Áætlaður hagnaður eiturlyfjahringja í Mexíkó af sölu eiturlyfja í Bandaríkjunum nemur allt að 30 milljörðum bandaríkjadala á ári. Það er um 2-3% af vergri landsframleiðslu Mexíkó. Til samanburðar er velta íslenska sjávarútvegsins rúmlega 13 milljarðar bandaríkjadala eða um 12% af vergri landsframleiðslu Íslands.
Á fyrri hluta nítjándu aldar áskildu Bandaríkin sér einkarétt til íhlutunar í Mið- og Suður-Ameríku. Þetta tilvonandi stórveldi var með þessu að berja í borðið og segja gömlu evrópsku nýlenduveldunum, sérstaklega Spán, að halda sig á mottunni. Þessi stefna er kölluð Monroe-kennisetningin og hefur verið hornsteinn bandarískrar utanríkisstefnu síðan.
Spænska heimsveldið hopaði en til þess að reka það á brott þurfti frelsishetjur á borð við Simón Bolívar. Mið-Ameríka var, og er enn, vanþróað svæði og efnahagur landanna byggðist mikið til á landbúnaði eða útflutningi á náttúruauðlindum. Óstöðugleiki, hallarbyltingar og borgarastríð hafa einkennt sögu Mið- og Suður-Ameríku á tuttugustu öldinni. Réttarríkið hefur ekki náð að festa sig í sessi. Glæpir og spilling eru víða algeng, meira að segja í dómskerfinu, á meðal lögreglu og annarra opinberra embættismanna.
Bakgarður Bandaríkjanna
Á tíma kalda stríðsins var annar hornsteinn bandarískrar utanríkistefnu að stöðva útbreiðslu kommúnisma, nefnd Truman-kennisetningin. Kúba Kastrós var Bandaríkjamönnum þyrnir í augun og Bandaríkjamenn studdu hverja þá ribbalda sem ljóst var að myndu stökkva vinstrisinnuðum baráttumönnum á flótta í löndum Mið-Ameríku. Fleiri en einum bandarískum forseta eru eignuð ummælin eftirfarandi um fleiri en einn einræðisherra á svæðinu.
„He may be a son of a bitch, but he's our son of a bitch”
Oft hefur því verið haldið fram að Roosevelt hafi sagt þetta um Anastasio Somoza García (1896-1956) sem var einvaldur í Níkaragva á árunum 1936 til 1956. Eftir að Níkaragvabúar höfðu flæmt son hans og arftaka Anastasio Somoza Debayle (1925-1980) frá völdum 1979 studdu Bandaríkjamenn skæruliða gegn hinni svokölluðu Sandinista-ríkisstjórn í Níkaragva. Íhlutun Bandaríkjanna urðu að hneykslismáli í fjölmiðlum þar vestra, Íran-Kontra-hneykslinu svokallaða. Alþjóðadómstólinn dæmdi Bandaríkjastjórn seka um ólöglega íhlutun í innanríkismálum Níkaragva árið 1986 en Bandaríkin virtu dóminn að vettugi. Níkaragva er í dag öruggasta og friðsamasta land Mið-Ameríku.
Rios Montt fyrrverandi hershöfðingi og bandamaður Bandaríkjanna á níunda áratugnum var dreginn fyrir dómstól árið 2012.
Á hápunkti borgarastríðsins í Gvatemala sem geysaði í 36 ár, nánar tiltekið 4. desember 1982, lýsti Ronald Reagan yfir eindregnum stuðningi við forseta landsins, Efraín Ríos Montt:
„President Ríos Montt is a man of great personal integrity and commitment. ... I know he wants to improve the quality of life for all Guatemalans and to promote social justice.”
En sagan ber Montt ekki svo góðan dóm. Hann er eitt nafn á löngum lista einræðisherra studdir af Bandaríkjunum sem voru ekki vandir að meðulum. Árið 2012 var Montt fundinn sekur um þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyninu.
Íhlutanir Bandaríkjamanna í heimsálfunni eru sveipaðar hulu og hafa gefið tilefni til misjafnlega langsóttra samsæriskenninga. Um vissa hluti er þó ekki deilt, eins og þá staðreynd að Bandaríkjamenn þjálfuðu hermenn frá Mið og Suður-Ameríkulöndum í herstöð sinni School of Americas sem áttu eftir að fremja grimmilega stríðsglæpi.
Mikilvægur þáttur í því að leggja mat á heilindi utanríkisstefnu valdamikilla landa er að athuga ástand mála í helstu nágrannaríkjum þeirra, helstu viðskiptalöndum og næsta áhrifasvæðis. Það er sérkennileg þversögn í orðræðu bandarískrar utanríkisstefnu að ætla að tryggja öryggi í heiminum – fjarlægja ógnina sem stafar af hryðjuverkamönnum - og flytja út lýðræði og réttarríkið og taka þá fyrir fjarlæg og framandi lönd í Mið-Austurlöndum.
Umdeild landamæri
Þegar Mexíkó lýsti fyrst yfir sjálfstæði árið 1821 teygði það sig yfir það sem nú er Gvatemala í suðri og Kalíforníu, Nýju Mexíkó og Texas í norðri. Mexíkó taldi nærri fimm milljón ferkílómetra, samanborið við þá tæpu tvo sem Mexíkó nútímans er. Eftir stríð Mexíkó og Bandaríkjanna 1846-48 afsalaði Mexíkó sér tilkalli sínu til Texas, Kaliforníu og stórra svæða í öðrum landamæraríkjum við Mexíkó sem áður tilheyrðu því. Sögulega hefur því lengi verið togstreita á milli Bandaríkjanna og Mexíkó og landamærasvæði þess verið vettvangur átaka um land.
Þegar Mexíkó lýsti yfir sjálfstæði 1821 náðu landamæri þeirra frá Gvatemala í suðri og til og með Kaliforníu og Texas í norðri.
Landamærin á milli Mexíkó og Bandaríkjanna eru þau fjölförnustu í heimi, um 250 milljónir manna ferðast yfir þau á ári hverju. Í Mexíkó búa rúmlega 118 milljónir manna. Mexíkóska hagkerfið er tíunda stærsta í heiminum að teknu tilliti til kaupmáttar. Strax og Fríverslunarsamningur Norður-Ameríku (NAFTA) var samþykktur árið 1994 féll mexíkóski pesóinn um 40%, fólk í landbúnaði tapaði vinnunni en færðist í iðnaðarvinnu (maquiladora). Ásókn bandarísks fjármagns í mexíkóskt vinnuafl og öfugt er ekki nýleg þróun. En um leið og farið er yfir landamærin frá Bandaríkjunum til Mexíkó, er maður kominn í annan, verri og hættulegri heim.
Viðkvæmt lýðræði
Í endurminningum sínum, sem komu út 2004, viðurkenndi Miguel de la Madrid, sem var forseti Mexíkó 1982-88, að úrslit forsetakosninganna 1988 hefðu verið falsaðar flokki sínum PRI í vil. PRI stendur fyrir Partido Revolucionario Institucional og var stofnaður 1929, hann hefur hlotið yfirburðasigur í flestöllum kosningum – kosningar voru nánast rússneskar í Mexíkó. Undir lok 20. aldar hafði flokkurinn setið við völd í Mexíkó í 71 ár og PRI orðið samnefni fyrir spillingu.
Hernum í Mexíkó er óspart beitt gegn eiturlyfjahringjum þar sem lögreglan dugar ekki til.
