Hart er tekist á um þessar mundir hversu vel rekstur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) gangi raunverulega. Aðilar sem vilja að framlagt frumvarp um að afnema einokun ríkisins á smásölu áfengis fengu fyrirtækið Clever Data til að vinna skýrslu fyrir sig um reksturinn.
Niðurstöður voru þær að ekki væri eiginlegur hagnaður af starfsemi ÁTVR á föstu verðlagi ársins 2014. Ein helsta ástæða þess sé sú að langtum meiri rekstrarhagnaður væri af sölu tóbaks en sölu áfengis, enda sé tóbakinu einungis dreift í heildsölu á meðan að áfengið er selt í verslunum sem ÁTVR á og rekur út um allt land.
ÁTVR sendi frá sér fréttatilkynningu í gær þar sem fyrirtækið hafnar alfarið niðurstöðum Clever Data. Þar stendur m.a.: "Niðurstöður hennar eru vangaveltur sem eiga sér litla stoð í raunveruleikanum og ÁTVR hafnar þeim alfarið. ÁTVR hefur aldrei verið rekin með tapi frá því að áfengisgjöld og tóbaksgjöld voru aðskilin frá rekstrartekjum verslunarinnar. "
Það er í sjálfu sér rétt. ÁTVR skilar hagnaði. En þegar rýnt er í ársreikning fyrirtækisins virðist vera sem að þorri þess hagnaðar sé tilkomin vegna sölu á tóbaki, ekki áfengi.
Tekjur af tóbaki 9,1 milljarður árið 2013
Tekjur af tóbakssölu á árinu 2013 námu 9,1 milljarði króna, sem eru um þriðjungur allra tekna ÁTVR það árið. Sala tóbaks útheimtir hins vegar mun minna umstang en áfengissalan, sem fer fram í 48 verslunum víðsvegar um landið. Þegar Kjarninn leitaði eftir upplýsingum um hver beinn kostnaður af tóbakssölu væri vildu stjórnendur ÁTVR vildu ekki upplýsa ekki um hann.
Í fréttatilkynningunni sem send var út í gær er snert á þessu máli. Þar segir að ÁTVR sé lögum samkvæmt rekin sem ein heild og smásala áfengis og heildsala tóbaks sé ekki aðgreind í rekstri fyrirtækisins né bókhaldi. "Ljóst er að aðgreindur rekstur hefði í för með sér verulega óhagkvæmni, enda eru veigamiklir rekstrarliðir sameiginlegir báðum þáttum starfseminnar. Nægir hér til dæmis að nefna húsnæðiskostnað, kostnað við meðhöndlun vöru í vöruhúsi, rekstur tölvukerfa, vöruinnkaup, vörudreifingu og launakostnað. Í bókhaldi ÁTVR er ekki sundurgreint hvernig slíkur kostnaður deilist á milli áfengis- og tóbakshlutans og því eru engin gögn til um kostnaðarskiptingu. Kostnaður vegna vörunotkunar áfengis annars vegar og tóbaks hins vegar er hins vegar aðgreindur í rekstrinum og sundurliðaður í ársreikningi fyrirtækisins."
Í svari ÁTVR er því ekki, frekar en þegar Kjarninn leitaði eftir upplýsingum um það, sagt hver kostnaður tóbakssölu fyrirtækisins er.
Tóbakssalan þriðjungur af tekjum
Kjarninn fjallaði ítarlega um umsvif ÁTVR í áfengissölu á Íslandi sumarið 2014, þar sem fyrirtækið er með einokunarstöðu. Sú umfjöllun byggði á birtum ársreikningum fyrirtækisins.
Í fyrrahaust var lagt fram frumvarp á Alþingi sem mun heimila sölu á áfengi í verslunum. Verði það að lögum mun slíkt frumvarp hafa gífurleg áhrif á ÁTVR, enda 2/3 hluti veltu fyrirtækisins tilkominn vegna áfengissölu. Þorri þeirra tekna myndi hvort eð er fara í ríkissjóð ef áfengið yrði selt annars staðar, í formi áfengisgjalds og virðisaukaskatts. Ljóst er að stærsti hluti kostnaðar ÁTVR er líka vegna áfengissölunnar, enda eru starfræktar 48 verslanir um land allt í þeim tilgangi að selja það með tilheyrandi starfsmannakostnaði.
