Árið 1995 voru tæp 70 prósent Svía andvíg því að leggja niður konungsveldið en árið 2012 var hlutfallið komið niður fyrir 60 prósent. Stuðningur við kónginn hefur hrapað í kjölfar hneykslismála og nýjar upplýsingar um tengsl fjölskyldunnar við nasista hafa svo sannarlega ekki hjálpað. Viktoría krónprinsessa nýtur enn mikils stuðnings en yngri systkyni hennar hafa hins vegar mátt þola mikla gagnrýni fyrir hegðun og ekki hvað síst makaval. Enginn býst við því að konungsveldið verði lagt niður á næstunni en það styttist í að framtíð þess verði rædd alvarlega á pólitískum vettvangi.
Í frétt Aftonbladet frá því síðasta haust kemur fram að hjá þingmönnum undir fertugu vilja 39 prósent leggja konungsveldið niður en hlutfallið er 29 prósent hjá þeim sem eru eldri en fertugir. Einn þingmanna Vinstri flokksins orðaði það svo að æðsti stjórnandi landsins ætti að vera valinn í kosningum en ekki með kynlífi. Mestur stuðningur við lýðveldi er hjá Vinstri flokknum og Umhverfisflokknum en hægra megin er það hinn frjálslyndi Þjóðarflokkur sem helst er fylgjandi hugmyndinni. Það merkilega við þessar tölur er að síðustu ár hefur stuðningurinn minnkað jafnt og þétt hjá þingmönnum og þjóðinni allri. Sú kynslóð sem nú vex úr grasi er því líklegri til að líta á konungsfjölskylduna sem undarlega tímaskekkju sem á ekkert erindi í lýðræðisþjóðfélögum 21. aldar.
Viktoría krónprinsessa ásamt foreldrum sínum.
Sænska konungsfjölskyldan á að vera sameiningartákn þjóðarinnar og þannig hafin yfir dægurþras stjórnmálanna. Mörgum þykir fjölskyldan þó hafa gengið heldur langt því það þykir sæta tíðindum ef þau gera meira en að brosa og bjóða góðan daginn. Í síðustu viku gagnrýndi einn af yfirmönnum sænka útvarpsins Madeleine prinsessu harðlega fyrir að mæta aldrei í viðtal. Leif Eriksson stýrir svæðisútvarpi SR í Gävleborg en Madeleine er hertogaynja héraðsins. Í harðorðu bréfi til hirðarinnar segir hann að stöðin eigi ekki eina sekúndu af efni með prinsessunni og að fréttamenn teljist heppnir ef þeir geti kallað til hennar spurningar þar sem hún gengur brosandi framhjá þeim. Það hljóti að teljast undarlegt að á sama tíma og konungsfjölskyldan reyni að verða nútímalegri forðist hún fjölmiðla eins og heitan eldinn. Orðrétt segir hann, „að veifa og brosa dugir ekki og að líta svo á að þau séu hafin yfir lýðræðið og opinbera umræðu er óskiljanlegt og gamaldags.“
Lesblindan hefur áhrif
Ekki verður litið framhjá þeirri staðreynd að margir í konungsfjölskyldunni þjást af bæði les- og skrifblindu sem svo sannarlega hjálpar ekki til í daglegum störfum. Konungurinn, sem á sænsku er skrifað Kungen, er oft kallaður Knugen með tilvísun í lesblinduna og bæði Viktoría og Karl Philipp hafa lýst því í viðtölum hversu erfitt það var að dragast aftur úr í skóla. Árið 2013 afhenti prinsinn verðlaun fyrir íþróttamann ársins í Svíþjóð þar sem hann ruglaðist á tölum þegar hann las upp úrslitin. Tæp 391 þúsund atkvæði urðu að 3995 atkvæðum og lengi á eftir var gert grín að honum fyrir ræðuna. Ári síðar snéri hann hins vegar aftur og hélt frábæra ræðu þar sem hann sagðist þekkja hvernig það væri að mistakast, halda áfram og gera betur næst þegar tækifæri gæfist. Prinsinn hafði verið í strangri þjálfun og í raun má segja að árið hjá honum hafi minnt á söguþráðinn í kvikmyndinni The Kings’ Speech.
Klámklúbbar og nasismi
Árið 2010 kom út bók um Karl Gústaf konung þar sem birtar voru frásagnir af ferðum hans í vændishús og strípiklúbba og framhjáhaldi með þekktri söngkonu. Þessum sögum var mómælt harðlega af hirðinni en ljóst er að orðspor hans hefur beðið hnekki. Í könnunum segir um helmingur þjóðarinnar að hann eigi að segja af sér og afhenda Viktoríu krúnuna. Hún yrði þar með fyrsta konan til að gegna þjóðhöfðingjaembættinu í Svíþjóð frá árinu 1720.
Karl Gústaf Svíakonungur er umdeildur, enda þykir hann mjög breyskur maður svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Annað sem hefur skaðað konungsfjölskylduna eru upplýsingar um tengsl hennar við nasisma. Faðir Silviu drottningar var meðlimur í nasistaflokknum og á stríðsárunum rak hann stálverksmiðju í Þýskalandi sem hafði verið stolið frá gyðingum. Hirðin hefur gert lítið úr þessum tengslum hans og sagt að bæði hafi hann ekki stutt nasista og auk þess hjálpað gyðingum að flýja frá Þýskalandi. Illa gengur þó að sanna þessar staðhæfingar fjölskyldunnar.
Eitt af því sem einkennir sænsku hirðina er hversu illa hún bregst við allri gagnrýni. Líklega spilar þar inn í að kastljós fjölmiðlanna er skærara en nokkru sinni fyrr og athyglin þess vegna meiri.
Nýlega hafa sagnfræðingar og blaðamenn svo reynt að varpa ljósi á afstöðu sænsku hirðarinnar til nasista í Seinni heimstyrjöldinni. Konungurinn Gústaf V á til dæmis að hafa skrifað bréf til Hitlers árið 1941 og þakkað honum fyrir að ráðast gegn bolsévisku pestinni. Bréfið var víst stoppað af sænsku ríkisstjórninni en öll þessi saga er hulin leyndarhjúpi. Þá er enn deilt um tengsl föður núverandi konungs við nasistaflokkinn en hann lést í flugslysi árið 1947. Þó er hægt að fullyrða að sterk tengsl voru á milli aðalsins í Svíþjóð og í Þýskalandi enda langvarandi söguleg tengsl sem náðu aftur til Hansakaupmanna og viðskipta á miðöldum.
Geta afsalað sér titlinum ef þau vilja
Eitt af því sem einkennir sænsku hirðina er hversu illa hún bregst við allri gagnrýni. Líklega spilar þar inn í að kastljós fjölmiðlanna er skærara en nokkru sinni fyrr og athyglin þess vegna meiri. Hvert einasta smáatriði er skoðað og greint og skiptir þá engu hvort konungsfjölskyldan er í opinberum erindagjörðum eða ekki. Madeleine prinsessa flúði til dæmis frá Svíþjóð og hefur búið í New York undanfarin ár þótt hún segist ætla að flytja til baka fljótlega. Hún þolir sviðsljósið illa, en hefur hins vegar nýtt sér konungstignina til hins ítrasta á erlendri grundu með þátttöku í skemmtanalífi ríka og fræga fólksins. Einn dálkahöfunda Aftonbladet benti réttilega á í vikunni að fólk þurfi ekki að vera prins eða prinsessa ef það vilji það ekki. Finnist Madeleine svona erfitt að uppfylla opinberar skyldur eigi hún einfaldlega að afsala sér titlinum. Það hafi verið gert áður og í raun ekkert því til fyrirstöðu sjái fólk ekki fram á að geta sinnt hlutverkinu.
Madelaine prinsessa ásamt eiginmanni sínum og dóttur.
Sænskir konungar af Bernadotte ættinni hafa setið langt fram á æviár og því væri Karl Gústaf konungur að brjóta hefð ef hann segði af sér á næstunni. Það gæti hins vegar verið eina leiðin til að bjarga konungsveldinu sem á svo sannarlega undir högg að sækja. Haldi sama þróun áfram mun stuðningur við hana minnka jafnt og þétt og þá er þess ekki lengi að bíða að kynlíf fjölskyldunnar verði aðeins til skemmtunar, en ekki til að skapa þjóðhöfðingja.