Útlit er fyrir að Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands og leiðtogi Fidesz-flokksins, fái snaraukna samkeppni í þingkosningunum sem fram fara í landinu á næsta ári.
Stjórnarandstaðan hefur tekið sig saman og myndað sex flokka kosningabandalag, sem mun bjóða fram gegn Orbán og flokki hans í öllum kjördæmum landsins. Vonir stjórnarandstöðunnar standa til þess að sameinuð nái hún nægum slagkrafti til þess að velta Fidesz-flokknum og leiðtoga hans úr sessi, í fyrsta sinn síðan 2010.
Jafnvel þrátt fyrir að það myndi ekki takast standa vonir stjórnarandstöðunnar til þess að sameinað framboð myndi minnka ægivald Fidesz-flokksins á þinginu. Þrátt fyrir að flokkur Orbáns hafi „einungis“ fengið rúm 49 prósent atkvæða á landsvísu fékk hann 133 þingsæti af þeim 199 sem eru í boði á þjóðþinginu í Búdapest og þar með aukinn meirihluta.
Flokkarnir sex sem bjóða fram gegn stjórnarflokknum fengu um 46 prósent atkvæða, en það skilaði þeim litlu. Skoðanakannanir sýna að nær enginn munur er á fylgi kosningabandalagsins og Fidesz-flokksins um þessar mundir.
Sveigja kosningakerfið sér í vil
Stjórnarandstæðingar hafa undanfarin ár gagnrýnt þær breytingar sem stjórn Orbáns hefur gert á kosningakerfinu í landinu á umliðnum áratug og sagt þær veita hlutfallslega of mörg þingsæti til ráðandi afla.
Sameinuðu framboði stjórnarandstæðinga er ætlað að reyna að jafna leikinn, en einungis einn frambjóðandi verður valinn fyrir hönd stjórnarandstöðunnar í öllum 106 einmenningskjördæmum landsins til þess að bjóða fram gegn frambjóðendum stjórnarflokksins.
Fyrir kosningarnar árið 2018 kom upp umræða í Ungverjalandi um hvort mögulegt væri að ná auknum árangri á landsvísu með sameinaðri stjórnarandstöðu, en fordæmi eru fyrir því að stjórnarandstaðan hafi sameinast í borgarstjórakosningum og haft betur, jafnvel í borgum þar sem Fidesz er alla jafna langstærsti flokkurinn, rétt eins og á landsvísu.
Á síðasta ári ræddu flokkarnir sex mánuðum saman um samstarf í kosningum næsta árs og lögðu þeir síðan í upphafi þessa árs fram grunn að kosningastefnu sinni.
Núna er ferli farið af stað til að velja forsætisráðherraefni sameinaðrar stjórnarandstöðu.
Fyrri umferðin fór fram dagana 18.-28. september og þar hlaut Klára Dobrev, varaforseti Evrópuþingsins og fulltrúi tveggja frjálslyndra flokka í stjórnarandstöðunni, flest atkvæði eða tæp 35 prósent.
Til stóð að hún myndi etja kappi við þá Gergely Karácsony, sem er fulltrúi þriggja flokka sósíaldemókrata og græningja og Péter Márki-Zay, sem býður sig óháður fram, í síðari umferð forvals stjórnarandstöðunnar, sem fram fer dagana 10.-16. október.
Að morgni dags þann 8. október bárust þó fréttir um að Karácsony, sem er borgarstjóri í Búdapest, væri hættur við að fara fram og hefði lýst yfir stuðningi við Márki-Zay, sem verður því einn í framboði gegn Dobrev.
Karácsony og Márki-Zay fengu 27 og 20 prósent atkvæða í fyrri umferð forvalsins, þar sem alls fimm valkostir voru í boði.
Val um meira af Orbán eða góð tengsl við Evrópu
Dobrev ræddi við fréttamenn um hið sameinaða framboð stjórnarandstöðunnar á dögunum og í frétt Reuters er haft eftir henni að kosningarnar í apríl á næsta ári muni snúast um val á milli „Orbán eða Evrópu“ – ef kjósendur vilji að Ungverjaland haldi góðum tengslum við Evrópusambandið þurfi þeir að greiða sameinaðri stjórnarandstöðunni atkvæði sitt.
Dobrev sagði ennfremur að ef Orbán héldi áfram deilum sínum við Evrópusambandið, sem meðal annars snúa að frelsi fjölmiðla og málefnum fólks að flótta, myndi einn daginn koma að því að Ungverjar yrðu sviptir styrkveitingum úr sameiginlegum sjóðum sambandsins.
Fréttin var uppfærð með nýjum upplýsingum um brotthvarf Karácsony úr forvalsbaráttunni.