Veðskuldabréf að andvirði 119 milljarðar króna verður gefið út af Glitni til íslenskra stjórnvalda, verði 95% hlutur slitabúsins í Íslandsbanka seldur innlendum aðilum. Söluvirði bankans myndi því renna til íslenskra stjórnvalda, yrði hann seldur innlendum aðilum fyrir þá fjárhæð. Eigið fé bankans er í dag rúmlega 180 milljarðar krónar en það verður lækkað í um 119 milljarða fyrir sölu hans. Lækkunin verður gerð með um 37 milljarða króna arðgreiðslu sem rennur til ríkisins. Arðgreiðslan er hluti af alls 58 milljörðum króna sem Glitnir greiðir til ríkisins, samkvæmt tillögum sem hluti kröfuhafa Glitnis hafa lagt fyrir framkvæmdahóp um losun hafta. Verði bankinn hins vegar seldur til erlendra fjárfesta á sama verði mun íslenska ríkið fá tæplega 71,4 milljarða króna í sinn hlut, í erlendum gjaldeyri, auk áðurnefndra arðgreislna. Samkvæmt tillögum fær ríkið 60 prósent af söluandvirði verði bankinn seldur erlendum aðilum, upp að 60 prósent af bókfærðu virði bankans.
Búist er við því að erlendir fjárfestar í Íslandsbanka verði kynntir til leiks í næstu viku, samkvæmt heimildum Kjarnans. Viðræður við nokkra hópa hafa staðið yfir um nokkurra mánaða skeið og þeir sem hafa sýnt mestan áhuga koma annars vegar frá löndum við Persaflóa í Mið-Austurlöndum og hins vegar frá Kína. Samkvæmt heimildum Kjarnans er um að ræða risastór fyrirtæki sem eiga þegar hluti í alþjóðlegum bönkum. Einhverjir hópanna rituðu undir viljayfirlýsingu um kaup á bankanum í febrúar síðastliðnum.
Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis.
Veðskuldabréf ef kaupendur eru innlendir
Fyrir liggur rammasamkomulag við kröfuhafa föllnu bankanna. Innihald þess hefur verið birt opinberlega á heimasíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Á meðal þess sem kemur fram í því samkomulagi gagnvart slitabúi Glitnis er að Íslandsbanki verði seldur fyrir árslok 2016 ef markaðsaðstæður verði ákjósanlegar.
Í samkomulaginu er einnig tilgreint hvað íslenska ríkið fær í sinn hlut ef Íslandsbanki, sem er í 95 prósent eigu Glitnis og fimm prósent eigu íslenska ríkisins, verður seldur til innlendra aðila og hversu mikið það fær ef erlendir aðilar kaupa hann.
Verði bankinn seldur til innlendra aðila verður gefið út veðskuldabréf til ríkisins að andvirði 119 milljarðar króna. Skuldabréfið er till þriggja ára og ber 5,5 prósent vexti. Ríkið fær þriðjung þess söluhagnaðar sem verður til á bilinu 85 til 119 milljarðar króna. Upphæðin hækkar síðan eftir því sem Íslandsbanki selst fyrir meira fé.
Eigið fé Íslandsbanka er í dag 181,5 milljarðar króna. Það verður aftur á móti lækkað í 119 milljarða áður en að sölu kemur, samkvæmt tillögum kröfuhafa. Um 38 milljarðar verða greiddir í arð og rennur til ríkisins sem hluti af 58 milljarða lausafjárframlagi. Það er hluti af svokölluðu stöðugleikaskilyrði. Auk þess verða um 17 milljarðar króna, í erlendum gjaldeyri, greiddir út í arð þannig að eigið fé verður samtals um 119 milljarðar og eiginfjárhlutfall 23 prósent.
Áætlun stjórnvalda um losun hafta var kynnt í Hörpu í gær.
Ríkið fær 71,4 milljarða ef bankinn er seldur útlendingum
Verði Íslandsbanki hins vegar seldur til erlendra aðila mun „60 prósent söluandvirðisins renna til stjórnvalda í erlendri mynt“. Í samkomulaginu segir þó að sú upphæð verði aldrei meira en sem nemur um 60 prósent „af bókfærðu virði bankans miðað við skráð gengi evru 5. júní 2015“. Þetta kemur fram á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þessu til viðbótar renna áðurnefndar arðgreiðslur til ríkisins, rétt eins og ef bankinn verður seldur innlendum aðilum.
Til viðbótar er sérstaklega tekið fram stjórnvöld geti gert kröfu um „nánar tilgreindar takmarkanir á ráðstöfunarheimildum nýrra erlendra eigenda Íslandsbanka vegna áhrifa á greiðslujöfnuð.“ Það þýðir á mannamáli að nýir erlendir eigendur Íslandsbanka geti ekki greitt sér út arð nema að þær greiðslur ógni ekki greiðslujöfnuði.
Ath.
Fréttin hefur verið uppfærð og tölum um mögulegan hagnað ríkisins á sölu til innlendra og erlendra aðila breytt frá upphaflegu fréttinni. Hún byggði eftirfarandi á eftirfarandi málsgrein í frétt fjármála- og efnahagsráðuneytisins um tillögur kröfuhafa föllnu bankanna: "Verði Íslandsbanki seldur til innlendra aðila skal skipta afkomu milli stjórnvalda og Glitnis með eftirfarandi hætti: (i) afkoma á bilinu umfram 85 til 119 milljarðar skal rennur einn þriðji til stjórnvalda, (ii) afkoma umfram 119 milljarða allt að 136 milljörðum rennur til helminga til stjórnvalda og (iii) afkoma umfram 136 milljarðar rennur að þremur fjórðu hlutum til stjórnvalda." Sú málsgrein er ekki að öllu leyti nákvæm og því hafa tölurnar verið uppfærðar í samráði við sérfræðinga.