Tillaga var lögð fram í TISA-viðræðulotu sem fram fór í september um að auka samkeppni um heilbrigðisþjónustu á milli landa með því að markaðsvæða þjónustuna. Samkvæmt tillögunni eru miklir ónýttir möguleikar til að alþjóðavæða heilbrigðisþjónustu, aðallega vegna þess að heilbrigðisþjónusta er að mestu fjármögnuð og veitt af ríkjum eða velferðarstofnunum. Það er því nánast ekkert aðdráttarafl fyrir erlenda samkeppnisaðila til að keppa um að veita hana vegna þess hversu lítið markaðsvætt umhverfi hennar er.
Það var samningsnefnd Tyrklands sem lagði fram tillöguna en hún var rædd í áttundu viðræðulotu TISA-viðræðnanna sem fór fram í Genf í september síðastliðnum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum gögnum sem Kjarninn birtir í dag í samstarfi við Associated Whistleblowing Press (AWP) og fjölmiðla víðsvegar um heiminn. Gögnunum var lekið til AWP sem hefur unnið að birtingu þeirra undanfarið. Hægt er að nálgast gögnin í heild sinni hér.
Ísland er eitt þeirra 50 landa sem er aðili að TISA-viðræðunum, sem eiga að auka frelsi í þjónustuviðskiptum milli landa. Mikil leynd hvílir yfir viðræðunum. Náist að klára þær með samningi mun sá samningur gilda að öllu leyti hérlendis.
Segja tillöguna auka ójöfnuð
Samkvæmt tillögunni sem rædd var í september á að auka frelsi sjúklinga til að ferðast til annarra aðildarlanda samningsins til að sækja sér heilbrigðisþjónustu, kjósi þeir svo. Þannig myndist markaður með slíka.
Odile Frank, læknir sem starfar hjá Alþjóðasamtökum starfsfólks í almannaþjónustu (PSI), hefur rýnt í tillöguna og segir að tillagan myndi auka kostnað við veitingu heilbrigðisþjónustu í þróunarlöndum og minnka gæði hennar í þróuðum löndum Evrópu, Norður-Ameríku, Ástralíu og víðar.
PSI segir að tillagan gangi út frá því að heilbrigðisþjónusta sé vara eins og hver önnur sem hægt sé að kaupa og selja á markaði. Samtökin segja að slíkt sjónarmið líti fram hjá almannahag og muni auka ójöfnuð verulega.
Samkvæmt prófessor Jane Kelsey, breskum sérfræðingi í þjónustuviðskiptum, myndi sú lausn sem lögð er til í tillögunni gagnast auðugari einstaklingum og einkafyrirtækjum innan heilbrigðisgeirans. Peningar myndu hins vegar sogast úr heilbrigðiskerfum þjóða, en lág fjárfesting í þeim er einmitt ein þeirra ástæða sem nefnd er sem rök fyrir því að bjóða upp á aukna aflandsþjónustu innan heilbrigðisgeirans. Þannig stækki lausnin eitt þeirra vandamála sem hún á að leysa.
Ísland á meðal þátttakenda
TISA stendur fyrir Trade in Services Agreement. Viðræðurnar hafa staðið yfir frá því á vormánuðum 2013. Alls taka 23 aðilar þátt í þeim (Evrópusambandið, sem kemur fram fyrir sín 28 aðildarlönd, er talið sem einn aðili í viðræðunum), þeirra á meðal er Ísland. Því eru alls 50 lönd þátttakendur í viðræðunum.
Ísland er þáttakandi í viðræðunum. Ábyrgð á þeim heyrir undir utanríkisráðuneytið. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Viðræðurnar eru marghliða og snúast um að auka frelsi í þjónustuviðskiptum milli landa. Yfirlýst markmið þeirra er að fækka hindrunum í vegi fyrirtækja sem starfa á vettvangi þjónustuviðskipta og auka gegnsæi í milliríkjaviðskiptum með þjónustu. Samningsviðræðurnar skipta Ísland miklu máli enda spanna þátttökuríkin helstu markaðssvæði íslenskra fyrirtækja.
Einungis einn almennur alþjóðlegur samningur um þjónustuviðskipti hefur verið gerður í sögunni. Hann gengur undir nafninu GATS og gekk í gildi árið 1996. Síðan hefur ekki náðst að semja um nýja lausn sem tekur tillit til þeirra breytinga sem orðið hafa á heiminum undanfarna tæpa tvo áratugi.
Gríðarleg leynd yfir viðræðunum
Hægt er að lesa þau skjöl í heild sinni hér.
Skjölin eru dagsett 14. apríl 2014 og höfðu aldrei birst opinberlega áður. Í þeim kom fram að vilji væri til þess að vinda ofan af því regluverki sem sett hefur verið á fjármálaþjónustu eftir hrun, liðka fyrir veru lykilstjórnenda og sérfræðinga í fjármálageiranum í öðrum löndum en þeirra eigin umfram aðra og setja upp einhvers konar yfirþjóðlegan dómstól til að taka ákvarðanir um deilumál sem munu spretta upp á milli fjármálafyrirtækja og þjóða í framtíðinni.
Mikil leynd hvílir yfir umræddum skjölum og viðræðunum í heild. Þær þykja gríðarlega viðkvæmar, enda verið að sýsla með grundvallarréttindi á vettvangi sem lýtur í raun engum reglum. Á forsíðu skjalanna sem Wikileaks lét Kjarnann hafa sagði meðal annars að ekki mætti aflétta trúnaði á þeim fyrr en fimm árum eftir að TISA-samkomulagið taki gildi eða fimm árum eftir að viðræðunum ljúki, fari svo að samningar náist ekki. Á skjölunum stendur að þau verði að „vera vistuð í lokaðri eða öruggri byggingu, herbergi eða hirslu“.
Viðræðurnar fara líka fram utan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og lúta því ekki þeim reglum sem gilda um þá stofnun. Ljóst er á skjölunum frá bæði Wikileaks og nú AWP að vilji er til þess að auka frelsi í að selja þjónustu milli landa allverulega.
Ætla að gera endanlega útgáfu TISA opinbera
Íslenska utanríkisráðuneytið deilir ekki mati alþjóðlegra stéttarfélaga á borð við PSI sem telja að TISA-samkomulagið muni auka hagnað alþjóðlegra stórfyrirtækja á kostnað réttinda þeirra og hagsæld þeirra sem verra hafa það. Markmiðið með þátttöku Íslands í TISA-viðræðunum sé að gera íslensk fyrirtæki sem stunda þjónustuviðskipti „betur samkeppnishæf á heimsvísu og draga úr viðskiptahindrunum“. Þetta er meðal þess sem kom fram í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um TISA-viðræðurnar sumarið 2014.
Þar sagði einnig að TISA-samningurinn yrði gerður opinber strax og Ísland hefur undirritað hann og íslensk upplýsingalög gildi um öll gögn sem Ísland leggur fram í samningsviðræðunum. Íslensk stjórnvöld virða hins vegar „þá staðreynd að ólíkar reglur gilda um opinberan aðgang að upplýsingum einstakra þátttökuríkja“.