Ófærð, Game of Thrones, Verbúðin, The Bachelor, Stranger Things eða Vitjanir. Óháð titli eða upprunalandi sjónvarpsþáttarins má fastlega gera ráð fyrir einu: Það er til hlaðvarp um þáttaröðina, svokallað fylgivarp (e. Companion podcast), eins og Anna Marsibil Clausen, ritstjóri hlaðvarpa á RÚV, hefur þýtt listilega.
En hvað er fylgivarp og af hverju nýtur það vinsælda?
„Ég held að þetta sé rökrétt framhald af kaffistofuumræðunni á tímum ólínulegrar dagskrár,“ segir Anna Marsibil í samtali við Kjarnann.
Það virðist ekki skipta máli hvort um klassíska sjónvarpsþáttaröð, líkt og Seinfeld eða The Sopranos, er að ræða eða þáttaraðir sem eru enn í framleiðslu, líkt og The Crown og Stranger Things, þeim fylgir fylgivarp. Þróunin hefur einnig náð til Íslands þar sem RÚV hefur farið mikinn í fylgivarpagerð um þætti sem það kemur að framleiðslu. Fylgivörp um eldri íslenska klassíska þætti, á borð við Fóstbræður eða Vaktaseríurnar, hafa þó ekki verið gerðir, svo Kjarninn viti til.
Anna Marsibil segir fylgivörpin eðlilega þróun á afþreyingu á tímum ólínulegrar dagsrkár. „Hlaðvörp bæta svo miklu við fyrir fólk sem er að njóta þess að horfa á sjónvarpið og vill síðan tala um þættina sem það fílar í botn við vini sína en það eru kannski ekkert allir að horfa á sama þáttinn á sama tíma. Við sjáum það til dæmis með hlaðvörpum eins og því sem fjallar um Gilmore Girls frá upphafi, ekki bara nýju seríuna. Það var risa fylgivarp.“
Ein leið til að fjölga eða halda í áskrifendur streymisveita
Bandarískur fylgivarpamarkaður virðist ná jafnt til nýrra sem eldri þáttaraða og nefnir Anna Marsibil The Sopranos og The Wire sem dæmi. „Þetta eru þáttaraðir sem eru löngu hættar í sýningu, löngu búnar, en fólk er ennþá að horfa og getur þá ennþá notið þess að hlusta á hlaðvarp meðfram því og þannig fengið útrás fyrir kaffistofuspjallið. Því að þó að maður sé ekki að tala við fólkið í hlaðvarpinu líður manni stundum eins og fólkið í hlaðvarpinu séu vinir manns að tala við mann.“
Sjónvarpsframleiðendur á borð við HBO hafa ráðist í framleiðslu af þessu tagi og það fer ekkert á milli mála hvert endanlegt markmið er: Að fá hlustendur til að kaupa, eða að viðhalda, áskrift að streymisveitu HBO. Og það virðist virka.
Fylgivörpin hafa náð mikilli útbreiðslu, óháð því hvort þau koma frá sjónvarpsframleiðendunum sjálfum eða áhugafólki. Þar spilar inn í hversu einfalt það er í raun og veru að gera hlaðvarp.
„Hlaðvörp eru orðin eins og internetið. Ef þér getur dottið það í hug þá getur þú googlað það og það er til. Hlaðvörp eru eiginlega orðin þannig líka. Ef þú átt áhugamál, sama hversu jaðarkennt áhugamálið er, þá er til hlaðvarp um það. Þannig sjónvarpsþættir eru mjög eðlilegir hlutir til að fjalla um í hlaðvarpi, af því að mörg hlaðvörp eru í þessu formatti, það er vinir að spjalla. En hvað eiga þessir vinir að vera að spjall um? Það er mismunandi eftir hlaðvörpum.“
Fylgivörpin eiga að dýpka upplifunina
Anna Marsibil er fyrsti ritstjóri hlaðvarpa hjá RÚV, en fleiri fjölmiðlar og streymisveitur hafa tekið upp þennan starfstitil, til að mynda Spotify og The Atlantic. Stefna RÚV í fylgivarpagerð felst í leiðum til að bæta upplifun almennings af sjónvarpsþáttunum sem RÚV framleiðir.
„Hlaðvarpsþættirnir hjá RÚV eru hugsaðir sem viðbót sem dýpka upplifunina, þeir koma kannski ekki í staðinn fyrir en bæta við þessa kaffistofuupplifun,“ segir Anna Marsibil.
Fylgivörpin eru frekar ný fyrirbæri en Anna Marsibil segir tilvalið að bera þau saman við fótboltahlaðvörp, sem eru meðal vinsælustu hlaðvarpa hér á landi, til að átta sig betur á umfanginu.
„Nú hlusta ég ekki á fótboltahlaðvörp þar sem ég hef takmarkaðan áhuga á fótbolta. Ég hef kynnt mér þau eitthvað en hlusta ekki á það að staðaldri. En góður maður sem horfir mikið á fótbolta og hlustar á fótboltahlaðvörp útskýrði þetta fyrir mér. Þegar maður hefur áhuga á fótbolta getur maður horft á fótboltaleik sem er 90 mínútur og svo hlustað á fjóra sextíu mínútna þætti um þennan sama leik, af því að maður hefur bara það mikinn áhuga á því. Svo getur maður kannski líka talað um það í vinnunni. Fótbolti er ástríðuefni fyrir marga, en hvort tilteknir sjónvarpsþættir séu ástríðuefni fyrir jafn marga og fótbolti er hér á landi?“ segir Anna Marsibil spyrjandi og bætir svo við: „En maður fær hluti á heilann, maður fær sjónvarpsþætti á heilann, alveg eins og ákveðinn hópur samfélagsins er með fótbolta á heilanum.“
RÚV hefur verið með ýmislegt á heilanum, sem er einmitt samnefnari fylgivarpa stofnunarinnar. Fyrst var það Ófærð og síðan Verbúðin, sem naut mjög mikilla vinsælda. Með Söngvakeppnina á heilanum fjallaði um Söngvakeppni sjónvarpsins þar sem framlag Íslands í Eurovision þetta árið var valið og um páskana hófu Með Vitjanir á heilanum göngu sína.
„Ólík dagskrárefni kalla á ólíka nálgun. Það er áhugavert hvernig þær voru unnar ólíkt. Þetta er fólk að tala um uppáhalds þættina sína en það er ekki endilega konseptið sem við vorum að vinna með,“ segir Anna Marsibil.
Það hafi vissulega verið gert í Ófærð, þar sem auðvelt var að velta því fyrir sér eftir hvern þátt hver væri morðinginn. En með næstu þáttaröð á eftir, Verbúðina, varð nálgunin önnur. „Við vildum dýpka umfjöllunina, skipta henni í tvennt og annars vegar taka fyrir sögulega þáttinn og reyna að dýpka skilninginn á einhverju sögulegu sem var að gerast í þættinum, en hins vegar tala við fólkið á bakvið tjöldin í þættinum.“
Hlustunin á fylgivörpunum hefur verið góð og hefur fylgjendum RÚV á hlaðvarðsveitum farið fjölgandi.
„Verbúðin, sérstaklega, gekk ofboðslega vel, sem er kannski ekki að undra, þetta var vinsælasta sjónvarpsefnið á Íslandi, það er eðlilegt að hlaðvarpið haldist í hendur við það. Á sama tíma hefur Ófærð oft verið talsvert vinsælli en hlaðvarpið gekk mjög vel og það voru sumir sem höfðu orð á því að þættirnir væru skemmtilegri þegar maður hlustaði líka á hlaðvarpið, það gerði mjög mikið fyrir þættina,“ segir Anna Marsibil.
RÚV var þó ekki að finna upp hjólið í fylgivarpagerð, síður en svo.
Fleiri framleiðendur hafa gert hlaðvörp um sjónvarpsþætti, sem dæmi má nefna hlaðvarpsþætti um Svörtu sanda sem birtir voru á Vísi.
„Það var áhugavert að vera með tvær stórar íslenskar seríur í gangi á sama tíma og báðar hlaðvarpsseríurnar, þar sem farnar voru ólíka leiðir, virkaði bæði. Það voru nógu margir að horfa á báðar seríur og nógu margir sem höfðu áhuga á að hlusta til þess að þessi hlaðvörp voru á topp tíu listanum hjá Spotify þessar vikur sem þættirnir voru í sýningu,“ segir Anna Marsibil.
Raunveruleikasjónvarp er líka vinsælt viðfangsefni fylgivarpa og hér á landi má finna fleira en eitt fylgivarp um The Bachelor og The Bachelorette. Síminn stökk á þann vagn og framleiðir nú sína eigin umræðuþætti meðfram hverri þáttaröð af piparsveininum eða piparmeyjunni.
„Ég vil ekki kynja þetta of mikið en við getum alveg verið raunhæf með það að það eru fleiri karlmenn sem hlusta á fótboltahlaðvörp og fleiri konur sem hlusta á Bachelor-hlaðvörp. Ég held að fyrir þennan áhorfendahóp Bachelor-þáttanna þá eru mjög margar þeirra til í að hlusta á tvö, þrjú hlaðvörp. Ekki allar kannski,“ segir Anna Marsibil.
Hlaðvörp að vissu leyti eins og bloggin
Sprenging á hlaðvarpsmarkaði hefur einnig með það að gera hversu auðvelt það er í raun og veru að ráðast í hlaðvarpagerð. „Auðvitað eru hlaðvörp að einhverju leyti líka eins og bloggin. Það getur hver sem er verið með hlaðvarp um hvað sem er. Og það er rosa gaman að vera með hlaðvarp alveg eins og það var gaman að blogga um öll sín hugðarefni en þegar uppi er staðið nennir maður þessu ekki nema að einhver sé að hlusta, nema einhver sé að lesa bloggið. Það er byrjað að gerast, held ég, að smám saman er fólk að droppa út úr hlaðvarpsgerð þegar það uppgötvar að þetta er kannski meiri vinna en það hélt, að það er kannski erfiðara að koma sér á framfæri og það eru kannski færri að hlusta en þú hélst,“ segir Anna Marsibil.
Fylgivörpin, að hennar mati, eru þó líklega komin til að vera. „Ég veit að við á RÚV myndum fagna því ef einhver annar væri að gera hlaðvarp um efnið okkar. Og á sama tíma þá hlaðvarp sem er framleitt af óháðum aðila og getur verið talsvert frjálslegra, á fleiri en einn hátt, sem getur verið rosa skemmtilegt.“
Frá kaffistofuspjalli, til fylgivarps og umræðuhópa
Þróunin heldur einnig áfram, til að mynda á samfélagsmiðlum þar sem spretta upp hópar um fylgivörpin. „Mikið af þessum hlaðvörpum búa til Facebook-hópa og svo kannski er verið að ræða á kaffistofunni það sem var sagt í Facebook-hópnum um það sem gerðist í hlaðvarpinu um það sem gerðist í sjónvarpsþættinum. Hlaðvörp eru annað lag í umræðuna. Og það er bara gaman.“
En munu fylgivörp fylgja öllum nýjum sjónvarsþáttaröðum hér eftir?
„Nei, ég held ekki. Svona seríur eins og við viljum vinna þær eru vinna, og eru auðvitað vinna í öllum tilvikum. En til þess að við getum haldið uppi gæðastuðli sem við viljum halda uppi þá þurfum við aðeins að velja og hafna. Núna erum við í fasa þar sem við reynum að vera með fylgivarp með sem flestum stóru sjónvarpsviðburðunum okkar. En svo erum við líka að læra eftir því sem fram vindur og það á eftir að koma í ljós.“