Fylgi Sjálfstæðisflokksins er oftar en ekki vanmetið í skoðanakönnunum sem framkvæmdar eru í aðdraganda kosninga hérlendis. Hafsteinn Einarsson doktorsnemi í félagstölfræði telur að sú sé staðan einnig í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík nú og segir að fyrir því geti verið ýmsar ástæður.
„Eins og alltaf þegar við erum að skoða svona félagsfræðileg fyrirbæri eru skýringarnar fleiri en bara eitthvað eitt,“ segir Hafsteinn, sem dróg fram á Twitter í gær nokkrar ástæður fyrir því að fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist iðulegra lægra í könnunum en raunin verður svo, þegar talið er upp úr kjörkössunum – og benti á að það hefði einnig verið raunin í Reykjavík fyrir fjórum árum síðan.
Nokkur umræða hefur spunnist um skoðanakannanir sem birtar hafa verið um stöðu mála í Reykjavík nú í aðdraganda kosninga, en það vakti athygli í morgun að Kolbrún Bergþórsdóttir, leiðarahöfundur Fréttablaðsins, sagði að könnun sem rannsóknarfyrirtækið Prósent vann fyrir sama blað virtist vera lítt marktæk.
„Skoðanakannanir eru ekki kosningaúrslit. Það var því nokkuð skondið að sjá hvernig fjölmiðlar slengdu því fram sem stórfrétt og leituðu til álitsgjafa þegar Sjálfstæðisflokkurinn fékk 16 prósent í einni könnun – könnun sem flest bendir til að hafi verið lítið marktæk,“ skrifar Kolbrún í leiðara í dag, en Fréttablaðið sjálft slengdi fram niðurstöðum könnunarinnar í fimm dálkum á forsíðu blaðsins í upphafi vikunnar.
Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni sagði við mbl.is að þessi könnun, sem sýndi flokkinn minni en Pírata í Reykjavík, væri ekki í takti við þær kannanir sem hún hefði innsýn í, og á þá við kannanir sem flokkurinn hefur sjálfur látið vinna fyrir sig núna í aðdraganda kosninga.
„Það gæti verið að fylgið okkar sé bara ekki þátttakandi í þessum könnunum, en þetta er auðvitað bara samkvæmisleikur og niðurstöður munu svo rata upp úr kjörkössum á laugardag,“ sagði Hildur við mbl.is á mánudag.
Erfið mál geri kjósendur fráhverfa skoðanakönnunum
Það sem Hildur nefnir, að fylgismenn Sjálfstæðisflokksins séu hreinlega ekki þátttakendur í sumum könnunum þessa dagana, gæti verið að einhverju leyti rétt, að sögn Hafsteins, en það er þekkt erlendis frá að þegar neikvæð umræða er í kringum flokka eða frambjóðendur eru stuðningsmenn þeirra ólíklegri til þess að svara könnunum.
Í umfjöllun bandaríska fjölmiðilsins FiveThirtyEight um þessa tilhneigingu kjósenda er meðal annars tekið það dæmi að árið 2016 voru yfirlýstir stuðningsmenn Donalds Trump ólíklegri til þess að taka þátt í skoðanakönnunum en fylgismenn Hillary Clinton í kjölfar þess að upptaka af Trump að tala með niðrandi hætti um konur rataði í fréttir. Á upptökunni sagði Trump meðal annars að þegar menn væru stjörnur, eins og hann, þá gætu þeir gert hvað sem er, jafnvel gripið í klofið á þeim. „Grab them by the pussy. You can do anything.“
Sambærileg staða gæti átt við um Sjálfstæðisflokkinn nú, en umræða um útboðið á hluta af eign ríkisins á Íslandsbanka hefur verið bæði hávær og neikvæð undanfarnar vikur og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður flokksins setið undir harðri gagnrýni. Málið hefur verið stórt fréttamál í íslensku samhengi og Hafsteinn segir að það séu alltaf að koma fram betri vísbendingar um að neikvæð umræða um stjórnmálaflokka- og fólk geti haft áhrif á þátttöku í skoðanakönnunum og leitt til þess að niðurstöður þeirra bjagast.
„Kenningin var áður að fólk væri kannski bara að ljúga og segðist ekki ætla að kjósa flokkinn, en ég held að þetta sé miklu sterkari kenning [að fólk sleppi því að svara] því það er mjög fátt sem bendir til þess að fólk ljúgi í skoðanakönnunum,“ segir Hafsteinn og bætir því við að það sé munur á svarhlutfalli og þátttöku á milli kannana.
„Svo það meikar ákveðið sens að þegar það komi upp einhver umræða, þá sé fólk tímabundið ólíklegra til að vilja yfir höfuð svara. Ef einhver hringir í þig eða sendir tölvupóst með könnun þá ákveður þú að geyma það, eða sleppa því í þetta skiptið,“ segir Hafsteinn, sem telur þetta geta átt við um einhvern hluta þeirra sem munu þó mögulega fara á kjörstað í Reykjavík á morgun og veita D-listanum atkvæði sitt.
Unga fólkið svarar könnunum en mætir síður á kjörstað
Annað atriði sem Hafsteinn nefnir að gæti leitt til vanmats á fylgi Sjálfstæðisflokks í könnunum er döpur kjörsókn ungs fólks. Í könnuninni sem Fréttablaðið birti á mánudaginn sagðist meirihluti svarenda sem voru undir 34 ára aldri ýmist ætla að kjósa Pírata eða Samfylkinguna í Reykjavík, á meðan einungis sex prósent svarenda á aldrinum 18-24 ára sögðust ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.
Í borgarstjórnarkosningunum árið 2018 var heildarkjörsóknin í Reykjavík 67,1 prósent, en hún var mjög breytileg eftir aldurshópum. Hjá fólki á aldrinum 18-29 ára var hún einungis 50,7 prósent, tæp 60 prósent kjósenda á aldrinum 30-39 ára skiluðu sér á kjörstað en 75,4 prósent allra yfir fertugu. Ef kosningaþátttaka ungs fólks verður áfram léleg yrði það því ein möguleg skýring á því að Sjálfstæðisflokkurinn fái meira upp úr kjörkössunum en flokkurinn hefur verið að mælast með í könnunum.
Miklar sveiflur milli skoðanakannana og úrslita 2018
Árið 2018 voru töluverðar sviptingar frá skoðanakönnunum í borginni og því sem svo kom upp úr kjörkössunum. Fylgi Sjálfstæðisflokksins var þannig rúm 27 prósent í könnunum en reyndist nær 31 prósenti þegar yfir lauk og Samfylkingin var að mælast með um 30 prósent, en endaði á að fá tæplega 26 prósent.
Fimm ástæður til að gera ráð fyrir að 🔵 Sjálfstæðisflokkurinn 🔵 fái meira fylgi í borgarstjórnarkosningum en kannanir gefa til kynna 🧵
— Hafsteinn Einarsson (@hafsteinneinars) May 12, 2022
Fylgi Vinstri grænna hrundi svo úr rúmum 11 prósentum niður í innan við fimm prósent á lokametrum kosningabaráttunnar á meðan að Sósíalistaflokkurinn stórjók við fylgi sitt.
„Ég vil sérstaklega draga fram Sósíalistaflokkinn sem mældist með hér um bil ekkert fylgi en var svo mjög öruggur inn og ekki fjarri því að ná inn öðrum manni. Mér fannst það mjög áhugavert, erum við að missa af einhverjum kjósendum Sósíalistaflokksins og af hverju gæti það verið?“ spyr Hafsteinn, sem svo veltir því upp hvort erlendir ríkisborgarar gætu verið umfram aðra líklegir til að kjósa Sósíalistaflokkinn. Sá kjósendahópur er töluvert stærri nú en í síðustu sveitarstjórnarkosningum, þar sem nú hafa allir erlendir ríkisborgarar sem búið hafa á Íslandi síðustu þrjú ár kosningarétt, en árið 2018 hafði fólk þurft að hafa fimm ára búsetu á Íslandi til að mega að kjósa.
Kaupir ekki að netkannanir séu verri en aðrar
Í umræðunni um kannanir undanfarna daga og þá sérstaklega könnun Prósents sem mældi Sjálfstæðisflokkinn með 16,2 prósent fylgi í borginni hefur nokkuð verið rætt um að netkannanir séu síður áreiðanlegar en kannanir sem framkvæmdar eru í gegnum síma.
Hafsteinn segist ekki kaupa það „að netið sé eitthvað hræðilegt og það sé ekki hægt að gera kannanir á netinu“, en vert er að taka fram að ekki allar kannanir undanfarinna daga hafa verið netkannanir eingöngu, til dæmis var könnun Maskínu frá því fyrr í vikunni framkvæmd bæði með spurningalista á netinu og símtölum.
„Netið er ekki miðill framtíðarinnar, það er miðillinn sem við notum í dag og kannanir verða að aðlaga sig að því hvaða tækni fólk er að nota. Það er alveg jafn mikil hætta á skekkju í símakönnunum og í netkönnunum,“ segir Hafsteinn en bætir svo við að það þurfi að passa sérstaklega upp á samsetningu hópanna sem könnunarfyrirtækin halda úti, en öll helstu rannsóknafyrirtæki landsins; Gallup, Maskína og Prósent senda netkannanir á stóra hópa fólks við gerð skoðanakannana.
„Þetta er takmarkaður hópur og þú þarft að passa að það sé jafnvægi þegar þú ert að safna í nethópinn, að það sé fólk með ólíkan bakgrunn í honum,“ segir Hafsteinn.