Stjórn sem græðir á hærri djammstuðli eins og matseðill frá Tenerife eða nýi bónusgrísinn
Umræður um stefnuræðu forsætisráðherra fóru fram í gærkvöldi í fyrsta sinn eftir að ný ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var mynduð. Það var ljóst á flestum ræðum stjórnarandstöðuflokkanna að þar hefði átt sér samtal milli fulltrúa mismunandi flokka um tón. Hann var mun samstilltari á milli þeirra flestra en hann var á síðasta kjörtímabili. Kjarninn tók saman það helsta úr ræðum þeirra.
Samfylkingin:
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði fyrirliggjandi fjögurra ára ríkisstjórnarsamstarf minna sig „Eiginlega mest á matseðil á þokkalegum veitingastað á Tenerife sem sýnir litríkt, ferskt og brakandi salat ásamt kjöti og kartöflum en er nú upplitað og ekkert sérstaklega kræsilegt. Það sem í upphafi virtist hagkvæmnishjónaband ólíkra og ástríðufullra einstaklinga byggir nú á gagnkvæmri virðingu fyrir svipuðum gildum; afturhaldssemi, kjarkleysi og fálæti andspænis ójöfnuði.“
Hann sagði ríkisstjórnina hafa lofað því á síðasta kjörtímabili tryggja pólitískan stöðugleika. „En fólk sem aðhyllist félagslegt réttlæti og frjálslyndi hlýtur að spyrja sig nú: Hvers virði er pólitískur stöðugleiki sem hvílir á varðstöðu um óréttlátan sjávarútveg, efnahagsstjórn fyrir þau ríku, blindu á nauðsyn alþjóðasamvinnu og viljaleysi til að ráðast gegn ójöfnuði?“
Lestu allt um ræður stjórnarliða í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra:
Undir lok ræðu sinnar vék hann, líkt og fleiri ræðumenn stjórnarandstöðunnar, að þeim sem minnst mega sín í íslensku samfélagi. Þar sagði hann að eflaust fyndist einhverjum í þinginu það klisjukennt að draga upp svipmynd af fólki sem raði villibráð og konfekti áhyggjulaust ofan í innkaupakörfur á sama tíma og annað fólk norpi í biðröð eftir bita af hamborgarhrygg og dós af grænum baunum hjá hjálparstofnunum. „En, kæru landsmenn, svona er nú staðan enn þá á Íslandi.“
Hefur pólitík runnið sitt skeið á Íslandi?
Nýr þingmaður Samfylkingarinnar, Kristrún Frostadóttir, var næst í pontu fyrir flokkinn. Hún spurði í upphafi ræðu hvort pólitík hefði runnið sitt skeið á Íslandi? „Íslensk stjórnmál komu löskuð út úr hruninu og þrjár ríkisstjórnir á átta árum bættu ekki úr skák. Það kviknaði sú tilfinning hjá fólki að til að tryggja stöðugleika þyrfti að mynda stefnu og stjórn um ekki neitt til að afmá pólitíkina úr Stjórnarráðinu, annars kæmumst við aldrei áfram, annars yrðu aldrei neinar framfarir. Það var mynduð stjórn að því er virðist um ekki neitt, sem vakti lítil viðbrögð. Rýnikannanir og ráðgjafar sníða nú burtu pólitíska sannfæringu setninganna svo þær veki ekki upp of miklar tilfinningar hjá fólki. Pólitík þykir orðið skammaryrði.“
Sjálf hefði Kristrún farið í stjórnmál til að taka afstöðu. Það væri komin tími til að leiða samfélagið og stunda alvörupólitík. Íhaldssemi í stjórnarfari orðið til þess að þjóðin færi á mis við tækifæri. Hún vildi ekki búa í samfélagi þar sem það hverra manna þú ert ákvarðar hvers konar lífi þú munt lifa. „Ég ræddi í kosningabaráttunni við unga konu sem býr í bílnum sínum vegna þess að tekjurnar duga ekki fyrir leigunni. Við sem hér sitjum á Alþingi getum tekið ákvörðun um að reka ekki samfélagið með slíkum hætti. Staðan á húsnæðismarkaði kemur okkur við. Staða þessarar ungu konu kemur okkur við.“
Oddný Harðardóttir sló botninn í ræðuhöld flokksins. Hún sagði að í kosningunum hefðu ekki orðið þau tímamót sem jafnaðarmenn hefðu vonast eftir. Stjórnarsáttmáli og fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar hefðu hins vegar verið mikil vonbrigði. „Í stjórnarsáttmálanum er hvergi talað um fátækt eða skýrar aðgerðir til að útrýma fátækt og auka jöfnuð. Það er einnig ástæða til að hafa áhyggjur af menntamálunum í höndum þessarar ríkisstjórnar sem hefur tætt mennta- og menningarráðuneytið niður og dritað um stjórnkerfið. Og sjávarútvegsmálin eiga að fara í enn eina nefndina [...] hvarflar að einhverjum að stórútgerðin gefi forréttindin eftir átakalaust?“
Flokkur fólksins
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði í ræðu sinni að stefnuræða forsætisráðherra hefði verið draumkennd og um næstum því ekkert nema vonir og þrár. Það ætti aðallega að skoða hitt og þetta. „Ég vil sjá eitthvað annað á blaði en vonir, drauma og þrár. Ég vil sjá raunverulegar aðgerðir.“
Hún spurði hvort það væri ekki dapurt að sitja þannig í fílabeinsturninum að ekki þætti ástæða til að stíga niður á jörðina til þeira sem eiga um sárt að binda og eiga ekki fyrir salti í grautinn? „Mér finnst virkilega dapurt ef það sem við heyrum hér og nú í kvöld verður ekkert annað en innantómt blaður, draumar og þrár. Við ykkur segi ég þetta, kæru landsmenn: Það kostar ekkert að láta sig dreyma. Og því miður er ég ansi hrædd um að það verði margir sem lifa bara á draumnum einum saman núna fyrir jólin.“
Á ekki að verja heimilin?
Nýr þingmaður Flokks fólksins, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, talaði í fyrsta sinn í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. Hún sagði andvaraleysi ríkisstjórnarinnar valda sínum flokki miklum áhyggjum. Staðan í samfélaginu væri grafalvarleg og hún kæmi fyrst og síðast niður á þeim sem verst væru staddir. „Fjölskyldur sem ekki hafa getað losað sig úr gildru verðtryggingar eða eru fastar á leigumarkaði, eru þær fjölskyldur sem hafa hvað minnst á milli handanna og standa hvað verst að vígi til að takast á við hækkandi vöruverð og, það sem verra er, ört hækkandi húsnæðiskostnað að auki.“
Hún spurði hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera til að verja heimilin í landinu? „Á ég að trúa því að ríkisstjórnin hafi enga stefnu og enga áætlun um að verja heimili landsins fyrir þeirri ágjöf sem fram undan er? Á virkilega enn og aftur að setja þau undir náð og miskunn fjármálafyrirtækja?“
Guðmundur Ingi Kristinsson sagði að þótt það væri komið heiti á ríkisstjórnina, velferðarstjórnin, þá mætti spyrja fyrir hverra velsæld hún stæði? „Fyrir öryrkja? Fyrir aldrað fólk? Fyrir láglaunafólk? Fyrir börn sem búa í sárafátækt? Nei.“
