Vincent Tchenguiz hefur einungis greitt eina milljón punda, um 200 milljónir króna, af þeirri upphæð sem honum var gert að greiða þrotabúi Kaupþings vegna samkomulags frá september 2011. Samkvæmt samkomulaginu átti Tchenguiz að greiða háar fjárhæðir til búsins, gangast í háar persónulegar ábyrgðir vegna lána sem hann og félög tengd honum áttu að greiða, falla frá öllum kröfum á hendur Kaupþingi og tjá sig aldrei um innihald samkomulagsins.
Nú hefur Vincent Tchenguiz brotið samkomulagið og segir það vera vegna þess að samkomulagið hafi verið gert á ólögmætum forsendum. Kaupþing og tengdir aðilar hafi borið ábyrgð á umfangsmikilli rannsókn bresku efnahagsbrotadeildarinnar, Special Fraud Office (SFO), á Tchenguiz sem náði hámarki með handtöku hans í mars 2011. Tchenguiz vill meina að Kaupþing og tengdir aðilar hafi notað rannsókn á meintum glæpum hans til að knýja hann til að semja um málefni sín. Þess vegna þurfi hann ekki að virða skilmála samkomulagsins sem var gert í september 2011.
Þetta kemur fram í 95 blaðsíðna stefnu Vincent Tchenguiz gegn slitastjórn Kaupþings, Grant Thornton UK, Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni, sem situr í slitastjórn Kaupþings, og tveimur starfsmönnum Grant Thornton UK, þeim Hossein Hamedani og Stephen John Akers. Í stefnunni fer Tchenguiz fram á um 440 milljarða króna í bætur. Kjarninn hefur stefnuna undir höndum og birti ítarlega fréttaskýringu um hana 29. desember síðastliðinn.
Rannsókn SFO á Tchenguiz var hætt sumarið 2012, hann beðinn afsökunnar á henni og honum greiddar hundruð milljóna króna í bætur frá embættinu.
Handtekinn, rannsókn hætt og bætur greiddar
Í byrjun desember 2009 tilkynnti Vincent Tchenguiz og sjóðurinn The Tchenguiz Family Trust (TFT) að þeir myndu lýsa kröfum í bú Kaupþings upp á 1,6 milljarða punda, um 320 milljarða króna. Kaupþing hafnaði kröfunni og henni var vísað til íslenskra dómstóla. Um mitt ár 2010 hófst síðan einkarekstur nokkurra félaga sem tengdust Tchenguiz bræðrum gegn Kaupþingi fyrir breskum dómstólum. Stefna þess efnist var birt 20. júlí 2010.
Í stefnu Vincent Tchenguiz á hendur Kaupþingi kemur fram að hann telji að á sama tíma og þessi mál voru að fara af stað hafi Kaupþing komið fölskum ásökunum um meint lögbrot hans til Special Fraud Office (SFO) í Bretlandi. Á meðal þess sem komið hefði fram í þeim ásökunum var að Tchenguiz hefði veðsett eignir fyrir lánum sem hann fékk hjá Kaupþingi sem hefðu þegar verið veðsettar öðrum. Þá hafi virði veða sem sett hafi verið fyrir lánunum verið uppblásið og að hann hafi nýtt hluta þeirra lána sem félög hans fengu hjá Kaupþingi til persónulegra nota.
Vincent Tchenguiz hefur stefnt Kaupþingi, Grant Thornton UK í Bretlandi og þremur starfsmönnum þeirra. Hann vill fá 440 milljarða króna í bætur.
Á grundvelli þeirra upplýsinga sem Kaupþing og ráðgjafafyrirtækið Grant Thornton UK í Bretlandi, sem starfaði fyrir Kaupþing, veittu SFO var Vincent Thenguiz handtekinn í mars 2011. Samhliða voru framkvæmdar húsleitir á skrifstofu hans og heimili. Handtakan varð helsta fréttamál þess dags í Bretlandi, enda Vincent, og bróðir hans Robert sem var lika handtekinn, á meðal umsvifamestu eigenda fasteigna í Bretlandi á þessum tíma.
