10 staðreyndir um deilur ASÍ og PLAY

Alþýðusamband Íslands og lággjaldaflugfélagið PLAY hafa tekist á um launakjör og birt harðorðar yfirlýsingar í garð hvors annars síðustu daga. Kjarninn tók saman tíu staðreyndir um deilurnar.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Birgir Jónsson, forstjóri PLAY
Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Birgir Jónsson, forstjóri PLAY
Auglýsing

1: PLAY stefnir að Mið-Evrópukjörum í launamálum

Allt frá stofnun hefur flugfélagið PLAY stefnt að því að halda launakostnaði í lágmarki. Líkt og Kjarninn hefur greint frá innihélt fjárfestatilkynning sem stofnendur PLAY birtu í lok árs 2019 áætlanir um að greiða starfsmönnum fyrirtækisins allt að 37 prósent lægri laun en vori í boði hjá lággjaldaflugfélaginu WOW air.

Í viðtali við Kjarnann í ágúst í fyrra sagði Arnar Már Magnússon, fyrrum forstjóri PLAY, að flugfélagið vildi vera samkeppnishæft hvað varðar launakjör miðað við önnur evrópsk flugfélög. Skúli Skúlason, varaformaður stjórnar PLAY og stærsti hluthafi félagsins, sagði það stefna að svokölluðum “Mið-Evrópukjörum”.

2: Segjast munu fylgja öllum reglum á íslenskum vinnumarkaði

Þrátt fyrir áherslu flugfélagsins um að halda launakostnaði í lágmarki hyggst það ekki ætla að útvista vinnuafli sínu. Birgir Jónsson, nýr forstjóri PLAY, sagði í viðtali við RÚV í síðustu viku að „allar reglur á íslenskum vinnumarkaði verði virtar,“ en að samið yrði við Íslenska flugstéttarfélagið (ÍFF).

Auglýsing

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sakaði PLAY í fyrra um að úthýsa störfum til láglaunalanda þar sem réttindi starfsfólks eru minni og reiða sig á gerviverktöku í gegnum starfsmannaleigur. Hann var þó fljótur að draga ummæli sín til baka eftir að hafa mætt á fund hjá flugfélaginu og rætt við forsvarsmenn þess um kjör og kjarasamninga starfsfólks félagsins. Í kjölfar fundarins birti Ragnar Facebook-færslu þar sem hann sagðist harma það mjög að hafa ályktað að starfshættir félagsins væru vafasamir. „Play verður vitanlega að njóta vafans. Eða þangað til annað kemur í ljós,“ bætti Ragnar við.

3: Hærri föst laun en lægra tímakaup og færri fríðindi

ASÍ og PLAY greinir þó á um raunveruleg launakjör starfsmanna flugfélagsins. Í fyrstu ályktun sem ASÍ sendi frá sér í nýliðinni viku sagði stéttarfélagið að lægstu laun starfsmanna PLAY væru 267 þúsund krónur, miðað við 307 þúsund krónur hjá Icelandair.

Viðskiptablaðið sagði þennan samanburð þó vera villandi, þar sem hann byggði á strípuðum grunnlaunum flugfreyja- og þjóna PLAY, en föstum launum þeirra hjá Icelandair. Samkvæmt fréttinni eru föst mánaðarlaun flugfreyja og flugþjóna hjá PLAY, sem innihalda grunnlaun, vaktaálag og handbókunargjald, tæpar 362 þúsund krónur, eða tugum þúsund meira en hjá Icelandair.

Hins vegar eru fleiri flugtímar innifaldir í grunnlaunum hjá PLAY en hjá Icelandair, auk þess sem greiddir yfirvinnutímar eru færri og dagpeningar og bifreiðastyrkur er lægri. ASÍ bar saman heildarlaun starfsmanna hjá báðum flugfélögunum á fimmtudaginn í síðustu viku, ef miðað væri við sama vinnutíma á mánuði. Samkvæmt þeim samanburði er tímakaupið 30 prósentum lægra hjá PLAY.

4: ÍFF er sakað um að ganga erinda PLAY

Stéttarfélagið sem samdi áðurnefndan kjarasamning við flugfélagið, ÍFF, er þó umdeilt. Samkvæmt ASÍ ber ÍFF þess skýr merki um að vera svokallað „gult“ stéttarfélag, eða skúffustéttarfélag, sem gengur frekar erinda flugfélagsins heldur en fólksins sem vinnur fyrir það. ASÍ segir enn fremur það vera ljóst að ÍFF sé fjármagnað af PLAY.

Arnar Már Magnússon, einn stofnanda PLAY, er hér fyrir miðju, en hann var flugstjóri hjá WOW air.

ÍFF var stofnað árið 2014 og hét þá Íslenska flugmannafélagið. Félagið var stéttarfélag flugmanna WOW air og er ekki aðildarfélag að ASÍ. Í dag er félagið hins vegar orðið löggilt stéttarfélag flugmanna og flugfreyja og hefur það einungis gert samning við PLAY. Vignir Örn Guðnason, formaður félagsins, kallaði kjarasamningana við PLAY „góða og gilda“ og sagðist vera sáttur við þá í viðtali við Viðskiptablaðið í fyrra.

