EPA

Örvun bólusetninga: Óvissuferð sem eykur ójöfnuð

Ef þróun væri leikur er kórónuveiran sem veldur COVID-19 sérlega góð í honum. Við eigum hins vegar tromp uppi í erminni til að ná yfirhöndinni. Og það er ekki örvunarskammtur. Engu að síður eru á annan tug Evrópuríkja að undirbúa slíkt útspil, þvert á ráðleggingar helstu sérfræðinga. „Ef við viljum hámarka verndina sem fæst út úr hverjum bóluefnaskammti þá er áhrifaríkast að bólusetja sem flesta með tveimur skömmtum áður en farið er að örva með þeim þriðja,“ segir Arnar Pálsson erfðafræðingur.

Það er fyrst og fremst eitt sem getur stöðvað faraldur COVID-19 í heiminum og það eru ekki örvunarskammtar. Það er þó ekki þar með sagt að þeir gagnist ekki ákveðnum og afmörkuðum hópum. En til að hægt verði að kveða faraldurinn í kútinn þarf helst að bólusetja alla – alls staðar. Það ætti að vera forgangsmál okkar allra.

Þessi varúðarorð Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) hafa ómað mánuðum saman, byggð jafnt á réttlætis- og vísindarökum. Á þau hefur lítið verið hlustað miðað við þá stöðu sem nú er uppi.

Þjóðríki gripu í upphafi faraldurs COVID-19 til heimavarna þar sem borgarar hvers og eins þeirra voru settir í forgang. Þegar bóluefnin voru í sjónmáli upphófst svo kapphlaup sem skipta má í þrennt: Í fyrsta lagi um forgangsröðun innan hvers lands. Átti að byrja á heilbrigðisstarfsfólki eða öldruðum? Hvenær kæmi röðin að kennurum?

Í öðru lagi var það innan hvers heimshluta. Þá umræðu þekkjum við Íslendingar einnig mæta vel. Átti að halla sér að Evrópusambandinu í samningsgerð eða átti að fara „bresku leiðina“?

Auglýsing

Umræðan um kapphlaupið milli heimshluta var hins vegar að sama skapi lítil. „Við vorum of upptekin við að rífast um hvernig við ættum að tryggja okkur sjálfum bóluefni,“ segir Henry Alexander Henrysson heimspekingur. „En það lá alltaf ljóst fyrir hvert stóra vandamálið yrði: Að dreifa efnunum jafnt um allan heim svo að hægt yrði að stöðva faraldurinn.“

Hann líkir viðbrögðunum við hnattræna hlýnun og fjölgun flóttafólks. „Ætlum við að taka á þeim málum á forsendum einstakra þjóða? Nei, við getum það ekki. En við endum samt alltaf einhvern veginn þar.“

Og rúmlega einu og hálfu ári eftir að faraldurinn byrjaði og meira en átta mánuðum eftir að bólusetningar hófust er heimavarnarstefna enn víðast í fyrirrúmi, nú síðast með þeirri ákvörðun sífellt fleiri ríkja að bjóða fullbólusettu fólki örvunarskammta af bóluefni sem enn er utan seilingar fyrir stærstan hluta mannkyns.

Ungt fólk bíður í röð eftir bólusetningu í Brasilíu.
EPA

„Það er skiljanlegt og fullkomlega verjanlegt að sóttvarnalæknir, sem er með sitt skilgreinda og afmarkaða starfssvið sem er að vernda heilsu Íslendinga, leggi fram áætlun um hvernig best sé að gera einmitt það,“ segir Arnar Pálsson erfðafræðingur. „En kannski, og vonandi, viljum við sem samfélag ekki aðeins hugsa um okkur sjálf. Það má spyrja: Hvaða gildi skipta máli? Er fyrst og fremst mikilvægt að verja Íslendinga og hagsmuni okkar, eða bjarga mannslífum á heimsvísu? Og ef að þú stefnir að því að bjarga mannslífum er þetta nokkuð augljóst. Þá viljum við bólusetja sem flesta í heiminum sem hraðast. Yrði sú stefna ofan á væri eðlilegt að bíða með örvunarskammta. Markmiðin þurfa hins vegar að vera skýr og um þau þarf að ríkja sátt í samfélaginu.“

