Tár, bros og leitin að grænu hjörtunum
Litla gula hænan, pólitískur býttileikur, refskák og hrossakaup. Málamiðlanir og ómögulegir draumar. Auðmenn og stjórnmálaflokkar sem hafa „skrælnað“ að innan. Allt kom þetta við sögu í umræðum um rammaáætlun á Alþingi þar sem tekist var á um vernd og nýtingu náttúrunnar. Þrír þingmenn komust við og einn þeirra spurði Vinstri græn: „Hvar er græna hjartað?“
Ég held að engan hafi dreymt um það að það væri almenn sátt um alla hluti þegar að þessu kemur.“
Þetta sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, í umræðu um rammaáætlun á Alþingi í gærkvöldi. Þá hafði hver stjórnarandstöðu þingmaðurinn, sem og einn stjórnarliði, á fætur öðrum staðið í ræðustól og gagnrýnt að til stæði að færa virkjanakosti úr verndarflokki áætlunar. Fámennt var á bekk ráðherranna í umræðunni. Þar var forsætisráðherra til dæmis ekki sjáanlegur.
„Það er algjörlega útilokað,“ sagði umhverfisráðherrann, „að við náum þeim háleitu markmiðum sem við höfum sett okkur, þegar við tökum út bensín og dísil, án þess að koma með græna orku í staðinn. Algjörlega ómögulegt. Og ég veit ekki til þess að neinum detti það í hug.“
Hann benti á að ekki stæði til að færa neina virkjunarkosti úr verndarflokki í nýtingarflokk – aðeins í biðflokk og sagði það „ómaklegt“ og „ósanngjarnt“ að væna meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar, sem lagt hefur til breytingarnar á rammaáætlun, að hafa ekki rökstutt þær vel.
Ráðherrann var nokkuð brúnaþungur er hann steig í ræðustól á sjöunda tímanum í gærkvöldi eftir að hafa hlustað á gagnrýnina. Bað hann þingmenn Pírata og Samfylkingar um að líta sér nær – til sinna heimahaga í Reykjavík. Í borginni sem þessir flokkar færu með stjórn á stæði til að raska ósnortinni strandlengju í Skerjafirði sem væri „umhverfisslys í uppsiglingu“.
Það var hins vegar allt annar fjörður sem var Bjarna Jónssyni, þingmanni Vinstri grænna, ofar í huga: Skagafjörður. Þar sat hann í sveitarstjórn í tvo áratugi og var farinn að sjá hylla undir sátt um að vernda Héraðsvötnin og jökulsárnar eftir þrotlausa baráttu. „Að þær fengju runnið frjálsar til sjávar um ókomna tíð,“ sagði hann um það leyti sem Guðlaugur Þór stóð upp úr sæti sínu og gekk úr þingsal. Það fór ekki framhjá Bjarna. „Og ég hefði alveg kosið að hæstvirtur umhverfisráðherra með meiru sæti hér undir ræðu minni.“
Guðlaugur kom aftur til sætis skömmu síðar er Bjarni var að rifja upp að VG hefði unnið sinn fyrsta kosningasigur í Skagafirði árið 2002, ekki síst vegna loforða um verndun jökulsánna. Fyrir nokkrum mánuðum hafi hann sent inn umsögn við þingsályktunartillögu að rammaáætlun og fagnað því að setja ætti árnar í Skagafirði í verndarflokk. „Hér stend ég nú, á Alþingi sjálfu, með tillögu meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar í höndunum, sem leggur til að færa Héraðsvötnin, jökulsárnar, úr verndarflokki í biðflokk og í óvissuna.“
Að slíku nefndaráliti gæti hann ekki staðið. „Ég verð,“ sagði hann með áherslu, „að standa áfram með fólkinu mínu sem hefur háð ...“
Bjarni kláraði ekki setninguna. Hann var við það að bresta í grát. Kyngdi stórum kökk áður en hann hélt áfram: „Fólkinu sem hefur háð með mér baráttuna fyrir verndun jökulsánna í Skagafirði.“
Enn barðist hann við grátinn en lét ekki deigan síga. Hélt ótrauður áfram. Sagðist þurfa að standa með öllu því fólki sem treysti á sig og aðra þingmenn, „fólkinu sem stendur með náttúrunni sjálfri.“
Hann lauk ræðu sinni af krafti.
„Heyr, heyr!“ mátti heyra frá öðrum þingmönnum í salnum.
Bjarni var ekki eini þingmaðurinn sem komst við í umræðunum í gærkvöldi. Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi umhverfisráðherra, gerði það einnig. Og sömuleiðis Rósa Björk Brynjólfsdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar. Hún líkt og Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, létu bæði til sín taka og gagnrýndu málsmeðferðina. Þau eiga það auk þess sameiginlegt að hafa skilið við sinn gamla flokk, Vinstri græna, á síðasta kjörtímabili.
„Hvar eruð þið?“ spurði Rósa Björk fyrrverandi flokksfélaga sína. „Hvar er græna hjartað í hreyfingunni sem stofnuð var í kringum náttúru- og umhverfisvernd?“
Bjarni var eini þingmaður stjórnarflokkanna sem andmælti breytingartillögunum. Hann er fulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd en skrifaði ekki undir meirihlutaálitið. Það gerði hins vegar félagi hans úr VG, þingmaðurinn Orri Páll Jóhannsson, sem Bjarni hrósaði fyrir að hafa átt stóran þátt í að koma inn í álitið nokkrum jákvæðum breytingum fyrir náttúruna.
Orri Páll sagðist enda telja sig náttúruverndarsinna. Benti svo á að tafir á afgreiðslu þriðja áfanga rammaáætlunar, sem fyrst var lagður fram í þingsályktunartillögu haustið 2016, hafi skaðað umræðuna. Steininn hafi tekið úr í vetur þegar umræða um raforku gekk „fjöllum hærra“ og ekki alltaf byggð á „skýrum – skulum við segja – rökum“.
Ísland framleiðir einna mest af raforku í heiminum miðað við mannfjölda, benti hann á. „Það er ekki þar með sagt að við mætum orkuskiptunum, sem er nauðsynlegt að mæta, einvörðungu með því að brjóta nýtt land.“
„Ákveðnir aðilar“ hefðu talað mjög stíft fyrir því að frekari orkuvinnsla væri eina leiðin, og „allskyns – leyfi ég mér að segja, virðulegi forseti – útópískar hugmyndir um það að hér verði engin framtíð nema að við öflum orku með stórvirkum vinnuvélum. Ég sjálfur hafna þessu – hafna þessari nálgun.“
Þingmaðurinn, sem var aðstoðarmaður umhverfisráðherrans Guðmundar Inga Guðbrandssonar á síðasta kjörtímabili, sagði tillögur meirihlutans að tilfærslum kosta úr verndarflokki í biðflokk ekki fela í sér „nein skilaboð“ um að þeir eigi svo að fara í nýtingarflokk. „Ég minni á að náttúruverðmætin eru ekki farin. Þau eru þarna og hafa ef til vill aukist í einhverjum tilfellum.“ Slíkt muni koma í ljós við mat nýrra faghópa og verkefnisstjórnar fimmta áfanga rammaáætlunar.
Gagnrýni þingmanna minnihlutans sem stigu í pontu á Alþingi í gær snýr m.a. líkt og hjá Bjarna að því að færa eigi virkjunarkosti í Skagafirði sem og Kjalölduveitu í efri hluta Þjórsár úr verndarflokki. Þeir sögðust hins vegar styðja að Skrokkölduvirkjun sem áformuð er í nágrenni Vatnajökulsþjóðgarðs færist úr nýtingarflokki. Sögðust einnig samþykkir því að færa tvær virkjanir í neðri hluta Þjórsár úr þeim flokki en þóttu rökin sem beitt væri til að skilja þriðju virkjunina á svipuðum slóðum, Hvammsvirkjun, eftir í nýtingarflokki, hæpna.
Andrés Ingi lagði því fram breytingatillögu um að Hvammsvirkjun færi sömu leið og systur hennar neðar í Þjórsá – í biðflokk. Að færa hana ekki með hinum tveimur gerði „að engu“ orð meirihlutans um að skoða virkjanakostina þrjá sem heild. „Ef meirihlutinn vill að [virkjanirnar] verði skoðaðar sem í heild, þá þurfa þær bara allar að fara í bið.“
Andrés lagði einnig fram tillögu um að setja Hvalárvirkjun á Ströndum, sem verið hefur í nýtingarflokki frá árinu 2013, í biðflokk. Það ætti að gera með sömu rökum og taka á Skrokköldu úr nýtingarflokknum, sagði Rósa Björk enda hnígi allar seinni tíma rannsóknir að því að hún myndi skerða stóran hluta víðerna Drangajökulssvæðisins og sé „algjörlega óásættanleg“ fyrir náttúruvernd dagsins í dag. „Meirihlutinn handvelur rök, sem eiga að styðja breytingar á hverjum virkjunarkosti fyrir sig, en afneitar því miður vísvitandi, greinilega, öllum vísindalegum og faglegum gögnum sem mæla fyrir verndarflokkun umræddra kosta,“ sagði hún.
Þeir kostir sem færa eigi úr verndarflokki tillögunnar séu í jaðri mikilvægra víðerna á hálendinu. „Og jökulárnar í Skagafirði með sína einstöku náttúru eru aftur undir. Og fossar Skjálfandafljóts fá ekki þann frið sem þeir eiga sannarlega skilið. Áratugalöng barátta náttúruunnenda fyrir varanlegri sátt um vernd hinna helgu Þjórsárvera og farvegar Þjórsár er að engu gerð hér.“
Samþykki Alþingi breytingartillögu meirihluta nefndarinnar verði „sú faglega sátt sem rammaáætlun er ætlað að skapa endanlega rofin“. Undanfarið hafi verið hlustað á vísindafólk, sagði Rósa, „og er ekki bara best að gera það áfram?“
Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, sagði það ekki gagnrýnisvert, eitt og sér, að gera breytingar á tillögum. En tók undir með Rósu Björk um að þær yrðu þá að vera ítarlega rökstuddar sem tillögur meirihlutans væru ekki. Gera yrði kröfu um að breytingar séu „í þágu heildarhagsmuna en ekki sérhagsmuna.“ Niðurstaða meirihlutans væri „dapurlegur lokahnykkur“ á umfjöllun umhverfis- og samgöngunefndar.
„Já, herra forseti, hvar skal byrja?“ sagði Andrés Ingi, þingmaður Pírata, á meðan hann raðaði minnispunktum sínum og útprentuðum breytingartillögum sínum á ræðupúltið fyrir framan sig. „Kannski er best að byrja á að segja hversu leiðinlegt er að sjá farið svona illa með þetta verkfæri sem rammaáætlun er. Verkfæri sem er ætlað að ná ... tja ... það er kannski erfitt að segja sátt, en að búa til einhvers konar leið til að koma saman ólíkum sjónarmiðum varðandi nýtingu landsvæða.“
Hann gerði örstutt hlé á máli sínu er félagi hans í Pírötum, þingmaðurinn Gísli Rafn Ólafsson, kom að ræðustólnum og færði honum barmmerki. „Og núna eru náttúruverndarsamtök mætt fyrir utan Alþingi til að mótmæla vegna þess að það er verið að tæta þetta verkfæri í sundur á lokametrunum,“ sagði Andrés á meðan hann nældi merkið í jakkann sinn.
„Hérna sýnist mér ég vera búinn að fá fossinn Dynk,“ sagði hann svo og virti myndina á merkinu fyrir sér. Foss sem meirihlutinn leggi til að taka úr verndarflokki. Ekki fossinn sjálfan, bætti hann þó við, heldur Kjalölduveitu, sem Landsvirkjun leggi ríka áherslu á. Og Kjalölduveita „mun þurrka Dynk upp“.
Landsvirkjun eða Landvernd?
Er Andrés sagði þetta var hvíslað utan úr sal að hann hefði ekki farið rétt með fyrrverandi starfsvettvang Guðmundar Inga, núverandi vinnumálaráðherra en áður umhverfisráðherra. „Ahhh, já, hann var framkvæmdastjóri Landverndar,“ leiðrétti Andrés og hallaði sér fram á púltið, brosti og roðnaði eilítið. Björn Leví, sem sat í stól forseta Alþingis, og hafði verið svipbrigðalaus undir ræðunni, gat ekki heldur varist brosi. „Næsti bær,“ hélt Andrés áfram. „Það má vart á milli sjá þessa dagana.“
Hann segir það ekki koma á óvart hver niðurstaðan í umhverfis- og samgöngunefnd hefði verið. Ýmislegt var vel gert í nefndarstarfinu en hins vegar hafi eitt lykilatriði aldrei fengist inn í umræðuna. Hvernig ætti að uppfylla þær óskir ríkisstjórnarinnar, fyrst og fremst „virkjanaflokkanna“ Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, að stækka biðflokkinn. Af því hefði verið spurt en engin svör fengist. „Þetta var eins og að lesa Litlu, gulu hænuna – allir sem við spurðum sögðu ekki ég, ekki ég.“
En svörin fengust loks á lokametrum nefndarstarfsins. „Fyrir viku fengum við fyrst að vita hver hefði orðið málamiðlun stjórnarflokkanna.“ Að færa þrjár virkjanir úr nýtingarflokki í biðflokk en fimm úr vernd í bið.
Andrési finnst eðlilegt að málamiðlanir séu gerðar milli ólíkra hagsmuna en það verði að gera á faglegum grunni. „Málamiðlun stjórnarflokkanna er ekkert slíkt. Heldur bara pólitísk refskák þeirra á milli.“
Þetta hafi nefndin fengið í fangið þegar verið var að ganga frá þinglokasamningum, „þegar málahaugurinn er svo stór að allt fellur í skuggann. Þetta er auðvitað engin tilviljun,“ sagði hann með áherslu, „heldur meðvituð taktík stjórnarflokka til að forðast umræðu um óverjandi ákvörðun.“
Varúðarregla fyrir virkjanasinna
Hvað einkennir allar þessar breytingar? spurði hann. „Það sem einkennir þær er að það er hlustað á virkjunarsinna.“ Varúðarreglunni sé beitt „hægri vinstri“ í tillögum meirihlutans en „ekki í þágu náttúrunnar eins og á að gera“.
Andrés sagði heitar umræður skapast í kringum rammaáætlun vegna þess að hún væri, þótt hún ætti ekkert að vera það, „síðasta vígið“. Umhverfismat setti enga bremsu á framkvæmdir – jafnvel þótt það væri mjög neikvætt, líkt og raunin er í tilfelli Hvalárvirkjunar sem dæmi.
Þórunn Sveinbjarnardóttir sagðist viðurkenna að hún yrði döpur þegar „rótað“ væri í sömu málunum, sömu virkjununum, aftur og aftur. Haldið áfram að ýta og ýta. „Þrýstihóparnir, auðmennirnir, hafa komist í tillöguna og þess vegna er verið að færa til dæmis Héraðsvötnin.“
Hún bað Andrés að útskýra hvað væri eiginlega að gerast með hans gamla flokk, Vinstri græn. Andrés sagði að þegar flokkur sem gaf sig eitt sinn út fyrir að vera „besti náttúruverndarflokkur í heimi“ væri kominn í lið með öflugum hagsmunaöflum þá hefði baráttufólk, sem sumt hvert hefði barist við „ofureflið Landsvirkjun“ í áratugi misst mikilvægt bakland.
„En hvað gerist?“ spurði hann. „Flokkar skrælna stundum. Skrælna að utan og innan.“ Það muni sjást í atkvæðagreiðslunni um þetta mál hvað þingmönnum flokksins raunverulega finnst.
Guðlaugur Þór, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, sagði alltaf hafa legið fyrir að það væri alþingismanna að lokum að taka ákvörðun um rammaáætlun. Afgreiðsla hennar hefði dregist og mikilvægt væri að ljúka henni. En engin mannanna verk væru fullkomin, „ekki einu sinni þingmál eða niðurstöður háttvirtrar nefndar“.
Þórunn biðlaði til þingmanna allra flokka að styðja ekki breytingatillögu meirihlutans, svo að þau „hrikalegu mistök“ yrðu ekki gerð að virkjanakostir í Skagafirði og í jaðri Þjórsárvera færu úr verndarflokki. Hún klökknaði er hún þakkaði náttúruverndarfólki fyrir sína baráttu.
Andrés hvatti sömuleiðis þingmenn til að verja verndarflokkinn fyrir „pólitískum árásum“ stjórnarflokkanna. Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, sagðist hafa margar efasemdir um breytingartillögur meirihlutans og að hann gæti ekki stutt þær þótt flokksfélagi hans, Jakob Frímann Magnússon, áheyrnarfulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd, hafi skrifað undir meirihlutaálitið.
„Það hefur legið alveg fyrir,“ sagði Guðlaugur Þór, „hefur alltaf legið fyrir og mun alltaf liggja fyrir, að það eru fáir tveir Íslendingar sem eru algjörlega sammála í þessum málum.“
Atkvæðagreiðsla um rammaáætlun fer samkvæmt dagskrá fram á Alþingi í dag. Þar verða einnig greidd atkvæði um allar þær breytingatillögur sem minnihlutinn hefur lagt fram.