Í frumvarpi til laga um virðisaukaskatt og vörugjöld sem nú liggur fyrir Alþingi er lagt til að felldur verði niður skattur á viðbættan sykur og sætuefni, svonefndur sykurskattur.
Álagning sykurskattsins þann 1. mars 2013 var skref í áttina að því að viðurkenna þann heilsufarsskaða sem hlýst af slæmu mataraæði, en mataræði er stærsti einstaki áhættuþáttur heilsufarsskaða Íslendinga samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO).
Á sama tíma og íslensk stjórnvöld áforma að létta álögum af sykri hefur WHO gefið út nýjar leiðbeiningar (mars 2014) um að enn verði hert á takmörkunum á magni af sykri í matvælum úr 10% í 5% af orkuþörf – að stefna beri að helmingun á sykurneyslu. Þetta magn samsvarar 25 g af sykri á dag, eða 6 teskeiðum – en í 0,5 l gosdós er um tvöfalt það magn.
Sakir samfélagslegs kostnaðar og heilsufarsáhrifa offitu og sjúkdóma sem tengjast mataræði er ofneysla sykurs ekki alfarið einkamál hvers og eins meðan samfélagið ber kostnaðinn. Líkt og vegna ofneyslu áfengis og tóbaksneyslu er gjaldtaka réttlætanleg og nauðsynleg.
Slæmt mataræði kostar samfélagið 5-20 milljarða á ári
Út frá fyrirliggjandi tölum má ætla að heildarkostnaður hins opinbera hér á landi vegna slæms mataræðis og offitu nemi milli kr. 5 og 20 ma. á ári:
- Í skýrslu Háskólans á Bifröst sem gerð var fyrir heilbrigðisráðuneytið í nóvember 2008 kemur m.a. fram að þjóðhagslegur sparnaður af því að lækka meðalþyngd landsmanna um 1 BMI-stig (léttast um ca. 3 kg) nemi um kr. 1 ma. á ári, eða kr. 1,5 ma. á verðlagi dagsins í dag.
- Í meistaraprófsritgerð Kristínar Þorbjörnsdóttur í heilsuhagfræði var áætlað að beinn kostnaður hins opinbera vegna offitu hafi verið kr. 3 ma. hér á landi árið 2007, eða sem samsvarar á fimmta milljarði á verðlagi dagsins í dag – og þó líklega meiru, því offituvandinn hefur aukist verulega frá 2007.
- Sé tekið mið af vandaðri sænskri rannsókn sem út kom 2011, gæti kostnðurinn verið enn meiri. Þar nam heildarkostnaður sænska tryggingakerfisins og heilbrigðiskerfisins vegna offitu SEK 15 ma. árið 2003, eða 0,6% af vergri landsframleiðslu, og gert er ráð fyrir 40 – 80% aukningu fram til ársins 2020, sem heimfært á Ísland væri ISK 15 ma. á ári nú – og samt erum við töluvert feitari en Svíar.
- Loks má nefna tölur WHO, sem mælir glötuð góð æviár vegna ótímabærs dauða eða örorku. WHO telst svo til að um 7400 góð æviár glatist Íslendingum vegna matararæðis, eða sem samsvarar um kr. 38 ma. á ári sé miðað við landsframleiðslu á mann – þótt vissulega verði aldrei hægt að komast í veg fyrir allan heilsufarsskaða.
Langvinnir, lífsstílstengdir sjúkdómar valda 86% allra dauðsfalla í okkar heimshluta. Vandinn er af þeirri stærðargráðu að hann stendur í vegi fyrir hagvexti og er að sliga heilbrigðiskerfið.
Með neyslustýringu má draga úr neyslu óhollra fæðutegunda en auka í staðinn neyslu ávaxta og grænmetis. Óhófleg neysla sykurs stuðlar að þeim offitufaraldri sem flest lönd búa við í dag. Offita og afleidd sykursýki er ein helsta undirrót margra langvinnra sjúkdóma. Það er því mikivægt lýðheilsumarkmið að draga úr sykurneyslu þjóðarinnar. Góð leið til þess er sykurskattur.
Íslendingar borða of mikinn sykur
Ársneysla Íslendinga á sykri hefur verið nálægt 50 kílóum á mann á ári í langan tíma. Viðvarandi ofneysla sykurs veldur sívaxandi þyngd þjóðarinnar. Ofneysla sykurs ryður einnig í burtu hollari mat með „tómum kaloríum“ úr sykrinum, sem eykur enn á vandann.
Í könnuninni Hvað borða Íslendingar 2010 – 2011 frá embætti Landlæknis, kemur fram að 24,4% 18-30 ára karla og 13,4% kvenna drekka sykraða gosdrykki daglega, og þessar ungu konur fá 18,9% af orkunni úr viðbættum sykri og karlarnir fá 16,1%. Eingöngu þeir sem drekka sykraða gos- og svaladrykki sjaldnar en tvisvar í viku fá að meðaltali ekki of mikinn sykur borið saman við 10%-hámarkið, og við eigum langt í land með að ná 5% sem WHO mælir nú með.
Í ofanálag notar WHO í dag víðari skilgreiningu á viðbættum sykri en tíðkast hefur á Íslandi, telur m.a. með sykur í hunangi, sýrópum, ávaxtasöfum og ávaxtaþykknum. Við erum því ekki einu sinni að mæla allan þann sykur sem við erum að innbyrða og fáum því lægri neyslutölur.
Íslendingar eru nú feitasta þjóð Evrópu með 74% karla og 61% kvenna í ofþyngd skv. greiningu á skýrslu WHO Global Burden of Disease 2013.
Íslendingar eru nú feitasta þjóð Evrópu með 74% karla og 61% kvenna í ofþyngd skv. greiningu á skýrslu WHO Global Burden of Disease 2013. Þetta ástand er mjög hættulegt. Samkvæmt grein í The Lancet þar sem teknar eru saman rannsóknir á 900.000 manns í Norður-Ameríku og Evrópu og þeim fylgt eftir í að meðaltali 8 ár, er kyrfilega sýnt fram á að líkamsþyngdarstuðull yfir 25 (ofþyndarmörk) tengist verulega auknum líkum á sjúkdómum og dauða.
Sykur er glænýtt næringarefni í þróunarsögunni
Gegnum 200 þúsund ára þróunarsögu nútímamannsins hefur sykur vart komið við sögu fyrr en á síðasta árþúsundinu í Evrópu og litlu fyrr í Austurlöndum. Fyrst á 18. öld varð sykur algengur í Evrópu; fyrst sem lúxusvara en svo á 19. öld sem nauðsynjavara.
Líffræðilega erum við ekki hönnuð til að þola sykur vel: Frúktósinn í venjulegum sykri (súkrósa) meltist í lifrinni líkt og alkóhól, sem tekur tíma og heldur áfram að skila orku löngu eftir að við erum hætt að vera sólgin í sykur.
Líffræðilega erum við ekki hönnuð til að þola sykur vel: Frúktósinn í venjulegum sykri (súkrósa) meltist í lifrinni líkt og alkóhól, sem tekur tíma og heldur áfram að skila orku löngu eftir að við erum hætt að vera sólgin í sykur. Þessi umframorka breytast síðan í fitu – gjarnan kviðfitu eða fitusöfnun í lifur. Skiptir þá engu hvort um er að ræða hvítan sykur, hrásykur eða annan sykur. Sykurinnihaldi í ávöxtum fylgja hins vegar trefjar og fjölmörg næringarefni sem gera mikinn mun á að borða hann þannig eða drekka hann í formi gosdrykks, svo dæmi sé tekið.
Það er ekki náttúrulega fitan í matnum sem orsakar offituna. Hún þarf að vera til staðar til að veita nauðsynleg næringarefni og gefur hæga orku sem ekki örvar insúlínsveiflur eins og hröðu kolvetnin. Það er gegndarlaust sykur- og sterkjuát sem fyrst og fremst hefur komið okkur í koll.
Skaðsemi sykurs og gervisætu
Sykur er tvísykra sem samsett er úr einsykrunum, glúkósa og frúktósa. Gildir þá einu hvaða nafni sykurinn nefnist – hrásykur, hunang, sýróp, safi, þykkni eða annað.
Allar frumur líkamans kunna að nota glúkóksa (þrúgusykur) og við fáum glúkósann fyrst og fremst úr öllum kornvörum og plöntum. Ekkert vandamál hér.
Hinn helmingurinn af sykrinum, frúktósinn (ávaxtasykurinn) er hins vegar hinn mesti skaðvaldur þegar hann er innbyrtur í miklum mæli, svo sem í sykruðum drykkjum, sælgæti eða mat með viðbættum sykri.
Frúktóksi veldur insúlínónæmi sem eykur hættu á sykursýki og stuðlar að fitusöfnun, margvíslegri brenglun í seddustjórnun, og sykur veldur jafnvel fíkn hjá sumum einstaklingum. Í samanburði við glúkósa ýti frúktósi (ávaxtasykur) undir hækkun blóðfitu og eykur nýmyndun fitu, sem leiðir til hærri líkamsþyngdar og aukinnar kviðfitu.
Jafnvel gervisykur getur haft sambærileg skaðleg áhrif á ofangreind ferli. Ný rannsókn sem birt var í Nature um skaðsemi sætuefna sýnir að gervisykur (sakkarín, súkralósi og aspartam) hefur áhrif til brenglaðs sykurþols, þ.e. forstigs sykursýki. Niðurstöðurnar eru sláandi og byggðar tilraunum bæði á dýrum og mönnum.
Líffræðilega erum við ekki hönnuð til að þola sykur vel: Frúktósinn í venjulegum sykri (súkrósa) meltist í lifrinni líkt og alkóhól, sem tekur tíma og heldur áfram að skila orku löngu eftir að við erum hætt að vera sólgin í sykur.
Bandaríski innkirtlasérfræðinurinn og læknirinn Robert H. Lustig lýsir því hvernig það er sambærilegt álag á lifrina að drekka sykrað gos og sama magn af bjór („soda is beer without the buzz.“).
Fyrir þá sem vilja sökkva sér ofan í fræðin má benda á langanenda á fræðilegan (og langan) fyrirlestur Robert H. Lustig, Sugar: The Bitter Truth.
Öllu aðgengilegra efni fyrir almenning má sjá í nokkurra mínútna fræðslumyndum sem nefnast The Skinny on Obesity frá University of California San Francisco og fjalla um mataræði og sykur, sem og einkar sláandi fréttaskýringu frá kanadíska ríkissjónvarpinu CBC, The Secrets of Sugar.
Íslenski sykurskatturinn
Það þarf ekki að sannfæra markaðshyggjandi fólk um þá staðreynd að verð hefur áhrif á eftirspurn.
Sjálfur frumkvöðull frjálshyggjunnar Adam Smith nefnir sykur sem sjálfsagðan skattstofn þegar hann kemst svo að orði í Auðlegð þjóðanna: „Sugar, rum, and tobacco, are commodities which are nowhere necessaries of life, [but] which are ... objects of almost universal consumption, and which are therefore extremely proper subjects of taxation.“
Þótt það hafi ekki farið ýkja hátt í umræðunni er sykurskatturinn á Íslandi sem nú stendur til að fella niður í raun valkvæður, þannig að framleiðendum og innflytjendum er áfram heimilt að greiða vörugjöld skv. almennum vöruflokkum og sleppa því einfaldlega að reikna sykurinnihaldið. Þetta kerfi umbunar þeim sem leitast við að nota lítinn sykur í vörur sínar, því þannig verður álagningin lægri ef farin er sykurskattsleiðin.
Innlendum framleiðendum einnig kleift að sleppa við þá flækju sem útreikningum og skýrsluskilum fylgja, og kaupa einfaldlega aðföng til framleiðslunnar, þ.e. sykur eða sætuefni með vörugjöldum, sem ekki fæst niðurfellt eða endurgreitt.
Nú kann einhverjum að virðast snúið að ætla að fella niður almenn vörugjöld að ætla þá að undanskilja sykur. Það væri hins vegar ekkert einsdæmi. Það stendur nefnilega til að viðhalda vörugjöldum af ökutækjum, eldsneyti, áfengi og tóbaki svo fátt eitt sé nefnt.
Vörugjöld af sykri eiga fullkomlega rétt á sér sem forvörn og tekjustofn á móti útgjöldum sem hljótast af ofneyslu sykurs.
Neyslustýring með sköttum virkar
Ein athyglisverðasta vísindagrein síðari ára um skattlagningu á innihaldsefni matvæla birtist hjá National Bureau of Economic Research í janúar 2014.
Í rannsókninni var sannað að áhrif skattlagningar á næringarefni matvæla (ekki aðeins á vörurnar sjálfar eða vöruflokkana), með því að framkvæma nákvæma greiningu á innihaldsefnum einstakra tegunda matvara í alls 123 milljón innkaupum hjá bandarískum neytendum. Niðurstaðan er að skattur á innihaldsefni (þ.e. sykurskattur) sé mun áhrifameiri en skattur á vöruflokka (þ.e. vörugjöld eða virðisaukaskattur), án aukins heildarkostnaðar fyrir neytendur.
Hér heima hefur komið fram það rökstudda og skýra viðhorf Landlæknisembættisins, að neyslustýring með skattlagningu sé áhrifarík leið til að takmarka neyslu óhollra vara, bæta heilsu og draga úr útgjöldum, m.a. sköttum eða vörugjöldum á sykraða gosdrykki. Slík verðhækkun getur haft áhrif þar sem þörfin er brýnust, þ.e. hjá börnum og ungmennum og öðrum þeim sem drekka mest af gosdrykkjum.
Óþarft ætti að vera að minna á að neyslustýring á skaðvænlegum neysluvörum hefur verið lengi við lýði hvað varðar áfengi og tóbak, og virkar enn betur ef hún helst í hendur við öflugt fræðslu- og forvarnarstarf.
Staða mála á Norðurlöndum
Í Danmörku hefur skattur á gos, ís, sælgæti og ýmist sætabrauð verið við lýði síðan 1922, og í núverandi formi síðan 1998. Rangt er, sem haldið hefur verið fram af sykuriðnaðinum hér á landi, að fallið hafi verið frá sykurskatti í Danmörku. Hið rétta er, að við fjárlagagerð vegna 2013 var samið um að falla frá eða fresta fyrirhugaðri útvíkkun á sykurskattinum ásamt fyrirhuguðum reglum um skatt á harða fitu sem taka áttu gildi 1. janúar 2013. Dönsku lögin taka eftir sem áður til sykurinnihalds í fjölmörgum vörum, allt frá sælgæti og kexi yfir í kókómjólk og -duft:
Í Noregi hefur verið í gildi skattur á gos og sælgæti síðan 1981, og sérstakur skattur á súkkulaði og sykurvörur síðan 1922.
Í Noregi hefur verið í gildi skattur á gos og sælgæti síðan 1981, og sérstakur skattur á súkkulaði og sykurvörur síðan 1922. Með sameinaðri reglugerð árið 2001 var m.a. skattur á gosdrykki sem innihalda viðbættan sykur færður á einn stað, og nemur fjárhæð hans nú um ISK 70 pr lítra. Frá 1. janúar 2013 hækkaði skattur á sykraða drykki, svo hálfs lítra flaska hækkaði um sem nemur ISK 20. Í dag er gjaldtakan í Noregi bæði beint á sykurinn sjálfan og á pr. kíló sykraðrar vöru:
Í Finnlandi er þegar við lýði skattur á sykraða drykki, ís og sælgæti, en unnið er við að skoða hvers konar gjöld séu best til þess fallin að stýra neyslu á sykruðum vörum almennt.
Í Svíþjóð var síðast lögð fram þingsályktunartillaga í október 2012 um álagningu sykurskatts, en málið er ekki komið lengra á sænska þinginu.
Sakir samfélagslegs kostnaðar og heilsufaráhrifa offitu og sjúkdóma sem tengjast mataræði er ofneysla sykurs ekki alfarið einkamál hvers og eins meðan samfélagið ber kostnaðinn. Líkt og vegna ofneyslu áfengis og tóbaksneyslu er gjaldtaka réttlætanleg og nauðsynleg.