Hinn þriðjungur tekna ÁTVR, 9,1 milljarður króna, kemur hins vegar úr tóbakssölu. Hún útheimtir ekki jafn mikið umstang og áfengissalan. Þvert á móti er öll tóbaksdreifing ÁTVR nú orðin miðlæg, þ.e. hún fer fram á einum og saman staðnum, Útgarði, dreifingarmiðstöð fyrirtækisins í Reykjavík. Í ársreikningi ÁTVR segir að „mikið hagræði fylgir breytingunni þar sem birgðahald og vörumeðhöndlun minnkar og dreifingarkostnaður lækkar. Samhliða hefur verið lögð áhersla á rafrænar pantanir til hagsbóta fyrir alla aðila“.
Kostnaðurinn ekki gefinn upp
Í ársskýrslu ÁTVR kemur ekkert fram um hver kostnaður fyrirtækisins af tóbakssölunni sé. Kjarninn leitaði því eftir upplýsingum um hver sá kostnaður væri. Í svari Sigrúnar Óskar Sigurðardóttur, aðstoðarforstjóra ÁTVR, við fyrirspurn Kjarnans í ágúst 2014 sagði að „Kostnaður vegna tóbakssölu er ekki færður sérstaklega í bókhaldi ÁTVR nema vörunotkun tóbaks sem nam 7,7 milljörðum. Tóbaksgjaldið er skilgreint sem hluti af kostnaðarverði seldra vara í bókhaldi ÁTVR og fært undir vörunotkun“.
Uppistaðan í vörunotkun tóbaks er tóbaksgjald sem rennur mánaðarlega til ríkisins, alls 5,5 milljarðar króna á árinu 2013. Þegar vörugjald tóbaks er dregið frá tekjum fyrirtækisins vegna þess sitja 1,4 milljarðar króna eftir, sem er hærri upphæð en ÁTVR greiddi ríkinu í arð í fyrra. Því má ætla að þorri þess hagnaðar sem ÁTVR sýnir árlega sé vegna sölu á tóbaki, ekki vegna áfengis, þ.e. að sala áfengis sé ekki arðbær.
ÁTVR upplýsir því ekki beint hver kostnaður vegna tóbakssölunnar er. Í ársskýrslu fyrirtækisins sést hins vegar að 5,5 milljarðar króna af „vörunotkun“ eru vegna tóbaksgjalds og því eru 2,2 milljarðar króna vegna annars kostnaðar.
Uppistaðan í tóbakssölu ÁTVR er reyktóbak, og aðallega sígarettur. Rúmlega 93 prósent af tóbakssölunni eru vegna þess.
Fjórföldun á veltu vegna „Rudda“
En ÁTVR framleiðir líka tóbak, neftóbak, og hefur gert árum saman. Árið 1996 var fínkornað munn- og neftóbak bannað með lögum á Íslandi. Það þýðir að neftóbakið sem ÁTVR framleiðir hefur verið í nánast einokunarstöðu á markaðnum síðan lögin voru sett.
Samhliða hefur neysla á munntóbaki aukist töluvert og þeir sem neyta þess kaupa annaðhvort smyglvarning á svörtum markaði, þar sem er mikið framboð, eða nota neftóbakið sem ÁTVR framleiðir, hinn svokallaða „Rudda“, sem munntóbak. Þessi aukna neysla hefur skilað auknum tekjum í vasa hins opinbera svo um munar, bæði vegna hækkunar á tóbaksgjaldi og stóraukinnar eftirspurnar. Tóbaksgjald á neftóbak hækkaði til að mynda um 100 prósent 1. janúar 2013.
Fréttaskýringin byggir á annarri slíkri sem birtist fyrst í app-útgáfu Kjarnans í ágúst 2014.