Undan mangótrjánum og inn í „íslenska“ skóla
„253“ stendur skrifað á töfluna. Það eru 253 börn í bekknum – samankomin í lítilli og dimmri skólastofu. Sitja flest á gólfinu með stílabækur í kjöltunni og reigja litlu hálsana upp til að fylgjast með kennaranum. Bukewa er dæmigerður grunnskóli í Namayingo-héraði í Úganda. En nú hefur hann, ásamt fimm öðrum, verið endurbyggður fyrir íslenskt skattfé. Blaðamaður Kjarnans slóst í för með íslenskum sendifulltrúum um fiskimannaþorpin við Viktoríuvatn og sá börnin flytja úr hrörlegum kofum inn í bjartar skólastofur.
Á hverjum degi gengur Dorcas að minnsta kosti tíu kílómetra. Flesta daga eru þeir miklu fleiri. Það gerir hún sér ekki til heilsubótar heldur til að komast í skólann. Til að læra ensku, eftirlætisfagið sitt, og allt hitt sem fylgir skólagöngu sautján ára nemanda. „Mig langar að verða endurskoðandi,“ segir hún og brosir feimnislega þar sem hún stendur fyrir utan eina bygginguna í Mutumba-skóla í Namayingo-héraði í Úganda.
Þetta er lágreist múrsteinshús með bárujárnsþaki og þótt ekkert gler sé í litlu gluggunum er loftið inni þungt. Skólastofurnar eru litlar og virðast enn minni því setið er þétt við hvert einasta borð. Og líka á gólfinu. Setið með stílabækurnar í kjöltunni og námsbókum deilt með sessunautunum.
Fyrir utan leiðina löngu í skólann þarf Dorcas, líkt og svo margar stúlkur og konur í landinu, að fara nær daglega um langan veg að sækja vatn. Vatnið sem oft er mengað og af svo skornum skammti að biðin eftir að fylla brúsana getur tekið óratíma. Einum brúsa er svo tyllt á höfuðið. Um annan er gripið með hendinni. Og svo er haldið heim á leið. Með jafnvel fjörutíu lítra af vatni meðferðis.
„Þessi vatnsburður, þessi endalausi vatnsburður, er meðal þess sem heldur stúlkum frá skóla,“ segir Finnbogi Rútur Arnarson, fulltrúi í sendiráði Íslands í Úganda. „Og hér veitir vægast sagt ekki af því að byggja nýjan skóla.“
Rútur, eins og hann er ávallt kallaður, er í reglulegri eftirlitsferð um fiskimannaþorpin í Namayingo norðan Viktoríuvatns. Íslenska ríkið hefur átt í þróunarsamvinnuverkefnum í Úganda í yfir tvo áratugi, hefur byggt tugi skóla, brunna og vatnsbóla, fjölda almenningssalerna, stutt við útgáfu skólabóka og kennara til frekari menntunar. Allt verkefni sem hafa það að markmiði að bæta kjör barna og ungmenna eins og Dorcas. Byggja sterkari stoðir undir framtíð þeirra.
Í rúmt ár hafa Íslendingar átt samstarfi við héraðsstjórn Namayingo. Og í lok janúar, þegar blaðamaður Kjarnans slóst í för með Rúti til þorpanna, höfðu þrír nýir skólar þegar risið og bygging þriggja til viðbótar var í þann mund að hefjast.
Rútur er mættur á byggingarstaðina ásamt verktökum sem fengu samþykkt tilboð í verkin. Blekið er enn blautt á samningunum sem skrifað var undir fyrr um morguninn í ráðhúsi héraðsins. Nú á að afhenta verktökunum byggingarsvæðin formlega og eitt af því er skólinn hennar Dorcas.
Mutumba er nokkuð dæmigerður grunnskóli á þessum slóðum. Sumar byggingarnar minna meira á gripahús en nokkuð annað. Stækan fnyk leggur frá salernunum sem standa stök í jaðri skólalóðarinnar.
