Tap af reglulegri starfsemi fjölmiðlafyrirtækisins Torgs var 325,7 milljónir króna í fyrra, samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins. Heildartapið var 252,5 milljónir króna en þar munar mestu um að tekjuskattsinneign vegna taps ársins var bókfærð sem tekjur upp á 73 milljónir króna. Uppsafnað skattalegt tap nýtist ekki nema að fyrirtæki skila hagnaði.
Þessi niðurstaða er dekkri en sú mynd sem dregin var upp af rekstri Torgs í frétt í Fréttablaðinu í mars síðastliðnum, þar sem tap fyrirtækisins var sagt 240 milljónir króna.
Tekjur Torgs, sem gefur út Fréttablaðið, sem og vefmiðlana dv.is, eyjan.is, pressan.is, 433.is, hringbraut.is og frettabladid.is og rekur sjónvarpsstöðina Hringbraut, jukust um 380 milljónir króna og voru um 2,4 milljarðar króna.
Á árunum 2019 og 2020 var milljarðs króna tap af reglulegri starfsemi fyrirtækisins. Samanlagt hefur því verið rúmlega 1,3 milljarða króna tap af henni á þremur árum. Heildartap, þegar búið er að taka tillit til þeirrar tekjuskattsinneignar sem skapaðist vegna tapsins á þessum árum, var tæplega 1,1 milljarður króna.
Ábending gerð um mat á viðskiptavild
Miklar breytingar urðu á virði eigna Torgs á síðasta ári. Þær voru tæplega 1,3 milljarðar króna um síðustu áramót en höfðu verið um 1,8 milljarðar króna í árslok 2020. Þar munar langmest um að áðurnefnd tekjuskattsinneign var tekjufærð og að viðskiptavild samsteypunnar lækkaði um 545,6 milljónir króna í fyrra, í 398,2 milljónir króna.
Í skýringum með ársreikningnum kemur fram að viðskiptavild upp á 480 milljónir króna hafi verið seld á árinu. Ekki er frekar greint frá því hvað fólst í þeirri framkvæmd.
Skuldir Torgs drógust líka umtalsvert saman á síðasta ári, úr 1,5 milljarði króna í 913 milljónir króna. Þar munar mestu um að skuld við tengdan aðila, eigenda fyrirtækisins, voru lækkaðar úr 440 milljónum króna í 106 milljónir króna.
Helgi Magnússon á nánast allt fyrirtækið
Torg er í eigu tveggja félaga, Hofgarða ehf. og HFB-77 ehf. Eigandi fyrrnefnda félagsins er fjárfestirinn Helgi Magnússon og hann á 82 prósent í því síðarnefnda. Helgi er auk þess stjórnarformaður Torgs. Aðrir eigendur þess eru Sigurður Arngrímsson, fyrrverandi aðaleigandi Hringbrautar og viðskiptafélagi Helga til margra ára, Jón G. Þórisson, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins, og Guðmundur Örn Jóhannsson, fyrrverandi sjónvarpsstjóri Hringbrautar og nú framkvæmdastjóri sölu, markaðsmála og dagskrárgerðar hjá Torgi. Hlutur annarra en Helga er hverfandi.
Hópurinn keypti Torg í tveimur skrefum á árinu 2019. Kaupverðið var trúnaðarmál en í ársreikningi HFB-77 ehf. fyrir árið 2019 má sjá að það félag keypti hlutabréf fyrir 592,5 milljónir króna á því ári. Torg var og er eina þekkta eign félagsins.
Hlutafé í Torgi var svo aukið um 600 milljónir króna í lok árs 2020 og aftur um 300 milljónir króna um síðustu áramót. Með nýju hlutafjáraukningunni er ljóst að settir hafa verið 1,5 milljarðar króna í kaup á Torgi og hlutafjáraukningar frá því að Helgi og samstarfsmenn hans komu að rekstrinum fyrir tæplega þremur árum síðan.
Opnað á að hætta prentum á Fréttablaðinu
Flaggskipið í útgáfu Torgs er Fréttablaðið. Útgáfudögum þess var fækkað úr sex í fimm á viku á árinu 2020 þegar hætt var með mánudagsútgáfu blaðsins. Auk þess hefur dreifing fríblaðsins dregist saman úr 80 í 75 þúsund eintök á dag.
Lestur Fréttablaðsins mældist 30 prósent í febrúar 2022. Hann hefur dalað jafnt og þétt undanfarin ár en í apríl 2007 var hann 65,2 prósent og hélst yfir 50 prósent þangað til í desember 2015. Síðsumars 2018 fór lesturinn svo undir 40 prósent í fyrsta sinn og í janúar 2022 fór hann í fyrsta sinn undir 30 prósent. Hann mælist nú 27 prósent.
Í aldurshópnum 18 til 49 ára mælist lesturinn nú 18,1 prósent og er nú tæplega þriðjungur þess sem hann var fyrir tólf árum. Aldrei hafa færri undir fimmtugu lesið Fréttablaðið.
Jón Þórisson, forstjóri Torgs, sagði í viðtali við Fréttablaðið í byrjun síðasta mánaðar að fyrirtækið þyrfti að „horfast í augu við það að á einhverjum tímapunkti í framtíðinni mun Fréttablaðið, sem ber ægishjálm yfir aðra miðla hér á landi hvað varðar útbreiðslu og lestur, hætta að koma út á prenti.“