Fyrrum starfsmanni Seðlabanka Íslands, sem höfðaði mál á hendur bankanum vegna uppsagnar eftir að upp komst um umsvifamiklar fjárfestingar hans á árunum 2007 og 2008, voru í dag dæmdar þrjár milljónir króna í bætur í Hæstarétti. Seðlabankinn hafði verið sýknaður af öllum kröfum mannsins í héraðsdómi en Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að maðurinn ætti að fá bætur vegna ólögmætrar uppsagnar, þrátt fyrir að hann hefði brotið af sér í starfi. Seðlabankanum var auk þess gert að greiða manninum tvær milljónir króna í málskostnað. Ástæða þess að ekki mátti segja manninum upp vegna brotanna var sú að Seðlabankinn hefði fyrst átt að áminna hann.
Einn dómari, Ólafur Börkur Þorvaldsson, skilaði sératkvæði og taldi að staðfesta ætti héraðsdóm. Að hans mati hefði Seðlabankinn mátt segja manninum upp vegna brota hans.
Félag í eigu mannsins, Hallgríms Ólafssonar, hafði stóð í umsvifamiklum fjárfestingum með hlutabréf, framvirka samninga og gjaldmiðla á árunum 2007 og 2008, á sama tíma og hann átti að hafa haft aðgang að trúnaðarupplýsingum innan bankans. Upp komst um umsvif viðskipta félags mannsins sumarið 2013 og var honum sagt upp störfum nokkrum mánuðum síðar.
Hann höfðaði mál á hendur Seðlabankanum vegna uppsagnarinnar sem hann tapaði í héraðsdómi í desember 2014. Starfsmenn Seðlabankans sem báru vitni í málinu sögði manninn hafa brotið gróflega trúnað, brotið gegn lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og brotið gegn reglum Seðlabankans um heimild starfsmanna hans til setu í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja.
Maðurinn áfrýjaði til Hæstaréttar og hann dæmdi í dag að Seðlabankanum hefði verið óheimilt að segja manninum upp, þrátt fyrir að hann hefði brotið af sér í starfi. Í dómi Hæstaréttar segir: "Við mat á fjárhæð skaðabóta var talið að taka þyrfti tillit til þess að starfsöryggi H hjá S sætti takmörkunum, eins og starfsöryggi annarra hjá íslenska ríkinu eða stofnunum þess, sbr. 44. gr. framangreindra laga, og að H hefði brotið af sér í starfi, þótt brotin hefðu ekki verið svo alvarleg að réttlætt hefði fyrirvaralausa uppsögn. Bæri hann því sjálfur nokkra ábyrgð á tjóni sínu. Með hliðsjón af framangreindu var S dæmt til að greiða H skaðabætur sem metnar voru að álitum 3.000.000 krónur."
Maðurinn hafði krafist 19,7 milljóna króna frá Seðlabankanum í skaðabætur fyrir héraðsdómi.
Samstarfsmenn höfðu ekki hugmynd
Málavextir eru þeir að Hallgrími var sagt upp störfum í Seðlabankanum árið 2013. Uppsögnin átti sér stað eftir að upp komst að félag sem maðurinn átti 30 prósent hlut í hefði farið út í fjárfestingar á árinu 2007, meðal annars á verðbréfamarkaði, með gjaldeyri og framvirka samninga um kaup á hlutabréfum. Samkvæmt ársreikningi átti félagið, Skólabrú hf., eignir upp á 120,5 milljónir króna í lok árs 2007.
Félagið hafði áður átt fasteign sem var seld haustið 2007 og söluágóðinn notaður í ofangreindar fjárfestingar.
Hallgrímur hélt því fram fyrir héraðsdómi að hann, sem starfsmaður Seðlabankans, ekki haft neinn aðgang að markaðsupplýsingum umfram almenning og hvað þá að hann hafi búið yfir innherjaupplýsingum. Starfsmenn Seðlabankans, sem unnu með honum og gáfu vitnaskýrslur við aðalmeðferð fyrir héraðsdómi, báru allir að hann hefði haft aðgang að trúnaðarupplýsingum sem engan veginn hafi getað samrýmst því að hann væri jafnframt framkvæmdastjóri félags sem hafi verið í umsvifamiklum fjárfestingum. Enginn þeirra virðist hafa hafa haft hugmynd um fjárfestingaumsvif Hallgríms fyrr en í sumarið 2013.