Í Bukewa-skóla, sem afhentur er öðrum verktaka þennan dag, er aðstaðan jafnvel enn verri. Eftir faraldur COVID-19 og tæplega tveggja ára lokun skóla í Úganda hefur orðið sprenging í fjölda nemenda í fyrsta bekk.
Skólastjórinn leiðir Rút inn í litlar og dimmar stofurnar. „253“ stendur skrifað á töfluna. Það eru 253 börn í stofunni og fjöldinn í þeirri næstu er svipaður. Þrengslin eru gríðarleg og meirihlutinn verður að sitja á gólfinu og reigja upp hálsinn til að fylgjast með kennaranum. Á hverjum kennara hvíla því fimm hundruð fróðleiksfús augu. En athyglin sem hægt er að gefa hverju og einu barni er lítil. „Ég hef séð þrjú hundruð nemendur í einni stofu,“ segir Rútur. „Og sumir stóðu fyrir utan og fylgdust með kennslunni í gegnum gluggana.“
Namayingo er eitt fátækasta héraðið á svæðinu, benti héraðsstjórinn Edith Namayega á er skrifað var undir verktakasamningana. Íbúarnir eru um 250 þúsund og fiskveiðar í Viktoríuvatni eru lifibrauð flestra. „Það eru forréttindi að fá stuðning frá íslenskum stjórnvöldum, stuðning sem bætir menntun.“
Formaður héraðsstjórnarinnar, Ronald Sanya, minnti verktakana á að þeir væru að fara með skattfé Íslendinga. „Við tökum samvinnu ykkar ekki sem sjálfsögðum hlut,“ sagði hann og beindi orðum sínum til Rúts handan fundarborðsins í ráðhúsinu.
Sanya bað verktakana vinsamlegast að ráða heimamenn í byggingarvinnuna. Margir ungir karlmenn á þessum slóðum þyrftu sárlega á atvinnu að halda. „Og berið virðingu fyrir konunum,“ bætti hann við.
Rútur greip þennan bolta fimlega á lofti. Að sjálfsögðu ætti að bera virðingu fyrir konum en „ráðið þær í vinnu,“ sagði hann með þungri áherslu. „Ráðið líka konur,“ endurtók hann.
Einhverjir viðstaddra lyftu brúnum í undrun og gutu augum hver á annan. Konur eru í minnihluta starfsfólks í byggingarvinnu um allan heim en sjást vart í því starfi í Úganda. Þar spila hefðir og siðir í verkaskiptingu stórt hlutverk, ekki síst í fiskimannaþorpunum við Viktoríuvatn.
En Sanya formaður tók eftir örstutt hik brosandi undir orð Rúts og verktakarnir kinkuðu kolli til samþykkis.
Rútur á eftir að ítreka þessi orð sín við verktakana við afhendingu á hverjum einasta byggingarstað. „Amma mín sagði alltaf að konur gætu gert allt það sem karlar geta og oftast betur,“ segir hann fyrir utan Busiro-skólann. Þar var hann að tala um Huldu Jakobsdóttur, fyrstu konuna sem varð bæjarstjóri á Íslandi og afasystur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.
„Konur sem geta borið 20 lítra af vatni á höfðinu dagana út og inn geta borið múrsteina,“ segir hann þegar allir byggingarstaðirnir hafa verið afhentir verktökunum og ökuferðin um holóttu vegina í sveitinni í átt til höfuðborgarinnar Kampala er hafin.
Rútur hefur áratuga reynslu af utanríkisþjónustunni og hefur sinnt störfum á hennar vegum í Asíu, Evrópu og nú Afríku. Það má segja að hann sé erindreki fram í fingurgóma. Teinréttur í baki, klæddur hvítum hörfatnaði, með litríka slaufu um hálsinn og fagurlega ofinn hatt ættaðan frá Panama á höfði. Heilsar öllum sem hann hittir með breiðu brosi. Slær á létta strengi. Hann gengur hratt og ákveðið. Hlustar af einbeitni, talar af festu og röggsemd og lengir ekki mál sitt að óþörfu. Allt hans fas bendir til þess að hér fari maður sem er staðfastur og krefst skilvirkni. Afkasta.
