Hvorki skyndileg afsögn Sepp Blatter, forseta alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA, né fregnir þess efnis að bæði svissnesk yfirvöld og bandaríska alríkislögreglan FBI séu nú að rannsaka hvort heiðarlega hafi verið staðið að kosningunni um réttinn til að halda heimsmeistaramótið árið 2018 - virðast hafa hreyft mikið við gestgjöfunum tilvonandi, Rússum.
"Við gerum ráð fyrir því að herra Blatter muni sinna skyldum sínum fram að næsta þingi alþjóða knattspyrnusambandsins. Við munum því halda áfram samstarfi okkar og það sem mestu máli skiptir, halda áfram undirbúningi okkar fyrir heimsmeistaramótið 2018,” er haft eftir talsmanni Pútíns Rússlandsforseta í rússneskum fjölmiðlum í kjölfar þeirrar “spillingaröldu” sem gengið hefur yfir alþjóða knattspyrnuheiminn síðustu daga.
Pútín tjáði sig reyndar sjálfur um aðgerðir Bandaríkjamanna í nýlegu viðtali við RT sjónvarpsstöðina og furðaði sig þá á hinum langa armi laganna í Bandaríkjunum. “Þetta er enn ein tilraun þeirra til þess að þröngva eigin löggjöf upp á aðrar þjóðir. Það er augljóslega verið að þrýsta á Blatter til að taka heimsmeistaramótið 2018 af Rússum,” sagði Pútín ómyrkur í máli.
Kynþáttahatur er alvarlegt vandamál á knattspyrnuvöllum í Rússlandi. Á myndinni sjást stuðningsmenn Spartak Moskvu með nasistafána. MYND: Str/AP
Spilling á spillingu ofan
Ásakanir um spillingu eru vitanlega engin nýlunda þegar kemur að FIFA. Kosningar um réttinn til að halda heimsmeistaramót virðast þar sérstaklega vera kjörinn vettvangur fyrir ólögmæta hegðun. Bandaríkjamaðurinn Chuck Blazer, fyrrum stjórnarmeðlimur hjá FIFA, viðurkenndi nú á dögunum að hafa verið á meðal “nokkurra” aðila sem þegið höfðu mútur í skiptum fyrir atkvæði sitt í aðdraganda kosninga um réttinn til að halda heimsmeistaramótið árið 1998 annars vegar og árið 2010 hins vegar. Uppljóstrun Blazer var því raunar fyrst og fremst frekari staðfesting á því sem þegar var vitað um spillinguna innan FIFA.
Í aðdraganda kosningarinnar um réttinn til að halda heimsmeistaramótið árið 2018, sem var haldin samtímis kosningunni um mótið árið 2022, voru einmitt tveir af tuttugu og fjórum stjórnarmönnum FIFA á kjörskrá sviptir kosningarétti sínum fyrir meinta mútuþægni. Aðrir þrír stjórnarmenn FIFA til viðbótar voru ennfremur nafngreindir og ásakaðir um spillingu í þættinum “FIFA’s Dirty Secrets” sem breska ríkissjónvarpið BBC sýndi aðeins nokkrum dögum fyrir kosningarnar. Við nánari athugun kemur svo reyndar í ljós að af þeim tuttugu og tveimur aðilum sem tóku þátt í kosningunum - hefur alla vega helmingur kjósendanna verið sterklega bendlaður við spillingu, á einn eða annan hátt, í stjórnartíð sinni hjá FIFA.
Hvernig sem því líður þá tilkynnti Blatter um sigur Rússlands þann 2. desember árið 2010, en Svisslendingurinn hefur síðar ekki farið leynt með stuðning sinn við Rússa og þá sérstaklega við Pútín. Rússar fengu sem sagt níu atkvæði í fyrstu umferð atkvæðagreiðslunnar á meðan sameiginlegt framboð Spánverja og Portúgala fékk sjö atkvæði, en tólf atkvæði þurfti til að vinna kosninguna. Englendingar voru aftur á móti neðstir með aðeins tvö atkvæði í fyrstu umferðinni og féllu strax úr leik, en einhverjir kenndu heimildarþætti BBC þar um með því að skapa framboði Englendinga óvild. Rússar lönduðu svo sigrinum nokkuð sannfærandi í annarri umferð atkvæðagreiðslunnar með þrettán atkvæðum gegn sjö atkvæðum Spánverja og Portúgala.
Katar vann samdægurs baráttuna um réttinn til að halda heimsmeistaramótið árið 2022 en í umræðunni síðustu daga hefur miklu frekar verið ræddur möguleikinn um að Katar missi rétt sinn frekar en Rússar til mótshalds, ef færðar verða sönnur á að ólögmætar kosningar hafi átt sér stað. Enda Rússar komnir langt á veg með undirbúning sinn fyrir mótið árið 2018.