Um 5,4 milljarðar skammtar af bóluefni gegn COVID-19 hafa verið gefnir á heimsvísu og 40 prósent jarðarbúa hafa fengið að minnsta kosti einn skammt. Þetta hefur tekist að gera á aðeins nokkrum mánuðum. En þegar tölfræðin er brotin niður eftir heimshlutum blasir við óhugnanleg staðreynd: 75 prósent allra þessara skammta hafa verið gefnir íbúum tíu ríkustu þjóða heims. Þær og efnameiri þjóðir eru margar hverjar komnir vel yfir 50 prósent bólusetningarhlutfall. Aðeins 1,8 prósent íbúa fátækustu ríkjanna hafa á sama tíma fengið einn skammt eða tvo.

Afríka er föl á þessu korti sem sýnir fjölda bóluefnaskammta á hverja 100 íbúa í löndum heimsins.
Our World in Data

Þessi misskipting bóluefnanna sem kapphlaup vesturveldanna skilaði mun ekki aðeins hafa (og hefur þegar haft) hræðilegar afleiðingar í þeim löndum sem skilin voru útundan. Hún mun einnig koma aftan að Vesturlandabúum. Harmsagan frá Indlandi, þar sem delta-afbrigðið varð til í óbólusettu samfélagi, stráfelldi þar fólk og dreifðist svo á leifturhraða um veröld víða, gæti átt eftir að endurtaka sig – að minnsta kosti í einhverri mynd.

Arnar Pálsson erfðafræðingur. Mynd: HÍ/Kristinn Ingvarsson

„Afbrigðin komu, sáu og sigruðu,“ segir Arnar. „Meðan faraldurinn geisar er alltaf möguleiki á að það komi fram ný afbrigði með meiri sýkimátt. Sú hætta verður viðvarandi því okkur virðist fyrirmunað að lemja veiruna niður. Það eru svæðisbundnir faraldrar að eiga sér stað þar sem tugir þúsunda – jafnvel milljónir manna – eru að smitast.“ Og við slíkar aðstæður skapast „milljón tækifæri“ fyrir veiruna til að stökkbreytast.

Deilt með tveimur en niðurstaðan samt röng

„Nú er tíminn til að sýna samstöðu með þeim ríkjum sem hafa enn ekki getað bólusett framlínufólk og sína viðkvæmustu hópa,“ segir í nýútgefnu og örvæntingarfullu ákalli Ellen Johnson Sirleaf, fyrrverandi forseta Líberíu og Helen Clark, fyrrverandi forsætisráðherra Nýja-Sjálands, sem fóru fyrir samhæfingarteymi WHO um viðbrögð við faraldrinum. Markmiðin með COVAX, samstarfsvettvangi ríkja sem átti að tryggja jafnt aðgengi að verkfærum til að fást við faraldurinn, voru uppfærð í maí þegar bólusetningar voru vel á veg komnar í hinum vestræna heimi: Að efnaðari ríki settu að minnsta kosti einn milljarð bóluefnaskammta til 92 fátækari ríkja í gegnum COVAX fyrir 1. september. Deilt hafði þá verið með tveimur í eldra og bjartsýnna markmið.

Skemmst er frá því að segja að þetta gekk ekki eftir. Aðeins 99 milljónum gjafaskammta hafði verið dreift í gegnum COVAX í lok ágúst til efnaminnstu ríkjanna, ríkja þar sem heibrigðiskerfi myndu engan veginn ráða við útbreiddan faraldur.

Auglýsing

Í byrjun árs ákváðu íslensk stjórnvöld að gefa alla umframskammta af bóluefni sem þau höfðu þá tryggt kaup á til lágtekjuþjóða. Í lok júlí töldu þau sig svo sjá fram á að gefa allt það bóluefni sem ekki þyrfti að nýta hér til þróunarríkja. „Sem stendur er útlit fyrir að hægt verði að gefa skammta á þessu ári sem nægja til að fullbólusetja um 200 þúsund manns,“ sagði utanríkisráðuneytið.

Ísland lét fyrr í sumar stöðva sendingar bóluefna hingað til lands frá AstraZeneca og Janssen til að endurgreiða lánsskammta frá Svíþjóð og Noregi. Samanlagt höfðu 40 þúsund skammtar verið fengnir að láni.