Talsmenn ÍFF tjáðu sig fyrst opinberlega um gagnrýni ASÍ á félagið fyrr í dag, en samkvæmt yfirlýsingu sem það sendi á Vísi furðar það sig á vinnubrögðum ASÍ og segir samtökin vera að reka áróður gegn félaginu og viðsemjanda þess, flugfélagsins PLAY.

5: Lögmæti samningsins dregið í efa og ýmis atriði ekki talin með

Í ályktun ASÍ draga samtökin lögmæti kjarasamningsins í efa, samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Samtökin segja einnig að ekki sé kveðið á um framlög til starfsendurhæfingar, í orlofssjóð, starfsmenntasjóð eða sjúkrasjóð og enn fremur sé ekki gert ráð fyrir launagreiðslum vegna veikinda barna.

Í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni fyrr í dag vék Birgir Jónsson, forstjóri PLAY, frá spurningu þáttastjórnanda um það hvort ekki væri greint frá þessum ákvæðum í samningnum. Samkvæmt honum eiga kjaraviðræður sér stað og stund innan ákveðinna ferla á samningafundum, ekki í fjölmiðlum.

Þó hefur flugfélagið greint frá því opinberlega að starfsfólk PLAY fái greitt vegna veikinda barna samkvæmt reglum á almennum vinnumarkaði og að mótframlag félagsins til ÍFF feli í sér framlag í sjúkrasjóð og félagssjóð stéttarfélagsins.

6: PLAY vill ekki semja við Flugfreyjufélagið

Flugfreyjufélag Íslands, sem er aðildarfélag að ASÍ og stóð að baki kjarasamningagerð flugfreyja hjá Icelandair, sóttist eftir því að semja við PLAY í vor. ÍSprengisandi í morgun sagðist Birgir Jónsson hafa svarað þeirri beiðni neitandi, þar sem flugfélagið væri með fullgildan kjarasamning við annað stéttarfélag.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segist gruna að ÍFF sé svokallað "skúffu-stéttarfélag".

Samkvæmt ASÍ er PLAY að segja sig úr samfélagi hins skipulagða vinnumarkaðar með því að neita að gera kjarasamning við Flugfreyjufélagið, en með því sé félagið að boða til ófriðar og deilna á vinnumarkaði um ófyrirsjáanlega framtíð.

Birgir gagnrýndi hins vegar þrýsting ASÍ um að ganga að samningaborðinu við Flugfreyjufélagið í Sprengisandi. Samkvæmt honum væri það ekki sanngjarnt að nota kjarasamninga við Icelandair, sem væri annað einkarekið fyrirtæki, til grundvallar í samningum við starfsfólk PLAY.

7: PLAY og ASÍ saka hvert annað um að stunda undirboð

Í fyrstu tilkynningu ASÍ um PLAY sökuðu samtökin flugfélagið um að stunda félagsleg undirboð, þar sem grunnlaun starfsmanna þeirra væru töluvert undir atvinnuleysisbótum. Í svari PLAY við þeirri yfirlýsingu segir félagið þó að ASÍ gerist sjálf sek um að stunda félagsleg undirboð með sömu rökum, þar sem grunnlaun starfsmanna Icelandair séu enn lægri, samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins.

8: Laun nýliða helmingi lægri en meðallaun

Ef tölur Hagstofu um meðaltal launa árið 2019 eru framreiknaðar til ársins 2021 með launavísitölu Hagstofu má búast við að regluleg meðallaun Íslendinga nemi 641 þúsundum króna á mánuði þessa stundina. Meðallaun Íslendinga í þjónustustörfum eru nokkuð lægri, eða um 484 þúsund krónur á mánuði.

Samkvæmt útreikningum ASÍ eru heildarlaun flugfreyja og flugþjóna hjá PLAY sem ekki hefur neina reynslu um 364 þúsund krónur á mánuði, gefið að hann fljúgi í 85 tíma á mánuði. Það er tæplega helmingi minna en meðallaun og fjórðungi minna en meðallaun í þjónustustörfum. Þess má geta að heildarvinnutíminn er lengri en 85 tímar í þessum útreikningum, einungis eru hér taldir tímarnir sem starfsfólkið vinnur í loftinu.

Samkvæmt Viðskiptablaðinu verður hins vegar enginn flugliði ráðinn inn sem byrjandi í upphafi hjá PLAY, aðeins fólk með reynslu sem muni fara beint í hærri launaflokka. Flugfélagið segir sjálft að meðaltal mánaðartekna sem almennir flugliðar PLAY geti vænst séu í kringum 500 þúsund á mánuði, en það er svipað og meðallaun Íslendinga í þjónustustörfum.

9: Launakjör svipuð og hjá British Airways

Bloggsíðan These Gold Wings hefur gert samanburð á heildarlaunum óreyndra flugfreyja og flugþjóna nokkurra alþjóðlegra flugfélaga, sem sjá má á mynd hér að neðan. Ef hann er borinn saman við útreikninga ASÍ sést að heildarlaunin eru í hærra lagi hér á landi, miðað við Ryanair, British Airways og Qatar Airways.

Mynd: Kjarninn. Heimild: These Golden Wings og ASÍ.

Mánaðarlaunin hjá Ryanair eru langlægst, en þar geta flugfreyjur án reynslu búist við að fá um 200 þúsund krónur í mánaðarlaun. Lægstu launin hjá Qatar Airways eru einnig rétt yfir 200 þúsund krónum, en óreyndar flugfreyjur geta þó fengið allt að 439 þúsund krónur á mánuði þar. Hjá British Airways geta flugfreyjur búist við 330-400 þúsund krónur á mánuði, en heildarlaun óreyndra flugfreyja hjá PLAY eru þar mitt á milli, samkvæmt útreikningum ASÍ.

Heildarlaun óreyndra flugfreyja hjá Icelandair eru svo hæst á meðal þessara flugfélaga, en þau nema 474 þúsundum króna á mánuði, samkvæmt útreikningum ASÍ.

10: ASÍ hvetur sniðgöngu og PLAY hyggst leita réttar síns

Í yfirlýsingu sinni á miðvikudaginn hvatti ASÍ landsmenn til að sniðganga félagið þangað til það hefði sýnt að það ætli að vera hluti af íslenskum vinnumarkaði og bjóða starfsfólki sínu kaup og kjör sem gilda hér á landi. Sambandið hvetur einnig lífeyrissjóði og aðra fjárfesta til að sniðganga félagið, sem það segir hafa reynt að gera sig gildandi gagnvart þeim með því að stæra sig af óboðlegum launakjörum.

Birgir sagðist hins vegar ekki trúa öðru en að fólk fordæmi þessa aðför ASÍ gegn fyrirtæki sem ynni að því að bjóða samkeppni á íslenskum flugmarkaði í opinberu svar við yfirlýsingu samtakanna. Hann sagðist einnig vera tilbúinn til að fyrirgefa ummælin ef ASÍ drægju þau til baka, en að öðrum kosti myndi félagið leita réttar síns til að bæta þann skaða sem ASÍ ylli með því að hvetja til sniðgöngu.

Uppfært kl. 20:14: Í fyrri útgáfu fréttaskýringarinnar kom fram að ÍFF hefði ekki enn tjáð sig um ásakanir ASÍ, en það gaf út yfirlýsingu fyrr í dag. Fréttin hefur verið uppfært samkvæmt henni.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þórður Snær Júlíusson
Áframhaldandi tilfærsla á peningum úr ríkissjóði til þeirra sem hafa það best
Kjarninn 25. júní 2021
Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Viðbrögð borgaryfirvalda voru til skoðunar hjá ráðuneytinu
Mennta- og menningarmálaráðuneytið var með viðbrögð borgaryfirvalda varðandi plássleysi í sérdeildum grunnskóla borgarinnar til skoðunar. Reykjavíkurborg hefur nú mál einhverfra nemenda til úrlausnar og hefur þegar leyst mörg þeirra, samkvæmt ráðuneytinu.
Kjarninn 25. júní 2021
Mesta aukning atvinnuleysis á Norðurlöndunum
Atvinnuleysi hefur aukist um þrefalt meira hér á landi en á hinum Norðurlöndunum á síðustu tveimur ársfjórðungum, miðað við sama tímabil árið á undan, samkvæmt tölum úr vinnumarkaðskönnun landanna.
Kjarninn 24. júní 2021
Sektað vegna grímuskyldu í Ásmundarsal
Eigendur Ásmundarsalar hafa sent frá sér tilkynningu vegna máls sem kom upp á Þorláksmessu í fyrra er varðar brot á grímuskyldu. Lögreglan neitaði að greina frá niðurstöðunni fyrr í dag.
Kjarninn 24. júní 2021
Eva Dögg Davíðsdóttir
Hringrásarhagkerfið – hvar stöndum við?
Kjarninn 24. júní 2021
Saga Japans
Saga Japans
Saga Japans – 39. þáttur: Veiðiferð sjógunsins I
Kjarninn 24. júní 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var á meðal gesta í samkvæminu í Ásmundarsal.
Lögreglan neitar að upplýsa um niðurstöðuna í Ásmundarsalar-málinu
Lögreglan hóf sjálf hið svokallaða Ásmundarsalar-mál með því að greina frá því að ráðherra, sem síðar var opinberað að væri Bjarni Benediktsson, hefði verið í ólögmætu samkvæmi á Þorláksmessu. Nú neitar lögreglan að upplýsa um niðurstöðuna í málinu.
Kjarninn 24. júní 2021
Drangaskörð eru stórkostleg náttúrusmíð.
Skipuleggja frístundabyggð við ysta haf
Kríuvarp, sóleyjar og jökull. Eitt sérstæðasta náttúrufyrirbrigði Vestfjarða og þótt víðar væri leitað. Þúsund ára menningarsaga. Á landnámsjörðinni Dröngum er fyrirhugað að reisa frístundabyggð. Drangar eru sömuleiðis í friðlýsingarferli að ósk eigenda.
Kjarninn 24. júní 2021
Meira eftir höfundinnJónas Atli Gunnarsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar