Stjórnvöld í Rússlandi hafa tekið enn eitt skrefið í átt að því að einangra þegna sína frá umheiminum, en eftir að hafa lokað fyrir aðgang að Facebook og Twitter í Rússlandi fyrir rúmri viku síðan var ákvörðun tekin í gær um að loka einnig fyrir aðgang að Instagram.
Var sú ákvörðun tekin í kjölfar þess að Instagram, dótturfyrirtæki Meta, tilkynnti að slaka ætti á reglum um hatursorðræðu á samfélagsmiðlinum í tengslum við innrás Rússlands í Úkraínu. Þannig muni samfélagsmiðillinn ekki ritskoða ákall um ofbeldi gegn Vladimír Pútín Rússlandsforseta eða hermönnum hans sem standa að árásinni.
Vegna þessa hafa rússnesk stjórnvöld einnig sett Meta, móðurfyrirtæki Instagram, Facebook og Whatsapp, á lista yfir öfgafull samtök, en í yfirlýsingu er því haldið fram að fyrirtækið hafi stuðlað að og ýtt undir ofbeldisfull mótmæli og átök.
Fyrir utan þá einangrun frá umheiminum sem lokun samfélagsmiðlanna felur í sér, auk þess sem rússneskur almúginn hefur nánast engan aðgan að fréttaveitum öðrum en þeim ríkisreknu í Rússlandi, er Instagram langstærsti samfélagsmiðillinn í Rússlandi og reiðir fjöldi smárra rússneskra fyrirtækja sig á samfélagsmiðilinn. Þá má heldur ekki gleyma áhrifavöldum, einnig úr röðum afkomenda rússneskra ólígarka.
Whatsapp í hættu
Er WhatsApp þá eini samfélagsmiðillinn undir Meta sem enn er hægt að nota innan Rússlands, en margir eru þó uggandi vegna yfirvofandi örlögum skilaboðaforritsins í ljósi þess að móðurfyrirtæki þess er komið á lista Rússa yfir öfgafull samtök. Mikið er þar í húfi þar sem Whatsapp er mest notaða skilaboðaforritið í Rússlandi og fer 60% allra internetskilaboða í Rússlandi fram í gegnum Whatsapp, að því er Mary Ilyushina, blaðamaður Washington Post um málefni Rússlands, greinir frá á Twitter.
Áróðursmaskínan svokallaða í Rússlandi virðist eftir fremsta megni reyna að ganga úr skugga um að hinn almenni borgari í Rússlandi viti sem minnst um það sem er að eiga sér stað í Úkraínu, meðal annars með því að sýna fölsuð eða úrelt myndskeið af auðum og friðsælum borgarhlutum í Úkraínu þar sem stríð geisar í raun og veru. Þá eiga allir sem mótmæla innrásinni, sem og þeir sem dreifa því sem rússnesk yfirvöld kalla falsfréttir, þar eð efni og upplýsingar um innrásina, yfir höfði sér fangelsisvist.
Stjórnvöld í Rússlandi hafa þannig talsverða hagsmuni í því að halda þegnum sínum grunlausum um þær hörmungar sem her þeirra er að valda nágrönnum þeirra í Úkraínu, og er einn liður í því að hindra aðgang almennra Rússa að samfélagsmiðlum.
Almenningur víðs vegar um heim deyr hins vegar ekki ráðalaus og hefur til að mynda brugðið á það ráð að notast við ferðamiðla á borð við Tripadvisor til þess að skilja eftir gagnrýni (e. Reveiw) um rússneska veitingastaði og hótel þar sem í stað þess að fara fögrum, nú eða ófögrum, orðum um matinn eða þjónustuna, deila þeir upplýsingum um innrásina í Úkraínu í von um að ná til almennra borgara í Rússlandi.