Seðlabanki Íslands vill ekki upplýsa um hvort hann sé raunverulegur eigandi um 80 prósent samþykktra krafna í bú Sparisjóðabanka Íslands sem bandaríski stórbankinn Morgan Stanley keypti í janúar síðastliðnum. Morgan Stanley vill ekki segja hver eigandi krafnanna sem hann keypti er og ber fyrir sig bankaleynd. Slitastjórn Sparisjóðabankans hafa ekki borist nein framsöl á umræddum kröfum og getur því ekki skráð viðskiptin í kröfuhafaskrá.
Þetta var staðan þegar fram fór kröfuhafafundur hjá þrotabúi Sparisjóðabankans, sem nú heitir SPB ehf., á miðvikudag í síðustu viku.
Morgan Stanley kaupir kröfur á Sparisjóðabankann
Þann 23. janúar 2015 barst kröfuhöfum í þrotabú Sparisjóðabankans tilboð frá bandaríska stórbankanum Morgan Stanley. Í tilboðinu fólst að bankinn var tilbúinn að skipta á kröfum á Sparisjóðabankann fyrir kröfur á þrotabú Kaupþings. Samkvæmt tilboðinu skyldi það teljast samþykkt og bindandi samningur kominn á ef eigendur krafna að lágmarki 55 milljarða króna tækju tilboðinu.
Morgan Stanley sendi síðan öllum kröfuhöfum Sparisjóðabankans tilkynningu 30. janúar þar sem staðfest var að skilyrði tilboðsins hefðu verið uppfyllt og viðskipti því orðið.
Seðlabankinn langstærsti kröfuhafinn
Sparisjóðabankinn var tekinn til slitameðferðar í mars 2009. Eignasafn Seðlabanka Íslands, betur þekkt sem ESÍ, lýsti hæstu kröfunum í búið, alls upp á 225 milljarða króna. Kröfurnar eru að mestu til komnar vegna endurhverfra viðskipta, oft kölluð ástarbréfaviðskipti, sem Sparisjóðabankinn átti við Seðlabankann. Slitastjórn SPB hafnaði stærstum hluta krafna ESÍ og lengi hefur staðið til að það mál yrði leitt til lykta fyrir dómstólum, enda ekki hægt að ljúka nauðasamningi búsins þegar stærsti hluti krafna í það er enn í ágreiningi. Til stóð að málflutningur færi loks fram snemma í mars 2015. Áður en af því varð, og eftir hið skyndilega tilboð Morgan Stanley, lagði ESÍ hins vegar fram tvö sáttatilboð.
Það fyrra var lagt fram 2. febrúar síðastliðinn og fól í sér að krafa ESÍ yrði viðurkennd sem almenn krafa upp á 149,3 milljarða króna og samhliða yrði minna máli lokið með því að ESÍ myndi endurgreiða þrotabúi Sparisjóðabankans 1,6 milljarð króna. Þessu tilboði var hafnað af slitastjórn þar sem það þótti alls ekki viðunandi. Hún hefur talið að virði kröfunnar ætti að vera mun lægra.
Til að setja stærð kröfu ESÍ í samhengi þá er nafnvirði annarra samþykktra almennra krafna í búið um 85 milljarðar króna.
Bandaríski stórbankinn Morgan Stanley leikur lykilhlutverk í fléttu með kröfur í bú Sparisjóðabankans.
Nýtt sáttartilboð
ESÍ var ekki af baki dottið og sendi inn nýtt sáttartilboð, dagsett 23. febrúar 2015. Það hljóðaði upp á að krafa félagsins yrði metin á 132 milljarða króna og að ESÍ myndi endurgreiða tvo milljarða króna vegna minna málsins. Slitastjórn Sparisjóðabankans var enn ekki sátt og taldi, samkvæmt bréfum til kröfuhafa sem Kjarninn hefur undir höndum, að tilboðið væri ekki nógu hátt.
Tilboðinu var hins vegar ekki hafnað og slitastjórn Sparisjóðabankans samþykkti, að beiðni forsvarsmanna ESÍ, að kynna það á skiptafundi og bera undir atkvæði kröfuhafa. Í kjölfarið var boðað til kröfuhafafundar til að greiða atkvæði um tilboðið og fór sá fundur fram á miðvikudag í síðustu viku, 25. mars.
Er ESÍ á bakvið kaup Morgan Stanley?
Ljóst var að Morgan Stanley hefði átt að vera ráðandi í þeirri atkvæðagreiðslu, enda hafði bankinn keypt um 80 prósent allra samþykktra almennra krafna í bú Sparisjóðabankans með því að skipta á þeim og kröfum á Kaupþing í janúar.
Við undirbúning kröfuhafafundarins kom hins vegar babb í bátinn. Engin framsöl höfðu borist til slitastjórnar Sparisjóðabankans sem staðfestu að Morgan Stanley væri orðinn réttborinn eigandi krafnanna sem bankinn hafði tilkynnt um að hann hefði keypt. Og slitastjórn Sparisjóðabankans getur ekki uppfært kröfuhafaskrá nema að framsöl liggi fyrir. Atkvæðagreiðsla um sáttartilboð ESÍ myndi alltaf fara fram á grundvelli kröfuhafaskráar.
Í bréfi til kröfuhafa, sem slitastjórnin sendi 20. mars og Kjarninn hefur undir höndum, kemur fram að slitastjórnin óskaði eftir frekari upplýsingum um viðskiptin frá Morgan Stanley og ESÍ. Ástæða þess að leitað var einnig til ESÍ var sú að flestir sem að málinu koma telja blasa við að ESÍ hafi staðið á bakvið viðskipti Morgan Stanley. Bandaríski bankarisinn hafi bara verið milliliður fyrir þetta eignaumsýslufélag Seðlabankans. Morgunblaðið hefur til að mynda fjallað ítarlega um þennan anga málsins.
Slitastjórnin fór fram á að vita hvert umfang viðskiptanna hafi verið, hver hefði átt kröfurnar á Kaupþing sem nota átti til að skipta á kröfum á Sparisjóðabankann og tengsl viðskiptanna við ESÍ og það sáttartilboð sem félagið hafði lagt fram.
Vildu ekki upplýsa hver ætti kröfurnar
Morgan Stanley og ESÍ var gefinn vikufrestur til að svara spurningunum og varpa þar með ljósi á eignarhald krafnanna. Í bréfi slitastjórnarinnar til kröfuhafa segir: „ESÍ svaraði ekki erindi slitastjórnar SPB og Morgan Stanley veitti engin svör við þeim spurningum er voru sendar og vísaði einungis til bankaleyndar.“
Þar sem engin svör bárust ákvað slitastjórnin að ekkert yrði af fyrirhugaðri atkvæðagreiðslu um sáttartillögu ESÍ á kröfuhafafundinum í síðustu viku.
En af hverju vill ESÍ, félag í eigu Seðlabanka almennings, ekki upplýsa um umrædd viðskipti? Hvaða hag hefur félagið af því? Ein ástæða sem nefnd hefur verið er sú að ef ESÍ er raunverulegur eigandi þeirra krafna sem Morgan Stanley keypti í janúar þá hefði félagið ekki mátt kjósa um sáttartilboð sitt á kröfuhafafundinum sökum vanhæfisreglu í gjaldþrotalögum.
Máttu ekki greiða atkvæði
Þeir sem fóru með umboð kröfuhafa á kröfuhafafundinum í síðustu viku lýstu yfir eindregnum vilja til að taka sáttartilboði ESÍ. Slitastjórn Sparisjóðabankans er hins vegar nokkur vandi á höndum. Hennar hlutverk er augljóslega ekki að standa gegn meirihlutavilja kröfuhafa, en hún þarf að vita hverjir raunverulegir eigendur krafna eru áður en hún getur tekið ákvörðun um hvort að sá meirihlutavilji sé til staðar, að teknu tilliti til vanhæfisreglu gjaldþrotalaga sem heimilar ESÍ ekki að taka afstöðu til síns eigins sáttartilboðs.
Þess má geta að íslenska fjármálafyrirtækið Arctica Finance var ráðið af Morgan Stanley til að sjá um samskipti við íslensku kröfuhafana sem áttu kröfunar sem bankinn keypti í janúar. Á meðal þeirra sem komu að þeirri vinnu fyrir hönd Arctica Finance var Agnar Hansson, forstöðumaður markaðsviðskipta fyrirtækisins. Hann var bankastjóri Sparisjóðabankans þegar hin kostnaðarsömu endurhverfu viðskipti hans við Seðlabankann áttu sér stað fyrir bankahrun.
Seðlabankinn neitar að svara spurningum
Kjarninn hefur reynt að fá svör frá Seðlabanka Íslands, sem á og starfrækir ESÍ, vegna málsins frá því snemma í febrúar. Fyrsta fyrirspurn vegna þessa var send 4. febrúar. Seðlabankinn hefur ekki viljað svara neinum spurningum um málið.
Kjarninn hefur reynt að fá svör frá Seðlabanka Íslands, sem á og starfrækir ESÍ, vegna málsins frá því snemma í febrúar. Fyrsta fyrirspurn vegna þessa var send 4. febrúar. Seðlabankinn hefur ekki viljað svara neinum spurningum um málið, en meðal þess sem spurt var um var:
Er ESÍ endanlegur eigandi þeirra krafna á sem Morgan Stanley keypti á þrotabú SPB?
Hver var eigandi þeirra krafna á Kaupþing sem notaðar voru til að greiða fyrir kröfur á þrotabú SPB?
Ef ESÍ er endanlegur kaupandi þessarra krafna, af hverju var félagið að kaupa þær?
Samræmist það hlutverki félagsins að kaupa kröfur með þessum hætti?
Einu svörin sem fengist hafa frá Seðlabankanum eru þau að ef einhver viðskipti muni eiga sér stað sem vert sé að skýra frá þá komi það í ljós í fyllingu tímans.
Af hverju leynimakk?
En af hverju þetta leynimakk? Af hverju er ekki hægt að skýra frá því hvort félag í eigu Seðlabanka almennings sé að skipta á kröfum á einn fallinn banka fyrir kröfur á annan? Ein kenningin er sú að Seðlabankinn vilji fyrir alla muni, af einhverjum ástæðum, losna við að ágreiningur um kröfu hans í bú Sparisjóðabankans fari fyrir dómstóla. Þá myndi fara fram efnisleg meðferð þar sem fjölmargir þyrftu að bera vitni um inntak og eðli „ástarbréfaviðskiptanna“ sem eru ástæða krafna bankans í bú Sparisjóðabankans.
Ef ESÍ tekst að komast yfir þorra almennra krafna í bú Sparisjóðabankans, og samþykkja í krafti þess mikla meirihluta útistandandi kröfu sína í búið, verður hægt að ljúka skiptum fljótlega og renna eignum búsins undir ESÍ eða dótturfélag þess Hildu.
Svör fást hins vegar ekki á meðan að Seðlabanki Íslands neitar að tjá sig um hvernig hann er að stunda viðskipti með kröfur í þrotabú fallins banka sem Seðlabankinn hafði sjálfur verið í miklum viðskiptum við.