Stríðskonan sem varð forseti fyrir slysni

Fyrir einu og hálfu ári var hún svo að segja óþekkt á hinu pólitíska sviði. Hún varði yfirmanninn með kjafti og klóm en hefur nú tekið við stöðu hans. Og er þar með orðin fyrsta konan sem gegnir embætti forseta Perú.

Dina Boluarte, forseti Perú, heilsar fólki á götum Lima.
Dina Boluarte, forseti Perú, heilsar fólki á götum Lima.
Auglýsing

Dina Bolu­arte skráði sig á spjöld sög­unnar fyrir nokkrum dögum er hún tók við emb­ætti for­seta Perú, fyrst kvenna. Fyrir einu og hálfu ári síðan tók hún við emb­ætti vara­for­seta og segja má að þá hafi hún verið óþekkt í stjórn­mála­líf­inu.

Hinu sögu­lega hlut­verki tekur hún þó við í skugga þess að Pedro Castillo var bolað úr stóli for­seta eftir að hafa reynt að slíta þingi til að koma í veg fyrir að þing­menn gætu greitt atkvæði um ákæru á hendur honum fyrir emb­ætt­is­glöp. Upp­á­komur sem þessar eru algengar á þing­inu í Perú þar sem ólga og ósætti ein­kenna almennt stjórn­mál­in.

Auglýsing

Þessu vill Bolu­arte breyta. Hún kallar eftir „vopna­hléi“ og friði til handa stjórn­völdum svo hægt verði að vinna að nauð­syn­legum umbóta­verk­efnum og hefur for­dæmt fyrr­ver­andi banda­mann sinn Castillo fyrir það sem hún kall­aði „til­raun til valda­ráns“.

Bolu­arte er sex­tug að aldri og lög­fræð­ingur að mennt. Castillo valdi hana sem vara­for­seta­efni sitt og svo einnig til að gegna emb­ætti ráð­herra þró­un­ar- og félags­mála í nýrri rík­is­stjórn sinni sum­arið 2021. Hún gegndi báðum þessum stöðum allt þar til fyrir tveimur vik­um. Þá ætl­aði Castillo enn og aftur að stokka upp í ráð­herra­liði sínu og nú með þeim hætti að Bolu­arte gat ekki sætt sig við það. Hún sagði af sér.

Dina Boluarte (lengst til vinstri) og Pedro Castillo (fyrir miðri mynd) fagna sigri í forsetakosningunum sumarið 2021. Mynd: EPA

Castillo tókst þó ekki ætl­un­ar­verk sitt, að halda stöðu sinni, því síð­asta mið­viku­dag var hann hand­tek­inn, ákærður fyrir til­raun til upp­reisnar og emb­ætt­is­glöp, og sam­tímis sviptur for­seta­emb­ætt­inu.

Litlu mátti muna að Bolu­arte kæmi ekki til greina sem eft­ir­maður hans. Fyrir aðeins nokkrum dögum fjall­aði þing­nefnd um ásak­anir póli­tískra and­stæð­inga sem sök­uðu hana um stjórn­ar­skrár­brot. Var hún m.a. sökuð um að hafa gegnt opin­beru starfi á sama tíma og hún var for­seti átt­haga­fé­lags fólks frá Apurimac, svæðis í suð­aust­ur­hluta lands­ins, sem búa í höf­uð­borg­inni Lima. Þetta fannst fjár­hirði rík­is­sjóðs and­stætt anda stjórn­ar­skrár Perú.

Nefndin vís­aði umkvört­unum hins vegar frá. Og hún varð for­seti.

Óhrædd

„Hún er stríðs­kona,“ segir per­úska þing­konan Sigrid Pazan um Bolu­ar­te, þegar hún er beðin að lýsa per­sónu nýja for­set­ans. Segir að hún gef­ist ekki upp. Búi yfir mik­illi þraut­seigju.

Þá er hún ekki hrædd við að skipta um skoð­un. Slík dæmi blasa við ef farið er yfir póli­tískan feril hennar síð­ustu mán­uði.

„Ef að for­set­anum verður vikið úr starfi þá fer ég með hon­um,“ sagði hún fyrir ári síð­an. Þá var þingið að fara að greiða atkvæði um ákæru um emb­ætt­is­glöp Castillo, þeirrar fyrstu af þremur sem hann átti eftir að fá á sig á skömmum tíma. Bolu­arte stóð þétt við bakið á for­set­anum þáver­andi og steig opin­ber­lega fram honum til varn­ar. „Ekki aðeins hef ég barist með félaga Pedro til sig­urs í kosn­ingum heldur höfum við sagt hægrinu: Þið eruð ekki að fara að beygja okk­ur.“

Dina Boluarte sór embættiseið í þinghúsinu í Lima á miðvikudag. Mynd: EPA

Í sumar var komið nokkuð annað hljóð í strokk­inn, umræða um spill­ingu Castillo orðin yfir­þyrm­andi og fátt annað blasti við en að hann yrði að víkja. Ef til þess kæmi sagð­ist Bolu­arte vera til­búin til að taka við völd­um.

