Þrátt fyrir að Ísland hafi verið fært upp í flokk nýmarkaðsríkja hjá vísitölufyrirtækinu FTSE Russel í síðasta mánuði, sem vonast var til að greiða myndi fyrir innflæði erlends fjármagns inn í íslenskt efnahagslíf og styðja við fjármögnunarmöguleika skráðra fyrirtækja, lækkaði úrvalsvísitala Kauphallar Íslands um 8,9 prósent í september. Öll félög á Aðalmarkaði nema tvö lækkuðu í verði.
Þetta var annar mánuðurinn í röð sem vísitalan lækkað umtalsvert, eftir skammvinnar hækkanir í sumar. Alls hefur þeirra þeirra 29 félaga sem skráð eru á Aðalmarkað og First North-markaðinn lækkað um 254 milljarða króna á tveimur mánuðum.
Miklar sveiflur það sem af er ári
Heildarmarkaðsvirði hlutabréfa skráðra félaga í Kauphöll Íslands lækkaði umtalsvert á fyrstu fimm mánuðum ársins. Frá áramótum og út maímánuð lækkaði virði þeirra um 358 milljarða króna, niður í 2.198 milljarða króna. Í maímánuði einum saman lækkaði það um 243 milljarða króna, eða um tíu prósent. Sú lækkun sem varð á úrvalsvísitölunni, sem mælir gengi þeirra tíu skráðu félaga sem eru með mesta seljanleika hverju sinni, í þeim mánuði, var mesta lækkun sem orðið hefur innan mánaðar á vísitölunni síðan í maí 2010, eða í tólf ár.
Í júní voru þrjú félög skráð í Kauphöllina. Ölgerðin og Nova voru skráð á Aðalmarkað og Alvotech á First North markaðinn samhliða skráningu í Bandaríkjunum.
Síðustu tvo mánuði hefur vísitalan hins vegar lækkað skarpt á ný, um 5,5 prósent í ágúst og um 8,9 prósent í síðasta mánuði. Heildarvirði skráðra félaga var 2.366 milljarðar króna í lok síðustu viku og hafði þá, líkt og áður sagði, lækkað um 254 milljarða króna á tveimur mánuðum.
Ef samanlagt markaðsvirði Ölgerðarinnar, Nova og sérstaklega Alvotech, sem alls er 301,8 milljarðar króna, er dregið frá er samanlagt virði þeirra 26 félaga sem voru skráð um síðustu áramót lækkað um 491,8 milljarða króna. Þar munar langmest um fallandi gengi Marel, stærsta félagsins í íslensku Kauphöllinni, en gengi þess hefur lækkað um 49,5 prósent það sem af er ári eða um 343,6 milljarða króna.
Leiðrétting að eiga sér stað
Á árinu 2020 hækkaði úrvalsvísitalan um 20,5 prósent og heildarvísitala hlutabréfa um 24,3 prósent. Markaðsvirði þeirra 23 félaga sem skráð voru á markaðina tvo á því ári hækkaði um 312 milljarða króna á því ári, eða um 24 prósent. Í fyrra gekk enn betur. Bréf í öllum félögum á aðalmarkaði, og öllu nema einu á First North, hækkuðu. Alls hækkaði úrvalsvísitalan um 33 prósent og heildarvísitala hlutabréfa um 40,2 prósent. Þau tvö félög sem hækkuðu mest í virði, Arion banki og Eimskip, tvöfölduðu markaðsvirði sitt.
Þetta leiddi meðal annars til þess að fjármagnstekjur stórjukust. Alls höfðu einstaklingar 181 milljarð króna í fjármagnstekjur í fyrra. Þar af var efsta tíundin, sem telur nokkur þúsund fjölskyldur, með tæplega 147 milljarða króna í fjármagnstekjur á síðasta ári. Heildarfjármagnstekjur einstaklinga hækkuðu um 57 prósent milli ára, eða alls um 65 milljarða króna. Mest hækkaði söluhagnaður hlutabréfa sem var 69,5 milljarðar króna á árinu 2021.
Í ár hefur úrvalsvísitalan hins vegar lækkað um 28,3 prósent það sem af er ári.
Það er því eiga sér stað leiðrétting á þeim miklu hækkunum sem urðu á hlutabréfum, jafnt hér innanlands sem erlendis, á árunum 2020 og 2021.
Fjárfestar leysa út peninga úr sjóðum
Þessi þróun hefur haft áhrif víða. Breyttar aðstæður í efnahagslífinu hafa meðal annars leitt til þess að ýmsir fjárfestar hafa dregið fé sitt úr úr innlendum verðbréfasjóðum, bæði þeim sem fjárfesta í skuldabréfum og hlutabréfum. Alls hafa fjárfestar keypt hlutdeildarskírteini í slíkum sjóðum fyrir 321 milljarða króna á fyrstu átta mánuðum ársins en leyst út 412 milljarða króna. Innlausnir eru því 91 milljarði króna meiri en sala á hlutdeildarskírteinum.
Þegar horft er einvörðungu á hlutabréfasjóði þá hafa þeir flestir skilað afar neikvæðri afkomu það sem af er ári. Þeir sem eiga í sjóðunum þurfa samt sem áður að greiða þóknanir til þeirra, sem í flestum tilfellum eru hlutfallslega hærri en gengur og gerist alþjóðlega. Ýmsir viðmælendur Kjarnans á fjármálamarkaði segja að þessi staða sé að valda kergju víða sem gæti valdið því að fleiri losi sig út úr sjóðunum í nánustu framtíð.
Þegar eigendur hlutdeildarskírteina í öllum sjóðum, jafnt skuldabréfa- og hlutabréfasjóðum, eru skoðaðir þá kemur í ljós að það eru tveir hópar eigenda sem hafa bætt við sig hlutdeildarskírteinum og hlutabréfum í verðbréfasjóðum umfram aðra hópa. Þar ber fyrst að nefna fjármálafyrirtæki sem áttu 539,6 milljarða króna í íslenskum verðbréfasjóðum í lok ágúst. Það er 24,6 milljörðum krónum meira en þeir áttu í lok janúar, en bankar eru eigendur stærstu sjóðstýringafyrirtækja landsins. Lífeyrissjóðir hafa hlutfallslega bætt mestu við sig og áttu hlutdeildarskirteini í íslenskum sjóðum fyrir 293,6 milljarða króna í lok ágúst. Það er 26,8 milljörðum krónum meira en þeir áttu í janúar.
Á sama tíma hafa atvinnufyrirtæki og heimili landsins minnkað eignir sínar í sjóðunum.