Í ræðu sem Ed Miliband, formaður Verkamannaflokksins, hélt í lok vikunnar lofaði hann að lækka skólagjöld í háskólum á Englandi. Þar eru hæstu skólagjöld sem þekkjast innan Evrópusambandsins og þau fimmtu hæstu innan landa OECD. Þar að auki er kostnaðarþátttaka námsmanna á Englandi há miðað við önnur lönd í Norður og Vestur-Evrópu, þó margir nýti sér námslánakerfið sem býður nokkuð hagstæð kjör miðað við almennan markað.
Hvert svæði innan Bretlands, það er England, Skotland, Wales og Norður-Írland, hefur svigrúm til að stjórna upphæð skólagjalda og styrkja sem fylgja nemendum. Þannig eru skólagjöld á Englandi almennt hærri en á öðrum svæðum innan Bretlands.
Frá árinu 2009 hafa þó verið gerðar miklar breytingar á háskólakerfinu í Englandi og dæmi eru um að skólagjöld hafi tvö- og þrefaldast í sumum háskólum í kjölfar breytinganna. Þær hafa verið afar umdeildar og eru nú aftur í umræðunni í tengslum við þingkosningar sem fara fram í maí. Aðgengi að námslánakerfinu í Bretlandi er þó, að mati sérfræðinga OECD, ein af ástæðum þess að ólíklegt megi teljast að mikið dragi úr tækifærum til náms líkt og gerst hefur í Bandaríkjunum samhliða hækkun skólagjalda.
Lofar að lækka skólagjöld
Miliband telur kerfi núverandi skólagjaldakerfi ríkisstjórnar vera í óreiðu og lofar að breyta því. Hann lofaði í ræðu sinni á föstudag að flokkurinn myndi lækka skuldir námsmanna og skattgreiðenda, „Frá september á næsta ári ætlar næsta stjórn Verkamannaflokksins lækka skólagjöld úr 9.000 pundum (1,8 milljónir króna) í 6.000 pund (1,2 milljónir króna) og mæta þannig skuldbindingum okkar við komandi kynslóðir.“ Hann lofaði því að ef flokkurinn kæmist inn í ríkisstjórn myndu breytingarnar ná strax til þeirra sem munu hefja nám næsta haust og einnig til þeirra sem nú þegar eru við nám.
Þetta er breyting sem myndi að meðaltali skila sér í 9.000 punda (1,8 milljón króna) lækkun á einstakling, miðað við námsmann í hefðbundnu þriggja ára grunnnámi. Þá breytingu ætlar flokkurinn að fjármagna með því að leggja af skattaafslátt á lífeyrissparnað og almennan sparnað. Rétt er að geta þess að þessar breytingar á upphæð skólagjalda myndu einungis ná til breskra námsmanna og þeirra sem koma frá löndum ESB en ekki frá löndum þar fyrir utan, líkt og margir námsmenn frá Íslandi, Noregi, Sviss og Liechtenstein falla undir.
Námslánakerfið veitir fólki svigrúm
Rætt var við Vince Cable, viðskiptaráðherra og þingmann Frjálslyndra demókrata, á föstudag og er hann ósammála þessum hugmyndum Miliband. Hann telur núverandi kerfi virka vel og að sönnun þess sé að vaxandi fjöldi ungs fólks sæki nú í háskólanám og að sama skapi hafi fjöldi nema sem kemur frá efnaminni heimilum farið vaxandi síðustu ár. Þeir sem nýta sér námslánakerfið hafi gott svigrúm til endurgreiðslu, en eftir útskrift greiðir fólk í samræmi við tekjur. Þeir sem eru með tekjur undir 21.000 pundum þurfa ekki að byrja að greiða til baka lán sín, en þeir sem eru með hærri tekjur greiða í hlutfallslegu samræmi við það.
Cable telur einnig að háskólar í landinu séu vel fjármagnaðir og að kerfið standi undir sér, „Það hefur verið lofað af OECD sem hugsanlega það besta í Vestur-Evrópu. Verkamannaflokkurinn vill eyðileggja það með popúlískum hugmyndum sem þeir telja að höfði til námsmanna, sem ég tel þó að gangi ekki því námsmenn skilja vel að núverandi kerfi virkar.“ Hann telur almennt að forsvarsmenn flokksins skorti þekkingu á fjármálalæsi, bæði í tenglum við útgjöld til menntamála sem og önnur útgjöld ríkisins.
Vince Cable, viðskiptaráðherra Bretlands, gefur lítið fyrir hugmyndir breska verkamannaflokksins og segir núverandi háskólakerfi standa undir sér.
Núverandi skólagjaldakerfi að springa
Þessu eru þó ekki allir sammála og sagði Chris Leslie, þingmaður Verkamannaflokksins og skuggaráðherra, að núverandi skólagjaldakerfi væri að springa innan frá. Greg Clark, ráðherra háskólamála og þingmaður Íhaldsflokksins, telur þó að skattgreiðendur muni standa uppi með reikninginn ef hugmyndir Verkamannaflokksins yrðu að veruleika. Sú breyting sem flokkurinn leggur til muni valda skattahækkunum ásamt aukinni skuldasöfnuna og muni koma hvað verst niður á „þeim sem hafa unnið hart, lagt til hliðar og gert það sem er rétt að gera“ líkt og Clark sagði í viðtali í vikunni.
Höfðar til ungra kjósenda
Skólagjaldamálið virðist að einhverju leiti drifið áfram af þeim sem vilja ná til yngri kjósenda, en hækkun skólagjalda hefur síðustu ár verið reglulega mótmælt af námsmönnum í landinu. Kosningaþátttaka ungs fólks (18-24 ára) í Bretlandi, er líkt og í flestum öðrum Evrópulöndum, afar dræm og hefur verið það síðustu áratugi samanborið við aðra aldurshópa. Eurobarometer könnun Framkvæmdastjórnar ESB gefur til kynna að ungt fólk í Bretlandi taki lítinn þátt í stjórnmálum miðað við jafnaldra í öðrum löndum Evrópu.
Gæti fjölgað ungum kjósendum
Nýlegar skoðanakannanir sýna það skýrt að meiri líkur er á að ungt fólk gefi Verkamannaflokknum eða Græningjum atkvæði sitt og er talið að skólagjaldamálið muni ýta enn frekar undir þá þróun. Líklegt er að stuðningur Frjálslyndra demókrata við núverandi skólagjaldakerfi muni fæla unga kjósendur frá flokknum, en það er þó talið hafa minni áhrif á unga kjósendur Íhaldsflokksins. Hugmyndir Miliband og Verkamannaflokksins gætu drifið stærra hlutfall ungra kjósenda á kjörstað, en ljóst má vera að atkvæði ungs fólks gætu haft nokkur áhrif á úrslit kosninganna í maí.
Þar gæti líka spilað inn í hvort stjórnmálamenn nái að kynna fleiri mál sem höfða til þessa hóps kjósenda á næstu vikum. Spurningin er þó hvort það dugi til að hvetja ungt fólk til að skrá sig til kosninga og mæta á kjörstað, og breyta þannig dræmri kosningaþáttöku hópsins síðustu áratugi.