125.726 skammtar

Í framhaldinu var óskað eftir að umframskammtar yrðu gefnir inn COVAX en Svíþjóð annast þar milligöngu fyrir Íslands hönd, segir í svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um efndirnar. Í svari utanríkisráðuneytisins kemur fram að 125.726 umframskammtar af AstraZeneca hafi verið gefnir inn í COVAX og þegar vettvangurinn fari að taka við Janssen verði 153.500 skammtar af því gefnir. „Ekki liggur fyrir hverjir viðtakendur bóluefnanna verða en þau fara þangað sem þörfin er mest.“

Samstarfið gengur einnig út á að fjármagna kaup á bóluefni. Fyrir ári tilkynntu stjórnvöld að þau ætluðu að standa straum af fjármögnun 100 þúsund bóluefnaskammta sem myndu duga til að bólusetja 50 þúsund manns. Framlagið nemur nú rúmum milljarði króna.

Heilbrigðisráðuneytið segir að frekari „geta Íslands“ til að gefa bóluefni inn í samstarfið verði metin á þeim grunni að hér séu hafnar örvunarbólusetningar og bólusetningar barna.

Fólk bíður í röð eftir að fá bóluefni á Indlandi.
EPA

„Ef stefnan er sú að vernda fólk og bjarga mannslífum á heimsvísu ætti markmiðið að vera að dreifa bóluefnaskömmtum sem víðast,“ segir Arnar. „Hver einasti skammtur sem við sendum skiptir máli. Hver dagur, hver vika, hver mánuður skiptir þar máli.“

Frá því að markmið COVAX voru uppfærð í maí hefur ýmislegt gerst sem skýrt gæti tregðu ríkja til að gefa bóluefni. Tvennt, sem þó tengist rækilega, má nefna: Delta-afbrigðið og smit fullbólusettra. Og þess vegna var tekið til við að örva bólusetningar, þvert á áskoranir WHO.

Ísraelar riðu á vaðið og buðu fólki þegar í lok júlí þriðja skammtinn af bóluefni Pfizer. Fyrst voru aldraðir hvattir til að þiggja hann. Svo sífellt yngra fólk. Nú er svo komið að öllum tólf ára og eldri býðst að fá örvunarskammt.

Allir eldri en 60 ára geta fengið örvun

Sama dag var ákveðið að hefja örvunarbólusetningar hér á landi. Fyrsti hópurinn voru Janssen-þegarnir, fólkið sem hafði fagnað því að þurfa aðeins að fá eina sprautu í stað tveggja en sóttvarnalæknir mælti svo með að léti sprauta sig í annað sinn. Rökin voru fyrst og fremst þau að miðað við tölfræðina í fyrstu vikum fjórðu bylgjunnar, sem hófst hér á landi í júlí, var smit meðal bólusettra útbreiddast hjá þeim hópi sem að sama skapi var yfirleitt yngra fólk.

Í dag býðst öllum sem fengu Janssen að fá örvun sem og fólki sextíu ára og eldra, óháð því hvaða bóluefni það fékk. Um 39 þúsund einstaklingar hafa fengið örvunarskammt.

Góð virkni bóluefnanna gegn delta

„Öll þau bóluefni sem nú eru á markaði voru hönnuð með upphafsafbrigði veirunnar í huga og er það í raun ótrúlegt að þau skuli einnig virka gegn verulega umbreyttu delta-formi hennar,“ skrifar Björn Rúnar Lúðvíksson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir ónæmisfræðideildar Landspítala, í nýjasta hefti Læknablaðsins.

Björn Rúnar Lúðvíksson. Mynd: Þorkell Þorkelsson/Landspítali

Nýlegar niðurstöður sýni að öll bóluefnin minnki líkur á smitun vegna deltaafbrigðisins um 50-70 prósent, líkur á COVID-19 sjúkdómi um 64-88 prósent og öll minnki þau líkur á dauða um 84 prósent. Í grein í British Medical Journal (BMJ) kemur m.a. fram að Janssen bóluefnið virki betur gegn delta-afbrigðinu en beta – afbrigði sem áður var kennt við Suður-Afríku.

