Stjórn PLAY hefur safnað bindandi áskriftarloforðum að nýju hlutafé í félaginu með samningum við 20 stærstu hluthafa félagsins. Alls hafa þeir skuldbundið sig til að leggja félaginu til 2,3 milljarða króna. Við það mun útgefið hlutafé í PLAY hækka um rúm 22 prósent. Á sama tíma munu aðrir hluthafar PLAY, sem er skráð á First North markaðinn, þynnast niður.
Tilkynningin um aukningu á hlutafé kemur í kjölfar þess að PLAY birti uppgjör sitt fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2022. Þar kom fram að áframhaldandi tap, um 430 milljónir króna, var á rekstri félagsins á þriðja ársfjórðungi þrátt fyrir að það hafi í fyrsta sinn skilað rekstrarhagnaði á tímabilinu. Alls hefur PLAY tapað 4,2 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2022.
Það bætist við tap upp á 22,5 milljónir Bandaríkjadala, rúmlega 2,9 milljörðum króna miðað við gengi í lok síðasta árs, á árinu 2021. Frá byrjun þess árs hefur PLAY því tapað 7,1 milljarði króna.
Það er í andstöðu við það sem stjórnendur PLAY boðuðu í mars á þessu ári, þegar uppgjör ársins 2021 var kynnt, en þá sögðust þeir gera ráð fyrir rekstrarhagnaði á síðari hluta ársins 2022. Í tilkynningu vegna hlutafjáraukningarinnar er haft eftir Birgi Jónssyni, forstjóra PLAY, að ytra markaðsumhverfi hafi reynst þyngra í vöfum en stjórnendur félagsins hefðu vonast til.
Gengur hratt á handbært fé
Ástæða þess að áætlanir stjórnenda PLAY eru ekki að ganga eftir eru nokkrar, að þeirra eigin mati. Í fyrsta lagi var almenn eftirspurn frá farþegum til Íslands minni síðsumars en þeir bjuggust við „þar sem mörg hótel voru uppbókuð og bílaleigubílar sömuleiðis.“ Þá hafi hliðartekjur einnig verið minni en þeir væntu en þar „skipti mestu aukin eftirspurn eftir handfarangri í stað innritaðs farangurs. Ástæða þeirra breytinga var ótti farþega við erfiðleika á flugvöllum víða um heim.“
Þá hélt hátt olíuverð áfram að leika félagið grátt, en flugvélaeldsneyti var 56 prósent af öllum flugkostnaði PLAY á fyrstu níu mánuðum ársins. PLAY hefur ekki verið með samninga til að verja sig fyrir sveiflum í heimsmarkaðsverði á olíu og félagið gaf það út í vor að það ætlaði ekki að taka upp olíuvarnir fyrr en meiri fyrirsjáanleiki á markaði næst. PLAY ætlaði að mæta þessari stöðu með aukinni ráðdeild í kostnaði og tilkomu sérstaks olíugjalds ofan á miðaverð líkt og margir stærstu samkeppnisaðilar félagsins höfðu innleitt. Það virðist þó ekki hafa dugað til.
Í tilkynningu PLAY, sem send var út samhliða birtingi á ársreikningi félagsins fyrir árið 2021 þann 16. mars síðastliðinni, sagði að engin áform væru uppi um hlutafjáraukningu þar sem lausafjárstaða félagsins væri sterk, bókunarstaðan góð og fyrirtækið bæri engar vaxtaberandi skuldir. Eigið fé PLAY var um 67 milljónir Bandaríkjadala, 8,7 milljarðar króna, um síðustu áramót. Handbært fé þann 30. september var 29,6 milljónir Bandaríkjadala, um 4,4 milljarðar króna, með bundnu fé. Það var 51,7 milljónir Bandaríkjadala, tæplega 7,7 milljarðar króna á núvirði, um síðustu áramót. Eiginfjárhlutfall PLAY var komið niður í 12,1 prósent fyrir rúmum mánuði síðan en var 32,9 prósent í lok árs 2021.
Hlutabréfaverðið helmingast á rúmu ári
PLAY, skráði sig á First North markaðinn í fyrra. Í hlutafjárútboði sem fór fram í aðdraganda skráningar voru seldir hlutir fyrir 4,3 milljarða króna. Eftirspurn var áttföld en alls bárust tilboð upp á 33,8 milljarða króna. Útboðsgengið hjá PLAY nam 20 krónum á hlut fyrir tilboð yfir 20 milljónum króna og 18 krónum á hlut fyrir tilboð undir 20 milljónum króna.
Sú hlutafjáraukning sem nú er fyrir hendi er því til að sækja upphæð sem nemur rúmlega helmingi þess sem upphaflega var sótt.
Á fyrsta viðskiptadegi með bréf félagsins eftir skráningu hækkaði virði þeirra um 23 til 37 prósent og dagslokagengið þann dag, 9. júlí í fyrra, var 24,6 krónur á hlut. Í október náði hlutabréfaverðið því að verða 29,2 krónur á hlut. Síðan þá hefur það hríðfallið og var 15,2 króna á hlut í lok dags í gær. Virðið hefur því næstum helmingast á rúmu ári. Markaðsvirðið er um 10,7 milljarðar króna sem er rúmlega tíu milljörðum króna minna en í október.
Tveir stærstu einkafjárfestarnir í PLAY eru Fiskisund ehf., félag sem Einar Örn Ólafsson stjórnarformaður PLAY fer fyrir, með 8,6 prósent hlut og fjárfestingafélagið Stoðir, stærsti eigandi Símans og stærsti einkafjárfestirinn í Arion banka, með 6,4 prósent hlut. Þá á Eignarhaldsfélagið FEA, sem Skúli Skúlason stýrir og átti um tíma allt hlutafé í PLAY, enn 4,01 prósent hlut. Aðrir stórir hluthafar eru Birta lífeyrissjóður með 8,52 prósent hlut og ílfeyrissjóðurinn Lífsverk með 4,34 prósent