Vonarstjörnur á hlutabréfamarkaði dofna
Áhugi fjárfesta á ýmsum fyrirtækjum sem hafa vaxið hratt í faraldrinum er byrjaður að dvína, en virði líftæknifyrirtækja, ásamt streymisveitum og samfélagsmiðlum, hefur minnkað hratt á síðustu vikum.
Síðustu tvö ár hafa verið gjöful fyrir ýmis líftæknifyrirtæki, streymisveitur og samfélagsmiðla, en vegna beinna og óbeinna áhrifa heimsfaraldursins hefur eftirspurn eftir starfsemi þeirra aukist nokkuð. Á sama tíma hafa lágir vextir á heimsvísu einnig aukið almennan áhuga á fjárfestingum, svo virði ýmissa fyrirtækja á hlutabréfamarkaði hefur aukist sömuleiðis.
Á síðustu vikum hefur þessi þróun þó snúist við að nokkru leyti, en vísitölur á hlutabréfamörkuðum hafa lækkað víða um heim frá síðustu áramótum. Lækkunin hefur þó verið enn meiri hjá áðurnefndum fyrirtækjum í tækni- og heilbrigðisgeiranum. Að hluta til má rekja minni áhuga fjárfesta á þessum fyrirtækjum til áætlana um að faraldrinum sé að ljúka, en einnig hefur harðnandi samkeppni og aukið aðhald stjórnvalda skipt þar máli.
Túristar flýja eftir útboð
Samkvæmt Financial Times hefur fjöldi líftæknifyrirtækja lent í lausafjárvandræðum á síðustu vikum þar sem nýir fjárfestar hafa verið fljótir að selja sína hluti í þeim.
Mörg þeirra hafa nýtt sér aukinn áhuga almennings á þeim í kjölfar faraldursins og skráð sig á hlutabréfamarkað, en á síðustu tveimur árum hafa þau náð að afla sér tæpa 33 milljarða Bandaríkjadala í gegnum almenn hlutafjárútboð. Hins vegar er hlutabréfaverðið hjá 83 prósent þessara nýskráðu líftæknifyrirtækja nú lægra en útboðsverðið.
Vonir stóðu til um að nýskráðu fyrirtækin, sem flest skila tapi af starfsemi sinni fyrstu árin, myndu geta náð að fjármagna rekstur sinn með reglulegum hlutafjárútboðum framan af. Hins vegar hefur sú von dofnað núna, þar sem þessi fyrirtæki hafa verið þau fyrstu sem fjárfestar hafa viljað selja nú þegar gustar um hlutabréfamarkaði vestanhafs.
Viðmælendur Financial Times telja að flótti fjárfestanna frá líftæknifyrirtækjum sé einnig að hluta til vegna þess að þau hafi verið ofmetin á tímum faraldursins, þegar jákvæðar fréttir um bóluefni gegn COVID-19 voru tíðar. Sömuleiðis nefna þeir að áhyggjur af auknum áhuga samkeppnisyfirvalda á stóru lyfjafyrirtækin hafi einnig haft neikvæð áhrif.
Sérfræðingar innan líftæknigeirans hafa skellt skuldinni á „túristafjárfesta,“ sem höfðu litla fyrri reynslu af því að fjárfesta í þessum fyrirtækjum en ákváðu að hoppa á vagninn á síðustu mánuðum. Þessir „túristar“ hafi svo verið fljótir að selja sína hluti þegar óvissa um hlutabréfaverð á fyrirtækjunum fór að aukast.
Hækkun hjá Netflix gengin til baka
Sömu sögu er að segja um Netflix, sem hækkaði töluvert í verði eftir að faraldurinn hófst og eftirspurn eftir þjónustunni jókst samhliða sóttvarnaraðgerðum um allan heim. Líkt og sjá má á mynd hér að neðan hefur þessi hækkun þó gengið til baka að öllu leyti á síðustu tveimur mánuðum. Mesta lækkunin átti sér stað í lok janúar, eftir að fyrirtækið tilkynnti að nýir áskrifendur á árinu yrðu líklega helmingi færri en áður var talið.
Netflix segir þennan hæga vöxt að hluta til vera vegna framboðstruflana, en fresta hefur þurft birtingu ýmissa mynda og þáttaraða sem voru framleiddar af streymisveitunni. Fyrirtækið sagði þó undirstöður fyrirtækisins vera nokkuð stöðugar og að langtímahorfur væru enn góðar.
Önnur ástæða verðlækkunar á hlutabréfum í Netflix gæti einnig aukin samkeppni frá öðrum streymisveitum. Samkvæmt nýlegri frétt Reuters hefur streymisveitan Disney+ náð að laða til sín fjölda nýrra áskrifenda á síðustu mánuðum, en hún býst við enn meiri vexti á síðari hluta ársins.
Notendum Facebook fækkar
Önnur tæknifyrirtæki hafa einnig lækkað töluvert í verði í kjölfar aukinnar samkeppni og verri horfur um framtíðarvöxt. Í síðustu viku hrundi verðið á hlutabréfum í samfélagsmiðlarisanum Meta um fimmtung á einum degi, eftir að tekjur fyrirtækisins voru undir væntingum í nýbirtu ársfjórðungsuppgjöri.
Á síðasta ársfjórðungi fækkaði daglegum notendum Facebook, sem er í eigu Meta, um 500 þúsund. Þetta er í fyrsta skiptið í 18 ára sögu miðilsins sem notendum fækkar, en aðrir miðlar í eigu Meta, líkt og WhatsApp, Messenger og Instagram, náðu heldur ekki að bæta við sig mörgum notendum.
Samkvæmt umfjöllun Axios um málið sýnir lök rekstrarniðurstaða Meta hversu viðkvæm samfélagsmiðlar eru sem byggja tekjur sínar eingöngu á auglýsingatekjum. Einnig hefur samkeppnin aukist eftir því sem aðrir samfélagsmiðlar, líkt og TikTok, hafa náð að festa sig í sessi.
Í tilkynningu sinni með árshlutauppgjörinu segist Meta búast við áframhaldandi erfiðleikum í tekjuöflun vegna aukinnar samkeppni og breytinga í neytendahegðun. Einnig býst fyrirtækið við erfiðleikum vegna nýrra lagasetninga sem gera fyrirtækinu erfiðara fyrir að safna upplýsingum um neytendur.
Barátta Meta við samkeppnisyfirvöld í Evrópu hafa harðnað á síðustu dögum, en í ársskýrslu fyrirtækisins var möguleikinn á að hætta allri starfsemi í álfunni nefndur vegna strangari persónuverndarreglna.
Stjórnvöld í Frakklandi og Þýskalandi gerðu lítið úr þessum ummælum Meta í vikunni og sögðu það vera vel mögulegt að lifa án samfélagsmiðilsins. Efnahagsráðherra Þýskalands, Robert Habeck, sagði innri markað Evrópusambandsins ver nægilega stóran til að standa ekki ógn af slíkum hótunum, ef aðildarríki þess væru öll á sama máli.