Sérfræðingar, innan og utan stjórnarráðsins, sem taka þátt í vinnu við losun fjármagnshafta eru bundnir af innherjareglum sem staðfestar voru af Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, 7. október 2014 og tóku gildi 1. nóvember síðastliðinn. Brjóti þeir gegn viðkomandi reglum gætu þeir átt fangelsisvist yfir höfði sér. Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um trúnaðaryfirlýsingar vegna vinnu við losun fjármagnshafta.
Kjarninn beindi fyrirspurninni til ráðuneytisins 20. febrúar síðastliðinn. Hún hefur verið ítrekuð nokkrum sinnum síðan. Svar barst í gær, átján dögum eftir að fyrirspurnin var send, og í morgun birti ráðuneytið síðan svarið á vef sínum.
Hópurinn breyst á síðustu misserum
Breytingar voru gerðar á framkæmdastjórn um afnám hafta í janúar síðastliðnum. Þá fór Freyr Hermannsson, forstöðumaður fjárstýringar Seðlabankans, út úr hópnum og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri eignastýringar hjá MP banka, tók sæti í honum. Seðlabanki Íslands tilnefndi líka tvo starfsmenn bankans til að starfa í framkvæmdahópnum: Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits Seðlabankans,og Jón Þ. Sigurgeirsson, framkvæmdastjóra alþjóðasamskipta og skrifstofu bankastjóra.
Í tilkynningu sagði að Glenn Victor Kim gegndi áfram formennsku í framkvæmdahópnum, en hann hefur áralanga reynslu af erlendum fjármálamörkuðum og starfaði m.a. áður sem sérstakur ráðgjafi þýska fjármálaráðuneytisins vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar á evrusvæðinu. Auk ofangreindra eru í hópnum Benedikt Gíslason, ráðgjafi fjármála- og efnahagsmálaráðherra í haftamálum.
Eiríkur Svavarson hæstaréttarlögmaður hætti störfum í hópnum fyrir skemmstu en Ásgeir Helgi Reykjfjörð Gylfason, yfirlögfræðingur MP banka, tók sæti í hópnum fyrr á þessu ári.
Kurr innan fjármálageirans
Ljóst er að þeir sem starfa að áætlunargerð um losun hafta búa yfir mjög verðmætum upplýsingum sem gætu nýst á markaði til að hagnast verulega. Í trúnaðaryfirlýsingu sem allir sem vinna með haftalosunarhópnum eru látnir skrifa undir kemur fram hversu viðkvæmar upplýsingarnar eru og hversu mikilvægt það sé fyrir sérfræðinganna að halda trúnað um þær.
Brjóti þeir gegn þeim trúnaði eða misnoti upplýsingarnar með einhverjum hætti gæti það verið talið saknæmt athæfi, og viðkomandi gæti verið ákærður fyrir vikið.
Sigurður Hannesson er varaformaður framkvæmdahóps um losun fjármagnshafta.
Áhyggjur af þessari stöðu eru vel þekktar og mikið ræddar innan fjármálageirans. Samkvæmt heimildum Kjarnans eru ástæður þess að skipan þriggja manna sem starfað hafa í MP banka: Sigurðar Hannessonar, Benedikts Gíslasonar og Ásgeirs Helga Reykfjörð Gylfasonar, hafa vakið upp kurr er sú að áhyggjur eru á meðal stjórnenda og starfsmanna annarra fyrirtækja innan fjármálageirans að einn banki fái betri upplýsingar um stöðu mála en allir hinir. Ef einn banki veit meira um hvað sé framundan varðandi losun hafta, og þær leiðir sem stjórnvöld ætla að fara í þeirri vegferð, þá sé hann með stórt samkeppnislegt forskot á samkeppnisaðila sína á markaði.
Þingmenn leggja drengskap sinn undir
Það eru ekki bara sérfræðingarnir sem þurfa að skrifa undir skjöl vegna haftalosunaráætlunar. Þeir þingmenn sem sitja í samráðsnefnd þingflokka um afnám fjármagnshafta hafa allir undirritað þagnarheit sem í felst að þeir gæti „þagmælsku um atriði sem ég kann að fá vitneskju um í starfi mínu fyrir hópinn sem leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan skal haldast þótt störfum hópsins sé lokið“.
Þegar þingmennirnir skrifuðu undir þagnarheitið var þeim einnig gert ljóst að þeir kunni, í tengslum við störf hópsins, að fá vitneskju um innherjaupplýsingar og teljist þar með innherjar samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.
Samráðshópurinn hefur reyndar ekki verið upplýstur mikið. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans hefur hann ekki fundað það sem af er þessu ári. Innan Vinstri grænna hafa verið uppi háværar raddir um að rétt sé að flokkurinn segi sig úr hópnum vegna samráðsleysis.