PLAY opnar húddið
Samkvæmt útboðslýsingu PLAY hyggst flugfélagið selja jafnmörg sæti og WOW air gerði árið 2017 innan fjögurra ára. Félagið býst við að skila tapi á rekstri sínum í ár, en ná fimm milljarða króna hagnaði árið 2025.
Flugfélagið PLAY býst við að selja jafnmörg sæti og WOW air gerði árið 2017 innan fjögurra ára. Það stefnir á að hefja flug til Bandaríkjanna næsta vor, en mun halda starfsmannakostnaði í lágmarki með því að láta starfsmenn sína vinna lengur en starfsmenn annarra flugfélaga og taka færri frídaga en starfsmenn WOW air tóku.
Þetta kemur fram í útboðslýsingu PLAY vegna fyrirhugaðs útboðs þess á First North markaðinn í Kauphöllinni í næstu viku. Kjarninn hefur áður fjallað um útboðið, en andvirði þess nemur rúmum fjórum milljörðum króna.
Fleiri tímar, færri frídagar og engir launastigar
PLAY býst við að minni kostnaður verði fólginn í rekstri félagsins miðað við önnur flugfélög sem fljúga yfir Atlantshafið. Þar nefnir félagið sérstaklega starfsmannakostnað, sem það segist hafa náð að halda lágum með nýjum kjarasamningum við flugliða.
Hins vegar stendur í útboðslýsingunni að lítill starfsmannakostnaður sé ekki tilkominn vegna lægri launa, heldur sé dregið úr starfskjörum miðað við önnur flugfélög með öðrum hætti. Þar nefnir félagið til dæmis að flugtímar starfsmanna PLAY séu fleiri en gengur og gerist hjá evrópskum lággjaldaflugfélögum, þar sem flugferðirnar séu að meðaltali lengri.
Einnig bendir PLAY á að engin launastigi sé í boði fyrir starfsmenn félagsins, þeir hækki ekki í launum eftir því sem starfsaldur þeirra hækkar. Launin séu frekar bundin við ábyrgð og vinnutíma starfsmannanna. Þá ætlar fyrirtækið sér heldur ekki að sjá um að keyra starfsfólkið sitt á Leifsstöð úr Reykjavík líkt og Icelandair gerir.
Enn frekar segir PLAY að nýir starfsmenn félagsins fái 24 til 30 frídaga á hverju ári. Þetta er töluvert minna en fjöldi frídaga sem starfsmenn WOW fengu, en þar voru þeir á bilinu 36-38 dagar á ári.
Í útboðslýsingunni segir að heildarlaun óreyndra flugfreyja og flugþjóna að viðbættum dagpeningum muni nema 470 þúsund krónum á mánuði, eða 372 þúsund krónur eftir skatt. Fyrir reyndari starfsmenn muni heildarlaunin nema 532 þúsund krónum á mánuði, eða 424 þúsund krónum eftir skatt.
Ameríkuflug í apríl 2022
Samkvæmt ferðaáætlun félagsins mun það einungis fljúga til áfangastaða í Evrópu í ár og því fyrst og fremst sinna Íslendingum, auk erlendra ferðamanna sem hyggjast heimsækja landið.
Áætlunin mun svo breytast á næsta ári þegar PLAY byrjar að fljúga til Bandaríkjanna, en þá hyggst félagið nota Leifsstöð sem miðstöð fyrir Norður-Atlantshafsflug. Áætlað er að fyrsta Ameríkuflug félagsins verði í apríl á næsta ári.
Samkvæmt PLAY gerir staðsetning Íslands sem miðstöðvar fyrir Atlantshafsflug félaginu kleift að nota smærri flugvélar í stað breiðþota, sem séu kostnaðarsamar í rekstri. Félagið segir að mikil samkeppni sé viðbúin á meðal flugfélaga í Norður-Atlantshafsflugum og sé því mikilvægt að halda rekstrarkostnaði í lágmarki.
Flugfélagið segist njóta góðs af lágu leiguverði flugvéla vegna heimsfaraldursins, en samkvæmt útboðslýsingunni hefur það tryggt sér þrjár vélar á fjórðungi lægra verði en þær voru á fyrir COVID. Búist er við því að flugvélar félagsins verði sex á næsta ári og tíu árið 2023. Innan fimm ára er svo búist við að flugvélarnar verði orðnar 15 talsins, en til samanburðar eru flugvélar Icelandair 39 talsins.
18-falt meiri sala á nokkrum árum
Félagið býst við að starfsemi þess í ár muni skila tapi upp að 15 milljónum Bandaríkjadala, eða 1,8 milljarði íslenskra króna. Á næsta ári er svo gert ráð fyrir að reksturinn verði kominn réttum megin við núllið og skili tæpum hálfum milljarði króna í gróða. Á árunum 2023-2025 er svo búist við að hagnaður félagsins tífaldist og nái rúmum fimm milljörðum króna innan fjögurra ára.
Útreikningar félagsins byggja á því að sætanýting muni aukast töluvert á næstu árum, úr 72 prósent í ár og upp í 89 prósent árið 2025. Einnig gerir félagið ráð fyrir því að olíuverð muni verða jafnhátt og það var á hápunkti sínum árið 2019 og að meðalupphæð sem hver farþegi eyðir í hverri ferð muni hækka úr 20.500 kr. í ár upp í 22.400 kr. á næsta ári. Innan fimm ára verði svo kostnaðurinn kominn upp í 22.800 kr..
Býst við að ná umfangi WOW árið 2017 innan fjögurra ára
Búist er við sprengingu í rekstrarumfangi félagsins á fyrstu árunum, miðað við áætlun þess um fjölda seldra flugsæta. Alls telur félagið að 143 þúsund sæti muni seljast í ár, en að salan verði rúmlega sex sinnum meiri á næsta ári og vaxa enn frekar á næstu árunum eftir það.
Alls telur flugfélagið að fjöldi seldra sæta muni 18-faldast á næstu fjórum árum og ná 2,7 milljónum árið 2025. Til samanburðar ferðuðust 2,8 milljónir farþega með WOW air árið 2017, en þá var þriðjungur farþega um Leifsstöð að ferðast með flugfélaginu, líkt og kemur fram í Viðskiptablaðinu.
PLAY áætlar að 545 starfsmenn vinni hjá félaginu eftir þrjú ár og að allt að 1.400 afleidd störf myndist vegna starfsemi þess. Félagið býst einnig við að flytja 440 þúsund ferðamenn hingað til lands árið 2024, eða um fimmtung af heildarfjöldanum sem kom hingað árið 2019, sem myndu samtals eyða um 50 milljarða króna hérlendis. Þetta er um það bil tvöfaldur fjöldi ferðamanna sem WOW air kom með hingað til landsins árið 2018, þegar rekstur þess var sem umfangsmestur.
Eignir félagsins munu einnig fjórfaldast á næstu fjórum árum, samkvæmt spám um stækkun efnahagsreiknings þess í útboðslýsingunni. Á hinn bóginn er búist við minni vexti í eigin fé, en talið er að það muni nema 72 milljónum Bandaríkjadala í ár og 168 milljónum Bandaríkjadala árið 2025. Þetta jafngildir aukningu eigin fjár úr 8,7 milljörðum króna í rúma 20 milljarða króna. Til samanburðar nam markaðsvirði hlutafjár Icelandair 41 milljarði króna árið 2019.