„Það eina sem við ætlumst til af ykkur er að vera dugleg að læra,“ sagði Rútur við Dorcas og hóp fleiri barna fyrir utan Mutumba-skólann er hann hafði hamrað á því við verktakann að til mikils væri ætlast af honum; gæða, skilvísi og síðast en ekki síst að konur verði mættar til vinnu í næstu eftirlitsferð.
Og það stenst. Um tveimur vikum síðar fer Rútur aftur út í þorpin við Viktoríuvatnið. Hann viðurkennir að það komi fyrir að hann taki „lítil brjálæðisköst“ þegar framkvæmdir gangi ekki eftir áætlun en slíkt er óþarft í þetta skipti. Það er kominn miður febrúar og verktakarnir eru komnir á fullt. Allir hafa þeir ráðið konur.
„Þetta lofar góðu,“ segir hann að ferð lokinni. Fagnar þó ekki fyrr en allt er í höfn og skólarnir hafa verið afhentir, fullbúnir.
Verktakarnir eru valdir af kostgæfni. Svo að tilboð þeirra séu tekin gild þurfa þau að standast margvíslegar kröfur og skilyrði. „Tilboðin eru tíu tommur á þykkt!“ segir Rútur. Þau eru yfirfarin af mörgum, m.a. verkfræðingi sendiráðs Íslands í Úganda og verkfræðingi samstarfshéraðsins, sem eru þeir hinir sömu og taka verkin reglulega út.
Allir skilmálar eru skýrir og ekkert er greitt fyrr en ákveðnum áföngum er náð. „Það fer ekki króna í spillingu í þessum verkefnum,“ fullyrðir Rútur. Með þessu fyrirkomulagi hafa valist góðir verktakar til samstarfs og sem dæmi þá skilaði einn þeirra af sér nýjum skóla í Namayingo í janúar tveimur mánuðum á undan áætlun.
Sá skóli var sérstaklega valinn vegna þess að ástand hans var áberandi slæmt. „Þegar ég kom þangað fyrst þá sátu börnin að læra undir mangótré,“ rifjar Rútur upp. Í rigningum var þeim safnað saman í skýli sem minntu á skreiðarhjalla. Aðgangur að vatni var lítill, hreinlæti því ábótavant og skólamáltíðir skornar við nögl. „Skólaumhverfið var óboðlegt,“ segir Edith héraðsstjóri. Börn hafi hreinlega ekki mætt í skólann. Þau yngri mörg hver aldrei hafið nám og þau eldri flosnað upp úr því.
Hann heitir Bumeru. Skólinn sem nú hefur fengið svo gjörbreytt yfirbragð að ekki er annað hægt en að smitast af ákafa starfsfólksins og nemendanna sem læra og leika sér fjörlega. Þeir fá hádegisverð á hverjum degi sem eldaður er í splunkunýju og velútbúnu eldhúsi. Langar biðraðir hlykkjast um skólalóðina í hádeginu. Yngri börnin fá graut í bolla og fara svo heim að máltíð lokinni. Þau eldri fá grænmeti, baunir og kássu úr bönunum og rótargrænmeti.
„Þetta er miklu meira en nýjar byggingar,“ segir Sanya, formaður héraðsstjórnarinnar, er hann lítur með velþóknun yfir hláturmildan barnaskarann. „Þetta er nýtt upphaf og áhrifin munu hríslast um allt samfélagið.“
Það er á ábyrgð foreldra að koma með hráefni í hádegismatinn. Í síðustu viku, segir Sanya, komu þeir með um 500 kíló af maísmjöli. Í þessari viku voru kílóin orðin 2.500. „Allir vilja leggja hönd á plóg til að sjá til þess að þörfum barnanna sé mætt, hvort sem það varðar kennslu eða næringu. Foreldrar hafa fyllst auknum krafti.“
Nemendurnir eru einnig með nýjar skólabækur og í Bumeru og öðrum nýjum skólum sem Ísland styður við, fær hver sína bók. Í björtum skólastofunum þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja eru ný skrifborð. Að þessum nýja skóla laðast líka góðir kennarar enda framhaldsmenntun og íbúðir fyrir þá í boði.
