja­for­seta að hvetja alla Banda­ríkja­menn til að fara í örv­un­ar­bólu­setn­ingu átta mán­uðum eftir fyrri skammt­ana tvo.

Auglýsing

Verndin sem bólu­efnin veita dvínar með tím­an­um. Um það er ekki deilt en „það er stór­kost­legur munur á því að þurfa sprautu á sex mán­aða fresti eða fimm ára frest­i,“ segir David Dowdy, far­alds­fræð­ingur við John Hop­k­ins-há­skóla, við New York Times um hvenær örv­unar gæti orðið þörf. „Enn sem komið er, miðað við þau gögn sem við höf­um, þá sé ég ekki miklar sann­anir fyrir því að við séum komin að þeim tíma­punkt­i.“

Arnar segir minnk­andi vörn með tíma fyr­ir­sjá­an­lega en „óvissan er um hversu mikið og hversu hratt minnkar vörn­in. Og minnkar hún meira fyrir vörn gegn smiti, eða vörn gegn alvar­legum ein­kenn­um?“

Við fyrstu sýn virð­ist nið­ur­staða ísra­elsku rann­sókn­ar­innar nokkuð skýr: Fólk sem var bólu­sett snemma á árinu var lík­legra til að smit­ast en þeir sem höfðu fengið bólu­setn­ingu í vor. En þetta er aðeins rétt ályktun ef hóp­arnir eru sam­bæri­legir og aðstæður þeirra einnig.

Það eru þeir ekki fylli­lega.

Í fyrri hópnum var t.d. mennt­un­ar­stig að með­al­tali hærra og sömu­leiðis tekj­ur. Þetta gæti þýtt að hann hafi til dæmis verið viljugri til að ferð­ast og þar með orðið útsett­ari fyrir smiti.

„Þetta er einmitt málið með óviss­una sem ein­kennir vís­ind­in,“ segir Arn­ar. „Margir þættir hafa áhrif á lík­urnar á smiti, og það er erfitt að greina áhrif þeirra sund­ur, til dæmis ef þættir eins og atferli og aldur eru sam­tvinn­uð. Við erum skyni­bornar skepn­ur. Við breytum hegðun okkar út frá upp­lýs­ingum sem við fáum. Fólk upp­lifði sig örugg­ara með bólu­setn­ingu og varð félags­lynd­ara og ferða­glað­ara. Með öðrum orð­um, það spil­aði þannig oftar í covid-rúl­lett­unni en áður. Og það getur verið stór þáttur í nið­ur­stöðum rann­sókna.“ .

Ung stúlka fær bólusetningu í Kambódíu.
EPA

Þótt hin ísra­elska rann­sókn hafi sýnt að full­bólu­settir væru að smit­ast og veikj­ast þá benda margar rann­sóknir til þess að vörn bólu­efn­anna gegn alvar­legum veik­indum sé enn mjög góð og næstum því á pari við það sem hún var áður en delta-af­brigðið kom til sög­unn­ar.

„Bólu­efnin sem lækn­is­fræði­leg aðferð eru alveg ótrú­lega góð,“ segir Arnar með áherslu. „En það er áfram full ástæða fyrir bólu­sett fólk að fara gæti­lega.“

Það eru rök fyrir því að gefa við­kvæmum hópum við­bót­ar­bólu­setn­ingu. Um þetta eru bæði Sótt­varna­stofnun Evr­ópu og Alþjóða heil­brigð­is­mála­stofn­unin sam­mála. Hins vegar mælir hvorug þeirra með örvun bólu­setn­inga heil­brigðs, ungs fólks á þessum tíma­punkti. Síend­ur­tekin bólu­setn­ing fjöl­mennra hópa með nokk­urra mán­aða milli­bili er auk þess kostn­að­ar­söm og eykur álag á þegar önnum kafið heil­brigð­is­starfs­fólk. Hún ætti því ekki að vera for­gangs­mál nema að vís­inda­lega vel athug­uðu máli, sér í lagi á tímum þar sem bólu­efni gegn COVID-19 eru enn af skornum skammti.

Mest vernd með fyrstu skömmtum

„Sú aukna vernd sem heil­brigður ein­stak­lingur fær við örv­un­ar­bólu­setn­ingu er að með­al­tali ein­hver en alltaf lítil miðað við þá vernd sem óbólu­settur ein­stak­lingur fær við einn eða tvo skammta,“ segir Arn­ar. „Þannig að ef við viljum hámarka vernd­ina sem fæst út úr hverjum bólu­efna­skammti þá er áhrifa­rík­ast að bólu­setja sem flesta með tveimur skömmtum áður en farið er að örva með þeim þriðja.“

Ungur karlmaður fær bólusetningu í Mexíkó.
EPA

Fræði­leg líkön um þróun líf­vera sem eru að aðlag­ast nýjum aðstæðum eiga við veiruna einnig. Fyr­ir­sjá­an­legt er að fyrstu þró­un­ar­skrefin eru stór en svo minnka þau. Það er því ólík­legt að smit­hæfni kór­ónu­veirunnar sem veldur COVID-19 muni aukast um tugi pró­senta í hverju þró­un­ar­skrefi sem hún tek­ur. „En hún gæti samt hlaupið á ein­hverjum pró­sentum sem yrði alltaf veru­legt vanda­mál,“ segir Arn­ar.

Henry Alex­ander seg­ist skilja að sam­fé­lög hafi lokað sig af í upp­hafi far­ald­urs nýs sjúk­dóms „en mars og apríl árið 2020 eru allt aðrir tímar en ágúst og sept­em­ber árið 2021“. Það hafi verið mikið vís­inda­afrek að þróa bólu­efni fljótt. Hins vegar hafi tæki­færið til að ná hámarks­ár­angri í bar­átt­unni ekki verið nýtt. „Það er það veru­lega sorg­lega í þessu.“

Arnar segir að héðan af sé ólík­legt að það tak­ist að útrýma veirunni algjör­lega. „Besta fram­tíð­ar­sýnin er að ná að bólu­setja sem flesta í heim­inum og halda far­aldr­inum stað­bundið í skefjum þannig að það verði ekki til ill­víg­ari afbrigði. Að við náum að beisla hana.

Það er lík­legt en ekki öruggt að með árunum þró­ist hún á þann veg að verða mild­ari og hafi ekki jafn slæm áhrif. Önnur sviðs­mynd er að við verðum eftir ein­hvern tíma næstum öll búin að smit­ast og þá komi upp hjarð­ó­næmi. Hvort verður ofan á er erfitt að spá fyrir um.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar