Michelin handbókin 2015 í Frakklandi var kynnt með mikilli viðhöfn á mánudaginn í franska utanríkisráðuneytinu. Það er mikið kappsmál hjá franska ríkinu að landið sé í forystu í matarmenningu heimsins og þess vegna er jafnan mikið gert úr þessum viðburði.
Tveir nýir veitingastaðir voru sæmdir þremur Michelin-stjörnum, sem er einhver æðsta viðurkenning sem hægt er að hljóta í matargerðarlist. Annars vegar staðurinn Pavillon Leoyen við Champs-Élysées í París, undir forystu matreiðslumeistarans Yannick Alléno, sem raunar áður hefur unnið til þriggja stjarna og er frægur fyrir að gera einhverjar bestu sósur Frakklands. Hins vegar er það staðurinn La Bouitte í Saint-Martin-de Belleville, sem er lítið skíðahótel sem feðgarnir Réne og Maxime Meilleur reka. Það er í litlu þorpi í í frönsku Ölpunum og þrátt fyrir að vera staðsett í 2500 metrum yfir sjávarmáli eru feðgarnir einkum þekktir fyrir ferska sjávarrétti.
(Frá vinstri) Frönsku kokkarnir Maxime Meilleur, faðir hans Rene Meilleur, Michael Ellis fulltrúi Michelin og matreiðslumaðurinn Yannick Alleno, við kynningu á á nýju Michelin handbókinni.
Það er stór og mikilvæg og ekki síst dramatísk stund í frönsku matar- og menningarlífi þegar Michelin handbókin kemur út. Á meðan sumir fá stjörnu missa aðrir sínar. Alls 609 veitingastaðir í Frakklandi eru Michelin-stjörnum prýddir, þar af hafa 27 staðir nú þrjár stjörnur og níu þeirra eru í París.
Michelin-stjörnur
Michelin handbókin er frægasta og virtasta viðurkenning heims í veitingahúsabransanum. Hún kom fyrst út aldamótaárið 1900 þegar bræðurnir og dekkjaframleiðendurnir André og Édouard Michelin gáfu út leiðarvísi um girnilega veitingastaði fyrir ökuþóra sem geystust um landið í leit að ævintýrum og góðum mat. Þá voru um þrjú þúsund bílar í Frakklandi en bræðurnir ákváðu engu síður að gefa hana út í 35.000 eintökum og gefa hana frítt. Það var gert til þess að hvetja fólk til þess að kaupa sér bíl og ferðast um á eigin vegum, en innan um veitingahúsagagnrýni voru enn fremur ýmis konar hollráð og leiðbeiningar um dekkjaviðgerðir, bíla, mótorhjól, bensínstöðvar og vegvísar. Síðar komu út Michelin bækur fyrir önnur lönd og með tímanum hefur þetta verið mikilvægasti og vinsælasti leiðarvísir um veitingahús heims.
Stjörnukerfi Michelin frá 1936
Ein stjarna – Afar gott veitingahús. Býður upp á mat í fyrsta flokki.
Tvær stjörnur – Frábær eldamenska. Gæðastaður.
Þrjár stjörnur - Algjörlega framúrskarandi eldamennska sem þess virði að gera sér sérstaka ferð fyrir
Matargagnrýnendur Michelin fara um huldu höfði og þefa upp bestu staðina. Staðalkerfi og einkunnagjöf þeirra er flókin og margslungin; dæmt er eftir framsetningu, útliti og bragði matarins, þjónustu, andrúmslofti og stemningu. Hér geta minnstu smáatriði skipti máli; áferðin á matnum, hnífapör, dúkar, tónlist, lyktin í húsinu og svo mætti lengi telja. Ferð á veitingahús á að vera upplifun og ævintýri; allt frá upphafi til enda.
Þriggja stjörnu Michelin-staðir í París
Pierre Gagnaire – 8. hverfi
Epicure au Bristol – 8. hverfi
Le Pré Catelan – 16. hverfi
Guy Savoy – 17. hverfi
Ledoyen – 8. hverfi
L'Ambroisie – 4. hverfi
Le Meurice Alain Ducasse – 1. hverfi
Astrance – 16. hverfi
Arpège – 7. hverfi
Eitt helsta kennileiti Parísar, hinn sögufrægi Eiffel-turn sem byggður var árið 1889 fyrir heimssýninguna þar í borg.
