Ójöfnuður, sérstaklega vegna misskiptingar auðs, er á ný orðin miðpunktur stjórnmála víða í heiminum. Baráttan gegn honum er kjarninn í stefnu Jeremy Corbyn, nýkjörins formanns breska verkamannaflokksins, og málflutningur Bernie Sanders, sem sækist eftir því að verða forsetaefni Demókrataflokksins í Bandaríkjunum, hefur hverfst um það að stanslaust hafi verið grafið undan millistétt landsins síðastliðinn 40 ár með aukinni misskiptingu.
Bók franska hagfræðingsins Thomas Piketty, Capital in the Twenty-First Century, sem náði efsta sæti á metsölulistum bæði vestan og austan hafs þegar hún kom út á ensku árið 2014, fjallaði m.a. um þá staðreynd aukin hagvöxtur auki ójöfnuð. Á mánudag fékk svo skoski hagfræðingurinn Angus Deaton Nóbelsverðlaunin í hagfræði. Eitt hans helsta verk, The Great Escape sem kom út árið 2013, fjallar um hvernig ójöfnuður í heiminum hefur þróast á síðustu 250 árum.
Ójöfnuður er því á sannarlega á dagskrá. Hann er enda staðreynd. Hinir ríku er sífellt að verða ríkari og á hverju ári safnast mun meiri auður upp hjá þeim en hjá rest mannkyns. Þetta var staðfest í nýrri úttekt Credit Suisse, sem var gerð opinber í vikunni, og sýndi að rúmlega helmingur af öllum auði í heiminum væri í eigu ríkasta eins prósents jarðarbúa. Það þýðir að hin 99 prósentin skipta á milli sín 49,6 prósent af auði heimsins. Það þýðir að tæplega 50 milljónir manna (úttektin nær einungis til fullorðinna) á meiri auð en rúmlega 4,7 milljarðar manna. Þessar tölur segja hins vegar ekki alla söguna.
Ríkasti hluti ríkasta prósentsins
World Economic Forum samtökin hafa rýnt nánar í úttekt Credit Suisse. Á meðal þess sem þar kemur fram er að það þurfi að eiga um 760 þúsund dali, um 95 milljónir króna, til að tilheyra ríkasta prósenti mannkyns. Þegar einungis þeir sem eiga yfir milljón dali, um 124,5 milljónir króna, eru skoðaðir kemur í ljós að þeir eru 0,7 prósent mannkyns og þeir eiga samtals rúmlega 45 prósent allra eigna. Í þessu hópi eru um 34 milljónir einstaklinga.
Innan efsta prósentsins eru hins vegar einnig um 123 þúsund fullorðnir einstaklingar sem eru stórkostlega ríkir, en þeir eiga yfir 50 milljónir dala, um 6,2 milljarðar króna. Þar af eiga 44.900 einstaklingar meira en 100 milljónir dala hver, eða 12,4 milljarða króna. Og 4.500 manns eiga yfir 500 milljónir dala, 62,3 milljarða króna, hver.
Úttekt Credit Suisse á skiptingu auðs í heiminum hefur vakið mikla athygli.
Í úttektinni kemur einnig fram að 71 prósent jarðarbúa eigi samtals um þrjú prósent af auði heimsins og að helmingur manna eigi eignir sem eru undir þrjú þúsund dölum, 373.500 krónum. Rúmur fimmtungur, 21 prósent manna, á eignir á bilinu tíu til hundrað þúsund dali, 1.245 þúsund krónur til 12.5 milljónir króna. Hins vegar eigi 8,1 prósent jarðarbúa samtals 84,6 prósent alls auðs sem til er í heiminum.
80 ríkustu eiga meira en helmingur mannkyns
Fyrir þá sem fylgjast með skiptingu auðs í heiminum þá kemur ekki á óvart að þróunin hafi verið í þessa átt. Aukin auðmyndun hjá hinum allra ríkustu hefur reyndar verið aðeins hraðari en búist var við.
Í janúar birtu mannúðarsamtökin Oxfam niðurstöðu rannsóknar sinnar sem sýndi að 80 ríkustu einstaklingarnir í heiminum ættu meira en fátækari helmingur mannkyns. Auður þessa litla hóps jókst um 50 prósent á fjórum árum, eða um 600 milljarða dala. Það gera 74.700 milljarðar króna. Þessir 80 einstaklingar auðguðust því um tæplega 38 árlegar landsframleiðslur Íslands á fjórum árum. Meðalauðsaukning hvers og eins í hópnum á umræddu árabili var 934 milljarðar króna. Á sama tíma minnkuðu eignir þess helmings mannkyns sem var fátækastur um 750 milljarði dala, 93.375 milljarða króna. Þorri þess sem hinir fátækustu töpuðu rataði því til ríkasta eins prósentsins.
Þar kom einnig fram að árið 2009 hafi ríkasta eitt prósent íbúa í heiminum átt 44 prósent alls auðs og að það hlutfall hafi verið komið upp í 48 prósent árið 2014. Oxfam spáði því að fyrir lok árs 2016 myndi ríkasta eitt prósent heimsins eiga meira en helming alls auðs. Sú spá reyndist vanáætluð samkvæmt niðurstöðu Credit Suisse úttektarinnar. Efsta prósentið á nú þegar meira en helminginn af öllum auði.
Spá Oxfam gerir ráð fyrir því að þetta gat ójöfnuðar sé ekki að fara að minnka. Þvert á móti búast samtökin við því að ríkasta prósent heimsins muni eiga um 54 prósent af auði hans innan fimm ára.
Misskipting auðs eykst hratt á Íslandi
Það er ekki bara út í hinum stóra heimi sem auður hinna ríku er að vaxa hratt. Kjarninn hefur rýnt í þau gögn sem birt eru opinberlega hérlendis og sýna hvernig sú þróun er á Íslandi. Í lok september greindi Kjarninn frá því að sá fimmtungur Íslendinga sem hafði hæstar tekjur á árinu 2014, alls tæplega 40 þúsund manns, jók hreina eign sína um 142,2 milljarða króna á því ári. Tæpur helmingur aukningar á auði íslenskra heimila á síðasta ári féll í skaut þessa hóps.
Tekjuhæsta tíund landsmanna, 19.711 manns, sá auð sinn vaxa um 88,2 milljarða króna á árinu 2014. Á sama tíma óx hrein eign þess helmings þjóðarinnar sem er með lægstu tekjurnar, alls um eitt hundrað þúsund manns, um 72 milljarða króna, eða 16,2 milljarða króna minna en ríkasti hluti þjóðarinnar. Þetta mátti lesa út úr tölum Hagstofu Íslands um eignir og skuldir einstaklinga í árslok 2014 sem birtar voru 29. september síðastliðinn.
Auk þess á ríkasta tíund þjóðarinnar yfir helming allra verðbréfa, en virði þeirra í þessari samantekt er á nafnvirði. Markaðsvirði þeirra verðbréfa, sem eru til dæmis hlutabréf í fyrirtækjum landsins, er mun hærra en uppgefið nafnvirði. Og hlutabréf hafa hækkað gríðarlega mikið í verði það sem af er þessu ári, eða 34 prósent. Því er eigið fé þessa hóps, alls 19.711 einstaklinga, því líklega mun meira en tölur Hagstofu Íslands gefa til kynna.