Sjálfstæðisflokkurinn gerir ráð fyrir því að ljúka endurgreiðslum á styrkjum sem hann fékk frá FL Group og Landsbanka Íslands árið 2006 á þessu ári, 16 árum eftir að styrkirnir voru veittir. Þetta kemur fram í svari frá skrifstofu Sjálfstæðisflokksins, við fyrirspurn Kjarnans. Samtals námu styrkirnir 56 milljónum króna.
Í svarinu, sem er að mestu samhljóða svörum sem Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, hefur áður veitt Kjarnanum vegna sama máls á undanförnum árum, segir hann að stjórnmálaflokkar hefðu hlotið háa styrki frá fyrirtækjum árið 2006 en að þeir hefðu verið í samræmi við þágildandi lög. Styrkirnir hefðu verið gagnrýndir í opinberri umræðu og ákvað Sjálfstæðisflokkurinn einn flokka að endurgreiða styrki sem hann hlaut árið 2006. Það hafi flokkurinn gert af rekstrarfé sínu. „Áform voru uppi um að ljúka endurgreiðslum fyrir árið 2018. Það gekk því miður ekki eftir. Ástæðan fyrir því er m.a. að kosningar hafa verið tíðari en ráð var fyrir gert, en þær eru langsamlega fjárfrekustu útgjaldaliðir stjórnmálaflokka. Gert er ráð fyrir að endurgreiðslum ljúki á þessu ári.“
86 milljónir króna á núvirði
Styrkirnir voru veittir 29. desember 2006. Þremur dögum eftir að styrkirnir voru veittir, 1. janúar 2007, tóku gildi ný lög um fjármál stjórnmálaflokka sem gerðu það að verkum að flokkum var meinað að taka við styrkjum yfir 300 þúsund krónum frá einstökum lögaðilum. Þeir námu samtals, líkt og áður segir, 56 milljónum króna á þávirði. Á núvirði er upphæðin um 86 milljónir króna. Vorið 2009 sagði Bjarni Benediktsson, þá nýkjörinn formaður flokksins, að styrkirnir yrðu endurgreiddir.
Sjálfstæðisflokkurinn ákvað einn flokka að endurgreiða háa styrki sem hann fékk fyrir hrun. Samfylkingin fékk einnig styrki upp á rúmar 36 milljónir króna árið 2006 frá Kaupþingi, FL Group, Glitni, Landsbanka Íslands og Baugi. Flokkurinn sagðist hins vegar ekki ætla að greiða styrkina til baka líkt og Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að gera.
FL Group heitir í dag Stoðir og er á meðal umsvifamestu einkafjárfesta í íslensku viðskiptalífi. Félagið hefur ekki viljað tjá sig um styrkjamálið á undanförnum árum og hvorki játa því né neita að endurgreiðsluferli sé að eiga sér stað. Slitabú Landsbankans, sem tók við eignum og skuldum hins fallna banka eftir hrunið, vildi heldur ekki tjá sig um málið þegar Kjarninn leitaði eftir upplýsingum um það árið 2015.
Því hafa þeir sem ættu að vera viðtakendur endurgreiðslna ekki viljað staðfesta að þær séu að rata til þeirra.
Jón Ásgeir opnar málið á ný
Styrkirnir rötuðu aftur í umræðuna í byrjun árs í fyrra þegar Jón Ásgeir Jóhannesson, sem var umfangsmesti fjárfestirinn í FL Group, fjallaði um það í bók sinni „Málsvörn“.
Hann sagði í viðtali við RÚV vegna útgáfu bókarinnar að hann hefði ekki tekið ákvörðun um að veita styrkinn frá FL Group. Aðspurður hvort það hafi verið Hannes Smárason, þáverandi forstjóri FL Group og einn stærsti hluthafi félagsins á þeim tíma, svaraði Jón Ásgeir því til að það hafi væntanlega verið stjórnendur félagsins sem hafi tekið hafi ákvörðunina.
Í bókinni um Jón Ásgeir kom fram að Hannes hafi ekki fengið kvittanir fyrir greiðslunni til Sjálfstæðisflokksins þegar hún var framkvæmd. Slíkri hafi verið skotið inn í bókhald FL Group eftir á að næturlagi, og með því hafi verið að brjóta bókhaldslög.
„Samið við Geir frekar en Gulla“
Styrkjamálið vakti mikla hneykslun þegar það komst upp í apríl 2009 og Geir H. Haarde, sem þá hafði látið af störfum sem formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist í tilkynningu bera fulla ábyrgð á viðtöku styrkjanna. Bjarni Benediktsson, sem þá var nýtekinn við sem formaður flokksins, sagði viðtöku styrkjanna „stangast gróflega á við þau gildi sem ég vil að Sjálfstæðisflokkurinn starfi eftir.“
Andri Óttarsson, þáverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, hætti störfum nokkrum dögum eftir að málið kom upp. Í yfirlýsingu frá Andra vegna þessa kom fram að hann hafi ekki átt frumkvæði að því að haft var samband við FL Group eða Landsbankann um styrkveitingu og að hann hafi ekki tekið ákvörðun um að veita styrkjunum viðtöku. „Þrátt fyrir þetta og þær skýringar sem komu fram í yfirlýsingu fyrrverandi formanns flokksins er það mitt mat að við núverandi aðstæður þjóni það best hagsmunum Sjálfstæðisflokksins að ég láti af störfum sem framkvæmdastjóri hans þar sem mikilvægt er að leita allra leiða til að skapa traust og frið um flokksstarfið. Af þeim sökum hef ég boðist til að víkja úr stöðu minni.“
Þann 11. apríl sendu Þorsteinn M. Jónsson, þáverandi stjórnarmaður í FL Group sem er oftast kenndur við Kók, og Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi yfirmaður verðbréfadeildar Landsbankans, frá sér yfirlýsingu þar sem þeir sögðust hafa haft milligöngu um að útvega Sjálfstæðisflokknum styrkina. Þeir sögðu einnig að Guðlaugur Þór Þórðarson, núverandi ráðherra orku- og umhverfis-, orku- og loftslagsmála, hefði haft samband við þá og greint frá bágborinni fjárhagslegri stöðu Sjálfstæðisflokksins. Í framhaldi hafi hann ekki haft frekari afskipti, upphæð styrkjanna hefði verið ákveðinn af fyrirtækjunum og stjórn flokksins ákveðið að veita þeim viðtöku.
Í bókinni um Jón Ásgeir kom fram að hann teldi sig vita til þess að Geir H. Haarde hafi staðið á bakvið beiðnina um styrkina en að Guðlaugur Þór hafi verið látinn taka á sig sök í málinu. „Það var það sem ég heyrði, að þetta hefði verið samið við Geir frekar en Gulla[...]Ég var þarna í stjórn og mér gefin sú skýring,“ sagði Jón Ásgeir í samtali við RÚV.
Tvær af hverjum þremur krónum koma úr opinberum sjóðum
Fjármál Sjálfstæðisflokksins hafa tekið stakkaskiptum á undanförnum árum, samhliða því að framlög til stjórnmálaflokka úr ríkissjóði hafa stóraukist. Hann er stærsti flokkur landsins, fékk 24,4 prósent atkvæða í síðustu kosningum, og fær því hæstu framlög allra flokka úr sameiginlegum sjóðum.
Til viðbótar sótti hann 53,1 milljón króna í framlög og félagsgjöld frá einstaklingum og lögaðilum og hafði 59,6 milljónir króna í aðrar tekjur, sem að uppistöðu eru leigutekjur. Á meðal þeirra lögaðila sem greiddu Sjálfstæðisflokknum hámarksstyrk upp á 550 þúsund krónur eru sjávarútvegsfyrirtæki mest áberandi.
Fasteignamat hærra en bókfært virði
Sjálfstæðisflokkurinn er langumsvifamesti flokkur landsins. Eignir hans eru metnar á 925 milljónir króna og hækkuðu um 77 milljónir króna milli ára.
Dýrmætustu eignir flokksins eru fasteignir, sem metnar eru á 646 milljónir króna. Þær eru bókfærðar á kostnaðarverði, en fasteignamat eigna og lóða er hærra, eða 919 milljónir króna. Þar á meðal er Valhöll, höfuðstöðvar flokksins. Í október í fyrra var samþykkt beiðni flokksins um að byggja blokk með 47 íbúðum og atvinnuhúsnæði á lóð Valhallar. Auk þess á flokkurinn hlut í tveimur félögum, Þorra ehf. og Íhaldi ehf., Það fyrrnefnda hefur þann tilgang að halda utan um kaup, sölu og rekstur fasteigna, blaðaútgáfu, lánastarfsemi og aðra skylda starfsemi vegna starfs Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi. Hið síðarnefnda vinnur að húsnæðismálum samtaka eða félaga sjárfsstæðismanna í Fljótsdalshéraði.
Handbært fé Sjálfstæðisflokksins í lok árs 2020 var rúmlega 195 milljónir króna og jókst um 89 milljónir króna á síðasta ári.
Skuldir flokksins lækkuðu lítillega á milli ára og voru 449 milljónir króna í lok árs 2020. Óráðstafað eigið fé Sjálfstæðisflokksins var því 476,2 milljónir króna á þeim tíma. Skuldirnar eru ekki sundurliðaðar með þeim hætti að hægt sé að sjá hversu mikið af skuldinni við FL Group og Landsbankann sé ógreidd.