Björn skrifar að árangur bólusetninga hér á landi sé ótvíræður. Algengi smita meðal óbólusettra sé 2,6-3 sinnum hærra en meðal bólusettra og innlagnir á Landspítala hafi verið yfir 50 prósent færri meðal bólusettra og 63 prósent fátíðari á gjörgæsludeild. „Þetta er ótrúlega góður árangur,“ skrifar hann og bætir við að flestir þeir sem lagst hafi inn séu yfir fimmtugu og oft með aðra undirliggjandi áhættuþætti.

Hann segir fyrirliggjandi gögn um örvun bólusetninga meðal ónæmisbældra, sem eru um 3 prósent íslensku þjóðarinnar, vera nokkuð afgerandi en ekki rannsökuð til fulls. Hins vegar séu takmarkaðar niðurstöður fyrirliggjandi um árangur örvunarskammts hjá annars heilbrigðu fólki með tilliti til aukinnar verndar gegn delta-afbrigðinu.

„Megináherslan ætti því að miðast við að ná til sem flestra til bólusetningar, með sérstaka áherslu á örvunarskammt hjá ónæmisbældum,“ skrifar hann.

Hjúkrunarfræðingur í Jerúsalem í Ísrael undirbýr bóluefnaskammta.
EPA

„Við vitum að þeir sem fengu Janssen, eldra fólk og ónæmisbældir einstaklingar mynduðu ekki nægilega mikið af mótefnum,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir spurður hvort að óyggjandi gögn um ávinning af örvun bólusetninga liggi fyrir. Hann segir því umdeilanlegt hvort kalla eigi þær bólusetningar sem hér er verið að gefa þessum hópum „örvunar-“ eða „viðbótarbólusetningar“.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Mynd: Almannavarnir

Eiginleg örvunarbólusetning sé gefin 3-6 mánuðum eftir fulla bólusetningu og Þórólfur segir erlendar rannsóknir sýna að slíkt örvi mótefnamyndun sem aftur sé talin gefa betri vernd. „Hins vegar hefur ekki liðið nægilega langur tími til að svara því hvort mótefnasvörunin endurpeglast í raunverulegri vernd.“

Engar ákvarðanir hafa verið teknar um frekari örvunarbólusetningar hér á landi og Þórólfur segir leiðbeiningar Sóttvarnastofnunar Evrópu, þar sem ekki er mælt með almennri örvun bólusetninga að svo stöddu, vera í takti við sína sýn á framhaldið.

Velja ísraelsku-leiðina fram yfir þá íslensku

Þótt óvissa umlyki þann ávinning sem fæst með örvun bólusetninga hafa nokkur ríki haldið í þá óvissuferð og sífellt fleiri bætast í hópinn. Útlit er fyrir að margir ætli að ganga miklu lengra en Íslendingar, fara ísraelsku leiðina og hefja örvunarbólusetningu allra. Þetta mun hafa áhrif á framboð bóluefna enda fjölmennar þjóðir á borð við Þýskaland, Bretland og Bandaríkin í startholunum að byrja örvunarherferðir.

„Það er ekki hægt að dreifa bóluefnum sem þú hefur ekki,“ sagði Peter Singer, aðstoðarframkvæmdastjóri WHO, nýverið um árangurinn af COVAX. Fyrirkomulagið hafi allt sem þurfi til að dreifa bóluefnum. Vandinn felist í öðru. Það sé einfaldlega of litlu magni til að dreifa.

FJöldabólusetning í Íran.
EPA

Efnaðari ríki hafa hamstrað efnin, samið um margfalt magn en þarf til að bólusetja sína borgara og þótt framleiðslugetan hafi einnig margfaldast og eigi enn eftir að aukast ríkir nú hættulegt millibilsástand. Ástand sem skapar jarðveg fyrir faraldurinn til að blossa upp af ógnarkrafti í óbólusettum samfélögum fátækustu ríkja heims. Það er þess vegna sem WHO hefur biðlað til ríkja að bíða með örvunarbólusetningar. Þó það væri ekki nema í nokkrar vikur.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Mynd: Bára Huld Beck

