Fjölmiðlar í Bretlandi fjölluðu nýverið um perúskan flóttamanna sem flúði heimaland sitt í kjölfar eyðileggingar jarðskjálfta. Hann smyglaði sér á skipi til Bretlands í leit að betra lífi, kom til landsins ólöglega og fékk húsaskjól hjá hinni góðhjörtuðu Brown fjölskyldunni sem fann hann umkomulausan á lestarstöð í London. Hann er dásamaður fyrir vald sitt á enskri tungu og áhuga hans og ástríðu fyrir bresku marmelaði.
Hert afstaða gegn auknum straumi innflytjenda
Hér er að sjálfsögðu um að ræða frásögn af bíómyndinni um breska bangsann Paddington en ekki dæmi úr raunveruleikanum. Í vikunni bárust þó raunverulegar fréttir af því að breska innanríkisráðuneytið hafi hafnað ferðamannaáritun simbabveskra hjóna sem hugðust sækja jarðaför barnabars síns sem lést í bílslysi í Eastbourne í lok síðasta árs. Þrátt fyrir boð Stephen Lloyd, þingmanns Frjálslyndra demókrata, um að gangast í persónulega ábyrgð fyrir því að hjónin skili sér aftur til Simbabve hefur ráðherra innflytjendamála staðið fast á að neita þeimum áritun þar sem þau uppfylla ekki ströng skilyrði um eignir og fyrri ferðalög. Taldar voru of miklar líkur á að hjónin ílengist ólöglega í Bretlandi og þeim því endanlega neitað um ferðamannaáritunina.
Hugmyndir hafa verið viðraðar um möguleikann á að vísa ríkisborgurum ESB ríkja úr landi ef þeir hafa ekki fundið vinnu hálfu ári eftir komuna til landsins.
Hiti hefur verið að færast í umræðuna um innflytjendamál í Bretlandi síðustu misseri og margir stjórnmálamenn farnir að taka harða afstöðu gegn auknum straumi innflytjenda til landsins. Þetta tengist að sama skapi hinni eilífu umræðu um veru Bretlands í Evrópusambandinu (ESB). Skiptar skoðanir eru meðal almennings um hvort heppilegra sé að segja sig frá samstarfinu eða ekki.
Tugþúsundir Breta á bótum víðsvegar um Evrópu
Philip Hammond utanríkisráðherra Bretlands sagði í vikunni að landið værið galopið fyrir misnotkun á frjálsum flutningi fólks innan ESB (auk annara landa evrópska efnahagssvæðisins, EES) og mikilvægt væri að koma í veg fyrir bótatúrisma Evrópubúa innan Bretlands og annara landa samstarfsins. Hugmyndir hafa verið viðraðar um möguleikann á að vísa ríkisborgurum ESB ríkja úr landi ef þeir hafa ekki fundið vinnu hálfu ári eftir komuna til landsins. Ráðherrann hefur talað um að Bretland sé berskjaldað fyrir misnotkun af hálfu þeirra sem falla undir frjálsa för innan EES. Að mati ráðherrans er Bretland í allt annarri stöðu en til að mynda Þýskaland eða Svíþjóð, suðurhluti Englands sé nú þegar einn þéttbyggðasti hluti Evrópu og náttúruleg fjölksfjölgun eigi sér stað þar burt séð frá fjölda innflytjenda.
Philip Hammond utanríkisráðherra Bretlands.