Gríðarlegar endurbyggingarframkvæmdir standa nú yfir á Luzhniki-leikvanginum en bæði opnunarleikur og úrslitaleikur heimsmeistaramótsins árið 2018 verða spilaðir þar. MYND: Stadiumdb.com
Pólitískar hótanir og kynþáttafordómar
Þrátt fyrir að ólíklegt verði að teljast að rannsókn svissneskra og bandaríska stjórnvalda eigi eftir að koma í veg fyrir að Rússar muni halda næsta heimsmeistarmót - þá eru önnur eldfim málefni sem gætu leitt til þess að ákveðnar þjóðir neiti alfarið að taka þátt í mótinu.
Innlimun Rússa á Krímskaga og áframhaldandi pólitískar þvinganir í garð Rússa í kjölfarið gætu mögulega þróast í þá átt að einhverjar þjóðir ákveði að sniðganga heimsmeistaramótið 2018. Í þessu samhengi er vert að minnast þess að Bandaríkjamenn leiddu hóp þjóða sem ákvað að sniðganga sumarólympíuleikana í Moskvu árið 1980 til að mótmæla innrás Sovétríkjanna inn í Afganistan sem hófst árið áður. Sovétmenn og bandamenn þeirra svöruðu svo með því að sniðganga sumarólympíuleikana í Los Angeles fjórum árum síðar.
Þá eru kynþáttafordómar á knattspyrnuvöllum orðnir mjög alvarlegt og djúpstætt vandamál í Rússlandi. Samkvæmt skýrslu Fare network -og SOVA centre-samtakanna voru tilgreind yfir tvö hundruð atvik tengd kynþáttafordómum á knattspyrnuvöllum landsins frá maí 2012 til maí 2014. Í skýrslunni er ennfremur tekið skýrt fram að þessi atvik séu ekki tæmandi talning og bæði knattspyrnusamband Rússlands og rússnesk stjórnvöld eru eindregið hvött til að taka þetta vandamál fastari tökum.
Knattspyrnusambandið svaraði skýrslunni með því að koma á laggirnar vinnuhóp sem hefur það verkefni að gefa skýrslu um öll atvik kynþáttafordóma hjá stuðningsmönnum félaga í rússnesku deildinni. Knattspyrnusambandið refsar svo viðkomandi félögum í kjölfarið. Félagið Torpedo Moskva var til að mynda í fjórgang dæmt til að greiða sektir og var í tvígang dæmt til að spila heimaleiki sína fyrir luktum dyrum vegna kynþáttafordóma stuðningsmanna þess á nýafstöðnu tímabili. Harðnandi aðgerðir af þessu tagi eru vissulega til marks um viðleitni rússneska knattspyrnusambandsins til að uppræta kynþáttafordóma á knattspyrnuvöllum en ljóst þykir að ennþá sé langt í land hvað það varðar.
Fangar notaðir sem ódýrt vinnuafl?
Efnahagsvandamál Rússlands hafa verið í sviðsljósinu upp á síðkastið og því myndu eflaust margir telja að undirbúningur heimsmeistaramótsins gæti reynst þungur fjárhagslegur baggi fyrir Rússa að bera. Rússnesk stjórnvöld ákváðu því nýverið að skera niður kostnað um 70 milljónir dollara í undirbúningi fyrir mótið og heildarkostnaðaráætlun hljóðar núna upp á um það bil 12,7 milljarða dollara.
Fregnum þess efnis að Rússar ætli sér að nota fanga til að halda niðri kostnaði í miklum byggingaframkvæmdum tengdum heimsmeistaramótinu hefur reyndar verið haldið á lofti í vestrænum fjölmiðlum síðustu daga. Alexander Khinshtein, meðlimur neðri deildar rússneska þingsins, Dúmunar, er þar sagður vera að undirbúa tillöguna í samstarfi við fangelsisyfirvöld í Rússlandi. Engar marktækar staðfestingar liggja þó fyrir um málið.
Meðal þeirra byggingaframkvæmda sem ráðist var í er umfangsmikil endurbygging á hinum fræga Luzhniki-leikvangi í Moskvu en bæði opnunarleikur og úrslitaleikur mótsins fer þar fram. Heimsmeistaramótið mun fara fram á alls tólf leikvöngum í ellefu borgum Rússlands. Að öllu óbreyttu verður svo dregið í riðla fyrir undankeppni heimsmeistaramótsins við hátíðlega athöfn í Pétursborg þann 25. júlí næstkomandi.