Rannsókn SFO á Tchenguiz var hætt í júní 2012. Tchenguiz-bræðurnir höfðuðu í kjölfarið mál á hendur SFO og kröfðust um 200 milljóna króna, tæplega 1,4 milljarða króna, í skaðabætur vegna rannsóknarinnar. Þeir komust síðar að samkomulagi um bætur. Í þeim fólst að SFO baðst opinberlega afsökunnar á rannsókninni og greiddi Vincent Tchenguiz þrjár milljónir punda í miskabætur og sömu upphæð í lögmannskostnað. Umreiknað í íslenskar krónur er sú upphæð um 1,2 milljarðar króna. Robert bróðir hans fékk auk þess 1,5 milljónir punda, um 300 milljónir króna, í miskabætur og auk þess sem lögmannskostnaður hans vegna SFO-rannsóknarinnar var greiddur.
Í stefnu Tchenguiz segir: „Tilgangur samsærisins á þessum tíma var að valda Vincent, CBG og TFT fyrirtækjunum [í eigu Tchenguiz fjölskyldunnar], eins miklum álitshnekki og mögulegt var og að setja mikla fjárhagslega pressu á hann og aðra. Þetta átti að neyða hann til að falla frá einkamálinu í Bretlandi og kröfudeilunni fyrir íslenskum dómstólum til að skapa stöðu fyrir Kaupþing til að gera gott samkomulag fyrir sig.“
Leynisamkomulag opinberað í fyrsta sinn
Þann 17. september 2011 var tilkynnt um að samkomulag hefði náðst milli Tchenguiz Family Trust og þrotabús Kaupþings. Samkomulagið hefur aldrei verið gert opinbert.
Í því fólst að Tchenguiz Family Trust, sjóður undir stjórn Vincent Tchenguiz, myndi falla frá öllum kröfum sínum á þrotabúið. Við það féllu einkamálin sem hann rak gegn búinu í Bretlandi og Íslandi niður, auk allra krafna sem gerðar höfðu verið í þrotabú Kaupþings, sem metnar voru á um 1,6 milljarða punda, um 320 milljarða króna. Hluti af samkomulaginu fólst líka í að hvorugur aðilinn, Vincent Tchenguiz og forsvarsmenn þrotabús Kaupþings, mættu ræða um innihald samkomulagsins. Auk þess kom fram í því að Tchenguiz og tengd félög myndu falla frá öllum frekari málshöfðunum á hendur Kaupþingi eða tengdum aðilum.
Nú hefur Vincent Tchenguiz brotið það samkomulag. Í stefnu sinni á hendur þrotabúi Kaupþings, sem Kjarninn hefur undir höndum, upplýsir hann um innihald samkomulagsins.
Nú hefur Vincent Tchenguiz brotið það samkomulag. Í stefnu sinni á hendur þrotabúi Kaupþings, sem Kjarninn hefur undir höndum, upplýsir hann um innihald þess. Þar kemur fram að Vincent Tchenguiz hafi samþykkt að greiða Kaupþingi þrjár milljónir punda, um 600 milljónir króna. Ein milljón punda, um 200 milljónir króna, átti að greiðast strax og tvær milljónir punda, um 400 milljónir króna, til viðbótar áttu að greiðast innan árs frá því að samkomulagið var gert.
Auk þess gekkst hann í tíu milljón punda, um tveggja milljarða króna, persónulega ábyrgð vegna útistandandi skuldbindinga og hið svokallaða Pennyrock-lán, eina lánið sem Vincent Tchenguiz tók hjá Kaupþingi á Íslandi, var endurskipulagt og átti að vera til greiðslu fyrir septemberlok 2013. Lánið var upphaflega upp á 100 milljón pund, um 20 milljarða króna á gengi dagsins í dag.
Hefur einungis greitt 200 milljónir
Af þeim greiðslum sem Vincent Tchenguiz átti að greiða þrotabúi Kaupþings vegna samkomulagsins hefur einungis ein milljón pund, um 200 milljónir króna, verið greidd. Seinni greiðslan, upp á tvær milljónir punda, um 400 milljónir króna, hefur aldrei verið greidd. Þá hefur ekki verið gengið á tíu milljón punda, um tveggja milljarða krona, persónulega ábyrgð Tchenguiz á Pennyrock-láninu sem átti að vera til greiðslu í september 2013, en hefur ekki verið greitt í samræmi við samkomulagið. Kaupþing hefur ekki reynt að ná þessum fjármunum sem búið á rétt á samkvæmt samkomulaginu.
Í stefnunni segir að það sé líklega vegna þess að Kaupþing og tengdir aðilar geri sér grein fyrir því að samkomulagið hafi verið gert á ólögmætum forsendum, enda hafi þá verið í gangi rannsókn SFO, sem Tchenguiz segir að hafi verið að undirlagi Kaupþings, og sú rannsókn hafi í raun knúið fram samkomulagið.
Telja að málið geti haft áhrif á slit Kaupþings
Hinir stefndu í málinu fengu frest til 19. desember til að bregðast við. Það hafa þeir gert og slitastjórn Kaupþings og Jóhannes Rúnar Jóhannsson hafa farið fram á að málið, sem var höfðað fyrir breskum dómstólum, verði rekið fyrir íslenskum dómstólum. Þeir áttu að skila greinargerðum vegna deilunnar um lögsögu málsins síðastliðinn föstudag, þann 16. janúar. Búist er við því að sá angi þess verði tekin fyrir síðsumars 2015. Málareksturinn allur mun væntanlega taka mörg ár.
Jóhannes Rúnar Jóhannsson, sem situr í slitastjórn Kaupþings, segir ásakanirnar sem settar eru fram í stefnunni haldlausar. Honum er stefnt persónulega í málinu.
Tchenguiz fer fram á 2,2 milljarða punda, um 440 milljarða króna, í skaðabætur vegna þess tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir. Lögmenn hans telja að, í ljósi þess að upphæðin er svona há (heildareignir þrotabús Kaupþings eru um 800 milljarðar króna) gæti málið haft mikil áhrif á slitameðferð bankans. Vinni Tchenguiz málið gæti bótakrafa hans orðið svokölluð búskrafa sem myndi þá njóta forgangs. Ef greitt yrði út úr búi Kaupþings nú telja lögmennirnir að þá þyrfti að gera það með fyrirvara um að kröfuhafar myndu mögulega þurfa að endurgreiða miklar fjárhæðir ef Tchenguiz myndi vinna bótamálið í fyllingu tímans. Talið er að málareksturinn muni taka mörg ár.
Kjarninn leitaði til Kaupþings og bað um viðbrögð við því að innihald samkomulagsins frá því í september 2011 yrði birt. Þrotabúið kaus að bæta engu við fyrri yfirlýsingar. Áður hafði slitastjórn Kaupþings svarað fyrirspurn Kjarnans um stefnu Tchenguiz með eftirfarandi hætti: „Lögmenn Kaupþings hf. í Englandi hafa yfirfarið vandlega þær ásakanir sem lýst er í stefnu sem gefin hefur verið út af Vincent Tchenguiz og tengdum aðilum á hendur Kaupþingi hf. og Jóhannesi Rúnar Jóhannssyni hæstaréttarlögmanni. Jóhannes Rúnar á sæti í slitastjórn Kaupþings. Að lokinni þeirri skoðun er það ótvíræð niðurstaða lögmanna Kaupþings hf. og slitastjórnar að ekkert sé hæft í ásökunum um að Kaupþing eða Jóhannes Rúnar hafi átt þátt í meintu samsæri eða hafi hagað sér með óeðlilegum hætti að öðru leyti. Þessar ásakanir Vincent Tchenguiz og tengdra aðila eiga sér enga stoð og munu Kaupþing hf. og Jóhannes Rúnar halda uppi ítrustu vörnum vegna málsins. Þar sem málið er fyrir rétti í Englandi hyggst Kaupþing ekki tjá sig frekar að svo stöddu.”