Á sama tíma hefur dagblaðið Guardian birt úttekt á þeim fjölda Breta sem þiggja bætur í öðrum löndum innan ESB. Kaldhæðnin er sú að samkvæmt úttektinni er heildarupphæð bóta sem Bretar þiggja í ríkari löndum sambandsins hærri en sú sem greidd er til bótaþega frá þeim löndum hér í Bretlandi. Samtals um 30 þúsund Bretar eru á atvinnuleysisbótum víðsvegar um Evrópu. Líkt og úttekt blaðsins sýnir þá eru um 23 þúsund Bretar á bótum í Finnlandi, Svíþjóð, Danmörku, Belgíu, Lúxemborg, Þýskalandi, Austurríki, Frakklandi og Írlandi á móti um 8.700 borgurum þessara landa sem eru á bótum í Bretlandi. Þá má líka hafa í huga að bætur sem þessar í ríkari löndum ESB oft á tíðum mun hærri en hér í Bretlandi. Rétt er þó að taka fram að ef horft er til Póllands, sem oft er í aðalhlutverki í umræðum sem þessum, kemur fram að um 15 þúsund Pólverjar nýta sér möguleikann á bótum í Bretlandi á móti tveimur Bretum í Póllandi. Úttekt sem þessi dregur því fram örlítið flóknari mynd en stjórnmálamenn reyna að mála dags daglega.
Innflytjendur og minnihlutahópar skotmörk
Meðan orðræða stjórnmálamanna hefur færst í áttina að því að skapa, oft á tíðum, ímynduð vandamál úr innflytjendum sem koma til landsins vegna náms og vinnu hefur andúð á ýmsum minnihlutahópum aukist. Minnihlutahópar og innflytjendur upplifa fordóma í auknum mæli og kemur það skýrt fram í könnun fyrirtækisins YouGov fyrir samtökin „Campaign Against Anti-Semitism“ um gyðingaandúð í landinu. Þar kemur fram að fordómar gegn gyðingum eru að aukast og staðalímyndir um t.d. áhuga á auðsöfnun þeirra lifa góðu lífi. Þar fara kjósendur breska sjálfstæðisflokksins UKIP fremstir í flokki og taka 39 prósent þeirra undir þá staðalímynd. Þetta má svo setja í samhengi við umræðuna um hryðjuverkaárásirnar í París þar sem eitt af skotmörkunum var kosher stórmarkaður í suðurhluta borgarinnar. Theresa May, innanríkisráðherra, lofaði í framhaldi af þessum umræðum að löggæsla verði aukin við bænahús og skóla gyðinga.
Frans Timmermans varaforseti framkvæmdastjórnar ESB viðraði einnig áhyggjur sínar af málinu í vikunni og setti þróun mála í samhengi við framtíð Evrópusamstarfsins. Hann tók skýrt fram að í Evrópu eigi að vera pláss fyrir alla óháð uppruna og kynþætti, en það sé eitt af grunngildum sambandsins.
Frans Timmermans, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Á sama tíma sköpuðust heitar umræður um bréf sem Eric Pickles, ráðherra sveitastjórnar- og trúmála, skrifaði á dögunum bréf til trúarleiðtoga múslima í Bretlandi. Þar hvatti hann til þess að múslimar tækust á við öfgamenn innan sinna raða og að lagði hann ennfremur áherslu á að kenna þurfi ungu fólki hvað það þýðir að vera Breti. Í framhaldi svöruðu fulltrúar einna stærstu samtaka múslima í Bretlandi „Muslim Council of Britain“ bréfinu og gagnrýndu fulltrúa ríkisstjórnarinnar fyrir málflutning sem eigi meira líkt með málflutningi hægri öfgaafla. Fulltrúar samtakanna voru því ekki par sáttir við íhlutun ráðherrans og reitti bréfið marga trúarleiðtoga innan raða múslima til reiði.
Innflytjenda- og trúmál í brennidepli fyrir kosningar
David Cameron, forsætisráðherra, nýtti því tækifærið á mánudag í heimsókn til slátturvélaverksmiðju í Ipswich og sló á gagnrýni samtakanna og þvertók fyrir það að samhljómur væri með ríkisstjórninni og hægri öfgaöflum í landinu. Forsætisráðherrann impraði jafnframt á mikilvægi þess að ala ekki á sundrungu í samfélaginu. Af þessu má því reikna með að innflytjenda- og trúmál verði áfram í brennidepli fjölmiðla í Bretlandi fram að þingkosningum í maí á þessu ári. Hvort Paddington Brown verði handsamaður og sendur úr landi fyrir ólöglega veru sína og takmarkaða getu til að halda sér uppi fjárhagslega skal þó ósagt látið.