Dina Boluarte skráði sig á spjöld sögunnar fyrir nokkrum dögum er hún tók við embætti forseta Perú, fyrst kvenna. Fyrir einu og hálfu ári síðan tók hún við embætti varaforseta og segja má að þá hafi hún verið óþekkt í stjórnmálalífinu.
Hinu sögulega hlutverki tekur hún þó við í skugga þess að Pedro Castillo var bolað úr stóli forseta eftir að hafa reynt að slíta þingi til að koma í veg fyrir að þingmenn gætu greitt atkvæði um ákæru á hendur honum fyrir embættisglöp. Uppákomur sem þessar eru algengar á þinginu í Perú þar sem ólga og ósætti einkenna almennt stjórnmálin.
Þessu vill Boluarte breyta. Hún kallar eftir „vopnahléi“ og friði til handa stjórnvöldum svo hægt verði að vinna að nauðsynlegum umbótaverkefnum og hefur fordæmt fyrrverandi bandamann sinn Castillo fyrir það sem hún kallaði „tilraun til valdaráns“.
Boluarte er sextug að aldri og lögfræðingur að mennt. Castillo valdi hana sem varaforsetaefni sitt og svo einnig til að gegna embætti ráðherra þróunar- og félagsmála í nýrri ríkisstjórn sinni sumarið 2021. Hún gegndi báðum þessum stöðum allt þar til fyrir tveimur vikum. Þá ætlaði Castillo enn og aftur að stokka upp í ráðherraliði sínu og nú með þeim hætti að Boluarte gat ekki sætt sig við það. Hún sagði af sér.
Castillo tókst þó ekki ætlunarverk sitt, að halda stöðu sinni, því síðasta miðvikudag var hann handtekinn, ákærður fyrir tilraun til uppreisnar og embættisglöp, og samtímis sviptur forsetaembættinu.
Litlu mátti muna að Boluarte kæmi ekki til greina sem eftirmaður hans. Fyrir aðeins nokkrum dögum fjallaði þingnefnd um ásakanir pólitískra andstæðinga sem sökuðu hana um stjórnarskrárbrot. Var hún m.a. sökuð um að hafa gegnt opinberu starfi á sama tíma og hún var forseti átthagafélags fólks frá Apurimac, svæðis í suðausturhluta landsins, sem búa í höfuðborginni Lima. Þetta fannst fjárhirði ríkissjóðs andstætt anda stjórnarskrár Perú.
Nefndin vísaði umkvörtunum hins vegar frá. Og hún varð forseti.
Óhrædd
„Hún er stríðskona,“ segir perúska þingkonan Sigrid Pazan um Boluarte, þegar hún er beðin að lýsa persónu nýja forsetans. Segir að hún gefist ekki upp. Búi yfir mikilli þrautseigju.
Þá er hún ekki hrædd við að skipta um skoðun. Slík dæmi blasa við ef farið er yfir pólitískan feril hennar síðustu mánuði.
„Ef að forsetanum verður vikið úr starfi þá fer ég með honum,“ sagði hún fyrir ári síðan. Þá var þingið að fara að greiða atkvæði um ákæru um embættisglöp Castillo, þeirrar fyrstu af þremur sem hann átti eftir að fá á sig á skömmum tíma. Boluarte stóð þétt við bakið á forsetanum þáverandi og steig opinberlega fram honum til varnar. „Ekki aðeins hef ég barist með félaga Pedro til sigurs í kosningum heldur höfum við sagt hægrinu: Þið eruð ekki að fara að beygja okkur.“
Í sumar var komið nokkuð annað hljóð í strokkinn, umræða um spillingu Castillo orðin yfirþyrmandi og fátt annað blasti við en að hann yrði að víkja. Ef til þess kæmi sagðist Boluarte vera tilbúin til að taka við völdum.
Þessi breytta staða átti sér aðdraganda. Í ársbyrjun, aðeins nokkrum dögum eftir að hún hét tryggð við forsetann þáverandi, var hún rekin úr vinstriflokknum Peru Libre, þeim hinum sama og hafði borið Castillo á höndum sér og komið til valda. Stefna formanns flokksins, Vladimir Cerrón, átti ekki upp á pallborðið hjá Boluarte. „Ég hef alltaf verið vinstrisinnuð og verð það áfram en á lýðræðislegum grunni – ekki alræðislegum,“ sagði hún. Áfram sagðist hún við þessi tímamót styðja forseta sinn þótt flokkspólitískar leiðir hefðu skilið.
Og nú, ári eftir að hún hét því að berjast við hlið félaga Pedro, er hún komin í stólinn hans. Þannig vildi það til, nánast fyrir slysni, að Boluarte varð fyrsti kvenforseti Perú. Á höttunum eftir þeirri stöðu hefur kynsystir hennar, Keiko Fujimori, verði í fleiri ár. Hún hefur í þrígang boðið sig fram til forseta en ekki haft erindi sem erfiði.
Þær gætu þó vart verið ólíkari, Boluarte og Fujimori. Sú fyrrnefnda fæddist í smábæ lengst suður í landinu og átti þrettán eldri systkini. Hún ætlaði sér lengst af að læra hjúkrun en skipti um skoðun og lagði lögfræðina fyrir sig.
Þótt flestir hafi ekkert vitað hver hún var er hún tók við embætti varaforseta hafði hún áður sýnt áhuga á stjórnmálum. Fyrir nokkrum árum reyndi hún að ná kjöri sem borgarstjóri í Surquillo, einum borgarhluta höfuðborgarinnar Lima. Það gekk ekki eftir. Hún bauð sig fram til þings árið 2020 en varð ekki heldur kápan úr því klæðinu. Hún hvarf því aftur til starfa hjá þjóðskrá Perú, RENIEC, þar sem hún vann í sautján ár eða allt þar til Castillo bauð henni ráðherra- og varaforsetastólinn.
Ævi Fujimori er mjög frábrugðin. Hún er dóttir Alberto Fujimori, fyrrverandi forseta Perú, og ólst því upp við góð efni og umgengni við valdafólk allt frá unga aldri.
Boluarte er vinstrisinnuð. Fujimori er hægrikona. Castillo vann nauman sigur á Fujimori í forsetakosningunum í fyrra.
Í þriðja sinn á fjórum árum
Það er hefð fyrir því að varaforseti taki við stöðu forseta í Perú ef þær aðstæður skapast að hann fari frá völdum. Og slík valdaskipti hafa nú orðið þrisvar sinnum á aðeins fjórum árum.
Í mars árið 2018 var þáverandi forseti, Pedro Pablo Kuczynski, ákærður fyrir embættisglöp. Við tók varaforseti þess tíma, Martín Vizcarra. Í nóvember 2020 var svo komið að Vizcarra að missa embættið og varaforseti hans, Francisco Sagasti, tók við. Í síðustu viku var Pedro Castillo vikið úr embætti forseta og Boluarte tók við.
„Ég er meðvituð um þá gríðarlegu ábyrgð sem ég tek nú að mér,“ sagði Boluarte er hún sór embættiseiðinn. „Mín fyrsta bón er sú að kalla eftir breiðri samstöðu allra Perúmanna.“
Kjörtímabilinu lýkur ekki fyrr en árið 2026. Boluarte vonast til að geta setið á forsetastóli þangað til. Hún segir verk að vinna í Perú. „Við verðum að nota næstu fjögur ár til að vinna í þágu viðkvæmustu landa okkar, þá sem mest þurfa á því að halda.“
Þrátt fyrir að vera lýst sem stríðskonu vill Boluarte frið. Frið til að vinna verk sín, frið til að koma á umbótum fyrir fátæka þjóð í menningarríku landi. Landinu þar sem Inkarnir bjuggu og reistu sín miklu mannvirki, landinu þar sem kókaín er framleitt í meira magni en nokkru öðru landi. Og landinu þar sem efnahagurinn hefur verið að vænkast á undanförnum árum, ekki síst vegna erlendra fjárfestinga í vinnslu náttúruauðlinda, stundum í mikilli andstöðu við heimamenn.
Hvort Boluarte takist ætlunarverk sitt á eftir að koma í ljós.