Reykjanesbær er skuldsettasta sveitarfélag á Íslandi og rekstur þess undanfarin ár hefur verið afleitur. Til að það uppfylli skilyrði laga um löglega skuldsetningu þarf að skera mikið niður í rekstri sveitarfélagsins, auka tekjur þess, hætta að nota lántökur, eignasölu og tekjur sveitafélagsins til að niðurgreiða kostnað vegna Reykjaneshafnar og fasteignafélags Reykjanesbæjar, auka arðgreiðslur til sveitafélagsins frá HS Veitum úr 450 milljónum króna í um 900 milljónir króna, endurfjármagna skuldir og selja eignir til að laga stöðuna. Þetta er meðal þess sem fram kemur í tveimur skýrslum, greiningu KPMG á fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar, og úttektar Haraldar L. Haraldssonar hagfræðings á rekstri Reykjanesbæjar, sem kynntar voru á opnum íbúafundi í Hljómahöllinni í kvöld.
Ráðast þarf í stórtækar aðgerðir
Samkvæmt greiningu KPMG er ljóst að skuldahlutfall Reykjanesbæjar af rekstartekjum, sem var 271,4 prósent í lok síðasta árs, þarf að lækka verulega á næstu árum. Löglegt hámark er 150 prósent og sveitarfélagið hefur til ársins 2021 að ná því markmiði.
Til að það náist mun Reykjanesbær ráðast í aðgerðaráætlun sem hefur fengið nafnið „Sóknin“ og byggir á tillögum KPMG. Í grófum dráttum er áætlunin fjórþætt.
Í fyrsta lagi þarf að auka framlegð að lágmarki um 900 milljónir króna með aðgerðum í rekstri. Það þýðir auknar tekjur, til dæmis í gegnum þjónustugjöld, og lækkun rekstrarkostnaðar, til dæmis með uppsögnum á starfsfólki.
Í öðru lagi á að stöðva fjárflæði frá A hluta sveitarsjóðs yfir til starfsemi sem tilheyrir B hluta. Með öðrum orðum á að hætta að nota tekjur sveitafélagsins, lántökur eða eignasölur til að borga fyrir þann hluta sem tilheyrir B hluta sveitasjóðs. Í þessu felst meðal annars að HS Veitur verði látnar greiða hámarksarð, um 900 milljónir króna á ári.
Í þriðja lagi á að takmarka fjárfestingar A hluta sveitarfélagsins við 200 milljónir króna á ári þar til fjárhagsmarkmiðum verður náð.
Í fjórða lagi á að mæta aukinni greiðslurbyrði næstu ára með endurfjármögnun skulda og skuldbinda og skoða möguleika á frekari sölu eigna eða sameiningu B hluta stofnana. Þær B hluta stofnanir sem eru mest byrði á Reykjanesbæ eru Reykjaneshöfn og Fasteignir Reykjanesbæjar. Hvorug þeirra getur rekið sig án peninga frá A hluta sveitasjóðsins.
KPMG reiknar sig niður á að skuldahlutfall Reykjanesbæjar verði 188,8 prósent árið 2021 ef ekki verði ráðist í aðgerðaráætlunina „Sóknina“. Verði hún farin telur KPMG að skuldaviðmiðið geti farið í 140,2 prósent árið 2021 og þar með uppfyllt lög. Tekið er sérstaklega fram að ef stór, ný verkefni koma upp í sveitarfélaginu, til dæmis með aukinni stóriðju, myndi það bæta stöðuna enn frekar.
Reykjanesbær var rekinn með halla í tólf af þrettán síðastliðnum árum.
Reykjanesbær rekinn með halla í tólf af þrettán árum
Úttekt Haraldar er af svipuðu meiði og greining KPMG. Hann rekur að skuldir A hluta Reykjanesbæjar hafi aukist úr 5.618 milljónum króna árið 2002 í 24.674 milljónir króna árið 2013, eða um 19 milljarða króna. Það er hækkun um 339 prósent eða rúmlega fjórföldun. Ákvæði laga segja að ekki megi reka sveitasjóð með halla samtals þrjú ár í röð. Reykjanesbær var hins vegar rekinn með halla af reglulegri starfsemi öll árin á tímabilinu 2003 til 2013, nema eitt, árið 2010. Til að mæta þessari stöðu voru eignir seldar og stór lán tekin. Hlutfall skulda Reykjanesbæjar af rekstrartekjum var 271 prósent í lok árs 2013. Og margar verðmætar eignir, á borð við eignarhlut sveitarfélagsins í HS Orku, seldar.
Í skýrslu Haraldar segri að í viðræðum við starfsmenn sveitarfélagsins hafi komið fram hjá sumum þeirra að þeir líta á fjárhagsáætlun sem áætlun og markmið, fremur en fjárheimild. „Ef þetta er rétt er um alvarlegan misskilning að ræða sem ber að leiðrétta,“ segir Haraldur. „Fari stofnun fram úr þeirri fjárheimild, sem kveðið er á um í fjárhagsáætlun stofnunarinnar og samþykkt liggur ekki fyrir hjá bæjarstjórn, er um brot á sveitarstjórnarlögum að ræða“.
Staðan krefst harðra aðahaldsaðgerða
Í úttekt hans er meðal annars lagt til að kröfur aðalsjóðs á B hlutastofnanir sem eru ekki taldar innheimtanlegar verði afskrifaðar í bókum sveitarfélagsins, kannað verði hvort hægt sé að endurfjármagna eldri lán með hagstæðari kjörum, hvort hægt sé að greiða upp, og eftir atvikum lækka, leiguskuldbindingar, hvort hægt verði að taka HS Veitur úr úr samstæðureikningi Reykjanesbæjar, að rekstur allra B-hluta stofnana verði sjálfbær, að forstöðumönnum verði gert óheimilt að fara fram úr fjárheimildum, að sett verði yfirvinnubann á starfsfólk Reykjanesbæjar, að allir samningar um bifreiðarstyrki verði endurskoðaðir, að viðvera starfsmanna í vaktavinnu verði stytt, að öll innkaup á rekstrarvörum og þjónustu verði boðin út, að dregið verði úr kaupum á öryggisgæslu og að forstöðumönnum stofnanna verði „falið að skrá mánaðarlega alla rafmagnsnotkun og hitunarkostnað“.
Hægt er að lesa skýrslurnar í heild sinni hér og hér. Kjarninn mun fjalla áfram um þær á morgun.