Íslendingar hafa átt í formlegum diplómatískum samskiptum við Rússa síðan árið 1944 þegar Pétur Benediktsson var skipaður fyrsti sendiherra Íslands í Moskvu. Pétur og eftirmaður hans í starfi, Helgi P. Briem, höfðu þó ekki fasta búsetu í borginni. Það breyttist aftur á móti þegar Pétur Thorsteinsson var skipaður sendiherra í Moskvu árið 1953 og í hans tíð var húsið að Khlebnyi pereulok 28 fyrst tekið á leigu - en þar hefur sendiherrabústaðurinn verið nær sleitulaust síðan. Skrifstofa sendiráðsins var til að byrja með einnig í sama húsi en færðist svo síðar í nýja byggingu við hlið þess.
Húsið að Khlebenyi pereulok eða „Brauðgötu“ 28 á sér nokkuð merkilega sögu en götuheitið sem slíkt mun hafa dregið nafn sitt af þeim fjölda bakara sem bjuggu í götunni og þjónuðu keisurum í Kreml fyrr á tímum. Brauðgatan brann reyndar til grunna þegar her Napóleons Bónaparte réðst inn í Moskvu árið 1812 en þremur árum síðar er Brauðgata 28 skráð byggð í núverandi mynd.
Rúmum áratug áður en Íslendingar fluttu inn var Brauðgata 28 hins vegar aðsetur nasistaforingjans Ernst-August Köstring. Köstring var skipaður varnarmálafulltrúi Þýskalands í Moskvu og bjó í húsinu frá árinu 1935 til ársins 1941. Köstring var því í fremstu víglínu á sannkölluðum vendipunkti í síðari heimsstyrjöldinni, þegar Barbarossa-áætluninni var hrundið í framkvæmd.
Kallaður „Sesar“ af rússnesku leynilögreglunni
Köstring fæddist í Serebrjanyje Prudy í Rússlandi árið 1876 og ólst þar upp en foreldrar hans voru þýskir. Köstring gekk meðal annars í Mikhailovsky herskólann í Pétursborg og þjónaði um tíma í rússneska hernum en fluttist svo til Þýskalands áður en fyrri heimsstyrjöldin skall á. Köstring gekk þá í þýska herinn og komst nokkuð fljótt til metorða þar.
Uppgangur Köstring innan þýska hersins fór heldur ekki framhjá Rússum. Í skýrslu sem rússneska alríkislögreglan, FSB, birti árið 1999 kemur raunar fram að sovéska leynilögreglan, sem þá kallaðist NKVD GUGB, hafði verið með Köstring á skrá hjá sér löngu áður en hann er skipaður varnarmálafulltrúi í Moskvu árið 1935. Í skýrslu leynilögreglunnar frá árinu 1928 er Köstring tilgreindur sem maður sem þurfi að fylgjast vel með og honum lýst á eftirfarandi hátt. „Köstring talar fullkomna rússnesku og mun án nokkurs vafa reyna að vinna sér traust innan Rauða hersins þegar fram líða stundir. Hann kann að virka fremur frjálslyndur á yfirborðinu en undir niðri er hann gríðarlega slunginn og reyndur og mun gera allt til þess að komast yfir hernaðarlega mikilvægar upplýsingar,“ segir meðal annars í skýrslunni.
Fljótlega eftir að Köstring tók til starfa í Moskvu ákvað sovéska leynilögreglan því að bæta verulega við eftirlitið með honum. Leynilögreglan notaði dulnafnið „Sesar“ þegar Köstring var til umfjöllunar en það kann að vera til merkis um hversu stór fiskur hann var á þeim tíma og hversu mikil ógn var talin stafa af honum.
Ernst-August Köstring (til hægri) ásamt Hans Krebs, sem var skipaður aðstoðarmaður varnarmálafulltrúans í Mosvku í október árið 1940. Myndin er tekin í janúar árið 1941 en óvíst er hvort hún sé tekin á Brauðgötu 28. (Bundesarchiv/O.Ang.)
Leynigöng og hlerunarbúnaður á Brauðgötu 28
Köstring var almennt viðurkenndur sem helsti sérfræðingur nasista um Rauða herinn. Eftir að hann flutti svo inn á Brauðgötu 28 má segja að hann hafi notað hvert tækifæri til að bæta við þekkingu sína um hernaðarmátt Sovétríkjanna. Samkvæmt sovésku leyniþjónustunni var Köstring duglegur að nýta sér diplómatíska friðhelgi sína til njósnastarfa og á ferðalögum sínum um Sovétríkin skráði hann niður hernaðarlega mikilvægar upplýsingar, s.s. varðandi staðsetningar á hernaðarbyggingum, virkjunum, vegum og brúm.
Til að stemma stigu við njósnum Köstrings ákvað sovéska leynilögreglan því að snúa vörn í sókn snemma árs 1941. Kvöld eitt á meðan Köstring var á balletsýningu í Bolshoi-leikhúsinu braust leynilögreglan inn í Brauðgötu 28 og náði að mynda þar leynileg gögn og það sem reyndist mikilvægara, að koma fyrir hlerunarbúnaði á skrifstofu Köstrings. Þannig voru sumar upplýsingar þegar búnar að berast til eyrna ráðamanna í höfuðstöðvum sovésku leynilögreglunnar við Lubyanka-torg í Moskvu áður en þær komust alla til Berlínar.
Sögusagnir herma reyndar að leynilögreglan hafi við innbrotið notast við gömul leynigöng sem munu hafa legið á milli Brauðgötu 28 og nærliggjandi húss í næstu götu, nánar tiltekið á Skatertniy pereulok 25.
Höfuðstöðvar Alríkislögreglu Rússneska Sambandsríksins, FSB, við Lubyanka-torg í Mosvku. Á tímum Sovétríkjanna voru leyniþjónustustofnanirnar NKVD og siðar KGB einnig með höfuðstöðvar sínar í sömu byggingu.
Á móti Barbarossa-áætluninni?
Þjóðverjar hófu innrás inn í Sovétríkin þann 22. júní árið 1941 en sú ákvörðun átti eftir að reynast nasistum dýrkeypt. Köstring varð eftir í Moskvu ásamt öllu helsta starfsfólki sendiráðs Þjóðverja í borginni en konur, börn og lágt settir starfsmenn höfðu verið sendir heim til Þýskalands í vikunni áður. Köstring var fyrst um sinn haldið í „stofufangelsi“ af Sovétmönnum í Brauðgötu 28 áður en hann var fluttur til borgarinn Kostroma tveimur dögum síðar. Köstring var svo fluttur til Tyrklands 13. júlí þaðan sem hann og kollegar hans fóru svo aftur til Þýskalands í fangaskiptum fyrir starfsmenn sendiráðs Sovétmanna í Berlín.
Tvennum sögum fer af því hvaða skoðun Köstring hafði á Barbarossa-áætluninni svokölluðu. Sumar heimildir greina frá því að Köstring hafi fallið í sömu gryfju og aðrir nasistar og stórlega vanmetið varnarmátt og þrautseigju Sovétmanna og reiknað með auðveldum sigri. Í því samhengi er sovésku leyniþjónustunni oft hrósað fyrir að hafa náð að halda mikilvægum upplýsingum frá mönnum á borð við Köstring og oft afvegaleitt þá með því að mata þá vísvitandi af röngum upplýsingum.
Á meðan aðrar heimildir nafngreina Köstring sérstaklega og segja hann hafa talað gegn innrás inn í Sovétríkin og varað Þjóðverja sérstaklega við því að vanmeta ekki styrk Rauða hersins. Bandaríski blaðamaðurinn Henry Shapiro, sem var fréttaritari fyrir United Press og fleiri fréttaveitur í Moskvu á árunum 1933-1973, fullyrðir meðal annars að Köstring hafi staðfest í samtali við sig að hann hafi reynt að tala ráðamenn í Berlín af Barbarossa-áætluninni. Bandaríski rithöfundurinn og blaðamaðurinn Edgar Snow gengur reyndar lengra og segir að Köstring hafi brostið í grát í samtali við erlenda blaðamenn stuttu eftir að Þjóðverjar hófu innrásina inn í Sovétríkin og sagt: „Nú er Þýskaland búið að vera.“
Nürnberg-réttarhöldin og bókaútgáfa
Herþjónustu Köstring í þýska hernum var þó hvergi nærri lokið því hann átti meðal annars eftir að fá það verkefni frá árinu 1942 að skipuleggja og þjálfa „útlendingahersveit“ Þjóðverja með hermönnum frá Armeníu, Georgíu og frumbyggjum Kákasus til að berjast á austurvígstöðvum.
Köstring var svo á meðal þýskra hermanna til að gefast upp fyrir bandaríska hernum í Bad Aibling í Þýskalandi 4. maí árið 1945. Ári síðar stóð reyndar til að Köstring yrði kallaður til sem vitni í hinum frægu Nürnberg-réttarhöldum að beiðni lögmanns Joachim von Ribbentrop en þeirri beiðni var að lokum hafnað að beiðni Sovétmanna.
Köstring var í varðhaldi hjá Bandaríkjamönnum til ársins 1947, þegar hann var látinn laus. Ári síðar kom út bókin The Peoples of the Soviet Union sem Köstring var samhöfundur að en Bandaríkjaher sá um að gefa bókina út. Þar lýsir Köstring meðal annars samskiptum sínum við Sovétmenn á meðan hann bjó á Brauðgötu 28.
Höfundur er sagnfræðingur og markaðsfræðingur, búsettur í Moskvu.