Hann vitnaði í orð forsætisráðherra um að hún vildi ekki skipta á Íslandi 2007 og því Íslandi sem er. „Frá þessum tíma hefur kjaragliðnun almannatrygginga orðið allt að 40 prósent og kjaragliðnun heldur áfram í boði velsældarríkisstjórnarinnar. Skerðingar og keðjuverkandi skerðingar halda áfram. [...] Skerðingarofbeldið fer um almannatryggingakerfið og það yfir í félagskerfi bæjar- og sveitarstjórna, sem er ekkert annað en 100 prósent eignaupptaka þeirra best settu hjá þeim verst settu. [...] Þeir verst settu hafa beðið í nærri fimm ár og verða því miður að bíða enn eftir réttlætinu. Vonandi ekki í fjögur ár í viðbót.“
Píratar:
Björn Leví Gunnarsson flutti fyrstu ræðu Pírata í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. Hann hóf hana á því að segja að síðustu tvær vikur hefðu verið farsakenndar. „Í tvo mánuði höfum við fylgst með hópi þingmanna afhjúpa lögbrot, trassaskap og stórkostlega vanvirðingu við lýðræðið. Framkvæmd síðustu kosninga var forkastanleg og okkur gafst tækifæri til að senda skýr skilaboð um að ruglið í Norðvesturkjördæmi ætti aldrei að endurtaka sig. En það voru ekki skilaboðin sem Alþingi ákvað að senda. Þvert á móti ákváðu flest í þessum sal að staðfesta niðurstöðu sem enginn veit hvort er rétt eða ekki.“
Hann spurði hvort einhver í salnum treysti sér til að segja með fullri vissu hvort vilji kjósenda hefði náð fram að ganga, og svaraði svo spurningunni sjálfur: „Það getur enginn.“
Á sama tíma og allir aðrir horfðu forviða á sápuþáttaröðina Brasað í Borgarnesi hafi leiðtogar ríkisstjórnarinnar lokað sig af. Fyrir kosningar hafi ekki verið þverfótað fyrir loforðum um að málefnin myndu ráða för. Ef svo hefði verið hefði endurnýjuð ríkisstjórn hins vegar aldrei orðið að veruleika. „Í margar vikur pukruðust þau saman í ráðherrabústaðnum og leituðu allra leiða til að halda löskuðu hjónabandinu gangandi fyrir börnin. Niðurstaðan úr leynimakki þeirra leit dagsins ljós á sunnudag: Ellefu blaðsíðna stjórnarsáttmáli sem var teygður í 60 síður til að fela hversu innihaldslaus sáttmálinn er. au vilja stuðla að, móta stefnu um, horfa til, styðja við og endurskoða. Allt þokukennd og óskýr loforð sem fela ekki í sér neinar skuldbindingar. Var ekki hægt að gera betur eftir fjögurra ára samband og tveggja mánaða hjónabandsráðgjöf en að búa til samstarf sem spannar litróf stjórnmálanna til að skapa jafnvægi? Hvar er framtíðarsýnin?“
Í skugga lögbrota
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, nýr þingmaður Pírata, steig næst í pontu og hóf ræðu sína með látum. Hún sagði þingið ekki aðeins sitja í skugga lögbrota og óstaðfestra talninga, heldur jafnframt í skugga þeirra sterku ítaka sem löngu látinn Danakonungur hefur enn þá á íslenska stjórnskipan.
Arndís sagði síðustu fjögur ár, nýr stjórnarsáttmáli og fjárlagafrumvarp sýna að ríkisstjórnin boði engar framfarir. „Þrír íhaldsflokkar hafa ekki og munu ekki standa að þeim breytingum sem nauðsynlegar eru, ekki í loftslagsmálum, mannúðarmálum, stjórnarskrármálum, tæknivæðingu, auðlindamálum eða réttarkerfinu. Þau álíta það nefnilega dyggð að standa vörð um óbreytt ástand. Flokkarnir þrír kalla þetta stöðugleika. Ég kalla það tregðu til þess að horfast í augu við stórar áskoranir og takast á við þær af hugrekki. Engu að síður eru þau tilbúin að gera margt fyrir þennan meinta stöðugleika, jafnvel þó að það gangi gegn þeirra eigin stefnu.“