Skólinn hefur alveg frá því að hann var opnaður í janúar verið eftirsóttur. Börnin koma langt að til að sækja hann. „Það er mannlegt,“ segir Rútur, „foreldrar vilja auðvitað að börn þeirra fái bestu menntun sem völ er á.“
En þessu hafa vissulega fylgt áskoranir. Áætlanir gerðu ráð fyrir að nemendurnir yrðu um 1.200 en þeir eru nú yfir 1.800. Í einni eftirlitsferð Rúts sá hann að við borð sem ætluð eru þremur nemendum sátu jafnvel fimm. Og hann lét panta 400 í viðbót hið snarasta.
„Við höfum ráðið fleiri kennara en við þurfum enn fleiri,“ segir Edith héraðsstjóri. Hluti af samkomulaginu við íslensk stjórnvöld felst í því að veita meira fé til nýbyggðu skólanna svo hægt sé að fjölga kennurum og viðhalda byggingum og innanstokksmunum þegar á þarf að halda. Þannig er vonast til að samstarfsverkefnin verði sjálfbær til framtíðar.
En álagið er mikið því börnin hafa misst tæplega tvö ár úr skóla. „Við þurfum að styðja kennarana í þessu verkefni svo að börnin fái þá menntun sem þau þurfa og nái árangri í náminu,“ segir Edith.
Í Bumeru voru byggð ný salerni og á því sem stúlkurnar nota er einnig hægt að baða sig. Þessi nýlunda, sem lögð er mikil áhersla á í íslensku verkefnunum, breytir öllu fyrir skólasókn stúlkna sem forðast að mæta í skólann þegar þær eru á blæðingum ef engin er hreinlætisaðstaðan.
Við skólann gefur einnig að líta volduga vatnstanka, fulla af hreinu vatni, og einn þeirra er staðsettur utan skólalóðarinnar fyrir íbúa í nágrenninu. „Góður aðgangur að vatni er ekki aðeins heilbrigðismál heldur skýrt jafnréttismál,“ segir Rútur. „Stúlkur sækja vatn og tíminn sem það tekur er tími sem þær eru ekki í skólanum.“
Þetta blasir við meðfram öllum vegum vítt og breitt um Úganda. Hópar nemenda á leið heim úr skóla mæta ungum stúlkum að bera stóra vatnsbrúsa.
„Í þessu samfélagi höfum við glímt við margar hindranir í tengslum við vatnsöflun,“ segir Annet Nakesa. Hún gengur með stóran, gulan brúsa að vatnsbóli rétt við þorpið sitt. Áður var þar forarleðja og ausa varð brúnleitu vatninu upp í brúsana til að fylla þá. Annet gengur nú niður steinsteyptar tröppur og kemur brúsanum fyrir undir kröftugri bunu af hreinu vatni.
Þetta er eitt af nýju vatnsbólunum í Namayingo sem reist hafa verið í samstarfi við Íslendinga. Það tekur enga stund að fylla brúsann og Annet, sem er ólétt af sínu þriðja barni, segir vantsbólið dýrmæta gjöf. Áður hafi ýmist þurft að ganga niður að Viktoríuvatni, um átta kílómetra leið, eða í næsta þorp sem er enn lengra í burtu.
„Vatnsbólin hafa þornað upp. Vatnsbólin hafa mengast. Dýrin hafa drukkið og farið um sömu uppsprettur og við urðum að nota,“ segir Annet. „Þetta var hættulegt börnum. Það eru dæmi um að þau hafi drukknað. Við þetta þurftum við að búa.“
Árið 2020 segir hún þorpsbúa hafa fengið nóg og beðið héraðsstjórnina um aðstoð. Þeim var sagt að ef tækifæri gæfist yrði bætt úr. „Og bænum okkar var svarað alla leiðina frá Íslandi. Þess vegna höfum við núna aðgang að góðu vatni. Við, konurnar á þessu svæði, erum fullar þakklætis.“
21. mars 2022.
