Vegum hefur skolað burt, byggingum sömuleiðis. Landbúnaðarsvæði eru ónýt og hundruð þúsunda manna hafa orðið innlyksa, Komast hvergi. Hafa misst allar sínar veraldlegu eigur. Og jafnvel ástvini.
Um þriðjungur Pakistans hefur farið á kaf í hinum fordæmalausu flóðum sem þar geisa. Meira en eitt þúsund manns hafa týnt lífi. Hinar árstíðabundnu monsún-rigningar hafa verið sérstaklega ákafar þetta sumarið. Það hefur rignt. Og það hefur rignt. Og það heldur áfram að rigna.
Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru taldar stór þáttur í hamförunum nú. Í fyrsta lagi hefur úrkomuákefðin aukist, sem er talin sterk vísbending um áhrif breytinganna, og í öðru lagi hafa jöklar hopað. Í Pakistan eru fjölmargir jöklar, yfir 7.200 talsins, fleiri en á nokkrum stað á jarðríki ef frá eru talin heimskautasvæðin. En þar sem hitastig er tekið að hækka vegna loftslagsbreytinga hefur það áhrif á bráðnun jöklanna. Þeir hopa þegar ákoman verður minni og bráðnunin meiri. Þegar jafnvægi þeirra er raskað. Jökulvatnið streymir því niður fjallshlíðarnar og blandast rigningarvatninu. Margfaldar kraft þess og umfang allt. Og úrkoman sem féll áður sem snjór er líklegri til að falla sem regn eftir því sem hitastig hækkar.
Losa um 1 prósent gróðurhúsalofttegunda
„Í stað þess að halda mikilfengleika þeirra og vernda þá fyrir komandi kynslóðir og náttúruna þá erum við að horfa á þá bráðna,“ sagði Sherry Rehman, loftslagsráðherra Pakistans, í viðtali í vikunni. Óttast er að Pakistan, sem vegna takmarkaðra innviða og fátæktar er meðal þeirra tíu ríkja sem eru hvað berskjölduðust fyrir loftslagsbreytingum, eigi eftir að þurfa að fást við meiri og tíðari flóð í framtíðinni. Landbúnaður er stærsta atvinnugreinin, grein sem er háðari veðri og vindum en nokkur önnur. Hraðar loftslagsbreytingar gætu kollvarpað grunnstoðum margra samfélaga því tími mun þá ekki gefast til nauðsynlegrar aðlögunar.
Loftslagsbreytingar virða engin landamæri. Þær bitna því auðvitað ekki eingöngu á þeim sem menga mest. Stjórnvöld í Pakistan hafa bent á að samkvæmt niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna megi rekja innan við eitt prósent af losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum til landsins. Þetta benda þau á til að setja hlutina í samhengi – setja í samhengi þann skaða sem ríkin sem menga mest eru að valda þeim sem minnsta ábyrgð á yfirvofandi hamförum bera. Að þyngstu byrðarnar af loftslagsbreytingum af mannavöldum leggist á fátæk ríki sem stóli á landbúnað og aðrar náttúruauðlindir.
Rannsóknir sem gerðar voru á jöklunum í Himalaya-fjöllunum á síðasta ári, fjallgarðinum sem m.a. liggur um Pakistan, sýnir að bráðnun er hraðari og meiri en áður var talið. „Niðurstöður okkar sýna að ísinn tapast nú í jöklum Himalaya-fjallanna á að minnsta kosti tíu sinnum meiri hraða en að meðaltali síðustu hundrað ár,“ var haft eftir Jonathan Carrivick, aðalhöfundi rannsóknarinnar, er hún kom út.
Aðstæður í Pakistan eru með þeim hætti að fari saman árstíðabundnar rigningar og þessi mikla bráðnun er voðinn vís. Og það er einmitt það sem hefur sýnt sig síðustu daga. Ástæðan fyrir því að monsún-rigningar verða ákafari með auknum áhrifum loftslagsbreytinga er sú að heitara loft getur haldið í sér meiri raka sem svo fellur til jarðar við ákveðnar aðstæður í lofthjúpnum.
