Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar hefur ákveðið að leggja til að haldið verði tímabundið áfram að fella niður virðisaukaskatt á starfsemi tengdri byggingarframkvæmdum og viðhaldi húsnæðis í gegnum átakið „allir vinna“ fram eftir næsta ári, þrátt fyrir að fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi lagst hart gegn því. Í minnisblaði ráðuneytisins sem skilað var inn til nefndarinnar var framlengingin sögð óþörf og varað við að hún gæti valdið ofþenslu.
Samkvæmt heimildum Kjarnans afgreiddi meirihlutinn álit sitt á fundi nefndarinnar í gær. Þar var lagt til að úrræðið fyrir starfsemi tengdri byggingarframkvæmdum og viðhaldi húsnæðis verði framlengt að fullu út ágúst á næsta ári og frá 1. september muni endurgreiðslan miðast við 60 prósent af því sem ætti annars að fara til ríkissjóðs sem virðisaukaskattur.
Þá verða endurgreiðslur vegna heimilishjálpar og reglulegrar umhirðu og vegna frístundahúsnæðis framlengdar til 30. júní. Endurgreiðsla vegna bílaviðgerða ýmiskonar mun hins vegar falla niður um áramót líkt og stefnt var að.
Engin greining á kostnaði vegna framlengingarinnar var lögð fram samhliða nefndarálitinu en í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins kom fram að auknar og útvíkkaðar endurgreiðslur á virðisaukaskatti frá byrjun faraldursins til ársloka 2021 muni nema 16,5 milljörðum króna. Þar sagði einnig að ef úrræðin yrðu framlengd í óbreyttri mynd út næsta ár gæti ríkissjóður orðið af 12 milljörðum króna á næsta ári.
Í ljósi þess að endurgreiðslur vegna íbúðarhúsnæðis hafa verið næstum 80 prósent allra endurgreiðslna vegna átaksins „Allir vinna“ er ljóst að viðbótarkostnaður ríkissjóðs vegna framlengingarinnar mun hlaupa á milljörðum króna.
Innspýting í þegar þanið hagkerfi
Samkvæmt framlögðu fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar stóð til að hætta átakinu „Allir vinna“ í þeirri mynd sem verið hefur frá upphafi faraldursins um komandi áramót.
Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins, þar sem ákvörðunin um að framlengja ekki úrræðið var rökstudd, er sérstaklega nefnt slík framlenging gæti falið í sér ruðningsáhrif, þar sem mikilli uppbyggingu húsnæðis sé nú þegar spáð á næstu misserum. „Um væri að ræða innspýtingu á fjármagni sem væri nú þegar þanið,“ segir í minnisblaðinu.
Samkvæmt ráðuneytinu eru ekki sömu forsendur til staðar fyrir niðurfellingu á virðisaukaskatti vegna byggingarframkvæmda nú og í mars í fyrra, þar sem ýmsum atvinnugreinum, þar á meðal byggingariðnaði, hafi gengið vel frá upphafi faraldursins. Enn fremur spá bæði Seðlabankinn og Hagstofan mikilli aukningu í íbúðarfjárfestingu á næstu misserum, þrátt fyrir að „Allir vinna“- átakið yrði ekki framlengt.
Í minnisblaði sínu nefnir ráðuneytið einnig að búist sé við framleiðsluspennu í hagkerfinu á næsta ári, auk þess sem verðbólga hafi aukist og vextir hækkað. Við þær aðstæður þurfi skýr rök til að lögfesta enn frekari innspýtingu inn í hagkerfið sem átakið myndi fela í sér.
Fóru fram á ár í viðbót
Hagsmunasamtök þeirra sem málið snertir fjárhagslega eru ekki á sama máli. Í umsögn sinni um fjárlagafrumvarpið segja Samtök iðnaðarins að átakið hafi átt sinn þátt í því að niðursveiflan í byggingariðnaði og mannvirkjagerð hafi verið minni en oft áður í fyrri niðursveiflum. Í ljósi þess hversu vel hafi tekist með verkefnið, og að ýmis heimili og fyrirtæki séu enn í viðkvæmri stöðu eftir efnahagssamdráttinn, telja samtökin mikilvægt að átakið verði framlengt um að minnsta kosti eitt ár.
Í öðru minnisblaði sem birtist á vef alþingis fyrir helgi segja Samtök iðnaðarins að enn sé umtalsverður slaki í byggingariðnaði, sem líkur séu á að verði að minnsta kosti út næsta ár. Máli sínu til stuðnings bentu þau á fjölda atvinnulausra í greininni sem er nú meiri heldur en í uppsveiflunni frá 2015 til 2019, auk þess sem þau benda á að umfang hennar sé enn minna en það var þá.
Niðursveiflan í byggingariðnaðinum byrjaði þó nokkru fyrir faraldurinn. Ef litið er á tölur Hagstofu má sjá að greinin stendur töluvert betur að vígi í ár heldur en að hún gerði þegar „Allir vinna“ átakið var lögfest, þar sem tæplega þúsund fleiri störfuðu í greininni síðastliðinn september heldur en í byrjun síðasta árs. Fjölgunin á þessu tímabili nemur um 7,5 prósentum, en til samanburðar hefur störfum í öllu hagkerfinu fjölgað um rétt rúm 5 prósent á sama tíma.