Leiðin frá Kampala þar sem íslenska sendiráðið er til húsa og til Namayingo-héraðs tekur heilan dag. Það hefur ekki mikið með kílómetrafjöldann að gera heldur umferðarteppurnar í nágrenni höfuðborgarinnar og svo vegina holóttu í dreifðari byggðum sem minna stundum á gamla línuslóða á hálendi Íslands.
Þess vegna gera íslensku sendiráðsfulltrúarnir, Rútur og Þórdís Sigurðardóttir, forstöðumaður sendiráðsins í Kampala, sér næturstað í Jinja, litlu borginni við upptök Nílarfljóts, og halda svo snemma morguns af stað til Namayingo. Tilgangur ferðarinnar er að skoða skólana þrjá sem nú eru komnir vel á veg.
En fyrst formlegheitin: Fundur með héraðsstjóranum og formanni héraðsstjórnar í litla fundarherberginu í ráðhúsinu. Til viðbótar, rétt eins og við undirritun verktakasamninganna, eru ýmsir starfsmenn bæði sendiráðsins og héraðsins viðstaddir.
Edith héraðsstjóri sest við enda stóra borðsins. Á veggnum gengt henni hangir mynd af forseta Úganda, Museveni, sem setið hefur á valdastóli í 35 ár. Stór drekafluga líður léttilega um herbergið og hani galar stöðugt fyrir utan.
Þetta er dæmigerður dagur í Úganda.
Biskup er kynntur til leiks. Hann mun leiða bæn, segir Edith, og fólk drúpir höfði á meðan hann blessar samkomuna og samstarfið.
Edith er brosmild og í dag hlær hún oftsinnis. „Við sjáum þegar jákvæð áhrif,“ segir hún við sendiráðsfulltrúana. Fleiri börn eru komin í skóla, áhuginn á menntun og þátttaka foreldra hefur stóraukist.
„Brosin eru farin að koma á andlit fólksins,“ segir Sanya formaður héraðsstjórnarinnar. „Við höfum glímt við erfiðleika en núna á þessum stutta tíma sjáum við breytingar.“
Börn sem sátu áður undir trjám eða í hrörlegum skýlum eru komin inn í skólastofur. „Þetta er stórkostlegur munur,“ segir formaðurinn, „og það eru íslenskir skattgreiðendur sem hafa stutt okkur“.
Þrír skólar fullbyggðir. Aðrir þrír við það að klárast og stefnt að fleirum. Fimmtíu borholur, sex brunnar og fimmtán almenningsklósett. Edith ljómar er hún telur upp það sem þegar hefur verið gert. „Rútur er orðinn eins og einn af okkur, farinn að tala tungumálið,“ segir hún hlæjandi um tíðar eftirlitsferðir hans.
Hersing bíla ekur frá ráðhúsinu. Smám saman fækkar bílum og mótorhjólum á veginum og reiðhjól og tveir jafnfljótir taka við sem fararskjótar. Við erum í kassava-héraði. Rótin liggur niðurskorin á segldúkum í vegköntum. Sölubásar sem klambrað hefur verið saman úr afgangstimbri standa í röðum í litlum þorpum. Við básana sitja konur með hrauka af tómötum og avókadó fyrir framan sig. Enginn kúnni er í augsýn en það verður að reyna að koma uppskerunni í verð.
Á milli kofanna fara geitur um í gengjum. Staldra við til að kroppa í grastoppa sem hafa skotið sér upp úr rauðri moldinni og krafsa í litlu ruslahaugana sem eru um allt. Þær deila haugunum með hænum og mjóslegnum kúm.
Kjötskrokkar hanga uppi í öðrum básum. Til að ekki fari á milli mála að um geit sé að ræða er rófan skilin eftir á skrokknum. Á þessum slóðum vill enginn óvart kaupa lambakjöt.