„Það er hlutverk sóttvarnalæknis að meta hvort þörf sé á að gefa örvunarskammta til þess að tryggja að einstaklingar hafi nægilega vörn,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra spurð um stefnu stjórnvalda í þessum efnum og hvort hún telji það réttlætanlegt að hefja örvun bólusetninga hér á landi við þessar aðstæður. „Það hefur verið mín stefna hingað til að fylgja hans faglegu ráðleggingum og það verður stefnan áfram.“

Samhliða sé mikilvægt að lönd leggist á eitt til að tryggja aðgengi allra jarðarbúa að bóluefni. „Það erum við að gera hér á landi og munum gera áfram, bæði í gegnum COVAX-verkefnið og með því að gefa umframskammta af bóluefni sem við nýtum ekki hér.“

En hvenær verða til skammtar „umfram“ það sem við ætlum að nýta? 72 prósent landsmanna hafa nú verið fullbólusett. Auk örvunar er bólusetning barna hafin og samanlagt hafa 84 prósent 12 ára og eldri verið fullbólusett. Um 530 þúsund skammtar hafa verið notaðir á Íslandi en að minnsta kosti 134 þúsund til viðbótar eru til í landinu eða á leið hingað á næstu dögum.

Heilbrigðisstarfsmaður að störfum á Indlandi þar sem farið er að ganga hús úr húsi með bóluefni og bjóða fólki bólusetningu.
EPA

„Ég held að það séu allir sammála um að skipting bóluefna um heiminn sé óréttlát,“ segir Henry Alexander, „og að við þurfum að gera það sem réttlátt er. En þegar á hólminn er komið verður útkoman alltaf allt önnur. Það er ekkert öðruvísi í þessari krísu en þeim fyrri.“

Henry Alexander Henrysson, heimspekingur.

Þeir sem þiggja örvunar- eða viðbótarskammta hér á landi eru að fara að ráðum yfirvalda og Henry Alexander segir rangt að fordæma það fólk og koma inn hjá því samviskubiti. Slíkt beri að varast í lengstu lög. „Því þetta er hnattrænt vandamál sem þarf að taka á af þessum stærstu alþjóðlegu stofnunum.“

En vandinn sé sá að það hafi ekki verið hlustað á WHO allt árið. Í stað þess að ganga í takt frá upphafi, þegar stóra tækifærið á því gafst, hafi hvert ríki farið í „heimavarnir“ sem gangi ekki upp. Því það að leyfa faraldrinum að „malla“ á einhverjum stöðum mun hafa áhrif á alla síðar.

„Mesti áhættuþátturinn, sá langsterkasti, sem hefur áhrif þegar kemur að COVID-19, er aldur,“ bendir Arnar. „Það er því ekki órökrétt að horfa á þetta þannig að það borgi sig, til að bjarga sem flestum mannslífum, að einbeita sér að bólusetningum aldraðra alls staðar í heiminum. En það er samt skiljanlega erfitt fyrir stjórnvöld í einstökum ríkjum að segja: Við ætlum að kaupa fullt af bóluefni en viljum frekar bólusetja fullorðið fólk í útlöndum heldur en okkar yngsta fólk.“

Þá komi að markmiðunum, hinum sameiginlegu markmiðum til að vinna á veirunni með vísindin að vopni.

Karlmaður af Mahmeri-þjóðinni mætti í fjörlegum búningi til bólusetningar í Kuala Lumpur, höfuðborg Malasíu.
EPA

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði nýverið, spurð um réttmæti örvunarbólusetninga, að það væri frumskylda íslenskra stjórnvalda að vernda líf og heilsu sinna borgara. Þetta finnst Henry Alexander óheppilegt orðalag, frumskylda sé „býsna stórt orð“. Hann minnir á að orðræða sem þessi hafi áhrif úti í heimi. „Vesturlönd segja: Við ætlum að passa okkur fyrst og fremst en svo fáið þið rest.“

Umræða um einstök bóluefni rati einnig til fátækari ríkja. Það sé t.d. raunin varðandi AstraZeneca, bóluefnið sem nokkur vestræn ríki höfnuðu. Þetta er svo efnið sem sent hefur verið í stórum stíl til Afríku, m.a. vegna þess að það er auðveldara að meðhöndla, t.d. geyma, en flest önnur. „En þau fengu þær fréttir að Evrópulönd vildu ekki þetta bóluefni. Þeirra upplifun er að þau séu að fá það sem mæti afgangi, að það sé ekkert átak í gangi í því að koma bóluefnum til þeirra. Það voru skilaboðin og þau eru hættuleg.“

Fór í bólusetningu í Afríku öðrum til hvatningar

Henry Alexander þekkir þetta frá fyrstu hendi. Hann var í Síerra Leóne í Afríku fyrstu sex mánuði ársins. „Ég ætlaði alls ekki að fá bólusetningu þar, ég ætlaði að bíða þar til ég kæmi heim. En ég lenti í þeirri furðulegu stöðu að fara í bólusetningu því ég vildi sýna öðrum að ég væri ekki hræddur við þetta bóluefni [AstraZeneca] og hvetja þannig aðra til að gera slíkt hið sama.“

Vandamálið sé ekki lengur aðeins það að koma bóluefnum til annarra heimshluta heldur að vinna til baka það traust sem grafið hefur verið undan með orðræðunni. „Þetta hefði þurft að gerast með einhverjum brag og sóma. Og ef við pössum okkur ekki þá gæti þetta endað með því að fólk þiggi ekki bóluefni.“ Það gæti svo aftur í versta falli endað með fordæmalausum aðgerðum, jafnvel afkvíun heimshluta, sem hefðu enn skelfilegri afleiðingar í för með sér.

Öldruð manneskja fær bólusetningu í Kenía.
EPA

Vörn bóluefna er flókið fyrirbæri. Það er fleira en mótefnasvarið sjálft sem þar skiptir máli. Það er ekki klippt og skorið að gera rannsóknir á virkninni þegar raunveruleikinn tekur við því í honum er hegðun fólks stór breyta. Hegðun, sem ýmsar samfélagslegar takmarkanir sem settar voru á í faraldrinum höfðu mikil áhrif á. Einnig skiptir tíðni smita máli, hvaða aldurshópar eru smitaðir og vitanlega afbrigðin.

Þegar yfirvöld í Ísrael ákváðu að gefa örvunarskammta var hegðun Ísraela breytt frá því nokkrum vikum fyrr. Slíkir þættir gætu að mati margra vísindamanna, líkt og rakið er í nýlegri umfjöllun New York Times, haft áhrif á niðurstöður rannsóknar um dvínandi virkni bóluefnis Pfizer og þótti réttlæta örvun.

Þessar rannsóknarniðurstöður rötuðu í fyrirsagnir frétta um allan heim og höfðu áhrif á þá ákvörðun ríkisstjórnar Joes Biden Bandaríkjaforseta að hvetja alla Bandaríkjamenn til að fara í örvunarbólusetningu átta mánuðum eftir fyrri skammtana tvo.

Auglýsing

Verndin sem bóluefnin veita dvínar með tímanum. Um það er ekki deilt en „það er stórkostlegur munur á því að þurfa sprautu á sex mánaða fresti eða fimm ára fresti,“ segir David Dowdy, faraldsfræðingur við John Hopkins-háskóla, við New York Times um hvenær örvunar gæti orðið þörf. „Enn sem komið er, miðað við þau gögn sem við höfum, þá sé ég ekki miklar sannanir fyrir því að við séum komin að þeim tímapunkti.“

Arnar segir minnkandi vörn með tíma fyrirsjáanlega en „óvissan er um hversu mikið og hversu hratt minnkar vörnin. Og minnkar hún meira fyrir vörn gegn smiti, eða vörn gegn alvarlegum einkennum?“

Við fyrstu sýn virðist niðurstaða ísraelsku rannsóknarinnar nokkuð skýr: Fólk sem var bólusett snemma á árinu var líklegra til að smitast en þeir sem höfðu fengið bólusetningu í vor. En þetta er aðeins rétt ályktun ef hóparnir eru sambærilegir og aðstæður þeirra einnig.

Það eru þeir ekki fyllilega.

Í fyrri hópnum var t.d. menntunarstig að meðaltali hærra og sömuleiðis tekjur. Þetta gæti þýtt að hann hafi til dæmis verið viljugri til að ferðast og þar með orðið útsettari fyrir smiti.