Þessi breytta staða átti sér aðdrag­anda. Í árs­byrj­un, aðeins nokkrum dögum eftir að hún hét tryggð við for­set­ann þáver­andi, var hún rekin úr vinstri­flokknum Peru Libre, þeim hinum sama og hafði borið Castillo á höndum sér og komið til valda. Stefna for­manns flokks­ins, Vla­dimir Cer­rón, átti ekki upp á pall­borðið hjá Bolu­ar­te. „Ég hef alltaf verið vinstrisinnuð og verð það áfram en á lýð­ræð­is­legum grunni – ekki alræð­is­leg­um,“ sagði hún. Áfram sagð­ist hún við þessi tíma­mót styðja for­seta sinn þótt flokkspóli­tískar leiðir hefðu skil­ið.

Auglýsing

Og nú, ári eftir að hún hét því að berj­ast við hlið félaga Pedro, er hún komin í stól­inn hans. Þannig vildi það til, nán­ast fyrir slysni, að Bolu­arte varð fyrsti kven­for­seti Perú. Á hött­unum eftir þeirri stöðu hefur kyn­systir henn­ar, Keiko Fujimori, verði í fleiri ár. Hún hefur í þrí­gang boðið sig fram til for­seta en ekki haft erindi sem erf­iði.

Þær gætu þó vart verið ólík­ari, Bolu­arte og Fujimori. Sú fyrr­nefnda fædd­ist í smábæ lengst suður í land­inu og átti þrettán eldri systk­ini. Hún ætl­aði sér lengst af að læra hjúkrun en skipti um skoðun og lagði lög­fræð­ina fyrir sig.

Dina Boluarte er fyrsta konan til að gegna embætti forseta Perú. Mynd: EPA

Þótt flestir hafi ekk­ert vitað hver hún var er hún tók við emb­ætti vara­for­seta hafði hún áður sýnt áhuga á stjórn­mál­um. Fyrir nokkrum árum reyndi hún að ná kjöri sem borg­ar­stjóri í Surquillo, einum borg­ar­hluta höf­uð­borg­ar­innar Lima. Það gekk ekki eft­ir. Hún bauð sig fram til þings árið 2020 en varð ekki heldur kápan úr því klæð­inu. Hún hvarf því aftur til starfa hjá þjóð­skrá Perú, RENI­EC, þar sem hún vann í sautján ár eða allt þar til Castillo bauð henni ráð­herra- og vara­for­seta­stól­inn.

Ævi Fujimori er mjög frá­brugð­in. Hún er dóttir Alberto Fujimori, fyrr­ver­andi for­seta Perú, og ólst því upp við góð efni og umgengni við valda­fólk allt frá unga aldri.

Bolu­arte er vinstrisinn­uð. Fujimori er hægri­kona. Castillo vann nauman sigur á Fujimori í for­seta­kosn­ing­unum í fyrra.

Í þriðja sinn á fjórum árum

Það er hefð fyrir því að vara­for­seti taki við stöðu for­seta í Perú ef þær aðstæður skap­ast að hann fari frá völd­um. Og slík valda­skipti hafa nú orðið þrisvar sinnum á aðeins fjórum árum.

Í mars árið 2018 var þáver­andi for­seti, Pedro Pablo Kuczynski, ákærður fyrir emb­ætt­is­glöp. Við tók vara­for­seti þess tíma, Martín Vizcarra. Í nóv­em­ber 2020 var svo komið að Vizcarra að missa emb­ættið og vara­for­seti hans, Francisco Sagasti, tók við. Í síð­ustu viku var Pedro Castillo vikið úr emb­ætti for­seta og Bolu­arte tók við.

„Ég er með­vituð um þá gríð­ar­legu ábyrgð sem ég tek nú að mér,“ sagði Bolu­arte er hún sór emb­ætt­is­eið­inn. „Mín fyrsta bón er sú að kalla eftir breiðri sam­stöðu allra Per­úmanna.“

Kjör­tíma­bil­inu lýkur ekki fyrr en árið 2026. Bolu­arte von­ast til að geta setið á for­seta­stóli þangað til. Hún segir verk að vinna í Perú. „Við verðum að nota næstu fjögur ár til að vinna í þágu við­kvæm­ustu landa okk­ar, þá sem mest þurfa á því að halda.“

Auglýsing

Þrátt fyrir að vera lýst sem stríðs­konu vill Bolu­arte frið. Frið til að vinna verk sín, frið til að koma á umbótum fyrir fátæka þjóð í menn­ing­ar­ríku landi. Land­inu þar sem Ink­arnir bjuggu og reistu sín miklu mann­virki, land­inu þar sem kókaín er fram­leitt í meira magni en nokkru öðru landi. Og land­inu þar sem efna­hag­ur­inn hefur verið að vænkast á und­an­förnum árum, ekki síst vegna erlendra fjár­fest­inga í vinnslu nátt­úru­auð­linda, stundum í mik­illi and­stöðu við heima­menn.

Hvort Bolu­arte tak­ist ætl­un­ar­verk sitt á eftir að koma í ljós.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar