Eurovison söngvakeppnin er handan við hornið, en undanúrslitin fara fram 19. og 21. maí og sjálft úrslitakvöldið er síðan 23. maí í sjálfu höfuvígi hámenningartónlistarinnar, Vínarborg. Kristinn Haukur Guðnason sagnfræðingur kafaði ofan í sögu Eurovison og tók saman lista yfir tíu bestu lög keppninnar frá upphafi, að hans mati.
L´amour est bleu – Vicky Leandros
1967, Lúxemborg, 4. sæti
Lúxemborg var eitt af sigursælustu þjóðum Eurovision, með alls fimm sigra, þar til þeir hættu snarlega þáttöku árið 1994. Þessi smáþjóð reiddi sig þó yfirleitt á erlenda og þá sérstaklega franska lagahöfunda og flytjendur.L´amour est bleu er draumkennt popplag sem samið var af hinum franska André Popp og flutt af hinni grísku Vicky Leandros, sem var einungis 18 ára þegar hún flutti það í Vín. Það var þó ekki í flutningi Vicky sem lagið öðlaðist frægð. Franski hljómsveitarstjórnandinn Paul Muriat gaf lagið út án söngs þetta sama ár og sú útgáfa varð mjög vinsæl um allan heim, þá sérstaklega í Asíu. Árið 2011 endurflutti Leandros lagið, en þá í teknó-útgáfu ásamt þýsku rafhljómsveitinni Scooter.
https://www.youtube.com/watch?v=nD4ib9-laGY
Den vilda - One More Time
1996, Svíþjóð, 3. Sæti
Fyrir keppnina í Osló var Den vilda talið eitt sigurstranglegasta lagið en tapaði að lokum fyrir The Voice, einum af mörgum sigurlögum Íra. Síðan hefur lagið fallið í gleymsku. Það var samið af Peter Grönvall, syni Bennys Andersson úr ABBA, og flutt af hljómsveit hans One More Time sem hætti skömmu eftir keppnina. Lagið er rólegt og draumkennt og sungið af tveimur söngkonum. Færeyska söngkonan Eivör Pálsdóttir söng lagið með breyttum texta árið 2008 með Frostrósum og hét það þá Dansaðu vindur. Útgáfa Eivarar var sló heldur betur í gegn hér á landi en þá sem jólalag og var loks gefin út sem smáskífa árið 2013.
https://www.youtube.com/watch?v=Evn1biXeDJ8
Wild Dances – Ruslana
2004, Úkraína, 1. Sæti
Wild Dances er einhver einkennilegasti bræðingur sem unnið hefur keppnina. Það er tölvupopplag með þjóðlagaívafi, stórum hornlúðrum og dynjandi bumbuslætti. Flytjandinn Ruslana Lyzhychko og dansarar hennar voru klædd í leður og loðfeld sem minnti bæði á neðandalsmenn og Mad Max. Með þessu fylgdi svo mikið ljósashow, eldtungur og eldingar. Þetta var nokkurs konar heimsendaatriði. Þrátt fyrir miklar vinsældir og frægð lagsins var það langt því frá öruggt með sigurinn í Istanbúl. Það var í öðru sæti í undanúrslitunum og háði harða baráttu við serbneska lagið Lane Moje og gríska lagið Shake It í úrslitunum. Ruslana hefur síðan notið mikilla vinsælda í Austur Evrópu. Hún vinnur mikið að góðgerðarmálum og hefur setið á úkraínska þinginu.
https://www.youtube.com/watch?v=10XR67NQcAc
Nel blu dipinto di blue (Volare) – Domenico Modugno
1958, Ítalía, 3. sæti
Árangur lagsins í Eurovision endurspeglar á engan hátt vinsældir þess og áhrif. Af þeim tíu lögum sem tóku þátt, í bænum Hilversum í Hollandi, endaði það í þriðja sæti með innan við helming af stigum sigurlagsins Dors, mon amourfrá Frakklandi. Flytjandinn og lagahöfundurinn, Domenico Modugno, fór svo með lagið vestur til Ameríku þar sem það sló algerlega í gegn. Lagið varð margverðlaunað og toppaði vinsældalistana sem er óalgengt fyrir lög sem ekki eru á ensku. Fjölmargir heimsfrægir tónlistarmenn hafa tekið upp sínar eigin útgáfur af laginu og má þar nefna Louis Armstrong, David Bowie, The Gipsy Kings og Luciano Pavarotti. Frægastu útgáfu lagsins á þó án nokkurs vafa Dean Martin. Lagið er ballaða og þykir einmitt mjög hentug fyrir Las Vegas-söngvara eins og Martin.
https://www.youtube.com/watch?v=70PYINHfVjI
Hold Me Now – Johnny Logan
1987, Írland, 1. Sæti
Írar hafa unnið Eurovision oftar en nokkrir aðrir, alls sjö sinnum. Í raun voru yfirburðir Íra og Breta ástæðan fyrir því að tungumálanotkunin í keppninni var gefin frjáls árið 1998. Síðan þá hefur hvorug þjóðin unnið. Johnny Logan hefur unnið keppnina þrisvar sinnum, þar af tvisvar sem flytjandi. Hápunkturinn í Eurovision-sögu Íra er klárlega Hold Me Now, sem hann flutti í Brussel. Hann vann nokkuð örugglega og lagið varð vinsælt í Evrópu í kjölfarið. Lagið er kraftballaða sem einungis níundi áratugurinn gat framkallað. Hvítu fötin sem Logan klæddist voru einnig sérstaklega eftirminnileg. Það er ekki að ástæðulausu að hann er kallaður Herra Eurovision.
https://www.youtube.com/watch?v=kSXx7-EceBA
Euphoria – Loreen
2012, Svíþjóð, 1. sæti
Euphoria þótti langsigurstranglegasta lagið fyrir keppnina í Azerbaijan 2012. Lagið vann með rúmlega 100 stigum meira en rússneska lagið Party for Everybody sem lenti í öðru sæti og það var ekki langt frá því að slá stigamet Alexanders Rybak frá 2009. Það var samið af þrautreyndu Eurovision lagahöfundunum Peter Boström og Thomas G:son (Gustafsson). G:son hefur samið alls 68 lög í 11 löndum og 10 af þeim hafa komist í lokakeppnir. Euphoria er danslag sem ber keim bæði af níunda og tíunda áratug seinustu aldar. Flutningurinn á laginu var stórbrotinn. Flytjandinn Loreen, sem ættuð er frá Marokkó, var ein á sviðinu í víðum fötum og dansaði dans sem minnti helst á Kung Fu eða Karate æfingar. Í aðdraganda keppninnar komst hún í fréttirnar fyrir að gagnrýna mannréttindabrot stjórnvalda í Azerbaijan, keppnishöldurum til mikillar gremju.
https://www.youtube.com/watch?v=Pfo-8z86x80
Satellite – Lena
2010, Þýskaland, 1. Sæti
Satellite var samið af Julie Frost, margverðlaunum lagahöfundi sem m.a. hefur unnið með Madonnu, Beyonce Knowles og Black Eyed Peas. Það var flutt af Lenu Meyer-Landrut sem var nýorðin 19 ára á úrslitakvöldinu í Osló. Bæði lagið og sviðsframkoman þóttu fersk og öðruvísi. Hér var ekki um neitt ljósashow, skærlitaða búninga og trumbuslátt að ræða. Bakraddasöngvararnir voru faldir og Lena var í látlausum svörtum kjól og dansaði að því virtist óæfðan dans. Lagið þurfti einfaldlega engar umbúðir. Bjagaður og nokkuð sérstakur enskuframburður Lenu gaf laginu einnig mikinn sjarma. Fyrirfram var búist við að Þjóðverjar yrðu meðal efstu þjóða en yfirburðir þeirra komu þó nokkuð á óvart. Þeir unnu með 76 stiga mun en þetta var aðeins annar sigur Þjóðverja í keppninni.
https://www.youtube.com/watch?v=-qnsZgQe1tU
Eres tu – Mocedades
1973, Spánn, 2. Sæti
Keppnin 1973 var mjög jöfn og á endanum stóðu heimamenn í Lúxemborg uppi sem sigurvegarar með lagi sem í dag þykir ekki merkilegt. Í öðru sæti lenti lagið Eres tu sem flutt var af basknesku þjóðlagahljómsveitinni Mocedades. Mögulega hömluðu deilur um höfundarétt lagsins sigri en lagið þótti líkjast júgóslavneska Eurovision laginu Brez besed frá árinu 1966. Lagið varð þó vinsælt um allan heim og var flutt á ensku sem Touch the Wind. Má t.a.m. heyra lagið í hinni bráðfyndnu kvikmynd Tommy Boy. Fjölmargir tónlistarmenn eins og t.d. Bing Crosby og Perry Como hafa spreytt sig á laginu. Þó að lagið hafi ekki unnið þykir það almennt vera besta framlag Spánverja í sögunni.
https://www.youtube.com/watch?v=JUQnlXsISvg
Love Shine a Light – Katrina & The Waves
1997, Bretland, 1. Sæti
Katrina & The Waves var hljómsveit sem átti einn megahittara á níunda áratugnum. Það var lagið Walking on Sunshine sem kom út árið 1985 og hélt þeim á floti í nokkur ár. Á tíunda áratugnum var bandið aftur á móti nánast horfið í gleymskunnar dá þar til það tók þátt í Eurovision. Love Shina a Light, sem er gospelslegið popp-rokk lag, vann með töluverðum yfirburðum. Lagið fékk 227 stig og var 70 stigum á undan gestgjöfunum, Írum, sem hefðu annars unnið sína fimmtu keppni á sex árum. Þetta var jafnframt stigamet í keppninni sem átti eftir að standa allt til ársins 2004 en þá var undanúrslitum bætt inn í og stigagjöfin bólgnaði út. Eurovision var þó skammgóður vermir fyrir hljómsveitina því að hún leystist upp skömmu síðar.
https://www.youtube.com/watch?v=gJWnM21JUB8
Non ho l´etaá – Gigliola Cinquetti
1964, Ítalía, 1. sæti
Sigur lagsins í Kaupmannahöfn er sá stærsti í Eurovision sögunni. Non ho l´etaá fékk næstum þrefalt fleiri stig en breska lagið I Love the Little Things sem endaði í öðru sæti. Hin 16 ára gamla Cinquetti var klöppuð upp eftir flutninginn sem var óvanalegt. Í kjölfarið varð lagið vinsælt um alla Evrópu. Það varð sérstaklega vinsælt hér á Íslandi, en þá ekki í flutningi Cinquetti heldur Ellýar Vilhjálms. Heyr mína bæn er einn af allra stærstu slögurum íslenskrar tónlistarsögu, tekið upp árið 1965 með texta eftir Ólaf Gauk. Lagið hefur sérstaka þýðingu fyrir stuðningsmenn K.R. þar sem það er inngöngulag knattspyrnuliðsins.
https://www.youtube.com/watch?v=Utd9cHBPfRA