Er þorpum sleppir taka smáir akrar við. Á einum þeirra reiðir kona hlújárn til höggs. Hlújárn er helsta landbúnaðarverkfærið. Í Úganda draga dýr ekki plóga og vélknúnar vinnuvélar eru fágætar. Meira að segja á stórbýlum er sveðjum sveiflað til að höggva sykurreyrinn.
Með nokkurra metra millibili ganga konur með vatnsbrúsa. Þær gætu átt langa leið fyrir höndum. Sumar eru með dætur sínar og er sú stutta þá með minni brúsa. Gerir eins og mamma. Sækir vatn.
Bárujárnskofar. Hringlóttir leirkofar með stráþökum. Alls staðar eru hús á milli bananatrjánna.
Bæng, bæng, bæng, bæng!
Skólabjalla glymur við Busiro-skóla. Bjallan er felga sem slegið er í með trésleif. Börnin koma hlaupandi inn í kennslustund frá því að spila fótbolta úti á túni. Spörkuðu berfætt á milli sín hálfloftlausri leðurtuðru en með reglur leiksins á hreinu: Tóku innköst og markspyrnur.
Kannski er slegið aðeins fastar í bjölluna þessa dagana til að yfirgnæfa hávaða frá byggingarsvæðinu. Á aðeins örfáum vikum hafa risið fjögur ný hús. Þaksperrurnar eru meira að segja komnar á sinn stað.
Það er ekki hægt að flytja börnin annað á meðan framkvæmdum stendur. Vinnusvæðið er afgirt og skólastjórinn segir alla leggjast á eitt við að gæta að öryggi barnanna.
„Ég kannast ekki við mig hérna,“ segir blaðamaður Kjarnans og lítur í kringum sig. Rútur staðfestir að jú, við höfum komið hingað í janúar, fyrir um tveimur mánuðum síðan. „Manstu, við fórum á fund undir þessu tré?“
Tréð er þarna vissulega enn. Hátt og virðulegt og breiðir úr sér eins og sólhlíf. Þetta er tréð þar sem Rútur brýndi fyrir verktakanum, enn einu sinni, að ráða konur.
Og þarna eru þær. Ekki ein og ekki tvær. Heldur fjölmargar. Um 20 prósent allra verkamannanna. Þær handlanga efni til smiða og múrara, saga, bera múrsteina, aka steypu í hjólbörum. Allar með öryggishjálma á höfði og flestar í pilsum og stígvélum.
Verktakinn röltir á milli nýbygginganna. Segir að þær verði teknar í gagnið innan fárra vikna. Þá fá börnin nákvæmlega sömu aðstöðu og nemendurnir í Bumeru. Nýjar bækur, ný borð. Vonandi endurmenntaða kennara. Og svo hljóðfæri og mögulega nýjan fótbolta.
Rútur vill fá staðfest að konurnar séu með sömu laun og karlar fyrir sömu vinnu. Verktakinn segir svo vera.
„Það var Rútur sem hvatti verktakana til að ráða konur og það var gert,“ segir Sanya, formaður héraðsstjórnarinnar, þegar hann hefur kallað allar verkakonurnar saman til myndatöku. Hann er stoltur. Finnst þetta góð saga til næsta bæjar.
„Það er ánægjulegt að sjá ykkur hér allar,“ segir Rútur við konurnar, „en næst þegar ég kem vil ég að þið verðið orðnar fleiri.“
Konurnar hlæja og kinka kolli. Þær eru frumkvöðlar, komnar í byggingageirann.
„Okkur finnst framtíð fiskimannasamfélagsins í Namayngo nú vera bjartari en áður,“ segir Edith héraðsstjóri. „Við höfum bætt aðstöðu til menntunar og fært hana nær fólkinu.“
Margir í Namayngo hafa alist upp við að framtíðin felist eingöngu í því að róa til fiskjar á Viktoríuvatni, segir Sanya. „En nú sjáum við að með þessari útsjónarsömu íhlutun, að bæta skólana og fá fleiri börn til náms, munu fylgja breytingar. Og við sjáum þær nú þegar.“
Kjarninn mun halda áfram umfjöllun sinni um íslensk samvinnuverkefni í Úganda á næstunni.