Næsti yfirmaður hans sagði til dæmis fyrir dómi að „Meðal annars hafi Skólabrú ehf., í viðskiptum við Landsbankann í ágúst 2008, gert framvirkan hlutafjársamning um kaup í fyrirtækinu Atlantic petrolium, samningurinn hafi verið í dönskum krónum og sett hafi verið að handveði innistæða á evrugjaldeyrisreikningi. Á sama tíma hafi stefnandi verið að vinna á gjaldeyrisborði stefnda sem sé ótrúlegt. Því hafi stefnandi brotið gróflega trúnað gagnvart sér sem næsta yfirmanni sínum“.
Umfang upplýst sumarið 2013
Aðallögfræðingur Seðlabankans komst að aðkomu mannsins að félaginu Skólabrú ehf. þegar hún var að vinna að fruminnherjalista Seðlabankans á árinu 2012. Hann var í kjölfarið beðinn um að gera Má Guðmundssyni seðlabankastjóra og regluverði bankans grein fyrir félaginu og starfsemi þess.
Kom þá í ljós að Skólabrú hf. hefði farið út í fjárfestingar í hlutabréfum, með gjaldeyri og framvirka samninga, eftir að hafa selt fasteign sem það átti á árinu 2007. Þar kom einnig fram að félagið ætti í deilum við slitastjórn Landsbankans og Virðingu vegna fjárfestinga sinna og að líklegt væri að málið myndi enda fyrir dómstólum. Hallgrímur sagði sig í kjölfarið úr stjórn félagsins eftir að seðlabankastjóri hafði hafnað bón hans um að sitja áfram í henni.
Í júní 2013 féll dómur í máli Skólabrúar hf. gegn Virðingu og var sá dómur birtur á vef dómstóla landsins. Málið snérist um að Skólabrú taldi Virðingu hafa farið út fyrir fjárfestingaheimildir sínar með fé félagsins og krafðist skaðabóta. Virðing var sýknuð af kröfu félagsins.
Í dómnum kemur hins vegar ýmislegt athyglisvert fram sem olli áhyggjum innan Seðlabankans. Þar segir meðal annars að Skólabrú hafi fjárfest í hlutabréfum og framvirkum samningum í félögum á borð við Atorku, Kaupþingi, Straumi-Burðarás og Existu. Í greinargerð Skólabrúar í málinu segir að Hallgrímur hafi sent tölvupóst í janúar 2008 þar sem hann vildi að öll samskipti Virðingar við Skólabrú ættu að fara fram við stjórnarformann Skólabrúar, ekki framkvæmdastjóra, sem var Hallgrímur sjálfur. Í dómnum segir að sú skýring hafi verið gefin á fyrirkomulaginu „að vegna starfa Hallgríms í Seðlabanka Íslands gæti hann ekki af „augljósum ástæðum“ staðið í símtölum eða kaupum á verðbréfum í vinnutíma[..] Hallgrímur hafi þó oft haft samband við […] í farsíma hans“.
Í greinargerðinni kemur líka fram að Hallgrímur hafi sjálfur hringt í þann starfsmann Virðingar sem sá um fjárfestingar fyrir Skólabrú til þess að óska „fyrir hönd stefnanda eftir kaupum á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. og að jafnframt yrðu gerðir framvirkir samningar um kaup á hlutabréfum í Exista hf. og Straumi-Burðarási hf.“. Á árinu 2008 hafi Hallgrímur síðan verið í beinum samskiptum fyrir hönd Skólabrúar við þáverandi starfsmann Virðingar um fjárfestingar Skólabrúar.
Sagt upp í október 2013
Dómar í málum Skólabrúar gegn þrotabúi Landsbankans og Virðingu gengu báðir á fyrri hluta ársins 2013 og voru báðir birtir opinberlega. Í sýknudómnum í skaðabótamáli mannsins gegn Seðlabankanum í héraðsdómi segir: „Urðu dómar þessir tilefni þess að stefnandi var kallaður á fund seðlabankastjóra þann 28. júní 2013 og honum afhent bréf undirritað af seðlabankastjóra og regluverði bankans. Í bréfinu kemur fram að þann 10. júní 2013 hafi gengið dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í málinu E-198/2012: Skólabrú ehf. gegn Virðingu hf. og dómurinn birtur á vefsíðu héraðsdómsins þann 26. júní sl. Í dóminum komi fram upplýsingar um aðkomu stefnanda að verðbréfa-, gjaldeyris- og afleiðuviðskiptum Skólabrúar á árunum 2007 og 2008, sem framkvæmdastjóri Skólabrúar ehf. og jafnframt starfsmaður Seðlabanka Íslands á sama tíma.
