Síðasta vika var líklega með þeim þyngri hjá Mark Zuckerberg, forstjóra og stofnanda Facebook, og öðrum stjórnendum fyrirtækisins eftir að Facebook-skjölin svokölluðu vörpuðu ljósi á erfiðleika samfélagsmiðlaveldisins innan frá. En þá var ekki allt upp talið. Á mánudag stigmögnuðust vandræðin þegar þrír miðlar fyrirtækisins, Facebook, Instagram og Whatsapp, lágu niðri í um sex klukkustundir.
Á meðan sumir notendur tóku Facebook-fríinu fagnandi færðu aðrir sig yfir á miðla á borð við Twitter, meðal annars tæknistjóri Facebook, þar sem hann baðst afsökunar á þeim óþægindum sem bilunin olli. Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, fór hins vegar þá leið að setja inn stutta afsökunarbeiðni á Facebook þegar miðlarnir voru aftur komnir í loftið.
Facebook, Instagram, WhatsApp and Messenger are coming back online now. Sorry for the disruption today -- I know how much you rely on our services to stay connected with the people you care about.
Posted by Mark Zuckerberg on Monday, October 4, 2021
Ástæða bilunarinnar, að sögn Facebook, eru breytingar sem gerðar voru á stillingu netbeina sem ollu því að þjónusta miðlanna þriggja lá niðri. Einungis var hægt að leysa vandann handvirkt og því þurftu tæknimenn á vegum Facebook að gera sér ferð í gagnaver Facebook í Santa Clara í Kaliforníu til að komast að rót vandans. Síðasta bilun af þessu tagi varð hjá Facebook fyrir um tveimur árum. Þá lá miðillinn lengur niðri, í um 14 klukkustundir, en hafði áhrif á lítinn hluta notenda í stað um þrjá og hálfan milljarð notenda líkt og raunin var á mánudag. Bilunin hafði einnig áhrif á hlutabréf Facebook sem lækkuðu um allt að 4,9% á hlutabréfamörkuðum í Bandaríkjunum á meðan miðlarnir lágu niðri.
Gróði umfram öryggi notenda
Bilunin varð í miðjum óveðursstormi sem Facebook er statt í þessa dagana eftir að Wall Street Journal birtingu Facebook-skjalanna. Umfjöllunin er byggð á gögnum sem Frances Haugen, fyrrverandi vörustjóri hjá Facebook, veitti miðlinum og skilaði níu fréttaskýringum. Haugen steig fram sem uppljóstrari í viðtali í fréttaskýringaþættinum 60 mínútum á sunnudag. Þar fullyrðir hún að Facebook leggi meiri áherslu á gróða frekar en öryggi notenda sinna og hafi hylmt yfir sönnunargögn um dreifingu falsfrétta og áróðurs í gróðaskyni. Í skjölunum má einnig finna upplýsingar um hvernig Facebook flokkar notendur sína í „elítu“ og hefðbundna, skaðleg áhrif Instagram á ungar stúlkur hvað varðar líkamsímynd, sem og umdeildar tilraunir Facebook til að ná til ungmenna, svo dæmi séu tekin.
Haugen líkir stöðunni hjá Facebook við fyrri samfélagsmál þar sem hið opinbera hefur gripið í taumana. „Þegar við áttuðum okkur á því að tóbaksfyrirtækin voru að fela skaðann sem þau ollu greip ríkið til aðgerða. Þegar við áttuðum okkur á því að bílar eru öruggari með sætisbeltum greip ríkið inn í. Og í dag er ríkisstjórnin að beita sér gegn fyrirtækjum sem földu sönnunargögn um ópíóða. Ég grátbið ykkur um að gera það sama í þessu tilviki,“ sagði Haugen. Að hennar mati munu leiðtogar Facebook ekki grípa til aðgerða þar sem „gífurlegur gróði sé mikilvægari en fólkið.“
Tilgangurinn ekki að koma höggi á Facebook
Tilgangur Haugen, að eigin sögn, er ekki að koma höggi á Facebook heldur vill hún breyta fyrirtækinu til hins betra. Hún starfaði hjá Facebook um tveggja ára skeið en sagði starfi sínu lausu í maí. Haugen er með mikla reynslu úr Kísildalnum en hún starfaði lengst af hjá Google við ýmis verkefni á árunum 2006 til 2014. Þá hefur hún einnig unnið hjá Pinterest og Yelp.
