Skerðing til bræðslna: Bilanir, byggðalína og brölt undan veirukreppu
Aflskortur vegna bilana og viðhalds véla í virkjunum ásamt flutningstakmörkunum á byggðalínunni valda því að ekki er hægt að fullnægja allri eftirspurn á rafmagni í augnablikinu. Við getum líka kennt veðrinu um.
Bilanir í vélum í virkjunum hafa sett strik í orkureikning landsins að undanförnu. Þannig er aflgeta til rafmagnsframleiðslu minni en hún gæti verið ef allt væri í toppstandi. Orkuvinnslan á sunnanverðu landinu hefur einnig verið undir meðallagi sem skýrist af þáttum sem ekki er hægt að ráða við: Veðri. Vatnsárið, þ.e. hversu mikið vatn safnaðist í uppistöðulón virkjananna, var lélegt í landshlutanum. Það var betra á Norður- og Austurlandi en þaðan er ekki hægt að flytja nægilega orku suður yfir heiðar til að mæta eftirspurninni. Hún rann því í formi vatns viðstöðulaust yfir stíflur Hálslóns. Hundruð MW hafa streymt framhjá Kárahnjúkavirkjun. Það er vegna þess að byggðalínan, flutningskerfið sem færir orku og afl landshluta á milli, ræður ekki við verkefnið. Niðurstaðan er sú að skerða hefur þurft afhendingu rafmagns til verksmiðja sem þannig hafa samið við orkufyrirtækin.
Skortur á forgangsröðun?
Orkumál hafa verið fyrirferðarmikil í samfélagsumræðunni síðustu daga í kjölfar þess að Landsvirkjun þurfti að grípa til þess að skerða afhendingu á raforku til fiskimjölsverksmiðja sem nú eru starfræktar myrkranna á milli í upphafi mikillar loðnuvertíðar. Brenna þarf olíu til að framleiða það rafmagn sem upp á mun vanta til bræðslunnar og það þykir engum fýsilegt í landi þar sem endurnýjanleg orkuframleiðsla er með því mesta sem þekkist í heiminum miðað við mannfjölda. Orðið „orkuskortur“ hefur verið notað sem einnig þykir skjóta skökku við í landi vatns og íss. Einhverjir vilja meina að fleiri virkjanir þurfi til að mæta „orkuskortinum“ og að hann eigi aðeins eftir að aukast samhliða fjölgun rafbíla. Aðrir segja ekki hægt að tala um „skort“ í þessu sambandi. Forgangsröðun sé lykillinn að jafnvægispunkti.
En hvað er raunverulega að valda því að skerða hefur þurft afhendingu á rafmagni til fiskimjölsverksmiðja? Er einfaldlega ekki verið að framleiða nóg af því eða býr eitthvað allt annað að baki? Og hvað er eiginlega átt við með „orkuskorti“ í þessu sambandi?
Við skulum byrja á einfaldri útskýringu á raforkukerfi Íslands í boði upplýsingafulltrúa Landsnets, Steinunnar Þorsteinsdóttur:
Hægt er að skipta afkastagetu orkuframleiðslukerfisins í tvo meginþætti. Það er aflgeta (MW) og orkuvinnslugeta (GWst). Aflgeta virkjana fer eftir því hvað margar aflvélar eru uppsettar í kerfinu og eru starfhæfar og eins hvað hægt er að fæða þær af miklu vatni eða jarðgufu.
Orkuvinnslugetan er hins vegar háð innrennsli í uppistöðulón sem hægt er að nýta á ársgrundvelli og gufuöflun.
Og þarna erum við komin að því babbi sem komið er í bátinn.
„Orkuvinnslugetan á þessu ári er með minna móti þar sem að vatnsárið á suðurhluta landsins var lélegt og undir meðalári,“ útskýrir Steinun. Betra vatnsár var á Norður- og Austurlandi, en ekki var mögulegt að jafna innrennsli í lón að fullu vegna takmarkana á byggðalínunni. Því er heildarvatnsárið lægra en í meðallagi.
Með öðrum orðum: Of lítið vatn í lónum á Suðurlandi. Meira en nóg af vatni í lónum á Norður- og Austurlandi. En ekki hægt að flytja alla orkuna milli landssvæða og þangað sem eftirspurnin er mest vegna þess að strengurinn – byggðalínan – ræður ekki við það. Í þessu sambandi skal minnt á að orku er aðeins hægt að geyma sem vatn í uppistöðulónum. Henni er ekki hægt að safna, að minnsta kosti ekki ennþá, og nota svo þegar þörfin er mest. Rafmagn sem er notað er framleitt jafnóðum.
Aflgeta er geta virkjana til að framleiða það afl sem nauðsynlegt er til að mæta álagi kerfisins hverju sinni. Það sem hefur áhrif á aflgetu eru bilanir og viðhald aflvéla, staðsetning virkjana miðað við álag og flutningstakmarkanir í flutningskerfinu.
„Vandamálið núna byggist bæði á aflskorti og orkuskorti,“ segir Steinunn. Þrjár vélar eru úti vegna bilana og viðhalds á Suður- og Suðvesturlandi: Ein í Búrfelli, ein á Nesjavöllum og ein í Svartsengi samkvæmt upplýsingum sem Kjarninn hefur fengið frá orkufyrirtækjunum. Takmarkar þetta það afl sem hægt er að nýta til framleiðslu á því svæði.
Samanlagt afl þessara þriggja biluðu véla er 82 MW. Til samanburðar má geta þess að uppsett afl Vatnsfellsvirkjunar er 90 MW. „Til að bæta upp þennan aflskort þarf því að flytja aflið frá virkjanasvæðinu á Norður- og Austurlandi, en takmarkað er hvað hægt er að flytja milli landshluta vegna flöskuhálsa á byggðalínunni,“ segir Steinunn.
Hvað varðar orkuvinnslugetu, þá hefur hið „lélega vatnsár“ áhrif á það hve lengi er hægt að keyra vatnsaflsvirkjanir í fullum afköstum. „Því er ekki víst að það vatnsmagn sem er í uppistöðulónum og mun renna í þau í vetur, muni duga til að anna eftirspurn eftir raforku á tímabilinu,“ útskýrir Steinunn.
Meira ál, meiri kísilmálmur
Lögmálið gamla góða um framboð og eftirspurn og jafnvægi þar á milli á hér við. Nú þegar hagkerfi heimsins eru að rétta úr kútnum eftir heimsfaraldurinn er eftirspurn eftir framleiðsluvörum, m.a. áli og kísilmálmi, meiri en í fyrra þegar hún dróst saman. Þær verksmiðjur sem þessi hráefni framleiða hér á landi vilja því auka afköst sín. Til þess þarf meiri orku. Þær hafa tryggt sér ákveðið magn af forgangsorku með samningum við orkufyrirtækin en að auki gera þær sumar hverjar samninga til viðbótar um skerðanlega orku, samninga sem gera beinlínis ráð fyrir því að ef framboðið er ekki nægjanlegt sé afhendingin skert.
Slíka samninga gera fiskimjölsverksmiðjurnar, sem eðli málsins samkvæmt eru aðeins reknar hluta úr ári, einnig. Verðið sem greitt er fyrir rafmagnið er lægra í slíkum skerðanlegum samningum en að sama skapi þá er þetta „ótryggt“ – það er alls ekki fullvíst að viðskiptavinurinn fái það afhent ef þannig aðstæður skapast.
Það vill þannig til að þegar fiskimjölsverksmiðjurnar þurfa mest af raforku er eftirspurnin mest. Að vetri til. Í kulda. Í árferði þar sem vilji er til að keyra vélar verksmiðja á borð við ál- og kísilver á fullu afli. Og í árferði þar sem vatnsbúskapurinn er undir meðallagi. Úrkoman var ekki næg. Jöklarnir gáfu ekki nógu mikið af sér. Uppistöðulónin fylltust ekki. Orkan sem þau geyma í vatninu því minni.
Flöskuhálsar á byggðalínunni gera það að verkum að erfitt er að flytja afl frá Norður- og Austurlandi á svæði sem inniheldur Blönduvirkjun, Kröflu, Þeistareykjavirkjun og Fljótsdalsvirkjun til Suður- og Suðvesturlands. Og öfugt ef svo ber undir. Flutningur frá norðri og austri til suðvesturs fer um flöskuháls í byggðalínukerfinu sem takmarkast við flutning um Blöndulínu 1, í vestur frá Blönduvirkjun og Fljótsdalslínu 2 og í austur frá Fljótsdalsstöð sem í daglegu tali er kölluð Kárahnjúkavirkjun.
Langtíma- og skammtímaáhrif
„Þessar flutningstakmarkanir valda ýmiskonar vandamálum,“ segir Steinunn. „Langtímaáhrifin eru þau að ekki er hægt að fullnýta virkjanir sem nú þegar eru til staðar í landinu. Einnig valda þær því að á þeim tíma ársins þegar mest innrennsli er í uppistöðulón vatnsvirkjana, á sumrin og haustin, koma þær í veg fyrir að hægt sé að jafna innrennsli í lón eftir landshlutum, en það er gert með því að draga úr afli virkjana öðrum megin á landinu á meðan aðrar virkjanir eru keyrðar á mesta álagi á meðan á þessu tímabili stendur.“
Skammtímaáhrifin eru hins vegar þau að erfitt er að fullnægja þörf fyrir hámarksálag eins og staðan virðist vera í dag. Landvirkjun hefur gefið út að framleiðslugetan á Þjórsársvæði sé takmörkuð vegna bágrar vatnsstöðu og aflvélar í Búrfelli sem er ekki í rekstri. Þjórsársvæðið er „vestan“ við áðurnefndan flöskuháls í flutningskerfinu. Það er hins vegar ekki skert framleiðslugeta í virkjunum Landsvirkjunar innan svæðisins.
Kárahnjúkavirkjun er langstærsta virkjun landsins og uppsett afl hennar er 690 MW. Hún er á Austurlandi. Fiskimjölsverksmiðjurnar eru það einnig. Hvernig má það vera að skerða þurfi afhendingu á rafmagni til þeirra fyrst nóg er af vatninu til að keyra virkjunina?
„Þrátt fyrir að á Austurlandi sé öflugt kerfi til að fæða fiskimjölsverksmiðjurnar þá er tengipunktur flutningskerfisins á Austurlandi í Skriðdal sem er utan við þetta virkjanasvæði,“ svarar Steinunn. Því eru fiskimjölsverksmiðjurnar á Austfjörðum sömu megin við flöskuhálsinn á byggðalínunni og Þjórsársvæðið. Aflflutningur þangað hefur því áhrif á það hve mikið er hægt að flytja af svæðinu og til annarra viðskiptavina fyrir utan þetta svæði.“
Fyrirsjáanlegur vandi
Hún segir að „svo virðist sem aflskortur vegna bilana og viðhalds aflvéla, ásamt flutningstakmörkunum á byggðalínunni valdi því að ekki sé hægt að fullnægja allri raforkuþörf í augnablikinu“. Nauðsynlegt sé að hafa ákveðið „bil“ á milli framleiðslugetu og orkunotkunar til þess að bregðast við óvæntum aðstæðum sem geta myndast í kerfinu. „Þetta bil hefur verið að minnka talsvert síðustu árin sem þýðir að svigrúmið sem þarf að vera til staðar er orðið of lítið eins og sýnir sig núna og kerfið ræður þannig ekki við að mæta þessum atvikum.“
Landsnet hefur haft vaxandi áhyggjur af þessu og í skýrslu sem fyrirtækið gaf út árið 2019 var því lýst að þessi staða væri yfirvofandi. Niðurstaða skýrslunnar var sú að líkur á aflskorti færu yfir viðmiðunarmörk Landsnets árið 2022 ef ekki kæmi til ný orkuvinnsla fyrir þann tíma. „Nú virðist sem sú spá sé að rætast,“ segir Steinunn.
En er það lausnin – að reisa nýjar virkjanir?
„Ekki er nóg að byggja nýja vatnsaflsvirkjun eða reisa vindmyllur til að koma í veg fyrir skerðingu á rafmagni eða að olía sé notuð í fiskimjölsverksmiðjum,“ skrifaði Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, í grein á Vísi. „Rafmagnsvinnsla úr vatni eða vindi er sveiflukennd. Meðan við stýrum ekki veðrinu verða sveiflur í afköstum vatnsaflsvirkjana og vindmyllna.“
Stóriðjan, sem nýtir um 80 prósent af því rafmagni sem framleitt er í landinu, veit að hún getur ekki framleitt á fullum afköstum þegar illa árar í vatnsbúskapnum. „Við færum illa með fé og illa með land og náttúru ef við virkjuðum stórfellt til þess að stóriðjan þyrfti ekki að sæta skerðingu, sem hún hefur vel að merkja sjálf samið um af fúsum og frjálsum vilja við raforkuframleiðendur.“ Það sama væri hægt að segja um byggingu virkjana til að koma alfarið í veg fyrir að skerða gæti þurft rafmagn til fiskimjölsverksmiðja í framtíðinni.
Nú þegar hagkerfi heimsins eru að rétta úr kútnum eftir heimsfaraldurinn er meiri eftirspurn eftir raforku hér á landi, „en að halda því fram að virkja þurfi ósköpin öll og virkja strax til að við eigum rafmagn á bílana okkar var jafn rangt þá og það er nú,“ skrifar Bjarni.
Brestur, ekla, fátækt, harðrétti, hörgull, misbrestur, nauð(ir), neyð, svelta, vanbúnaður, vanefni, vöntun, þurrð, þörf, örbirgð; líða skort búa við skort.
Þannig er merkingu orðsins „skortur” lýst í Íslenskri samheitaorðabók.
Skortur verður þegar eitthvað vantar. Þegar eftirspurn er meiri en framboðið. En er hægt að tala um „orkuskort“ í því ástandi sem nú er komið upp?
Það fer eftir því hvaða skilning fólk setur í það að „skorta“ eitthvað. Ef eftirspurn eftir raforku, saman hvaðan hún kemur, myndi ein verða til þess að „orkuskortur“ væri í landinu, væri sá skortur viðvarandi og allt að því eilífur. Nóg er af eftirspurninni, t.d. núna síðustu vikur og mánuði frá fyrirtækjum sem grafa eftir rafmynt (bitcoin og fleiri tegundum) eftir að slík starfsemi var bönnuð í Kína. Landsvirkjun hefur hafnað fleiri slíkum viðskiptavinum sem og óskum um aukna raforku til þessa námugraftrar hjá núverandi viðskiptavinum.
Bjarni skrifar í grein sinni að stutta svarið við því hvort að „rafmagnsskortur“ sé á Íslandi sé já. Annars þyrfti ekki að skerða afhendingu á rafmagni til stórnotenda. „Ástæðan er ekki sú að það vanti fleiri og stærri virkjanir heldur fyrst og fremst skortur á vatni til að keyra þær“. Ofan á það bætist svo veikleikar í flutningskerfinu.
Forðast skal að nýta þá stöðu sem upp er komin í orkumálum sem afsökun til að virkja meira, sagði formaður Landverndar, Auður Önnu og Magnúsdóttir, í viðtali á mbl.is. Frekar þurfi að finna lausnir til að geyma orku þegar vel árar. Umræðan þurfi að vera yfirveguð og „ekki með þeim upphrópunum sem hafa verið núna og fullyrðingum um að vandamálið sé almennur skortur á raforkuframleiðslu þegar þetta er tilfallandi og líka skýrt af flutningskerfinu“.
Forstjóri Orkuveitunnar tók í svipaðan streng í grein sinni. „Það verða byggðar fleiri virkjanir á Íslandi en það er mikilvægt að hvatinn til byggingar þeirra sé skýr og gegnsær og að umræða sé tekin um orkukostina á þeim grunni,“ skrifar hann. Fara skuli að engu óðslega í orkumálum. „Þjóðin á að ráða hversu langt við göngum og hve hratt í að virkja þær orkulindir sem nú eru óbeislaðar. Rammaáætlun hefur ekki dugað sem verkfæri til að leiða okkur á rétta slóð. Þar megum við gera betur.“