Hitabylgjan sem geisar víða í Evrópu fer í sögubækurnar. Hún hefur legið eins og mara yfir Suður- og Vestur-Evrópu en mun í dag ná norðar og austar. Til Hollands, Belgíu og Þýskalands til dæmis. Hitamet hafa þegar verið slegin víða, samgöngur hafa farið úr skorðum og þúsundir hektara lands brunnið í skógareldum.
Það er af mörgu að taka varðandi þessi ósköp öll en Kjarninn valdi sex staðreyndir sem kveikt hafa á viðvörunarbjöllum í hugum margra.
Heitasta nóttin – heitasti dagurinn
Hitamet hafa fallið á að minnsta kosti 188 stöðum víðs vegar um heiminn í ár. Af þeim hafa fimmtíu fallið undanfarna viku. Til samanburðar hafa aðeins átján kuldamet fallið á þessu ári.
Þetta ójafnvægi er til marks um loftslagsbreytingar af mannavöldum. „Þetta er sú hnattræna hlýnun sem búast má við vegna aukinna gróðurhúsalofttegunda,“ hefur CNN eftir Gabriel Vecchi, loftslagsfræðingi og prófessor við Princeton-háskóla. „Þetta er nú sá veruleiki sem við búum í.“
Hiti mældist víða ekki undir 25 gráðum í Bretlandi í nótt. Þar með er hitamet að næturlagi í landinu slegið en það eldra er frá því í ágúst árið 1990.
Klukkan 10 í morgun var hitinn þegar kominn í 35 gráður í London. Í dag er spáð heitasta degi allra tíma. Og rétt eftir hádegið var hitamet landsins slegið er hiti mældist 39,1 stig í Surrey. Gamla metið var 38,7 gráður.
🌡️ For the first time ever, 40 Celsius has provisionally been exceeded in the UK
— Met Office (@metoffice) July 19, 2022
London Heathrow reported a temperature of 40.2°C at 12:50 today
📈 Temperatures are still climbing in many places, so remember to stay #WeatherAware ⚠️#heatwave #heatwave2022 pic.twitter.com/GLxcR6gjZX
En þetta var aðeins byrjunin. Fyrst sagði veðurstofan að von væri á 39 gráðum. Svo 40. Þá 41. Nú, um hádegi að íslenskum tíma, er talið að hitinn á Bretlandseyjum geti farið í 42 gráður.
Á morgun, miðvikudag, er spáð þrumuveðri og hefur breska veðurstofan gefið út viðvaranir vegna þess.
Loftslagsbreytingar „drepa“
Vísindamenn segja að öfgar í hita jafnt sem öðrum veðurfarslegum þáttum megi rekja til loftslagsbreytinga af mannavöldum. „Loftslagsbreytingar drepa,“ sagði Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar í gær er hann heimsótti þrjú svæði þar sem stjórnlausir skógareldar geisa. „Loftslagsbreytingar drepa fólk, þær drepa vistkerfi og lífbreytileika.“
Spánn hefur orðið mjög illa úti í hitabylgjunni síðustu daga. Allt landið er nánast undir og hiti víða mælst yfir 40 gráðum.
Sumarið 2020 fengu breskir vísindamenn á baukinn fyrir að draga upp mynd af því hvernig veðurkort framtíðarinnar kynni að líta út vegna loftslagsbreytinga. Þeir birtu spákort fyrir 23. júlí 2050 sem margir hlógu hreinlega að. Spákort dagsins í dag er sláandi líkt því sem sérfræðingarnir sögðu að gæti átt sér stað eftir tæpa þrjá áratugi, segir Simon Lee, loftslagssérfræðingur við Columbina-háskóla. „Það sem gerist á þriðjudag veitir innsýn í það sem koma skal í framtíðinni.“
Þessi þriðjudagur er nú runninn upp.
Bráðnuð flugbraut og æðandi eldar
Hitabylgjan hefur mörg andlit. Eitt þeirra er að malbikið á flugbraut á Luton-flugvelli í London hreinlega bráðnaði. Þar fór hitinn upp í 37 gráður í gær.
Bretar hafa verið hvattir til að halda sig heima yfir heitasta tíma dagsins og eru varaðir við notkun almenningssamgangna að nauðsynjalausu. Enginn vill vera fastur í óloftkældri neðanjarðarlest í þessum hita. „Verið með vatn á ykkur,“ segja samgönguyfirvöld í London. Hægt hefur verið á öllum lestum. Svona mikill hiti getur valdið skemmdum á alls konar búnaði, ekki síst rafmagnsköplum og línum.
Tugþúsundir hafa þurft að flýja undan skógareldum í Frakklandi, á Spáni og í Portúgal. Í Frakklandi hafa tæplega 40 þúsund manns þurft að yfirgefa heimili sín vegna elda sem loga á þremur svæðum. Tveir þeirra hafa logað í nokkra daga og sá þriðji kviknaði í morgun. Þykkur reykur yfir borginni Bordeaux í morgun. Gríðarlegt álag er á neyðarþjónustu, m.a. vegna þúsunda símtala frá skelfdum borgurum.
Að minnsta kosti 20 þúsund hektarar lands hafa brunnið í þeim sem lengur hafa logað.
Mannfall
Talið er að hitabylgjan í Suður- og Vestur-Evrópu hafi þegar kostað yfir 1.100 manns lífið. Dagurinn í dag ógnar áfram lífi fólks, sagði í tilkynningu bresku veðurstofunnar. „Ef fólk á viðkvæma ættingja eða nágranna, núna er rétti tíminn til að ganga úr skugga um að þeir séu að beita viðeigandi aðgerðum til að fást við hitann,“ sagði talsmaður veðurstofunnar. „Ef spáin í dag gengur eftir gæti líf fólks verið í hættu.“
Stéttaskipting
BBC hefur beitt ýmsum aðferðum, m.a. gervitunglamyndum, til að komast að því hverjir það eru sem eiga á hættu að verða verst úti í hitabylgjunni. Niðurstaðan er sú að fólk í fátækustu hverfunum hvort sem er á Englandi, Wales eða Skotlandi, er tvöfalt líklegra til að búa við umtalsvert meiri hita en nágrannar þeirra. Þetta skýrist af fyrirbrigði sem kallast „urban heat island effect“ – heitar borgareyjur – sem skýrist af því mikla magni steypu og malbiks á afmörkuðum svæðum sem gleypa í sig hita úr sólarljósinu. Í hverfum efnameira fólks eru fleiri og stærri græn svæði sem draga úr þessum áhrifum.
Þetta getur skipt gríðarlegu máli. Í fyrra komst BBC að því að í einu hverfi var hitinn 5 gráðum heitari en mældist í almenningsgarði skammt frá.
BBC telur að sex milljónir manna búi á þessum heitu borgareyjum í Bretlandi.
Kælingin
Árið 2018 er talið að loftkælingarbúnaður hvers konar hafi nýtt 10 prósent af allri raforku sem framleidd var í heiminum. Þá voru Japanir og Bandaríkjamenn langstærstu notendur slíks búnaðar en reikna má með að um 90 prósent heimila í Bandaríkjunum noti slíkt, bæði búnað sem kælir loftið (AC) eða viftur til að kæla það með hreyfingu. Hins vegar bjuggu aðeins um 8 prósent af fólki á heitustu svæðum jarðar við slíkan munað árið 2018.
Og núna þegar sumrin á flestum vesturlöndum eru augljóslega að verða heitari er sprenging í notkun á loftkælingum í uppsiglingu. Talið er að eftirspurn eftir raforku til að kæla sig eigi eftir að meira en þrefaldast til ársins 2050.
Þetta er auðvitað vítahringur sem þarf að brjóta. Vísindamenn benda á að ýmsar leiðir séu færar til að kæla hýbýli. Það megi t.d. læra af þjóðum sem búa við Miðjarðarhafið. Hanna þarf hús með þetta í huga. Svo hægt sé að koma hreyfingu á loftið með því að opna glugga og komast í skugga.
Græn svæði í borgum gera líka mikið gagn. Þeim þarf að fjölga, ekki fækka.
Eftirfarandi eru líka góð ráð:
Drekktu eitt vatnsglas aukalega á hverjum klukkutíma.
Bleyttu fötin þín