En fleira kemur til, segir í ítarlegri fréttaskýringu bandaríska fréttamiðilsins VOX um málið.
Í fjöllunum í Pakistan eru jökullón. Jöklar og ísjakar mynda í þeim stíflur en þegar vatnið í þeim eykst myndast meiri þrýstingur á stíflurnar og þær bresta. Þetta, til viðbótar við það sem á undan er talið, getur aukið hættuna á skyndiflóðum á láglendi.
Hættan varð bersýnileg í apríl sem var óvenjulega heitur í landinu. Þá brast stífla við lón vegna hraðrar bráðnunar jökulsins og vatnið flæddi yfir þorp og hreif með sér brýr. Á þessum slóðum, í norðanverðu landinu, eru hundruð jökullóna sem vísindamenn segja að fyllist nú fyrr með hverju árinu sem líði. Vísindamenn segja mikla hættu á því að stíflur í 33 þeirra bresti sem hefði ófyrirséðar afleiðingar í för með sér.
Aðlögun nauðsynleg
Úr því sem komið er, vilja margir vísindamenn meina, verður ekki hægt að snúa þessari þróun við, jafnvel þótt háleit markmið um að halda hlýnun innan 1,5 gráða, náist. Vissulega er hægt að draga úr hraða breytinganna, að því er talið er, en jöklarnir í Pakistan munu halda áfram að rýrna. Þess vegna þarf að horfa til aðlögunar, að ríki fari í aðgerðir sem miða að því að verjast áhrifunum sem líklega verða ekki umflúin úr þessu.
Áratugur er síðan að efnameiri ríki hétu því að veita þeim efnaminni fjárstuðning í þessu skyni. Stjórnvöld í Pakistan krefjast þess nú að þau loforð verði uppfyllt að fullu. „Þróunarríki sem eru ekki ábyrg fyrir meirihluta losunar, þurfa of oft að fást við mestu afleiðingar loftslagsbreytinga,“ segir Aamir Khan, sendiherra Pakistans gagnvart Sameinuðu þjóðunum. „Viðurkenna verður þær áskoranir sem þróunarríki standa frammi fyrir núna vegna loftslagsbreytinga.“
Bæjarbúar í Nowshera í norðurhluta Pakistan hafa notað slöngur úr bíldekkjum eins og björgunarhringi til að halda sér á floti og komast um gruggugt vatnið sem flæddi um götur og inn í hvert einasta hús og eyðilagði flest sem fyrir varð. Óttast er að farsóttir taki við af flóðunum enda mikil hætta á alls konar mengun í vatninu.
Settar hafa verið upp tjaldbúðir fyrir hundruð manna sem hafa misst allt sitt. Aðrir reyna að hafa auga með húsum sínum, eða það sem eftir er af þeim, þótt enn sé töluvert í að hægt sé að dvelja í þeim.
Bíða þarf eftir því að vatnið sjatni. Að ekki þurfi að vaða upp að hnjám eða mitti í eldhúsinu eða svefnherbergjunum. Fólk í mörgum þorpum hefur ekki komist heim til sín í fleiri daga og jafnvel vikur. Það þakkar fyrir að vera á lífi en óttast hungur og algjört tekjufall þar sem uppskerur eru ónýtar og skepnur drukknaðar.
Monsún-rigningarnar eru oft gríðarlega á þessum slóðum. En fólk man ekki eftir öðru eins. Úrkoman hefur verið margfalt meiri en í meðalári á sumum svæðum. „Monsún-rigning á sterum“, sagði António Gutterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, á þriðjudag. Heimsbyggðin væri að „ganga í svefni“, beint inn í „hrun umhverfisins“.
Víða hefur stytt upp. En á öðrum svæðum fer ástandið versnandi. Hlaup eru hafin í jökulám sem ná munu byggð innan skamms.
Eyðileggingin og mannfallið gæti því enn átt eftir að aukast.