Aðgerðir Rússa í Úkraínu hafa verið í brennidepli síðustu misseri og valdið mikilli ólgu í alþjóðasamfélaginu. Nú hyggja Rússar hins vegar á frekari landvinninga, á norðurslóðum.
Sergey Donskoy, ráðherra umhverfis- og auðlindamála Rússlands, greindi frá fyrirhuguðum áætlunum Rússa á norðurslóðum á blaðamannafundi á síðastliðinn fimmtudag. „Við munum leggja fram nýja kröfu okkar um landsvæði til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna á þessu ári,” er haft eftir Donskoy í viðtali við TASS fréttastofuna.
Um er að ræða 1,2 milljón ferkílómetra svæði
Fyrir liggur að gríðarlegar náttúrulegar auðlindir eru í húfi á umræddu svæði en Donskoy staðfesti að hinn svokallaði Gakkel-hryggur, neðansjávarhryggur í Norður-Íshafinu á milli Grænlands og Síberíu, væri að hluta til innan þess svæðis sem Rússar munu falast eftir. „Við teljum að krafa okkar sé réttmæt og niðurstöður nýrra rannsókna okkar munu undirstrika hana. Krafan inniheldur Gakkel-hrygginn að hluta til en við munum halda rannsóknum áfram og okkur er frjálst að bæta skjölum við kröfuna á meðan landgrunnsnefndin fer yfir hana,” sagði Donskoy en núverandi krafa Rússa hljóðar upp á um það bil 1,2 millljón ferkílómetra svæði.
Ekki nóg að stinga niður fána
Krafa Rússa er vitanlega ekki ný af nálinni en Rússar hafa lengi reynt að færa rök fyrir því að fyrrnefnd svæði í Norður-Íshafinu séu í raun framlenging á landgrunni Rússlands og ættu því með réttu að falla undir rússneska lögsögu. Rússar gengu raunar svo langt í viðleitni sinni að þeir skipulögðu leiðangur sem stakk niður fána Rússlands á hafsbotninn á norðurpólnum í ágúst árið 2007. Verknaðurinn vakti vissulega heimsathygli en enn þann dag í dag standa Rússar frammi fyrir þeirri áskorun að sýna fram á óyggjandi jarðfræðilegar sannanir til grundvallar málstað sínum.
Artur Chilingarov sést hér, en hann fór fyrir leiðangrinum fræga sem stakk rússneska fánanum á hafsbotninn á norðurpólnum í ágúst árið 2007 og heldur einmitt á mynd af fyrrnefndum fána. Mynd: Ómar.
Hvernig sem Rússum mun svo takast að sannfæra landgrunnsnefndina og hin fjögur ríkin sem eiga landsvæði að Norður-Íshafinu; Kanada, Danmörk fyrir hönd Grænlands, Noreg og Bandaríkin - út frá jarðfræðilegum grundvelli, þá verður lagalegt umhverfi norðurslóðasvæðisins jafnvel enn stærri hindrun. Enda hagsmunaaðilar, án nokkurs vafa, hver og einn með sína túlkun á laga -og regluverkinu sem nú er gildandi á svæðinu. Í því samhengi er einnig vert að minnast á RAIPON-samtökin en þau berjast fyrir réttindum rússneskra norðurslóðafrumbyggja og hafa fram til þessa staðið í ströngu gagnvart rússneskum stjórnvöldum.
Ljóst þykir í það minnsta að hagsmunabaráttan á Norðurslóðum á eftir að færast í aukana á komandi árum. Innlimun Rússa á Krímskaga hefur ekki aðeins hrist verulega við stoðum fyrir framtíðarsamstarfi norðurslóðaríkja - heldur einnig gefið mögulega vísbendingu um hvað koma skal í „kapphlaupinu” um norðurslóðir.
Rússar sem fyrr stórhuga á norðurslóðum
Rússar hafa þegar gefið út að þeir ætli að auka umsvif sín á norðurslóðasvæðinu til muna. Í október á síðasta ári tilkynnti Varnarmálaráðuneyti Rússlands um áætlanir Rússa um að byggja á næstunni 13 nýja herflugvelli og 10 nýjar radarstöðvar á svæðinu. Auk þess sem til stendur að árið 2016 verði tilbúið til notkunar fljótandi kjarnorkuver, sérstaklega hannað fyrir veru á norðurslóðum. Dmitry Rogozin, aðstoðarforsætisráðherra Rússlands, tilkynnti á nýlegu þingi um þróun á norðurslóðum að Rússar áætli að fjárhagsáætlun norðurslóðamála fyrir næstu fimm ár geri ráð fyrir kostnaði upp á um það bil 4,27 milljarða dollara. „Rússar ætla að styrkja stöðu sína á norðurslóðum, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Mestu máli skiptir að við gerum það sem er hagkvæmast fyrir okkar þjóð,” er haft eftir Rogozin á vef TASS.
Hagsmunir Íslands
Samfara þróun um vaxandi mikilvægi norðurslóða í augum Rússa er óhætt að fullyrða að önnur ríki hugsi sér þar einnig gott til glóðarinnar - sérstaklega aðildaríkin átta að Norðurskautsráðinu, sem stofnað var árið 1996. Ísland er þar á meðal en sérstök ráðherranefnd um málefni norðurslóða var skipuð í Íslandi í október árið 2013 til þess að draga saman heildstætt mat á hagsmunum Íslands á norðurslóðum. Í drögum að skýrslu nefndarinnar, sem birt voru um miðjan mars á þessu ári, kemur fram að hagsmunir Íslands séu ómetanlegir þegar kemur að baráttunni gegn neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga enda tækifærin gríðarlega mörg fyrir Ísland á norðurslóðum. Augjóslega tengjast tækifærin nýtingu náttúruauðlinda á borð við lífríkis sjávar og vinnslu olíu og gass, en einnig gagnvart þjónustu hvers konar. Þá felast tækifærin einnig í auknu vægi málefna norðurslóða á alþjóðavettvangi þar sem Ísland sé fyrir í innsta hring, ef svo megi að orði komast.
Höfundur er sagn- og viðskiptafræðingur, búsettur í Moskvu.