Vísað var síðan til 5. gr. reglna stefnda nr. 831/2002 um meðferð trúnaðarupplýsinga og verðbréfa- og gjaldeyrisviðskipti starfsmanna. Þess var óskað af hálfu stefnda að stefnandi tæki sér tímabundið leyfi frá störfum á launum frá 28. júní 2013 á meðan athugað væri hvort stefnandi hefði gerst brotlegur í starfi við lög og starfsreglur stefnda. Síðan fór í gang rannsókn af hálfu stefnda á málinu og var m.a. aflað gagna frá utanaðkomandi aðilum sem stefnandi hafði veitt heimild til að afla gagna frá.“
Í október 2013 komst Seðlabankinn að þeirri niðurstöðu að Hallgrímur hefði brotið gróflega gegn lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem og gegn reglum Seðlabankans um heimild starfsmanna hans til setu í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja. Eftir að honum hafði verið gefið tækifæri til að andmæla var Hallgrími sagt upp störfum þann 23. október 2013 það sem það væri mat Seðlabankans að hann hefði „brotið gróflega gegn trúnaðarskyldum í starfi sínu“.
Hallgrímur sætti sig ekki við þessa niðurstöðu og höfðaði skaðabótamál. Upphaflega fór hann fram á 47,6 miljónir króna í miskabætur. Við upphaf aðalmeðferðar fyrir héraðsdómi var sú krafa síðan lækkuð niður í 19,7 miljónir króna. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði þeirri kröfu í desember 2014 og áfrýjaði Hallgrímur þeirri niðurstöðu til Hæstaréttar, sem birti dóm sinn í dag.
Hefði átt að áminna manninn fyrst
Í dómi Hæstaréttar segir að Seðlabankinn hafi borið fyrir sig að uppsögn mannsins hafi verið reist á þremur atriðum, sem falið hafi í sér brot hans á starfsskyldum sínum og hann hafi fyrst fengið vitneskju um á miðju ári 2013. "Í fyrsta lagi gjaldeyrisviðskipti áfrýjanda fyrir hönd Skólabrúar ehf. Í málinu er upplýst að þau fólust í kaupum á evrum að jafnvirði 20.000.000 krónur á árinu 2007 þegar til stóð að félagið tæki þátt í fasteignakaupum í Póllandi. Fyrir liggur að af þeim kaupum varð ekki og að félagið hagnaðist verulega á því að eiga þennan erlenda gjaldeyri. Þá liggur fyrir að félagið fékk erlendan gjaldeyri vegna sölu á hlutafé og var hann lagður inn á reikning þess. Í öðru lagi bendir stefndi á að komið hafi í ljós að Skólabrú ehf. hafi gert framvirkan samning um kaup á hlutafé og er upplýst að um var að ræða einn slíkan samning um kaup á hlutafé í erlendu félagi. Í þriðja lagi hafi komið í ljós að áfrýjandi hafi í raun verið í fyrirsvari fyrir Skólabrú ehf. í þeim viðskiptum sem félagið stundaði frá árinu 2007."
Meirihluti Hæstaréttar fellst á það með Seðlabankanum að framangreind gjaldeyrisviðskipti og fyrirsvar áfrýjanda fyrir Skólabrú ehf. hafi verið nýjar upplýsingar, sem bankanum hafi ekki mátt vera að fullu kunnar á árinu 2012, og að þessi atriði hafi falið í sér brot áfrýjanda á starfsskyldum hans. Hann fellstþví á að maðurinn hafi brotið gegn lögum um réttindi og skyldur opinbera starfsmanna með því að eiga þau gjaldeyrisviðskipti sem um ræðir og með því að upplýsa ekki nægilega um fyrirsvar sitt fyrir félagið. Í dómnum segir hins vegar einnig: "Brot þessi, sem felld verða undir 21. gr. laganna, veittu stefnda ekki rétt til þess að segja áfrýjanda upp störfum á grundvelli 43. gr. þeirra án undangenginnar áminningar, sbr. 44. gr. þeirra. Verður því fallist á með áfrýjanda að uppsögnin hafi verið ólögmæt og hann eigi af þeim sökum rétt til skaðabóta úr hendi stefnda."