Ef marka má yfirlýsingar sænskra stjórnmálamanna undanfarið munu kosningarnar sem boðað hefur verið til í mars á næsta ári, aðeins hálfu ári eftir síðustu þingkosningar, snúast um ábyrgð. Ábyrgð á ríkisfjármálum, ábyrgð á innflytjendastefnu, ábyrgð á atvinnumálum, ábyrgð á skóla- og heilbrigðiskerfi og auðvitað ábyrgð á stjórnun landsins. Sem er merkilegt því ef eitthvað hefur skort síðustu vikur er það einmitt að stjórnmálamenn beri þessa umtöluðu ábyrgð.
Tækifæri Svíþjóðardemókratanna
Í síðustu viku greiddu Svíþjóðardemókratar (SD) atkvæði með fjárlagafrumvarpi mið-hægri bandalagsins og felldu þannig tillögur ríkisstjórnar Stefan Löfvens. Þegar ljóst varð að ekki væri grundvöllur fyrir frekari samningaumleitunum boðaði Löfven til þingkosninga, þótt hann geti að vísu ekki gert það formlega fyrr en 29. desember þegar ríkisstjórn hans hefur náð tilskyldum þremur mánuðum á valdastóli. Ákvörðun SD er söguleg og markar nýja tíma í sænskum stjórnmálum.
Hún kemur hins vegar ekki á óvart. Frá því að SD náði inn á þing í kosningunum 2010 hafa þeir leynt og ljóst stefnt að því að ná lykilstöðu í sænskum stjórnmálum og það markmið náðist í kosningunum í september. Ástæðan er blokkapólitíkin, en samkvæmt gamalli hefð er fáheyrt að flokkarnir vinni saman yfir hina pólitísku miðju. Stærstan hluta tuttugustu aldar stjórnuðu Jafnaðarmenn með stuðningi Vinstri flokksins og það var ekki fyrr en Fredrik Reinfeldt sameinaði mið og hægri flokkana í Bandalagið eða Alliansen árið 2004 sem valdajafnvægið raskaðist verulega. Ríkisstjórn Stefan Löfven samanstendur af Jafnaðarmönnum og Umhverfisflokknum með stuðningi Vinstri flokksins, en í Bandalaginu eru fjórir flokkar, Moderaterna sem er stærstur, Kristdemókratar, Þjóðarflokkurinn og Miðflokkurinn. Bandalagið var í ríkisstjórn 2006-2014 en seinni fjögur árin hafði það ekki meirihluta þingsæta á bak við sig. Svíar eru alvanir minnihlutastjórnum en hingað til hafa þeir treyst því að flokkarnir fylgi ákveðnum leikreglum. Það breyttist í síðustu viku. Þar sem hvorug blokkin hefur meirihluta þingsæta er SD í lykilhlutverki á sænska þinginu, sem hann hefur nú nýtt sér með fyrrgreindum afleiðingum.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar ræðir við fréttamenn.
Kjósa með sínum málum, en ekki á móti málum hinna
Það er ástæða til að ræða aðeins um hefðir og siði í sænska þinginu. Líklega eiga margir erfitt með að skilja hvers vegna það veki athygli að stjórnarandstöðuflokkur kjósi með öðrum stjórnarandstöðuflokkum til að klekkja á stjórninni. Er það ekki einmitt það sem stjórnarandstaðan gerir? Nei, ekki í Svíþjóð. Við fjárlagafrumvarpsgerð leggja flokkar fram tillögur í eigin nafni eða í samvinnu með öðrum flokkum. Venjan er sú að flokkar reyni að fá stuðning annarra fyrir sínum eigin tillögum, en náist hann ekki reyna þeir ekki að koma í veg fyrir að tillögur annarra nái fram að ganga. Ef þessari venju hefði verið fylgt hefði SD kosið með sínum eigin fjárlagafrumvarpstillögum og svo setið hjá þegar kosið var á milli tillagna stjórnarinnar og Bandalagsins. Tillaga ríkisstjórnarinnar hefði þá náð fram að ganga, með minnihluta atkvæða á þinginu á bak við sig. Skrýtið? Já kannski. En lykillinn að því að minnihlutastjórnir geti starfað.
„Þetta þref um það hver hafi brugðist og hverjum hafi borið að láta að kröfum hinna hefur engu skilað nema stjórnarkreppu.“
Á þriðjudag tilkynnti SD að hann hyggðist bregða út af venjunni og kjósa með Bandalaginu, gagngert til þess að fella fjárlög stjórnarinnar og þar með í raun ríkisstjórnina. Löfven boðaði Bandalagið á fund sama kvöld og freistaði þess að ná samkomulagi um að fjárlögin færu aftur í nefnd. Við vildum semja, sagði Löfven, en Bandalagið tók ekki ábyrgð á stöðunni. Löfven hefur aldrei viljað semja í raun og veru, sagði Bandalagið, og hann því ekki tekið ábyrgð á stöðunni. Þetta þref um það hver hafi brugðist og hverjum hafi borið að láta að kröfum hinna hefur engu skilað nema stjórnarkreppu. Og allt spilar þetta upp í hendurnar á SD.
Græða alltaf á stjórnarkreppu
Svíþjóðardemókratar hafa verið harðir á því að þeir muni alltaf græða á þeirri stöðu sem er komin upp. Þeirra helsta takmark er að breyta innflytjendastefnu Svía, sem er með þeim frjálslegustu í heimi, og þeir hóta því að fella öll fjárlög sem falli ekki að þeirra stefnu. Þeir lýstu því einnig yfir að Umhverfisflokkurinn væri höfuðandstæðingur þeirra og að þeir myndu alltaf vinna gegn ríkisstjórn sem leiddi þann flokk til áhrifa. Líklegt er að innflytjendamál verði áberandi í kosningabaráttunni. Fjölmiðlar geta auðvitað ekki gengið framhjá þriðja stærsta flokki landsins með um 13% fylgi í síðustu kosningum, flokkinn sem er ástæða þess að kjósa þarf aftur. Nýlegar kannanir benda svo til þess að SD muni ganga vel í mars. 83% kjósenda hans segjast líklega munu kjósa hann aftur og aðeins 5% íhuga alvarlega að skipta um flokk. Af þeim sem kusu Bandalagið í síðustu kosningum og geta hugsað sér að skipta um flokk, segjast um 30% íhuga að styðja SD. Talan er öllu lægri vinstra megin, en þó um 20%. Því gæti vel farið svo að SD bæti við sig fylgi í vor.
Eins og staðan er núna má allt eins gera ráð fyrir að Kristdemókratar nái ekki inn á þing í kosningunum. Þeir fengu aðeins 4,57% síðast en mörkin til að ná inn á þing eru 4%. Þeir mælast ítrekað undir þessum mörkum og könnunin sem vísað var til hér á undan sýnir að um helmingur kjósenda flokksins íhugar að kjósa annan flokk. Enda hefur lítið sést til Kristdemókrata síðustu vikur og margir sem velta fyrir sér hvaða erindi hann eigi eiginlega í sænsk stjórnmál. Leiðtogi Miðflokksins, Annie Lööf, hefur verið herská í málflutningi sínum frá því að Löfven tók við og það virðist falla vel í kramið hjá kjósendum. Við þetta bætist að flokkurinn á um einn og hálfan milljarð sænskra króna í sjóðum eftir að hann seldi dagblöð í sinni eigu árið 2005. Hann er því vel í stakk búinn til að borga kosningabaráttu vorsins en sjóðir hinna flokkanna eru ekki jafn digrir. Þó hafa atvinnurekendur lýst því yfir að þeir muni leggja ýmislegt á sig til að tryggja gott gengi hægri flokkanna. Þeir segja sporin hræða og að fjárlagafrumvarp Löfvens hefði komið niður á atvinnulífinu.
Stóru flokkarnir í erfiðleikum
Stóru flokkarnir tveir, Jafnaðarmenn og Moderaterna, eiga í töluverðum erfiðleikum. Tveir helstu leiðtogar Moderaterna og um leið sænskra stjórnmála hættu eftir kosningaósigurinn í haust. Spor Fredrik Reinfeldt og Anders Borg eru vandfyllt en þó telja flestir líklegast að Anna Kinberg Batra verði eftirmaður Reinfeldts á formannsstóli. Anna er gift David Batra sem er þekktur uppistandari og leikari í Svíþjóð. Hann er fæddur í Svíþjóð en faðir hans er af indverskum uppruna.
Hér að neðan má sjá David Batra rökræða við formann SD Jimmie Åkesson.
Ólíklegt er að Anna Batra breyti innflytjendastefnu Moderaterna en innan flokksins hafa margir sagt að hann þurfi að bregðast við uppgangi SD. Það getur aðeins þýtt harðari stefnu gegn innflytjendum og að Svíþjóð taki við færri flóttamönnum. Til stóð að hafa formannskosningar í mars en þeim hefur nú verið flýtt fram í byrjun janúar. Á næstu vikum kemur í ljós hvort hún fái mótframboð en hún á mikið verk óunnið að sanna sig sem forsætisráðherraefni Bandalagsins.
„Sú ákvörðun Löfven að boða til kosninga hefur komið mörgum á óvart. Hann tók hana að loknum fundi með Bandalaginu á þriðjudagskvöld og nú þegar deila menn um hvað var sagt fyrir aftan þessar frægu luktu dyr.“
Löfven glímir við annars konar vandamál. Fylgi Jafnaðarmanna hefur minnkað jafnt og þétt og jafnvel þótt þeir hafi lýst yfir sigri í síðustu kosningum er 31% fylgi mjög lágt í sögulegu samhengi og var langt frá 35% markinu sem flokkurinn setti sér. Löfven hefur einnig verið legið á hálsi fyrir að lesa pólitíkina ekki mjög vel. Bakgrunnur hans er úr verkalýðshreyfingu þar sem fylkingar takast á en ná alltaf samkomulagi að lokum. Í pólitík geta menn grætt á að gera ekki samkomulag. Stjórnmálaskýrendur velta nú fyrir sér hvort hann hafi áttað sig á þessu í refskák undanfarinna vikna. Löfven gengur til kosninga með það á bakinu að hafa mistekist að koma fjárlögum í gegn og stýrt einni skammlífustu ríkisstjórn sænskra stjórnmála. Frá því í kosningabaráttunni hefur hann ítrekað lýst því yfir að hann sé reiðubúinn að vinna með öllum flokkum nema SD en erfitt er að átta sig á hversu mikil alvara er að baki þessum orðum. Ef marka má Bandalagið var raunverulegur vilji aldrei fyrir hendi.
Tvær kenningar eru uppi um árangur stóru flokkanna í vor. Annars vegar að þeim muni ganga vel, því kjósendur vilji frekar öryggið sem fylgi þeim. Hins vegar að þeim verði refsað fyrir að leysa ekki vandamálin sem upp komu í haust.
Hvers vegna nýjar kosningar en ekki afsögn?
Sú ákvörðun Löfven að boða til kosninga hefur komið mörgum á óvart. Hann tók hana að loknum fundi með Bandalaginu á þriðjudagskvöld og nú þegar deila menn um hvað var sagt fyrir aftan þessar frægu luktu dyr. Formaður Þjóðarflokksins, Jan Björklund, segir að þar hafi talsmaður Umhverfisflokksins vakið máls á því að Bandalagið myndaði stjórn ef þeirra fjárlög yrðu samþykkt. Þessu harðneitar talsmaðurinn sem segir að Björklund ætti að þrífa eyrun áður en hann mæti á svona fundi. Björklund bætti svo um betur og sagði að léttara hefði verið fyrir Löfven að ná samkomulagi við Bandalagið ef hann sliti samstarfinu við Umhverfisflokkinn og Vinstri flokkinn. Hvað svo sem var sagt er ljóst að ríkisstjórn Bandalagsins hefði alltaf þurft að treysta á stuðning Svíþjóðardemókrata til að ná málum í gegn. Og sú staða er ekki ákjósanleg.
Sænskir stjórnmálaleiðtogar (frá vinstri) Goran Hagglund formaður Kristdemókrata,
Anna Kinberg Batra formaður Moderaterna, Jan Björklund formaður Þjóðarflokksins, og Annie Loof leiðtogi Miðflokksins, á blaðamannafundi.
Líkur á óbreyttri stöðu í vor
Ef vika er langur tími í pólitík eru 4 mánuðir heil eilífð, sérstaklega í þeirri óvissu sem nú ríkir. Þótt skoðanakannanir gefi til kynna að Svíþjóðardemókratar haldi stöðu sinni eftir kosningarnar sem þriðji stærsti flokkurinn getur auðvitað margt gerst. Líklegast er hins vegar að hvorug blokkin nái meirihluta atkvæða og þar með verði nákvæmlega sama staða eftir kosningarnar í mars. Þessu átta menn sig á og hafa fulltrúar blokkanna tveggja tekið vel í samningaviðræður um það hvernig eigi að bregðast við slíkri stöðu. Nauðsynlegt sé að gera minnihlutastjórnum kleift að starfa í framtíðinni.
Rétt er að taka fram að til 29. desember er ennþá möguleiki fyrir flokkana að ná samkomulagi og hætta við kosningarnar. Yfirlýsingar síðustu daga benda þó til að menn séu komnir í kosningaham. Það á ekki síst við um samfélagsmiðla sem strax hafa fyllst af flokksgæðingum með lofræður og skítkast á víxl. Það eru spennandi tímar í sænskum stjórnmálum. Ekki er að fullu ljóst hvar sú vegferð endar en ljóst er að Svíþjóðardemókratar munu þar leika lykilhlutverk. Og það er hættuleg tilhugsun.