Andrés Ingi Jónsson var síðasti Píratinn í pontu og gagnrýndi endurnýjuðu ríkisstjórnina, líkt og aðrir andstöðuþingmenn. Hann sagði stjórnarsáttmálann bita framtíðarsýn næstu fjögurra ára sem skrifuð væri af fólkinu sem væri brennt af samstarfi síðustu fjögurra ára. „En í stað þess að skilja bara og leita hamingjunnar hjá einhverjum sem þau eiga raunverulega samleið með ákváðu þau að krydda upp á sambandið, endurnýja heitin en hrista aðeins upp í þeim með ýmsu sem þau höfðu áður neitað sér um. Fyrir vikið er stjórnarsáttmálinn fullur af hvers kyns nýjungum sem þau afneituðu jafnvel sjálf bara fyrir nokkrum mánuðum.“
Viðreisn:
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði stjórnmál snúast um að velja og hafna. Í stjórnarsáttmálanum væru hins vegar flestöll þau mál nefnd á nafn sem hægt væri að láta sér detta í hug. „Vandamálið er að þetta er ekki pólitík. Þetta er ekki pólitík. Þetta er eins og börnin sem skrifa alla heimsins hluti á jólagjafalistann og verða síðan fyrir vonbrigðum með það sem ekki rætist.“
Markmið alvörustjórnarsáttmála væri að setja í forgangsröð og markmiðin síðan tímasett og gerð mælanleg. Slíkt sé ekki að finna í sáttmálanum. „Þessi aðferð, að þegja um það sem er óþægilegt, er að verða vörumerki þessarar ríkisstjórnar. Meira en tvö ár eru t.d. síðan ríkisstjórnin setti fram metnaðarfulla heilbrigðisáætlun til 2030. Hún er enn ófjármögnuð og lítil svör er að finna í stjórnarsáttmála einmitt um þennan kjarna máls.“
Þungamiðjan hjá stjórnarflokkunum virðist að hennar mati vera fjölgun ráðherrastóla og afar fálmkennd tilfærsla verkefna. „Svo er boðað jafnvægi — fyrirgefið, bara ekkert annað en moðsuða. Þannig að þrátt fyrir langan aðdraganda og nýjar umbúðir hefur því lítið breyst, kæru landsmenn. Það er eins og munurinn á síðasta kjörtímabili og því sem nú blasir við sé álíka mikill og munurinn á gamla Bónusgrísnum og þeim nýja.“
Grætt á hækkandi djammstuðli þjóðar
Einn þeirra sem hlaut þingsæti eftir endurtalninguna í Norðvesturkjördæmi, Guðbrandur Einarsson, var næstur í röðinni hjá Viðreisn. Hann sagði að fyrir sig sem sveitarstjórnarmann til fjölda ára þá yrði uppbygging grunninnviða það sem hann vildi helst leggja áherslu á. Á ferðum hans um Suðurkjördæmi í aðdraganda kosninga hafi það verið það sem íbúar vildu ræða. Ekkert landsvæði þrífst án öflugrar heilbrigðisþjónustu og samgöngukerfis sem ber þann umferðarþunga sem á því er. Erum við að sjá þess stað í nýjum stjórnarsáttmála að lögð sé áhersla á að styrkja þessa grunninnviði? Nei, ég fæ ekki séð að svo sé.“
Annar nýr þingmaður, Sigmar Guðmundsson, var síðasti fulltrúi Viðreisnar í gærkvöldi. Stór hluti ræðu hans fór í að ræða áfengismál, sem hann kallaði einn alvarlegasta heilbrigðisvanda þjóðarinnar, og sjávarútvegsmál.
Sigmar sagði þann vanda fara fyrir ofan garð og neðan hjá ríkisstjórninni. Hann minntist meðal annars á að tekjur ríkisins af áfengisgjaldi hefðu hækkað um þrjá milljarða króna á árinu, meðal annars vegna færri utanlandsferða út af kórónuveirufaraldrinum. „Þessi tala, þrír milljarðar, er sú sama og 16 stærstu útgerðirnar greiddu í veiðigjöld á síðasta ári. Það er auðvitað einstaklega áhugaverð sanngirnisspurning hvort eðlilegt sé að hækkandi djammstuðull þjóðarinnar vegna Covid skili jafn miklum tekjum í ríkissjóð og þau 16 fyrirtæki sem samanlagt eiga stærstan hluta kvótans.“
Sigmar sagði þessari sanngirnisspurningu ekki svarað í stjórnarsáttmálanum. „Þar er ekki vikið orði að sanngjarnari gjaldtöku í sjávarútvegi, ekki minnst á þann fleyg sem klofið hefur þjóðina í áratugi, jafnvel þótt nýleg könnun sýni að einungis 14% þjóðarinnar séu ánægð með kerfið. En þeir sem eru gjarnir á að missa raunveruleikatengingu sökum bjartsýni geta þá huggað sig við að á meðan samfélagið logar í illdeilum um sjávarútveginn strengir ríkisstjórnin þess heit í stjórnarsáttmálanum að skipuð verði nefnd, með leyfi forseta, „til að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi“. Hinn nýkjörni og orðvari forseti Alþingis hefði varla getað orðað þetta betur.“
Miðflokkurinn:
Tveggja manna þingflokkur Miðflokksins var án formanns síns, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem er erlendis í opinberum erindagjörðum. Bergþór Ólason, hinn þingmaður flokksins, talaði því tvisvar og varamaður Sigmundar Davíðs, Anna Kolbrún Árnadóttir, fyrrverandi þingmaður Miðflokksins, einu sinni.
Bergþór hóf fyrri ræðu sína með vangaveltum um að gárungar hefðu lent í vandræðum með að skíra nýju stjórnina. Sjálfur sagðist hann ætla að kalla hana Höfuðborgarstjórnina, þar sem Reykjavíkurlistanafnið væri frátekið. „Það er nýlunda að allir ráðherrar séu annaðhvort búsettir á suðvesturhorninu, á svæði sem nær frá Korpu að bökkum Hvítár, eða séu fulltrúar höfuðborgarkjördæmanna þriggja. En fyrst og fremst er nafngiftin til komin vegna ofuráherslu flokkanna á að innleiða samgöngustefnu Samfylkingarinnar í Reykjavík með borgarlínu og tengdum verkefnum.“
Bergþór sagði að „hið mæðulega kosningaslagorð Framsóknarflokksins“, sem var „er ekki bara best að kjósa Framsókn“, virtist hafa verið leiðarljós formanna stjórnarflokkanna þá tvo mánuði sem þau sátu við og leituðu leiða til að blása lífi í hjúskapinn með nýjum stjórnarsáttmála. „Orðin „áfram“ eða „áframhaldandi“ koma fram 58 sinnum. Síðan á að viðhalda ýmsu.“
Í seinni ræðu sinni sagðist Bergþor ætla að nýta tíma sinn í lokin, en hann var síðastur á mælendaskrá, til að fagna og lýsa furðu sinni á nokkrum atriðum sem komið höfðu fram í öðrum ræðum kvöldsins. „Ég vil byrja á að fagna og hrósa afstöðu hæstvirts forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur til mögulegrar stjórnarskrárbreytingar þar sem umfang mögulegra breytinga virðist vera orðið mun hóflegra en sú ævintýraferð sem lagt var af stað í fyrir fjórum árum.“
Anna Kolbrún sagði leiðarstef ríkisstjórnarsáttmálans vera endurunnið efni frá síðasta kjörtímabili. „Það eina sem breytist er bréfsefni ráðuneyta. Á 60 blaðsíðum má lesa fögur fyrirheit um vöxt til meiri velsældar, um jarðveg tækifæra og loftslagið. Þessar áherslur komu einnig fram í ræðu hjá hæstvirtum forsætisráðherra fyrr í kvöld en minna fór fyrir stefnumótun í heilbrigðismálum, málefni sem snertir alla íbúa landsins.“
Hún sagði það stórundarlegt að ekki væri hugað að því að Sjúkrahúsið á Akureyri yrði jafnsett sjúkrahúsinu í Reykjavík. „Svar ríkisstjórnarinnar er að innleiða fjarheilbrigðisþjónustu til að friða fólkið úti á landi svo hægt sé að segja að verið sé að veita öllum sömu þjónustu. Þannig er þessum íbúum landsins mismunað.“
Hægt er að lesa um ræður stjórnarliða í umræðunum um stefnuræðu forsætisráðherra hér.