Ég hef það ágætt,“ segir örlítið hikandi Anatolii Shara, úkraínskur blaðamaður og hugbúnaðarverkfræðingur, sem búsettur er í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu.
Níu dagar eru síðan Vladimír Pútín Rússlandsforseti fyrirskipaði innrás í Úkraínu. Rússar hafa tekið yfir héruð í norður-, austur- og suðurhluta landsins sem eiga landamæri að Rússlandi og Hvíta-Rússlandi, eða sem liggja að Krímskaga. Þá hafa fregnir borist af því síðustu daga að hersveitir Rússa vinni hörðum höndum að því að umkringja Kænugarð.
Skelfing og ofsahræðsla hefur gripið um sig í borginni síðustu daga að sögn Anatolii, sem hefur séð fólk þeysast um götur borgarinnar í geðshræringu. „Við heyrum nær stöðugar sprengingar og himininn lýsist upp í sprengjuhafinu. Það eru einnig sprengingar á götum úti og eyðileggingin er gríðarleg,“ segir Anatolii í samtali við Kjarnann.
Anatolii vaknaði við fyrstu sprengingarnar aðfaranótt fimmtudags þegar innrás Rússa hófst. „Fólk átti erfitt með að trúa því sem var að gerast en fyrstu viðbrögð margra voru að flýja og straumurinn varð mjög fljótt í vestur.“
En Anatolii hyggst vera um kyrrt í borginni. Hann er hugbúnaðarverkfræðingur að mennt og starfar sem slíkur í dag en er einnig reynslumikill blaðamaður og starfaði meðal annars sem herblaðamaður á árunum 2014-2016 þegar fjandskapur Rússa og Úkraínumanna jókst með innlimun Krímskaga.
Í viðbragðsstöðu í herbúningi með „kalashnikov“
Anatolii nýtti sér tengslin við herinn eftir að innrásin hófst í síðustu viku og hikaði ekki við að ganga til liðs við varnarsveit í borginni og fékk úthlutað herbúning og „Kalashnikov,“ það er AK-47 riffli. „Þetta er mjög meðvituð ákvörðun. Margir vina minna hafa flúið til vesturs en einhver verður að vera eftir og verja landið. Það eru margir í Kænugarði og öðrum borgum og bæjum sem eru uppfullir af baráttuvilja. Ég er fullviss um að við munum standast þetta stríð,“ segir Anatolii.
Þó að hann hafi starfað sem blaðamaður en ekki óbreyttur hermaður í hernum hefur hann sinnt ákveðinni herþjálfun og er hann þakklátur fyrir þá þjálfun nú og telur að hún muni koma að gagni. „Ég mun berjast við Rússana með öllum mögulegum leiðum. Þeir komu hingað til að drepa mig, ég verð að bregðast við með sama hætti.“
Anatolii er einn í íbúð sinni í Kænugarði en eiginkona hans fór ásamt foreldrum, sem eru á níræðisaldri, og tveimur hundum fjölskyldunnar í sumarhús sem er í um 30 kílómetra fjarlægð frá borginni. Anatolii reynir eins og hann getur að vera í stöðugu sambandi við fjölskylduna. Hann segist einnig ekki geta hætt að hugsa um hundana, tvo enska bolabíta, að tilhugsunin um að yfirgefa þá sé óhugsandi.
„Þau eru stressuð og hrædd við sprengingarnar og loftárásirnar. Rússarnir gera hvað sem þeir geta til að ógna og hræða fólk með þessum hætti, sálfræðilegum hernaði. Skilaboðin eru að við verðum að flýja, annars verðum við drepin,“ segir Anatolii
En hann ætlar að vera um kyrrt í Kænugarði. „Þetta er borgin mín, ég mun ekki leyfa Rússum að yfirtaka hana.“
Anatolii segir að þeir íbúar sem eru eftir í Kænugarði séu að venjast stöðunni smám saman, eins einkennilegt og það kunni að hljóma að loftárásir og sprengingar séu eitthvað sem geti vanist. „Lífið í Kænugarði er í raun bærilegt eins og er. En við verðum að fara gætilega. Við höfum ennþá mat og internet, en það gæti breyst. Rússum hefur ekki tekist að komast til Kænugarðs, þeir eru að reyna að brjóta niður baráttuvilja okkar en það mun ekki takast.“
Studdi ekki Zelenskí í fyrstu en hyllir hann nú sem hetju
Framganga Volodomírs Zelenskí, forseta Úkraínu, hefur vakið athygli eftir að innrásin hófst. Hann hefur sýnt óbilandi föðurlandsást og ætlar að vera um kyrrt, rétt eins og Anatolii, sem var þó ekki par hrifinn af Zelenskí þegar hann sóttist eftir forsetaembætti fyrir þremur árum og kaus hann ekki. „En í dag er hann hetjan mín,“ segir Anatolii, og segir hann stuðning úkraínsku þjóðarinnar við forsetann yfirgnæfandi. „Við trúum því að hann muni leiða okkur í gegnum þetta stríð.“
Að mati Anatolii sést mismunandi sýn ríkjann á stríðið einna helst í afstöðu þjóðarleiðtoganna gagnvart þjóð sinni og nefnir í því samhengi sinnuleysi rússneskra stjórnvalda í garð eigin hermanna. „Rússneskir hermenn sem hafa látið lífið í átökunum liggja bara á götunum. Það er enginn sem fjarlægir líkin. Það er enginn sem hugsar um særða hermenn.“
Anatolii er sannfærður um að Úkraína muni hafa betur gegn Pútín og hersveitum hans. „Með hverjum deginum sem líður fer herkænskulegt frumkvæði Pútíns minnkandi, á sama tíma og Úkraína fær aukna hernaðaraðstoð úr vestri og sjálfboðaliða frá öllum heimshornum.“ Anatolii segir baráttuvilja úkraínsku hermannanna mikinn á meðan hann sé vart til staðar hjá rússneska hernum.
„Ég vona því innilega að við stöndumst þetta stríð og að Rússland tapi, þrátt fyrir þann mikla mannafla sem ríkið býr yfir. Pútín mun reyna að kúga úkraínsk stjórnvöld með því að ráðast á borgir og innviði. Það sýnir hversu huglaust Rússland Pútíns er, Rússar eru ekkert nema hrottar.“
Alþjóðasamfélagið sýni stuðning með flugbanni
Aðspurður um viðbrögð alþjóðasamfélagsins við innrásinni segir Anatolii þau hafa verið ágæt en betur megi ef duga skal. Skilaboðin séu í raun einföld: „Við viljum að lofthelginni í Úkraínu verði lokað.“
Það virðist hins vegar ekki ætla að verða niðurstaðan, að minnsta kosti ekki enn um sinn. Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins ákváðu á neyðarfundi í gær að koma ekki á flugbanni yfir Úkraínu. Ákvörðunin var tekin á þeim forsendum að slíkt myndi auka hættuna á að stríðið breiddist út til fleiri ríkja, nokkuð sem Pútín hefur hótað síðustu daga.
Ákvörðunin lá hins vegar ekki fyrir þegar blaðamaður ræddi við Anatolii. „Við viljum að Evrópa og Bandaríkin geri sitt besta til að loka lofthelginni,“ sagði hann, rétt áður en sambandið rofnaði. Örfáum mínútum síðar bárust blaðamanni skilaboð. „Það var loftárás, þess vegna rofnaði sambandið.“ Ljóst er að ekkert mun aftra Anatolii að halda kyrru fyrir í Kænugarði og er hann tilbúinn að verja borg sína, sama hvenær kallið kemur.