Í forsetakosningunum 2000 laut PRI í lægra hald fyrir Vicente Fox, frambjóðanda PAN-stjórnmálaflokksins. Í fréttaumfjöllun um kosningarnar sagði New York Times PRI vera „klíku spilltra innherja sem hefur loks verið steypt úr stóli”. Á seinni hluta tuttugustu aldarinnar ríkti tiltölulegur stöðugleiki í undirheimum í Mexíkó, spilling var umtalsverð en visst samkomulag ríkti á milli eiturlyfjasmyglaranna og stjórnmálamannanna í PRI og lögreglumanna sem þáðu mútur. Undir lok 20. aldar stórjókst magn eiturlyfja sem flutt voru í gegnum Mexíko og mexíkósk glæpagengi efldust samhliða því.
Neysla
Um langt skeið hafa eiturlyf átt viðkomu í Mexíkó á leið sinni til hins ábatasama markaðar í Bandaríkjunum. Í dag fer um 90% þess kókaíns sem neytt er í Bandaríkjunum í gegnum Mexíkó og töluvert magn heróíns, LSD, metamfetamíns og maríjúana. Svo lengi sem neysla eiturlyfja er ólögleg í hinu auðuga norðri verður framleiðsla þeirra og sala raunverulegur valkostur fyrir ungt fólk í Mið- og Suður-Ameríku sem stendur frammi fyrir takmörkuðum atvinnutækifærum.
Eiturlyfjastríðið í Mexíkó er keyrt áfram af eftispurn í Bandaríkjunum eftir dýrum eiturlyfjum á borð við kókaíni.
Áður fyrr var kókaíni, sem er ábatasamasta eiturlyfið, í meira mæli smyglað beint til Flórída með litlum flugvélum frá Kólumbíu, þar sem eiturlyfjakóngurinn Pablo Escobar réði ríkjum. Undir lok 20. aldar höfðu bandarísk yfirvöld séð við Escobar og Medellín-eiturlyfjahring hans. Þá fóru kólumbískir eiturlyfjaframleiðendur að smygla landleiðina. Mexíkóskir smyglarar voru fyrst um sinn milliliðir en sáu sér fljótt leik á borði, þeir fengu greitt fyrir þjónustu sína í eiturlyfjum og með tengsl sín í landamærasvæði Bandaríkjanna gátu þeir komið eiturlyfjunum fljótt í verð. Brátt hættu þeir að vera milliliðir.
Völdin í eiturlyfjaheiminum hafa því færst norður, átakalínan er ekki lengur dregin í frumskógum Kólumbíu heldur við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó. Höfuðpaurarnir við framleiðslu eiturlyfjanna hafa horfið í skuggann af eiturlyfjahringjum í Mexíkó sem berjast um yfirráð að aðgengi að Bandaríkjamarkaði.
Eiturlyfjastríð
Þann 11. desember 2006 eða tíu dögum eftir að Felix Calderón (PRI) tók við forsetaembættinu, sendi hann 6.500 hermenn inn í Michoacán-ríki í Vestur-Mexíkó til þess að reyna að ráða niðurlögum La Familia Michoacana-eiturlyfjahringsins. Þremur mánuðum fyrr átti sér stað atburður í Uruapan, 300 þúsund manna borg, sem olli straumhvörfum. Vígamenn La Familia vörpuðu fimm afskornum höfðum inn á dansgólf skemmtistaðar öðrum víti til varnaðar. Þessi aðferð, að beita hrottalegu ofbeldi, pynta, lítilsvirða og smána fórnarlömbin opinberlega átti héreftir eftir að verða algeng.
La Familia Michoacana er þó ekki öflugur eiturlyfjahringur og var raunar leystur upp árið 2011. Öflugustu eiturlyfjahringirnir heita Los Zetas og Sinaloa. Sinaloa-hringurinn ræður ríkjum í vesturhluta Mexíkó og Los Zetas í austurhlutanum. Átök þeirra á milli og við önnur glæpagengi sem og við yfirvöld hafa harðnað. Á þjóðhátíðardegi Mexíkó, 15. september 2008 var tveimur handsprengjum varpað inn í mannþvögu við aðaltorg Morelia í Michoacánríki, átta manns dóu og a.m.k. 100 manns særðust.
Þegar yfirvöld hafa hendur í hári meðlima eiturlyfjahringa eru gjarnan haldnir fréttamannafundir. Það virðist þó sem að maður komi í manns stað.
Árið 2009 sendu helstu leiðtogar atvinnulífsins í Ciudad Juarez út neyðarkall til Sameinuðu þjóðanna og óskuðu eftir friðargæsluliðum. Um þetta leyti var Ciudad Juarez morðhöfuðborg heimsins og ítök eiturlyfjahringjanna orðin það djúpstæð að þau fjárkúguðu venjuleg fyrirtæki, þ.e. heimtuðu verndarskatt. Eiturlyfjahringirnir í Mexíkó hafa ekki bara tekjur af smygli eiturlyfja, þau stunda einnig fjárkúgun og mannrán í miklum mæli enda arðsamt. Jafnvel fátækum farandverkamönnum sem borgað hafa háar fjárhæðir til þess að komast norður er rænt og snauðum vandamönnum þeirra gert að borga fyrir lausn þeirra.
Óöryggi
Níu af hverjum tíu glæpum sem framdir eru í Mexíkó eru ekki tilkynntir til yfirvalda, hvað þá rannsakaðir. Árið 2010 voru innan við 5% morða rannsökuð. Skýrsla Human Rights Watch frá 2011 sem var mjög óvægin bar fyrisögnina Neither rights nor security. Samkvæmt einni heimild hefur verið tilkynnt um 29.707 mannshvörf frá árinu 2006 og þar af væri yfir 12 þúsund manns enn saknað. Af þessum tæplega þrjátíu þúsund málum hefur aðeins verið hafin rannsókn á 291 málum og enn enginn verið sakfelldur fyrir mannsrán á því tímabili.
Áætlað er að um níu af hverjum tíu skotvopnum sem notuð eru í eiturlyfjastríðinu í Mexíkó komi frá Bandaríkjunum. Mikið framboð er af skotvopnum í Bandaríkjunum og reglur um kaup á þeim eru rúmar. Vanmáttur yfirvalda lýsir sér hvað best í sjálfskipuðum varnarsveitum. Borgarar treysta ekki einu sinni lögreglumönnum sem hafa orðið uppvísir að því að starfa fyrir eiturlyfjagengi.
Verstu ódæðin sem borist hafa til fjölmiðla eru fjöldamorðin kennd við San Fernando-sveitarfélagið í Tamaulipas, heimaríki Los Zetas-eiturlyfjahringsins. Árið 2010 fundust lík 72 farandverkamanna en þeir höfðu verið teknir af lífi með skoti í hnakkann og líkunum því næst hrúgað. Slík kerfisbundin fjöldamorð á almennum borgurum minna á þjóðarmorð. Árið 2011 fundust lík 193 farandverkamanna, flestir frá Mið-Ameríku, í 47 mismunandi fjöldagröfum.
Hafi einhverjum komið það til hugar að ástandið í Mexíkó jaðri við stríðsástand þá er það ekki úr lausu lofti gripið. Molly Molloy bókavörður við Ríkisháskólann í Nýju Mexíkó og sérfræðingur um málefni landamæra Mexíkó og Bandaríkjanna hefur gagnrýnt opinbera tölfræði um glæpi og mannfall í Mexíkó og sýnt fram á að heildarfjöldi morða af yfirlögðu ráði á tímabilinu frá byrjun árs 2007 og út september 2013 sé 135.517 ekki á bilinu 50 til 80 þúsund eins og oftast er greint frá í stórum fjölmiðlum.
Til samanburðar er áætlað samkvæmt opinberum tölum að um 110 þúsund borgarar hafi látið lífið í Írak á tímabilinu 2005-2009 (raunverulegt mannfall er mun hærra).