Hvað verður um hunda drottningar, litlu corgi-hundana sem hún hefur dýrkað og dáð frá því í æsku?
Þessa spurningu mátti heyra oftar en margar aðrar eftir að fregnir bárust af andláti Elísabetar Englandsdrottningar í síðustu viku.
Nú liggur fyrir að Andrés prins, annar tveggja sona Elísabetar og Filippusar, mun taka við hundunum. Hlutskipti bræðranna við fráfall drottningarinnar er því nokkuð ólíkt. Eldri bróðir hans, Karl, er eins og flestum ætti að vera kunnugt, orðinn Bretlandskonunungur, Karl III.
En Andrés mun ekki sjá einn um hundana, síður en svo. Sarah Ferguson, hertogaynjan af York, fyrrverandi eiginkona Andrésar mun einnig sjá um hunda drottningar, Muick og Sandy, tvo unga corgi-hunda, sem Andrés og dætur hans, Beatrice og Eugenie, færðu Elísabetu drottningu að gjöf í fyrra.
Drottningin átti einnig Candy, blöndu af corgi og dachshund, „dorgi“, og mun hún að öllum líkindum fylgja Muick og Sandy. Tegundin varð til fyrir slysni með hjálp frá Pipkin, dacshund sem var í eigu Margrétar, yngri systur Elísabetar. Candy er eini eftirlifandi dorgi-hundurinn en Candy kom inn í konungsfjölskylduna árið 2007 ásamt þremur öðrum af sömu tegund.
Velski corgi á mögulega rætur að rekja til Íslands
Corgi-hundarnir sem hafa verið í eigu drottningar í gegnum tíðina eru af tegundinni welsh corgi pembroke og heyra undir fjár- og hjarðhunda. Velski corgi á sér yfir þúsund ára sögu og samkvæmt umfjöllun Hundaræktarfélags Íslands eru mögulegir forfeður hans eru íslenski hundurinn og hinn sænski Walhund. Samkvæmt einni þjóðsögu eiga álfar að hafa notað velska corgi eins og hesta vegna hentugrar stærðar þeirra, en corgi þýðir dverghundur á velsku.
Andrés og dætur hans, að frumkvæði móður þeirra, gáfu Elísabetu drottningu Muick og dorgi-hvolpinn Fergus síðasta vor. Vildu þau færa drottningunni hvolpana til að létta lundina á erfiðum tímum þegar Filippus drottningamaður var á spítala. Ef það var einhver sem furðaði sig á dálæti drottningarinnar á ferfætlingum var það einmitt Filippus. „Fjárans hundarnir. Af hverju áttu svona marga?“ á drottningamaðurinn að hafa sagt, oftar en einu sinni.
Filippus lést í 9. apríl 2021, 99 ára að aldri, en aðeins mánuði síðar lést Fergus, sem nefndur var í höfuðið á frænda drottningar í móðurætt, Fergus Bowes-Lyon, flotaforingja í breska hernum sem lét lífið í fyrri heimsstyrjöldinni. Corgi-hundurinn Fergus var aðeins fimm mánaða þegar hann kvaddi en talið er að banamein hans hafi verið hjartagalli. Drottningin var sögð miður sín eftir missinn og færði Andrés henni hvolpinn Sandy á 95 ára opinberan afmælisdag drottningarinnar, í júní í fyrra.
Muick, Sandy, og að öllum líkindum Candy, munu búa í Royal Lodge í Windsor þar sem Andrés hefur búið frá því að Elísabet drottningamóðir lést árið 2002. Andrés og Sarah skildu fyrir 26 árum en hafa búið saman í Royal Lodge síðan þá. Hertogaynjan og drottningin héldu vinskap eftir skilnaðinn og héldu áfram reglulegum göngutúrum þar sem þær viðruðu hundana í Frogmore, í nágrenni Royal Lodge, og spjölluðu um daginn og veginn. Eftir fráfall hennar sagði Sarah að drottningin hefði verið „stórkostleg tengdamóðir og vinkona“ og að hún muni „sakna hennar meira en orð fá lýst“.
Hundarnir geta haft áhrif á framtíð prinsins innan konungsfjölskyldunnar
Samband hjónanna fyrrverandi virðist vera með ágætum en styr hefur staðið um Andrés prins síðustu ár eftir að fregnir bárust af vinskapi prinsins við barnaníðinginn og auðkýfinginn Jeffrey Epstein. Andrés veitti fréttaskýringaþættinum The Newsnight á BBC umdeilt viðtal í nóvember 2019 þar sem hann þvertók fyrir að hafa brotið kynferðislega á unglingsstúlku. Bar hann fyrir sig að vitnisburður hennar gæti ekki staðist þar sem „hann gæti ekki svitnað“ sökum áfalls sem hann varð fyrir í Falklandseyja-stríðinu.
Í frásögn hennar kom fram að Andrés væri „viðbjóðslegasti dansari“ sem hún hafi séð á ævinni og lýsti hún því í Panorama, fréttaskýringaþátt BBC, í desember 2019 hvernig svitadropar spýttust í allar átti frá prinsinum. Unglingsstúlkan, sem í dag er 39 ára, er Virginia Giuffre. Í viðtalinu sagði hún Epstein hafa gert hana út til Bretlands árið 2001 þar sem hún hafi meðal annars verið þvinguð af Epstein til að hafa kynmök við Andrés prins.
Hún kærði prinsinn fyrir að hafa nauðgað henni þrisvar sinnum þegar hún var 17 ára. Í kjölfar ásakananna sagði hann sig frá öllum opinberum konunglegum skyldum. Í upphafi árs tilkynnti konungsfjölskyldan að ákveðið hefði verið að svipta Andrés öllum hertitlum, þrettán talsins, auk þess sem hann hætti afskiptum sem verndari ýmissa samtaka. Þá er hann ekki lengur ávarpaður sem hans hátign (e. his royal highness).
Málaferli stóðu yfir í New York í nokkra mánuði og fór vörn yfir Andrési fram eins og um almennan borgara væri að ræða. Í febrúar gerðu Andrés og Giuffre samkomulag utan dómstóla þar sem málið var látið niður falla. Andrés féllst á greiða ákveðna upphæð og viðurkenndi að Giuffre sé fórnarlamb misnotkunar. Þá fól samkomulagið einnig í sér að Andrés greiddi ákveðna upphæð til góðgerðasamtaka Giuffre sem standa vörð um fórnarlömb kynferðisofbeldis.
Andrés hefur því staðið að mestu utan konungsfjölskyldunnar og krafta hans ekki verið óskað í konungshöllinni en við andlát Elísabetar er hann að nýju orðinn sýnilegri. Athygli vakti þegar Andrés gekk ásamt systkinum sínum á eftir líkkistu drottningar í Edinborg í vikunni í jakkafötum á meðan Karl konungur, Anna og Játvarður voru í herklæðum. Sami háttur verður hafði á við útför drottningar sem fram fer á mánudag, þar sem Andrés hefur afsalað sér öllum hertitlum. Ein undantekning verður gerð þegar systkinin munu standa vörð um líkkistu móður sinnar í London þegar Andrési verður heimilt að klæðast herbúningi.
Hvað sem konunglegum titlum og hertitlum líður eru konunglegir corgi-hundar hluti af lífi Andrésar prins, Söruh Ferguson, fyrrverandi eiginkonu hans, og dætra.
Hluti af lífi drottningar í nærri 90 ár
En af hverju corgi? Svarið er í raun sáraeinfalt. Þegar Elísabet var sjö ára áttu vinir foreldra hennar corgi-hund og hana langaði í þannig líka. Sú ósk rættist þegar Elísabet var 11 ára þegar faðir hennar, Albert, hertoginn af York, sem þá var ekki orðinn konungur, færði henni og Margréti systur hennar hundinn Dookie.
Corgi-hundar áttu eftir að fylgja Elísabetu alla tíð og átti hún yfir þrjátíu talsins á lífsleiðinni. Þeir skiptu allir Elísabetu miklu máli en tenging hennar við tíkina Susan var einstök. Á 18 ára afmælisdag Elísabetar eignaðist hún Susan sem fylgdi henni í gegnum margar af stærstu stundum í lífinu. Hún fylgdi Elísabetu og Filippusi í brúðkaupsferðina og var henni til halds og trausts þegar faðir hennar lést og Elísabet varð drottning.
„Ég kveið því alltaf að missa hana,“ ritaði drottningin í minningarorðum um Susan árið 1959. Susan er grafin í gæludýrakirkjugarðinum í Sandringham, kirkjugarði sem Viktoría drottning kom á fót á 19. öld.
Arfleifð Susan lifði þó áfram en Elísabet eignaðist yfir 30 corgi-, eða dorgi-hunda, sem allir voru afkomendur Susan. Í yfir átta áratugi átti hún að minnsta kosti einn, oftast fleiri, corgi. Willow var síðasti afkomandi Susan sem var í eigu drottningar. Hann gerði garðinn meðal annars frægan í kynningarmyndskeiði fyrir Ólympíuleikana í London ásamt drottningunni og James Bond.
Willow kvaddi fyrir fjórum árum og þar með lauk sögu afkomenda Susan. Elísabet vildi segja skilið við ræktunina þar sem hún vildi ekki skilja eftir unga hunda þegar hún sjálf myndi kveðja. Hún gat þó ekki hugsað sér að vera án hunda og fylgdi Candy henni hvert fótmál. Sandy og Muick bættust svo við í fyrra en nú segja hundarnir skilið við Buckinghamhöll, að minnsta kosti um sinn.