Haugen fann sig knúna til að láta fólk utan fyrirtækisins, þar á meðal löggjafa of eftirlitsaðila, vita um annmarka Facebook og þau áhrif sem geta fylgt í kjölfarið. Áður en hún sagði skilið við Facebook í vor afritaði hún rannsóknir sem fyrirtækið vann sjálft á eigin efni með tilliti til upplýsingaóreiðu og hatursorðræðu. Þessar rannsóknir eru uppistaðan í Facebook-skjölunum sem nú hafa verið birt.
„Ef fólk hatar Facebook meira vegna þess sem ég hef gert, þá hef ég brugðist,“ sagði Haugen meðal annars í viðtalinu í 60 mínútum. „Ég trúi á sannleikann og afleiðingar — við verðum að viðurkenna raunveruleikann. Fyrsta skrefið í því ferli er að leggja fram gögn.“
Of snemmt að spá fyrir um endalokin
Atburðarás síðustu daga er síður en svo fyrsti skandallinn sem skekur Facebook. Það liggur ljóst fyrir að vandinn sem fyrirtækið stendur frammi fyrir er gríðarlegur, en er vandinn ef til vill dýpri en nokkurn hefði grunað?
Blaðamaður New York Times sem kafar ofan í þá stöðu sem blasir við Facebook þessa dagana segir að líta megi á vanda Facebook sem tvíþættan. Annars vegar felst hann í of mörgum notendum og hins vegar í vandanum sem fylgir því að hafa of fáa notendur sem fyrirtækið vill í raun ná til. Unga fólkið. Fólkið sem setur tóninn og er móttækilegt fyrir hinum ýmsu auglýsingum.
Þrátt fyrir vandræðagang innan veggja Facebook upp á síðkastið er hins vegar ótímabært að spá fyrir um endalok samfélagsmiðlarisans. Hlutabréf lækkuðu vissulega um tíma vegna bilunarinnar en undanfarið ár hafa hlutabréfin hækkað um 30%, auglýsingatekjur eru enn að aukast og notkun á einstaka miðlum á vegum Facebook hefur aukist í kórónuveirufaraldrinum. Þá má ekki gleyma því að Facebook er enn að ná aukinni útbreiðslu utan Bandaríkjanna og gæti haldið velli þar þó hnignun verða á bandarískum markaði.
Frekari áhrif og viðbrögð við Facebook-skjölunum eiga þó eftir að koma í ljós. Haugen bar vitni fyrir þingnefnd öldungadeildarþings Bandaríkjanna í gær. Í opnunarávarpi sínu sagði hún ákvarðanir teknar af stjórnendum Facebook hafa slæm áhrif á börn, almannaöryggi og lýðræði. „Svo lengi sem Facebook starfar í skugganum með því að fela eigin rannsóknir fyrir almenningi er það óábyrgt. Einungis þegar hvatarnir breytast mun Facebook breytast,“ sagði Haugen við skýrslutökuna í gær, sem stóð yfir í um þrjár og hálfa klukkustund.
Zuckerberg birti nýja færslu á Facebook í nótt þar sem hann hafnar öllum ásökunum Haugen. Hann segir Facebook ekki ala á sundrungu, skaði ekki börn og hafnar því að það þurfi að koma böndum á samfélagsmiðilinn. Ekkert sé til í því að Facebook setji hagnað ofar öryggi notenda sinna.
I wanted to share a note I wrote to everyone at our company. --- Hey everyone: it's been quite a week, and I wanted to...
Posted by Mark Zuckerberg on Tuesday, October 5, 2021
Hávær krafa um hertari lagaumgjörð
Richard Blumenthal, öldungadeildarþingmaður demókrata, formaður nefndarinnar sem fór fyrir skýrslutökunni, óskaði eftir viðveru Zuckerberg á fundi nefndarinnar í gær. Að mati þingmannsins er Facebook „siðferðislega gjaldþrota“. Zuckerberg varð ekki við beiðninni en fyrirtækið bendir á í yfirlýsingu að forstjórinn hefur komið fyrir nefndir öldungadeildarþingsins sjö sinnum á síðustu fjórum árum og að stjórnendur Facebook hafi borið vitni 30 sinnum. Fyrirtækið segist hafa gripið til ýmis konar aðgerða, sem hefur haft áhrif á arðsemi þess, í þeim tilgangi að vernda öryggi og friðhelgi notenda Facebook.
Krafan um hertari lagaumgjörð í tæknigeiranum er hávær eftir gagnalekann og var sömuleiðis skýr krafa Haugen við skýrslutökuna í gær. Haugen er auk þess hvergi nærri hætt og er hún tilbúin í frekari samræður við löggjafa um framtíð lagasetningar á tæknifyrirtæki á borð við Facebook.