„Þetta er einmitt málið með óvissuna sem einkennir vísindin,“ segir Arnar. „Margir þættir hafa áhrif á líkurnar á smiti, og það er erfitt að greina áhrif þeirra sundur, til dæmis ef þættir eins og atferli og aldur eru samtvinnuð. Við erum skynibornar skepnur. Við breytum hegðun okkar út frá upplýsingum sem við fáum. Fólk upplifði sig öruggara með bólusetningu og varð félagslyndara og ferðaglaðara. Með öðrum orðum, það spilaði þannig oftar í covid-rúllettunni en áður. Og það getur verið stór þáttur í niðurstöðum rannsókna.“ .

Ung stúlka fær bólusetningu í Kambódíu.
EPA

Þótt hin ísraelska rannsókn hafi sýnt að fullbólusettir væru að smitast og veikjast þá benda margar rannsóknir til þess að vörn bóluefnanna gegn alvarlegum veikindum sé enn mjög góð og næstum því á pari við það sem hún var áður en delta-afbrigðið kom til sögunnar.

„Bóluefnin sem læknisfræðileg aðferð eru alveg ótrúlega góð,“ segir Arnar með áherslu. „En það er áfram full ástæða fyrir bólusett fólk að fara gætilega.“

Það eru rök fyrir því að gefa viðkvæmum hópum viðbótarbólusetningu. Um þetta eru bæði Sóttvarnastofnun Evrópu og Alþjóða heilbrigðismálastofnunin sammála. Hins vegar mælir hvorug þeirra með örvun bólusetninga heilbrigðs, ungs fólks á þessum tímapunkti. Síendurtekin bólusetning fjölmennra hópa með nokkurra mánaða millibili er auk þess kostnaðarsöm og eykur álag á þegar önnum kafið heilbrigðisstarfsfólk. Hún ætti því ekki að vera forgangsmál nema að vísindalega vel athuguðu máli, sér í lagi á tímum þar sem bóluefni gegn COVID-19 eru enn af skornum skammti.

Mest vernd með fyrstu skömmtum

„Sú aukna vernd sem heilbrigður einstaklingur fær við örvunarbólusetningu er að meðaltali einhver en alltaf lítil miðað við þá vernd sem óbólusettur einstaklingur fær við einn eða tvo skammta,“ segir Arnar. „Þannig að ef við viljum hámarka verndina sem fæst út úr hverjum bóluefnaskammti þá er áhrifaríkast að bólusetja sem flesta með tveimur skömmtum áður en farið er að örva með þeim þriðja.“

Ungur karlmaður fær bólusetningu í Mexíkó.
EPA

Fræðileg líkön um þróun lífvera sem eru að aðlagast nýjum aðstæðum eiga við veiruna einnig. Fyrirsjáanlegt er að fyrstu þróunarskrefin eru stór en svo minnka þau. Það er því ólíklegt að smithæfni kórónuveirunnar sem veldur COVID-19 muni aukast um tugi prósenta í hverju þróunarskrefi sem hún tekur. „En hún gæti samt hlaupið á einhverjum prósentum sem yrði alltaf verulegt vandamál,“ segir Arnar.

Henry Alexander segist skilja að samfélög hafi lokað sig af í upphafi faraldurs nýs sjúkdóms „en mars og apríl árið 2020 eru allt aðrir tímar en ágúst og september árið 2021“. Það hafi verið mikið vísindaafrek að þróa bóluefni fljótt. Hins vegar hafi tækifærið til að ná hámarksárangri í baráttunni ekki verið nýtt. „Það er það verulega sorglega í þessu.“

Arnar segir að héðan af sé ólíklegt að það takist að útrýma veirunni algjörlega. „Besta framtíðarsýnin er að ná að bólusetja sem flesta í heiminum og halda faraldrinum staðbundið í skefjum þannig að það verði ekki til illvígari afbrigði. Að við náum að beisla hana.

Það er líklegt en ekki öruggt að með árunum þróist hún á þann veg að verða mildari og hafi ekki jafn slæm áhrif. Önnur sviðsmynd er að við verðum eftir einhvern tíma næstum öll búin að smitast og þá komi upp hjarðónæmi. Hvort verður ofan á er erfitt að spá fyrir um.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar