Bretar eru þekktir fyrir áhuga sinn á háðsádeilum í formi frétta og myndasagna. Eftir sjaldgæfa snjókomu í Lundúnum í byrjun vikunnar birti grínvefurinn the Daily Mash frétt þess efnis að margir íbúar borgarinnar vonuðust eftir nægum snjó til að byggja sér snjóhús – það væri eina leiðin fyrir ungt fólk til að eignast eigið húsnæði í borginni. Við fyrstu sýn mætti ætla að hér væri um að ræða hreinan uppspuna, en því miður er sannleikskorn í þessum spéspegli.
Húsnæðisverð í stærstu borgum Bretlands hefur hækkað gríðarlega síðasta áratuginn, og hefur hækkunin að einhverju leyti verið drifin áfram af fólksfjölgun í bland við endurnýjun og uppbyggingu í eldri hverfum. Slík uppbygging hefur meðal annars átt sér stað í tengslum við stóra viðburði á borð við samveldisleikana í Manchester 2002 og Ólympíuleikana í Lundúnum árið 2012 – óumdeilanlega hefur þetta blásið lífi í svæði og hverfi sem áður voru í niðurníðslu.
Sumir hafa dottið í lukkupottinn – aðrir sitja í súpunni
Í breskum fjölmiðlum hefur skapast mikil umræða um þessa þróun og horfur á fasteignamarkaði til framtíðar. Sú kynslóð sem nú fer brátt á eftirlaun í Bretlandi virðist heldur betur hafa dottið í fasteignalukkupottinn. Í Lundúnum má heyra sögur af fólki sem hefur hagnast gríðarlega á fasteignakaupum með því að kaupa rétta eign á réttum tíma – þannig virkar jú markaðurinn, en rétt er að hafa í huga að oft voru þetta eignir sem sveitarfélögin seldu úr félagslega kerfinu á góðum afslætti.
Miðað við ástand fasteignamarkaðarins í Lundúnum er borin von fyrir flest ungt fólk að komast inn á fasteignamarkaðinn.
Það má velta því fyrir sér hvort eðlilegt sé að á 20 árum hafi verð á þriggja svefnherbergja íbúð í rólegu úthverfi í norðurhluta Lundúna hækkað úr 92.000 pundum (um 18,5 milljónum íslenskra króna á gengi dagsins í dag) árið 1994 upp í 660.000 pund (rétt um 133 milljónir á sama gengi) árið 2014. Samhliða þessum hækkunum eru möguleikar ungs fólks til að kaupa sér fyrstu eign orðnir takmarkaðir. Sérstaklega á þetta við um þá sem eru á meðallaunum og stendur ekki til boða aðstoð fjölskyldu við fjármögnun á útborgun. Leigumarkaðurinn er því orðinn eini raunhæfi kosturinn fyrir stóran hóp fólks.
Leitað lausna innan sveitarfélaganna
Sveitarfélagið Islington, sem er hluti af Lundúnum, hefur kynnt nokkrar hugmyndir sem ætlað er stuðla að auknu framboði á ódýrara húsnæði. Sveitarfélagið ætlar meðal annars að setja upp leigumiðlun sem ekki verður rekin í hagnaðarskyni og er ætlað að tengja leigjendur sem eiga rétt á húsaleigubótum við leigusala á markaði. Á móti hyggst sveitarfélagið tryggja leigugreiðslur í ákveðinn tíma ásamt því að tryggja að leiga sé greidd fyrirfram, sem myndi því á sama tíma höfða til leigusala. Islington ætlar einnig að stuðla að því að byggt verði meira af félagslegu húsnæði og í farvatninu eru áætlanir um að auðvelda fasteignaeigendum að breyta skrifstofurými í íbúðarhúsnæði. Sveitarfélagið vonar því að þetta, ásamt fleiri úrræðum, muni skapa fjölbreyttari möguleika í leigumálum ásamt því að halda leiguverði niðri.
Undanþága frá uppbyggingu á ódýrara húsnæði
Fjárfestum og byggingaverktökum ber einnig skylda til að stuðla að uppbyggingu á ódýrara húsnæði samhliða byggingu eigin verkefna, meðal annars með því að greiða í svokallaða „affordable housing“ sjóði. Frá því í desember á síðasta ári hefur breska ríkið þó veitt undanþágu frá þessari reglu í tilfellum þróunarverkefna þar sem eldri hús eru gerð upp. Fjallað hefur verið um að þeir sem helst hagnast á undanþágu sem þessari verði stórir fjárfestingasjóðir frá Abu Dhabi og Qatar sem eru umsvifamiklir á fasteignamarkaði í borginni. Talið er að þetta muni leiða til þess að framboð á ódýru húsnæði mun dragast saman enn frekar.
Brýn þörf er á að ráðist verði í byggingu ódýrari íbúða í London til að gera fleirum kleyft að kaupa sér þak yfir höfuðið.
Slæm áhrif á fjölbreytileika borgarinnar
Allt hefur þetta áhrif á ótrúlegustu stöðum. Ákveðnir hlutar Lundúna eru þekktir víða um heim fyrir það að fóstra fjölbreytta menningarkima sem oft hafa ekki fengið að blómstra annars staðar. Hvort sem það eru hópar frá ákveðnum löndum eða menningarsvæðum, hinsegin fólk eða ungt tónlistarfólk, þá hefur borgin alltaf verið eftirsóknarverð fyrir þessa sérstöðu sína. Þar er Soho hverfið gott dæmi, en síhækkandi leiguverð gerir það að verkum að staðir sem hafa þjónað áðurnefndum hópum eru hægt og rólega verið að færast í aðra borgarhluta.
Félagsskapurinn „Save Soho“ var stofnaður til að berjast gegn þessari þróun og heldur því fram að með enduruppbyggingu hverfisins muni það á endanum verða gersneitt af karakter. Borgarstjóri Lundúna, Boris Johnson, er að vissu marki sammála málstað þeirra og í bréfi sem hann sendi samtökunum tekur hann undir að „menning sé DNA borgarinnar“. Spurningin er því hvort vilji sé meðal stjórnmálamanna að skapa hvata fyrir fasteignaeigendur til að hlúa áfram að þessum fjölbreyttu menningarkimum borgarinnar og varðveita þannig karakter hennar.
Kisur og morgunkorn
Áðurnefnd þróun borgarinnar á sér þó líka margar jákvæðar hliðar. Í austurhluta borgarinnar – í hverfum sem áður einkenndust af hárri glæpatíðni og nokkurri fátækt – er nú komið ungt fólk sem byggt hefur upp líflega listasenu, litlar sérverslanir og kaffihús af ýmsum toga líkt og gerðist upphaflega með Soho. Nú má í einu þessara hverfa finna allt frá fyrsta kisukaffihúsi borgarinnar (og líklegast Evrópu) yfir í nýlegt kaffihús með rúmlega 120 tegundir af morgunkorni á boðstólnum.
Það má því segja að ungt fólk sem býr við síhækkandi leiguverð og fjarlæga drauma um kaup á eigin húsnæði geti þó alla vegana yljað sér við tilhugsunina um fjölbreytt úrval morgunkorns og kisur til að klappa yfir kaffinu – þó þau þurfi líklegast að slá lán fyrir kaffibollanum úr eftirlaunasjóði foreldra sinna.