Frakkar að tapa forystunni?
Alls eru 609 Michelin-stjörnustaðir í Frakklandi. Hvergi í heiminum eru þeir fleiri. Frakkar löngum státað sig af matreiðsluhefð sinni sem er meira að segja á heimsminjaskrá UNESCO. Þó eru ýmis teikn á lofti um að Frakkar séu að tapa forystunni. Michelin stjörnunum hefur fækkað jafnt og þétt hin síðari ár, eða að meðaltali um eina á ári.
Japanir eiga flesta þriggja stjörnu staði eða alls 32 á meðan Frakkar eiga 27 - en um heim allan eru 111 þriggja stjörnu staðir. Japönsk matarmenning hefur verið á flugi síðastliðin ár – nú eru um 516 Michelin-stjörnustaðir í Japan. Japanskir matreiðslumeistarar hafa verið duglegir að taka það besta úr franska, spænska og jafnvel norræna eldhúsinu og blanda því við hina aldagömlu, stílhreinu og fallegu japönsku matreiðsluhefð. Japanir hafa sömuleiðis sjúklegan áhuga á mat; vinsælustu sjónvarpsþættirnir, bækur og blöð fjalla um mat.
Ljúffengur japanskur krabbaréttur. Flestir þriggja stjörnu veitngastaðirnir eru í Japan.
Tokyo er því orðin ein helsta höfuðborg kræsinga en á eftir fylgja París, Lyon, San Sebastien, Berlín, New York og London. Alla vega ef miðað er við staðla Michelin.
Margir hafa hins vegar áhyggjur af stöðu franska eldhússins; segja það staðnað og lítið hafa breyst síðan „nýja eldhúsið“ kom fram á sjónarsviðið fyrir um 40 árum. Á meðan hafa undraverðir hlutir átt sér stað á Spáni, í Bandaríkjunum og Bretalandi þar sem menn hafa tekið það besta frá mörgum löndum og blandað saman. Nýnorræna, skandinavíska eldhúsið hefur líka komið sterkt inn. Gagnrýnendur segja Frakka of stolta og íhaldssama til þess að leggja í frekari tilraunir með sínar matreiðsluhefðir. Þessar alhæfingar eiga kannski ekki alltaf við rök að styðjast því ýmiskonar nýir straumar og áhrif hafa rutt sér til rúms í franska eldhúsinu upp á síðkastið.
Stjarnan segir ekki allt
En eru Michelin endilega bestu veitingastaðirnir? Það er alls ekki gefið. Á meðan sumir eltast við stjörnurnar og leggja mikið á sig og borga mikið fé fyrir að borða á stjörnustöðunum, finnst öðrum slíkt vera hégómi og peningaeyðsla. Michelin-staðirnir hafa orð á sér fyrir að vera allt of dýrir, snobbaðir, fyrirsjáanlegir og leiðinlegir með tilgerðarlegan og óspennandi mat; froðusull og stæla. Michelin-handbókin hafi leitt af sér siðlausa verðlagningu þar sem stundum er rukkaðar 150 þúsund krónur fyrir hádegismat! Bestu staðirnir séu frekar skemmtileg, frumleg og sniðug veitingahús, uppfull af sköpunargleði eða þá bara heimilislegir staðir sem bjóða upp á ferskan og einfaldan mat.
Hverjir eru bestir?
Japanir eiga flesta þriggja stjörnustaði heims, á eftir fylgja Frakkar (sem eiga svo flestar stjörnur samtals) síðan koma Þjóðverjar (en margir hafa veðjað á að þýsk matreiðsla verði jafnvel næsta æði í matarheiminum), svo Bandaríkjamenn og Ítalir. Meira að segja Bretar, sem voru þekktir fyrir versta mat í heimi, hafa tekið sig á og rakað til sín stjörnum undanfarin ár.
Athygli vekur að bæði Svíar og Danir eiga þrettán Michelin stjörnustaði hvor. Ísland er eina landið á Norðurlöndum sem ekki hefur fengið Michelin-stjörnu. Hvenær skyldi koma að því?